Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2007, Side 2

Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2007, Side 2
2 LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is ! Hvað gerist þegar leið er stytt? Hvað verður um land sem áður var í alfaraleið – sárnar því kannski smá? Fyrir rúmum níu árum týndi hálf þjóðin heilum firði, þegar göng undir Hvalfjörð voru opn- uð með viðhöfn. Margir voru taugaveiklaðir vegna nýju framkvæmd- arinnar. Ég man eftir konu sem skrifaði í blöðin, hún óttaðist innilokunarkennd, jafnvel slys, hún ætlaði samt að vera hug- rökk og fara í göngin og hugsa bara um birtu og vetrarkyrrð. Ég man þetta ekki orðrétt, en það var falleg nálgun. Í sumar keyrði ég tvisvar fyrir Fjörð, eins og það var kallað á Akranesi í gamla daga, og hafði þá ekki farið þá leið í níu ár. Ég var ein af þeim sem týndu Hval- firði. Á árum áður var hann eins konar líf- æð Akurnesinga, slagæð. Það var annað hvort að taka Akraborgina eða keyra fyr- ir Fjörð, ef maður ætlaði suður. Það tók rúma klukkustund að keyra leiðina; hlykkjóttir vegir, sums staðar á háska- legum brúnum, vond lykt hjá hvalstöð- inni, bílveiki í verstu tilfellum, ótrúlega löng leið. Samt þótti öllum vænt um Hvalfjörðinn. Þegar spurt var í Skaga- blaðinu, í spurningu vikunnar, um uppá- haldsstað fólks var langalgengasta svar- ið: Hvalfjörður í góðu veðri. Og það rifjaðist upp í sumar að fólkið hafði rétt fyrir sér. Í fallegu veðri eru flestir staðir fallegir, nema hvað, en Hvalfjörður er það á einhvern sérkennilegan hátt. Hann er fallegri en mig minnti, Þyrill og Botns- súlur og öll hin fjöllin, það er eitthvað frumlegt við landslagið. Kyrrðin er svo kaupauki, nú er engin umferð um Hval- fjörð, nú á maður hann út af fyrir sig. Ég fór og veiddi í Hvammsvík í sumar, ég fór á hraustlegt málþing um Hallgrím Pétursson á Hótel Glym í sumar, ég vafr- aði milli auðra bragga við hvalstöðina, ég átti stund í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Það er eiginlega menningarferð að koma í Hvalfjörð því þótt hann sé eyðilegur, eftir að umferðin fór ofan í jörðina, er hann ekki farinn í eyði. Þvert á móti. Ým- ist minjar um líf sem eitt sinn var (hval- stöðin, stríðsminjar, kirkjugarðurinn í Saurbæ) eða brimandi viðburðir í raun- tíma (Hótel Glymur, Kátt í Kjósinni, Hlaðir). Ég skoðaði til dæmis frábæra myndlistarsýningu í Saurbæjarkirkju þar sem nemendur Heiðarskóla túlkuðu með sínum hætti portrett af Hallgrími Péturssyni. Krakkarnir notuðu alls konar efni. Ég man best eftir þeim Hallgrími sem var með tappa af Egils-gosflöskum fyrir augu, hann var samt alveg eins og sálmaskáldið. Ég veit, það er erfitt að lýsa því, en sýning þessi gaf samsýningu 22 landsþekktra listamanna um sama yrkisefni, fyrr á árinu, nánast ekkert eft- ir. Ég hélt alltaf, þegar ég var lítil, að Hvalfjörður héti Hvalfjörður út af hval- stöðinni. Vegna þess að hvalbátarnir drógu hvalina inn eftir firðinum. Eða, eins og það væri ekki nóg, að hann héti þá Hvalfjörður vegna þess að útvörður hans, Akrafjallið, er hvalbak í jarðfræðilegu til- liti: Jökull skríður fram yfir fjall, sverfur á það eins konar bak og brýtur af hamra- brúninni fremst. Allt þetta lærði ég í skóla, mér fannst það skemmtilegt, en í sumar rifjaðist upp hin „eiginlega“ ástæða; þjóðsagan um illhvelið Rauð- höfða sem svamlaði í firðinum og olli skipsköðum þar til presturinn í Saurbæ rak það upp í Hvalvatn. Svona er vont að gleyma gömlum vini, maður man ekki einu sinni hvernig hann varð til. Svona er að týna heilum firði. Það myndar gloppu í heimsmyndina. Óþarfi að vera alltaf að flýta sér svona. Göngin eru ágæt. Þar má sitja í röð og hugsa stíft um birtu og kyrrð. En Hval- fjörðurinn er betri, þar er kyrrð í alvör- unni og þar er maður líka einn. Að finna fjörð Eftir Guðna Elísson gudnieli@hi.is Á Fréttablaðinu stæra menn sig nú af því að vera búnir að fá danska tölfræðinginn Björn Lomborg til liðs við sig, en hann bættist í hóp