Lesbók Morgunblaðsins - 13.10.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 13.10.2007, Blaðsíða 13
urinn er alltaf hluti af því sem hann hugsar, segir eða gjörir? Ef sögumaðurinn er hluti þess sem hann segir, hver er þá hlutdeild hans í sannleiksgildi yrðingarinnar? Ef sögumaður á hlutdeild í sann- leiksgildi setningarinnar, er þessi hlutdeild þá ekki breytileg frá manni til manns? Ef við viðurkennum það, þá verður sannleiksgildið vænt- anlega almennt samkomulag eða hin viðteknu sannindi. Viðtekin sannindi eru það sem einn hefur eftir öðrum í það óendanlega: „snjór er hvítur“ ef og aðeins ef snjór er hvítur. Að vísu vitum við að inúítar hafa ótal orð um snjóhvítu og jafnvel hreinn snjór tek- ur lit af umhverfi sínu og birtu sólar og menn skynja þessa birtu með ólíkum hætti og eiga sér mismunandi orð til að túlka skynjun sína. Lit- urinn mjallhvítur er því almennt við- tekið orð (samkomulag) um tiltekið fyrirbæri sem í raun og sannleika er miklu flóknara. Setningin um snjó- inn verður til dæmis merkingarleysa fyrir mann sem hefur verið blindur frá fæðingu. Sjónarhorn á það sem er Mér virðist óhjákvæmilegt að horf- ast í augu við það að sú mynd sem hinn formlega sannleiksyrðing dreg- ur upp af veruleikanum miðast alltaf við tiltekið sjónarhorn sem veruleik- inn er skoðaður frá (þetta sjón- arhorn er oft einstaklingsbundið, en getur líka tekið mið af tilteknum hugmyndaramma, vísindakenningu eða fyrirframgefinni formúlu eða viðteknum fordómum um sannleik- ann) og það er í krafti þessa sjón- arhorns sem við teljum okkur trú um eða stöndum í þeirri góðu trú að sú mynd sem setningin gefur okkur af veruleikanum sé í samræmi við það sem er. Hvernig getur sannleikurinn verið Einn ef sjónarhornin geta verið Mörg? Mér finnst að Þorsteinn við- urkenni þennan vafa þegar hann segir á einum stað: „Frá heim- spekilegu og vísindalegu sjón- arhorni, líka á okkar dögum, er aldr- ei að vita nema einhvers konar guðstrú eigi rétt á sér.“ Þorsteinn útfærir þessa tilgátu sína ekki frekar, en virðist gefa í skyn að mismunandi sjónarhorn á veruleikann geti hugsanlega í ein- hverjum tilfellum verið réttlætanleg. Það sem Þorsteinn forðast hins veg- ar að nefna í þessu samhengi er það sem við getum kannski kallað „trúar- lega upplifun sannleikans“ eða sann- leikann sem mannlega reynslu. Þeg- ar við verðum fyrir sterkri andlegri eða tilfinningalegri reynslu, hvort sem hún er af fagurfræðilegum eða trúarlegum toga, er okkur ósjálfrátt tamt að tala um að við höfum upp- lifað sanna reynslu eða sannleika. Spurningin er hvort sannleikann sé alltaf að að finna í formi yrðing- arinnar eins og setningin um snjóinn gefur til kynna, eða hvort til sé sann- leikur er tilheyri reynsluheimi okkar með allt öðrum hætti. Hér langar mig til að vitna til heimspekings sem Þorsteinn hefur mestu óbeit á, en er engu að síður einn áhrifamesti heim- spekingur á Vesturlöndum á 20. öld- inni: Martin Heidegger. Heidegger um kjarna sannleikans Í torræðri ritgerð sinni Um kjarna sannleikans byrjar Heidegger á að fjalla um samsvörunarkenninguna og tekur mið af tveim 5 marka pen- ingum sem eru eins og samsvara hvor öðrum. Ef við segjum hins veg- ar „þessi peningur er kringlóttur“ þá er samsvörunin ekki á milli hluta, heldur á milli yrðingar og hlutar. Í hverju getur samsvörunin falist þeg- ar peningurinn er úr málmi sem ekki fyrirfinnst í orðunum? Peningurinn hefur kringlótt rúmtak, yrðingin hef- ur ekki sambærilegt rúmtak. Það er hægt að kaupa eitthvað fyrir pening- inn