Lesbók Morgunblaðsins - 08.12.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 08.12.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 8. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Jón Ólafsson jonolafs@bifrost.is ! Stundum vildi ég að ég væri 1.000 manns en ekki bara einn maður. Þá væri miklu auðveld- ara fyrir mig að skilja hvað margvíslegar upplýsingar um áhættu fela í sér. Ef mér væri sagt að það væru 1,5 prósenta líkur á að ég fengi tiltekinn sjúkdóm gæti ég gefið mér að ef stað- hæfingin er sönn megi búast við því að 15 okkar fái sjúkdóminn. Það er áþreif- anleg hætta og hægt að bregðast við henni með skynsamlegum hætti. En þar sem ég er bara einn breyta upplýsingar um þetta afar litlu. Er ég (einn og aðeins einn) í hópi þeirra 15 sem fengju sjúk- dóminn ef ég væri 1.000? Eða er ég í hópi hinna 985? Ég get vonað það besta en ég veit ekkert meira um það heldur en ég veit þegar ég frétti að allir geta fengið tiltekinn sjúkóm en aðeins fáir fá hann. Ég komst að því um daginn að ég er 8,2 prósentum líklegri heldur en með- almaðurinn til að fá sjúkdóm sem eru 15,3 prósenta líkur á að geri mig blindan, 21,1 prósents líkur á að geri mig heyrn- arlausan og 3,7 prósenta líkur á að geri mig bæði blindan og heyrnarlausan. Lík- ur meðalmannsins á að fá sjúkdóminn eru 10,2 prósent ef hann nær 80 ára aldri, en minni ef hann gerir það ekki. Þessi forspá er byggð á erfðaupplýs- ingum og er mjög áreiðanleg. Tölurnar eru líka mjög skemmtilegar. Segjum að ég sé 1.000 en ekki bara 1. Þá veit ég að 102 okkar fá sjúkdóminn ef þeir lifa nógu lengi, en ég veit líka að hvað mig varðar er eins og hlutfallið sé örlitlu hærra, næstum helmingi hærra, því ég er næstum því helmingi líklegri til að vera í þessum 102 manna hópi en flestir aðrir. Segjum að ég sé í þessum hópi. Þá veit ég að um 16 okkar verða blindir og um 22 verða heyrnarlausir og af þeim lenda líklega fjórir í því að verða bæði blindir og heyrnarlausir. Eða hvað? Til þess að þetta gangi upp þurfa allir að ná 80 ára aldri. En hvaða samband skyldi vera á milli sjúkdómsins og lífs- líkna? Eru þeir sem fá sjúkdóminn lík- legir til að verða skammlífari en þeir sem fá hann ekki? Eða öfugt: Getur verið að sjúkdómurinn leggist frekar á langlíft fólk? Getur verið að sjúkdómurinn hafi áhrif á lífslíkur? Valdi jafnvel langlífi? Eftir sem áður er ég einn en ekki 1.000 og þess vegna segja tölurnar mér aðeins að til er sjúkdómur sem ég get fengið. Og það vissi ég fyrir. Þessar vís- indalegu upplýsingar eru því gagns- lausar fyrir mig á meðan ég er bara ég en ekki til dæmis lýðheilsustofnun eða tryggingafélag. Þótt ég hafi mikið dálæti á gagns- lausum upplýsingum og hafi eytt alltof miklum tíma í lífinu í að afla slíkra upp- lýsinga, þá vildi ég samt að ég væri tryggingafélag. Þá gæti ég virkilega not- að þær. Þá gæti ég byrjað á að reikna út hve margir af þeim 1.000 meðalmönnum sem tryggja sig hjá mér fá tiltekna sjúk- dóma. Svo gæti ég slegið á hve margir þeirra sem búa við hina ýmsu áhættu- þætti fá sjúkdómana sem þeir eiga á hættu að fá. Og þá myndi ég vita eitt- hvað um áhættu – það er áhættu mína af því að selja fólki sem getur fengið sjúk- dóma tryggingar gegn slíku. En ég er ekki lýðheilsustofnun og ekki tryggingafélag heldur. Ég ætla þess vegna að halda áfram að fara til spákon- unnar sem horfir í augun á mér og skynj- ar hvaða örlög blasa við mér. Það er auð- veldara að vinna úr upplýsingunum frá henni, því ég þarf ekki að vera 1.000 til að skilja þær. Þær eru ekki síður áreið- anlegar – og miklu ódýrari. Ef ég væri 1.000 Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur anna.kristin.jonsdottir@gmail.com S tephanie Pearl-McPhee er frekar grannvaxin kona á miðjum aldri. Ég hef aldrei hitt hana en veit samt ýmislegt um þessa konu. Ég hef séð af henni myndir, þetta er lítil kona með gleraugu og frekar strítt og hrokkið hár. Hún býr í To- ronto með manni sínum og dætrum og fæst þar við skriftir og hannyrðir. Pearl-McPhee er ein af þeim mýgrút af fólki sem býður alla velkomna til sín í netheimum. Heimboðið er reyndar sérstaklega ætlað þeim sem eru jafn helteknir af hannyrðum, prjónlesi og spuna og hún. Pearl-McPhee er nefnilega spuna- kerling í orðsins fyllstu merkingu. Hún vekur líklega sjaldan athygli fyrir klæðaburð sinn, það er helst að einhver taki eftir því að hún sé með fallegt sjal, í vel prjónaðri peysu, ja eða í alveg sérstaklega flottum sokkum. Í fjögur ár hefur hún bloggað um hannyrðir og heimilislífið í Toronto og þó að hún sé ekki mikil