pistlahöf- unda blaðsins fyrir hálfum mánuði. Lomborg hefur lengi vel dregið þær skoðanir í efa að draga eigi úr losun gróð- urhúsalofttegunda, þar sem slíkar aðgerðir séu kostnaðarsamar og skili litlum árangri. Hann vill fremur nýta þá fjármuni til þess að efla þróunarstarf í þriðja heiminum. Í pistli sínum „Alþjóðleg viðvörunarljós“ (14.9.) geng- ur Lomborg eins og alltaf út frá þeirri rökvillu að sérhver króna sem sett sé í loftslags- umræðuna sé króna tekin úr þróunarhjálp, rétt eins og eitthvert lögbundið orsaka- samhengi sé að finna þar á milli. Jafnframt verður hann að gera lítið úr baráttunni við loftslagsvána því að ef svörtustu loftslagsspár ganga eftir verða risavaxin landsvæði í þriðja heiminum óbyggileg, en sú staðreynd hefði áhrif á líf stórs hluta mannkyns og myndi auka eymd í þróunarlöndunum. Forvitnilegri þóttu mér skrif Jóns Kaldals, ritstjóra Fréttablaðsins, sem í leiðaranum „Utangarðsmaður“ (16.9.) býður Lomborg velkominn til starfa með þeim orðum að sjálf- sagt eigi „fáir núlifandi menn í heiminum jafn- auðvelt með að koma umhverfisvernd- arsinnum úr jafnvægi og danski tölfræðingurinn Björn Lomborg“. Það finnst Jóni augljóslega ekkert verra: „Það er ekki of- sögum sagt að baráttan fyrir náttúru heimsins hafi á síðustu árum þokast í farveg sem hefur yfir sér nokkurn brag af pólitískum rétttrún- aði. Og gagnrýnin hugsun er ekki sérstaklega vel séð á þeim slóðum. Fyrir utan hvað um- ræða á slíkum forsendum er hrútleiðinleg, endar hún undantekningalítið í öngstræti. Lomborg er hressileg rödd í því samhengi.“ Að þessu sögðu rekur Jón kenningar Lom- borgs um það að hlýnun jarðar, þverrandi orkulindir, vatnsskortur, tegundir í útrýming- arhættu og aðrar ógnir, „standist illa þegar rýnt“ sé „í tiltæk tölfræðigögn“, en bætir svo við að „ýmsir vísindamenn“ hafi „lagt sitt af mörkum við að reka þennan fróðleik ofan í hann. Og, verður að segjast, með ansi góðum árangri.“ Jón viðurkennir því að þau „töl- fræðigögn“ sem Lomborg byggir rök sín á séu vafasöm. Því næst beinir Jón augum að þeim lið í röksemdafærslunni að fremur eigi að beina „kröftum og fjármunum alþjóða- samfélagsins að þróunarstarfi í þriðja heim- inum“ en að aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem „skili litlum ár- angri“. Jóni finnst þetta vera „athyglisverðar pælingar“, en telur að í þeim séu „brestir“, þar sem „ójafnvægi í veðri, flóð og þurrkar hafa valdið gríðarlegum uppskerubresti víða um heim síðustu misseri og verð á matvælum er á hraðri uppleið. […] Það má því segja að ein veigamestu rökin gegn hugmyndum Lom- borgs séu að það er ekki síst þróunarríkjunum í hag að allt sé lagt í sölurnar til að reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi loftslagsbreyt- ingar með tilheyrandi ójafnvægi í náttúrunni. Það er alveg kristaltært að ef kemur til verð- stríðs um matvæli heimsins munu þróun- arríkin alltaf lenda undir.“ Af orðum Jóns má því ætla að þróunarrökin fari einnig fyrir lítið. Hvað stendur þá eftir af málflutningi Lom- borgs? Og hvað er svona hressilegt við pistla- höfund sem Jón Kaldal telur augljóslega lítið mark takandi á. Kannski það helst að Lom- borg fer hugsanlega í taugarnar á hópi ein- staklinga sem Jón er pirraður á. Þetta verður að teljast fremur barnaleg afstaða til jafn al- varlegs máls og loftslagsbreytingar eru, en af- staðan skýrir um leið þversagnirnar í umfjöll- un Jóns. Jón kvartar yfir skorti á gagnrýninni hugsun í pistli þar sem hann er ekki einu sinni samkvæmur sjálfum sér. Og hvaðan kemur þessi „pólitíski rétttrún- aður“ sem Jón Kaldal gerir svo mikið úr. Árni Finnson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, bendir réttilega á það í ádrepunni „Svo skal böl bæta“, sem birtist í Frétta- blaðinu (19.9.), að umhverfisverndarhugsjónir séu ekki lengur bundnar við vinstrihreyfingar og nefnir sem dæmi Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Fredrik Reinfeldt, forsætisráð- herra Svíþjóðar, og David