en ekki fyrir setninguna. Þrátt fyrir allan þennan mismun þá sam- svarar yrðingin peningnum sem sannindi. Samkvæmt ríkjandi hug- mynd um sannleikann á þessi sam- kvæmni að felast í líkingu (Angleich- ung). En hvernig getur samkvæmni orðið á milli svo gjörólíkra hluta eins og yrðingar og penings? Í rauninni ætti setningin að hætta að verða hún sjálf til að verða peningur, en það mun aldrei gjörast, og ef svo ólíklega vildi til væri ekki lengur um yrðingu að ræða. Síðan spyr Heidegger hvernig yrðing geti myndað líkingu eða samkvæmni við hlut? Líkingin getur ekki falist í samsemd hluta af ólíkri gerð. Líkingin hlýtur því að fel- ast í gerð sambandsins milli yrðingar og hlutar. Á meðan þetta samband er óákveðið og ekki grundvallað í kjarna sínum verður öll umræða um mögulega eða ómögulega líkingu í lausu lofti. Yrðingin um peninginn verður að beinast að peningnum með því að „standa fyrir hann“ með því að vera „eins og“ og sýna hvernig hann er. Að standa fyrir (Vor-stellen) merkir hér að láta hlutinn standa andspænis okkur eins og orðinn hlut. Það sem er andspænis okkur opnar sig fyrir okkur um leið og það felur heildarmyndina. Um leið og við opn- um okkur fyrir hlutnum samsömum við okkur honum. Samkvæmni (sannleikur) yrðingarinnar getur einungis orðið í gegnum samfellda opnun sem er virk athöfn (vera í heiminum) og það sem gerir þessa opnun mögulega verður þá kjarni sannleikans. Þar með er ekki lengur um það að ræða, eins og hefðin boð- ar, að sannleikurinn búi einungis í yrðingunni. Upprunastaður sann- leikans er ekki yrðingin sem slík, heldur sú virkni sem lætur sannleik- ann gerast. Hvernig getur þessi opn- un gagnvart hlutnum gerst? spyr Heidegger og segir að skilyrði þess sé frelsið, ekki það frelsi sem mað- urinn skapar sér, heldur það frelsi sem honum er áskapað sem geranda í sögunni. Kjarni sannleikans, líka sannleika yrðingarinnar, er því frels- ið, segir Heidegger, það frelsi sem manninum einum er áskapað sem af- hjúpandi verund í heiminum. Þetta er stytt endursögn mín á löngum og afar torræðum texta sem varðar grundvallaratriði í þeirri rót- tæku viðleitni Heideggers að nálgast frumspekileg sannindi með aðferð- um verufræðinnar eða út frá tilvist- arspeki. Sannleikurinn sem atburður Sú nálgun Heideggers að líta á sann- leikann sem atburð frekar en yrð- ingu virðist geta hoggið á margan vanda sem Þorsteinn er að glíma við í baráttu sinni fyrir Hinum Eina Sannleika hinnar rétt formuðu yrð- ingar. Til dæmis þegar hann spyr hvort ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Sáuð þið hana systur mína, sé satt. Sú spurning er vissulega fráleit út frá sjónarhóli hinnar rétt formuðu yrðingar, en út frá sjónarhóli reynsl- unnar blasir annar veruleiki við: ljóð- ið er mynd og sjálfstæður heimur, og sem slík samsvarar myndin engu öðru en sjálfri sér. Hún vísar ekki í annað en heim ljóðsins og samsvarar ekki öðru. Ljóðið stendur ekki fyrir annað en sig sjálft. Það er ekki hægt að einangra röklega merkingu þess frá hljóði, hrynjandi, lit og tónlist sem fólgin eru í orðum þess í þeirri viðleitni að finna einhverja ytri sam- svörun. Mynd og veröld ljóðsins get- ur engu að síður verið sönn sem opn- un gagnvart lesandanum, sem eitthvað sem hann opnar sig fyrir og samsamar sig með. Hvers vegna vill Þorsteinn banna okkur að kenna slíka reynslu við sannleika? Í þessari rökræðu steytir Þor- steinn reyndar á einum fyrirvara sem Aristóteles hefur á samsvör- unarkenningu sinni, þegar hann seg- ir í skáldskaparfræðum sínum að