fyrir mann að sjá er hún stórstjarna í heimi innvígðra. Hún er nefnilega óskoraður leiðtogi, drottning og gyðja þeirra sem fást við þræði og ull. Á hverjum degi heimsækja þúsundir bloggið hennar og fjöldinn skilur eftir athugasemdir. Hún hefur safnað mörg hundruð þúsund dölum til að styrkja Lækna án landamæra og í fyrra stóð hún fyrir prjónaólympíuleikum. Fjögur þúsund þátt- takendur kepptust við að prjóna heila flík á sextán dögum á meðan vetrarólympíuleik- arnir fóru fram í Torino. Prjónakonur og -karlar hafa breitt úr sér á netinu síðustu ár. Fólk sem prjónar veit vel að það gildir það sama um prjónaskap og mörg önnur áhugamál, þeim sem ekki til þekkja finnst hann vera hreinasta tímasóun og jafnvel frekar gamaldags. Eiginlega er alltaf fljótlegra, auðveldara og ódýrara að kaupa sér sokka, peysu, trefil, sjal, húfu eða teppi svo fátt eitt sé nefnt af því sem hægt er að prjóna. Þetta sjá þeir sem prjóna alveg eins vel og aðrir. Prjónaskapur getur heltekið mann. Það er gaman að velja garn, finna upp- skrift og fitja upp. Vissulega er líka gaman að fella af þegar verki er lokið en víst er það upphafið, fitin sem flestum prjónafíklum þyk- ir sælust. Þegar búið er að fitja upp kemur það ósjaldan fyrir að fólk lendir í endemis flækj- um, veit ekki alveg hvernig á að prjóna hæl, ganga frá ermi, taka úr, auka út og svo fram- vegis. Netið býður einmitt upp á ótal mögu- leika til að leita ráða og aðstoðar ef fólk er strand. Ekki má gleyma montþættinum, það er hægur vandi að smella mynd af meist- araverkinu þegar búið er að fella af, setja inn á netið og sjá til hvort ekki finnst fleirum en manni sjálfum, þetta alveg einstaklega vel prjónað. Íbúar í prjónasamfélaginu á netinu eru ein- mitt alveg afskaplega rausnarlegir á hól og uppörvandi athugasemdir. Þar virðist alltaf vera einhvern að finna sem er á því að hand- bragðið á peysunni sé alveg frábært, hællinn sniðuglega til fundinn og garn og litur vel við hæfi. Á netinu má líka finna samfélög og skiptimarkaði. Hægt að auglýsa t.d. eftir murðuðu garni í grábláum tón. Viðkomandi vantar bara eina dokku svo hægt sé að klára seinni ermina á peysu sem var fitjað upp á fyrir fimm árum. Því miður er hætt að fram- leiða garnið, það var keypt svona sjö árum fyrr. Við svona og álíka spurningum er oft hægt að sjá jákvæð svör. Og ekki má gleyma ítarlegum leiðbeiningum um það hvernig má lita garn með Kool-aid svaladrykkjardufti. Þetta dýrindis duft fæst í ótal bragðteg- undum og ákaflega skræpulegum litum sem eru líklega huggulegri á garni en í görnum. Í heimi netprjónsins líkt og víðar í blogg- heimum velta menn fyrir sér nafngiftum og yfirskriftum. Prjónandi bloggarar eru af- skaplega veikir fyrir yfirskriftum sem minna á orðaforða í prjónaskap, þar er snúið, brugð- ið og undið. Það er eiginlega synd að Pearl-McPhee skuli ekki blogga á íslensku. Hún bloggar undir yfirskriftinni www.yarnharlot.ca, garn- dræsan. Pearl-McPhee hefur gefið út nokkrar bækur þar sem hún tvinnar saman leiðbein- ingar um prjónaskap, gamansögur og upp- skriftir. Á blogginu segir hún oft frá sam- komum þar sem hún talar og fólk flykkist að. Frásagnirnar eru oft skreyttar myndum af ferðasokknum í höndum fólks sem hún hittir á ferðalögunum. Ferðasokkurinn er sá sokkur sem er á prjónunum hjá henni hverju sinni. Þessar myndir af ferðasokknum hafa orðið fleirum innblástur og nú í vikunni mátti sjá bandaríska stjórnmálamanninn Barack Obama halda á sokk fyrir ákafan prjóna- bloggara. Stringactivity.blogspot.com stóðst ekki mátið og bað frambjóðandann að sitja fyrir með sokk á fundi í Illinois. Obama brást vel við og hélt sokknum á loft. Þótt myndin hafi ekki tekist neitt sérstaklega vel endar sokkurinn kannski í Hvíta húsinu og þegar hefur á annað hundrað prjónabloggara dáðst að tilburðum ljósmyndarans. Garndræsan; net- prjónakona númer eitt Garndræsan, www.yarnharlot.ca „Prjónakonur og -karlar hafa breitt úr sér á netinu síðustu ár. Fólk sem prjónar veit vel að það gildir það sama um prjónaskap og mörg önnur áhugamál, þeim sem ekki til þekkja finnst hann vera hreinasta tímasóun og jafnvel frekar gamaldags.“ FJÖLMIÐLAR » Í heimi netprjónsins líkt og víðar í bloggheimum velta menn fyrir sér nafngiftum og yfirskriftum. Prjónandi blogg- arar eru afskaplega veikir fyrir yfirskriftum sem minna á orða- forða í prjónaskap, þar er snú- ið, brugðið og undið. Obama með sokkinn Þótt myndin hafi ekki tekist neitt sérstaklega vel endar sokkurinn kannski í Hvíta húsinu. Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.