Cameron, leiðtoga íhaldsmanna í Bretlandi. Árni bætir síðan við: „Sennilega er Geir H. Haarde eini leiðtogi hægrimanna í Evrópu sem enn hefur ekki lát- ið að sér kveða í umræðu um loftslagsmál. Skýringin er vafalaust sú að innan Sjálfstæð- isflokksins eru áhrifamiklir einstaklingar sem ekki má styggja og geta ekki viðurkennt að þeir höfðu rangt fyrir sér þegar þeir trúðu málpípum olíurisans Exxon Mobil. Þessir menn eru nú komnir í sömu stöðu og gömlu kommarnir sem ekki vildu viðurkenna tilvist Gúlagsins en töluðu þeim mun meira um ill- virki Bandaríkjamanna. Lomborg er þessum hægrimönnum huggun harmi gegn – en það verður skammgóður vermir.“ Baráttan fyrir umhverfisvernd er ekki einkamál vinstri- manna. Hún er í versta falli þverpólitískur rétttrúnaður, ef hægt er að leggja baráttu sem byggist jafn rækilega á vísindalegum rann- sóknum að jöfnu við „rétttrúnað“. Þeir harðlínumenn sem lengst eru til hægri í stjórnmálum eru eini hópurinn sem er ber- lega mótaður af trúarlegri afstöðu til loftslags- mála. Þessi hópur kýs að styðja sig við veiga- lítil rök mikils minnihluta vísindamanna en gerir um leið allt sem í hans valdi stendur til þess að grafa undan vísindalegu hlutleysi and- stæðinga sinna með því að tengja niðurstöður loftslagsrannsókna hagsmunapoti í vísinda- samfélaginu, pólitískum ásetningi og trúar- hita. Á Íslandi hafa einstaklingar úr þessum hópi lengi verið málpípur ráðandi afla í sam- félaginu, hér nægir að nefna Hannes Hólm- stein Gissurarson og pennana í Vef-Þjóðvilj- anum sem hafa haldið á lofti minnihlutaáliti vantrúarmanna og sækja umboð sitt til Repú- blikanaflokksins í Bandaríkjunum, rétt eins og kommúnistar gerðu hér á landi á árum áður þegar þeir horfðu til Moskvu. Ekki gefst svig- rúm til að rekja saman alla þá þræði hér, en ég vísa til ítarlegrar umfjöllunar minnar um efnið í greininni „Nú er úti verður vont: Gróð- urhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“ sem er væntanleg á næstu dögum í Ritinu, Tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Það þarf engan að undra að pennarnir á Vef-Þjóðviljanum bregðist hart við ádrepu Árna Finnssonar í Fréttablaðinu og það þarf heldur engan að undra að þeir beiti rökum úr nýjustu bók Lomborgs, Cool It, en hún er þeim hugleikin eins og sjá má af því að á síð- ustu fjórum vikum hafa þeir fjallað um efni hennar alls þrisvar sinnum. Í nýjustu hugleið- ingu sinni um loftslagsmál leggja þeir gagn- rýni andstæðinga sinna að jöfnu við nornaof- sóknir í Evrópu á fimmtándu og sextándu öld. Gefum Lomborg orðið í þýðingu Vef- Þjóðviljans (25.9.): „Hræðsluáróður hefur lengi sett mark sitt á umræðuna um loftslags- mál. Hrollurinn náði hámarki í nornaveið- unum á miðöldum. […] Litlu ísöldinni í Evr- ópu fylgdi uppskerubrestur, hátt matarverð og hungur. Nornir voru hafðar til blóra í upp- lausninni. Talið er að allt að hálf milljón manna hafi verið tekin af lífi frá árinu 1500 til 1700 og það var sterk fylgni milli kulda og nornaveiða um alla Evrópu“. Gagnrýni á pólitískan rangtrúnað Lom- borgs og Vef-Þjóðviljamanna má sem sagt leggja að jöfnu við nornabrennurnar í Evrópu. Og þar enda líkindin ekki. Það gefur einnig augaleið að málpípur ráðandi afla í íslenskum og bandarískum stjórnmálum minna um margt á þær valdalausu konur sem létu þús- undum saman lífið á bálköstum Evrópu. Minna má það nú ekki vera. Bjørn Lomborg, komst fyrst í sviðsljósið í Danmörku árið 1998, þegar hann birti umdeildan greinaflokk um umhverfismál. Ritstjóri Fréttablaðsins er ánægður með þennan nýja pistlahöf- und sinn þrátt fyrir að hafa litla trú á kenningum hans um umhverfismál. FJÖLMIÐLAR » Baráttan fyrir umhverf- isvernd er ekki einkamál vinstrimanna. Hún er í versta falli þverpólitískur rétttrún- aður, ef hægt er að leggja bar- áttu sem byggist jafn rækilega á vísindalegum rannsóknum að jöfnu við „rétttrúnað“. Pólitískur rangtrúnaður og Björn Lomborg Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.