harmleikurinn, sem lýtur lögmálum skáldskaparins, sé sannari en sagn- fræðin, sem lýtur lögmáli samsvör- unarkenningarinnar. Þorsteinn hef- ur að vísu skýringu á þessari athugasemd Aristótelesar, og hún er sú að „það sé ekki algildi sem hann hefur í huga þegar hann ber saman atburðarás í harmleik og atburðarás í sannri sögu, heldur rökvísi atburð- anna. Í harmleik eru rakin öll rök til þess sem þar gerist, en í þeim efnum verður venjuleg sagnfræði aldrei nema svipur hjá sjón vegna þess hve lítið við vitum um það sem gerist í líf- inu. Harmleikur er þess vegna skilj- anlegri en sönn saga.“ Ef harmleikurinn er skiljanlegri en sönn saga, þýðir það þá ekki að hann sé að minnsta kosti jafn sann- ur? Á ekki hið sama við um ljóð Jón- asar? Feluleikurinn um veruleika tómsins Mig grunar að sú smættarhyggja og sú formhyggja um sannleikann, sem finna má í yrðingunni um snjóinn, sé ekki bara viðleitni til þess að fela orðasmiðinn sem stendur á bak við hverja yrðingu, heldur sé hún liður í stærri yfirbreiðslu vísindahyggju samtímans almennt, sem Heidegger segir að felist í viðleitni hennar að fela tilvist tómsins. Í grundvall- arritgerð sinni frá árinu 1929, Hvað er frumspeki? (Was ist Metaphysik?) segir hann að frumspekin (fræðin um það sem er handan hins áþreif- anlega efnisheims, samkvæmt Ari- stótelesi, um það sem er handan ver- undarinnar (das Seiende) samkvæmt Heidegger) sé ekki háskólagrein heldur snar þáttur í „mannlegu eðli“. Frumspekin fæst við spurningar um það sem er handan verundarinnar til þess að geta snúið aftur til hennar og skilið hana í heild sinni. Með því að setja fram spurninguna um tómið vill Heidegger ganga lengra en vísindin. Hann vill ekki bara leita orsakar til- tekins atburðar eða ferlis heldur spyrja grundvallarspurninga um verundina í heild sinni og merkingu hennar. Ritgerðin um frumspekina er erfið lesning, og hún endar á erf- iðri spurningu: „Hvers vegna er ver- undin yfirleitt en ekki frekar tómið?“ (Warum ist überhaupt Seiendes und nicht vielmehr Nichts?) Með þessari spurningu er ekki verið að spyrja um einfalda orsök og afleiðingu, heldur um grundvallarmerkingu tilver- unnar. Fyrir Heidegger er vitundin um tómið forsenda raunverulegs skilnings á verundinni. Án vitund- arinnar um tómið skapast eingin skilningur á sannleikanum um veruna, hversu margar sannleiks- yrðingar sem við búum til. Vandi rökgreiningarheimspekinnar og tæknihyggju samtímans andspænis verunni er sá að hinar formlegu sannleiksyrðingar ná ekki utan um hana því hún er hvorki hugtak né hlutur, heldur atburður sem á sér endalok og vekur þá undrun og furðu andspænis tóminu sem hann er sprottinn úr er birtist í spurningu Heideggers: „Hvers vegna er ver- undin yfirleitt en ekki frekar tómið?“ »Hvernig getur sann- leikurinn verið Einn ef sjónarhornin geta verið Mörg? Mér finnst að Þorsteinn viðurkenni þennan vafa þegar hann segir á einum stað: „Frá heimspekilegu og vís- indalegu sjónarhorni, líka á okkar dögum, er aldrei að vita nema ein- hvers konar guðstrú eigi rétt á sér.“ Höfundur er listfræðingur. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. OKTÓBER 2007 13 Eftir Ara Trausta Guðmundsson aritg@simnet.is Í eldgamalli bók stendur að menn skuli gera náttúruna sér undirgefna.Nýlega sá ég háskólasérfræðing halda þessu fram. Það hlýtur aðvera afar sjaldgæft. Hvort sem þessi stefnumörkun felur í sér hlut-læga ósk um framfarir eða telst úreltir öfgar, hefur reynslan kennt að veruleikinn er flóknari en svo að þetta geti gilt. Þess vegna hafa menn fyrir nokkuð löngu sett fram stefnumörkun um sjálfbæra nýtingu náttúr- unnar. Hún felur í sér viðurkenningu á að maðurinn er hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafinn. Fari hann fram úr sjálfum sér við að temja náttúr- una, skaðar það tilveru hans. Gildir þá einu hvort aðgerðirnar eru meðvituð ofkeyrsla eða til komnar vegna vanþekkingar eða jafnvel sárrar neyðar. Í bráðnauðsynlegum og víðfeðmum umræðum um loftslagsbreytingar sjást gamlar og nýjar bábiljur. Ein er þessi ofangreinda, yfir 2.000 ára gamla stefnumörkun sem litaði samfélag okkar öldum saman en er á ákaf- lega hröðu undanhaldi. Önnur bábilja felst í orðum um að núverandi hlýnun sé aðeins ein af mörgum og eðlilegum loftslagssveiflum sem sjást í jarðsögunni, Best sé því að bíða og sjá til með framhaldið. Flóknar, samtengdar orsakir hita- farsbreytinga á jörðinni afsaka fátt ef nokkuð í framferði manna við um- hverfið. Verði ekkert að gert, er eftir engu að bíða nema æ flóknari og stærri úrlausnarefnum. Auðvitað hafa gróðurhúsalofttegundir aukist og minnkað, ýmist á undan, samfara eða á eftir hitabreytingum, ármilljónum og ármilljörðum saman. En í fyrsta sinn í jarðsögunni hafa vitsmunaverur losað aukalega 7-8 milljarða tonna á ári af rígbundnu neðanjarðarkoldíoxíði inn í u.þ.b. 60 milljarða tonna árshringrás efnisins í lofthjúpnum. Ekkert í vísindaþekkingu eða reynslusögu okkar segir til um að viðbótin sé áhrifa- laus. Þvert á móti. Í ofanálag, og því miður, eykst losunin um þessar mundir. Við bætast svo aðrar og áhrifaríkari gróðurhúsalofttegundir úr mann- heimum. Og við bætist líka að veruleg binding kolefnisins í gróðurlendi (til viðbótar við aðalgeyminn, sem er hafið) minnkar jafnt og þétt. Eyðimerk- urmyndun nær að lágmarki yfir u.þ.b. eitt Írland á ári. Sú bábilja er líka á kreiki að gróðurlendi, og einkum þá skógar, stækki um þessar mundir. Fyr- ir því er ekki snefill af sönnunum. Þvert á móti. Tal um dómsdagspár er enn ein bábiljan. Ábyrgir sérfræðingar og flestir fylgismenn sjálfbærra náttúrunytja spá ekki hruni. Hræðsluáróðurinn kem- ur frá þeim sem gera lítið úr vandanum, selja hamfarasögur eða reyna að tortryggja mótvægisaðgerðir. Afleiðingar hærri ársmeðalhita, svo nemur 1-2 stigum, eru stórskornar á mælikvarða 1-2 kynslóða. Aðeins hækkun sjávarborðs, um t.d. 50 cm, getur valdið gríðarlegum vandræðum á næst- unni en gerði það ekki fyrir 3.000 eða 6.000 árum. Ein ástæða þess er aug- ljós. Nútímasamfélög hafa reist margar stórborgir heims og helstu flutn- ingamiðstöðvar á strandsvæðum. Jákvæðir þættir stjórnlítillar hlýnunar eru ekki afsökun fyrir aðgerð- arleysi. Hið eina sem gildir að einhverju marki er að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég hef séð háskólasérfræðing halda því fram á prenti að hann (og aðrir) ættu ekki að fara í bátana fyrr en víst sé að skipið sökkvi. Flestir aðrir, sem betur fer, telja það svakalega sniðugt að fara í bátana og dútla við að gera við dallinn að utanverðu meðan hann er sjófær, hvað sem síðar kann að verða. Umhverfisbábiljur AP Írland „Eyðimerkurmyndun nær að lágmarki yfir u.þ.b. eitt Írland á ári.“ „Jákvæðir þættir stjórnlítillar hlýnunar eru ekki afsökun fyrir aðgerð- arleysi. Hið eina sem gildir að einhverju marki er að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir greinarhöfundur í svari sínu við grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson sem birtist í seinustu Lesbók. Höfundur er jarðeðlisfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.