Morgunblaðið - 31.03.2007, Síða 22
22 LAUGARDAGUR 31. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
FRÉTTASKÝRING
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
STJÓRN Vladímírs V. Pútíns Rúss-
landsforseta treysti enn yfirráð sín
yfir orkuauðlindum þjóðarinnar þeg-
ar útibú ríkisfyrirtækisins Rosnefnt
keypti á þriðjudag 9,44% hlut í
Júkos-olíufyrirtækinu. Víst er að
stjórnvöld stefna að frekari ríkis-
væðingu á þessu sviði enda hyggst
Pútín forseti sýnilega freista þess að
auka skriðþunga Rússa á alþjóða-
vettvangi með því móti. Hluthafar í
Júkos líkja aðför stjórnvalda að fyr-
irtækinu við þjófnað, sem njóti
verndar ríkisins.
Undir markaðsvirði
RN-Razvítíje, dótturfyrirtæki
Rosnefnt, keypti hlutinn á uppboði,
sem fram fór glæsilegri skrifstofu-
byggingu Júkos í miðborg Moskvu.
Þótt einungis tveir aðilar tækjust á
um tæplega 10% hlut Rosneft í
Júkos, sem var í vörslu síðarnefnda
fyrirtækisins, tókst að knýja fram tíu
umferðir á uppboðinu áður en eignin
var slegin RN-Razvítíje. Fyrir hlut-
inn fengust 197,8 milljarðar rúblna,
rúmir 500 milljarðar króna, og var
upphæðin aðeins tæpum sex millj-
örðum króna yfir byrjunarverðinu.
Miðað við stöðu hlutabréfa daginn
áður var upphæðin tíu prósentum
undir markaðsvirði.
Uppboðið tók aðeins nokkrar mín-
útur og fékk dótturfyrirtæki
Rosnefnt einungis samkeppni frá
TNK-BP, fyrirtæki sem hið breska
BP á helmingshlut í. Sögðu sérfróðir
að TNK-BP hefði einungis tekið þátt
í uppboðinu til að tryggja að það gæti
farið fram. Á föstudag í liðinni viku
var óvænt frá því skýrt að TNK-BP
myndi bjóða í bréfin. Sama dag átti
John Browne, framkvæmdastjóri
BP, fund með Vladímír Pútín í
Moskvu. Innvígðir segja að vestræn
olíufyrirtæki setji lítt fyrir sig þær
mjög svo umdeilanlegu aðferðir, sem
stjórnvöld beiti til að „endurþjóð-
nýta“ lykilfyrirtæki á sviði olíu- og
gasvinnslu. Mikilvægast sé talið að
tryggja aðgang að auðlindum Rússa
og samstarf við opinber fyrirtæki.
Júkos hafði Rosneft-bréfin í sinni
vörslu þar sem síðarnefnda fyrirtæk-
ið notaði þau í fyrra til að greiða fyrir
síðasta hlut Júkos í Júgansneftgaz-
olíuvinnslusvæðinu í vesturhluta Síb-
eríu. Með þessum gjörningi komst
Rosneft í hóp ofurfyrirtækja á borð
við ríkisrisann Gazprom.
Júkos var um skeið annað stærsta
olíufyrirtæki Rússlands og annaðist
um fimmtung framleiðslunnar.
Rússneska ríkið og Rosneft knúðu
fyrirtækið í gjaldþrot árið 2006
vegna skulda og ógreiddra skatta
sem samtals nema um 1.700 milljörð-
um króna. Forráðamenn Júkos
héldu því fram að bréf fyrirtækisins
hefðu verið vanmetin og að með end-
urskipulagningu og áframhaldandi
rekstri myndi það reynast fært um
að greiða þær álögur, sem ríkið hafði
lagt á það. Þessari beiðni var hafnað.
Almennt er þó litið svo á að aðförin
að Júkos og fyrrum eiganda þess,
auðkýfingnum Míkhaíl B. Khodor-
kovskíj, sé í eðli sínu pólitísk. Hér
ræðir um aðgerð, sem framkvæmd
var í þrennum tilgangi.
Í fyrsta lagi taldi Pútín forseti
sýnilega mikilvægt að hefta Khodor-
kovskíj, sem fjármagnað hafði ýmsa
starfsemi á stjórnmálasviðinu er var
ráðamönnum í Kreml lítt að skapi.
Stjórnvöld knúðu fram gjaldþrot
Júkos með því að gera fyrirtækinu að
greiða skattaskuld, sem ljóst var að
það fengi aldrei staðið undir. Khod-
orkovskíj var handtekinn síðla árs
2003 og dæmdur í átta ára fangelsi.
Í annan stað vildi Pútín með þessu
afturkalla „einkavæðingu“ þá sem
fram fór í valdatíð forvera hans, Bor-
ís N. Jeltsíns, þegar lykilfyrirtæki á
orkusviðinu voru fengin mönnum,
sem stjórnvöld höfðu velþóknun á.
Fullyrða má að þar ræði um stærsta
þjófnað síðari tíma, hið minnsta. Al-
mennur stuðningur er við þessa
stefnu Pútíns í Rússlandi.
Í þriðja lagi hyggst Pútín nýta rík-
isrekin orkufyrirtæki til að treysta
stöðu Rússlands og auka skriðþunga
ríkisins á alþjóðavettvangi. Yfirráð
sín yfir orkufyrirtækjum hefur for-
setinn þegar nýtt til að berja á
stjórnvöldum í nokkrum nágranna-
ríkjum og á Vesturlöndum gera
ráðamenn sér ljóst að gríðarlegar
auðlindir Rússa munu gera þeim
kleift að standast margvíslegan póli-
tískan þrýsting á komandi árum.
Stjórnarmenn Pútíns
Uppboðið á þriðjudag var hið
fyrsta, sem fram mun fara á síðustu
leifum veldis Khodorkovskíjs. Í apríl
verður boðinn upp 20% hlutur Júkos
í Gazprom Neft (áður Síbneft), einu
af dótturfyrirtækjum Gazprom. Víst
þykir að Gazprom hreppi hnossið.
Síðan verða boðnar upp fimm olíu-
hreinsistöðvar, sem enn teljast eign
Júkos. Þær munu næstum því
ábyggilega koma í hlut Rosneft.
Stjórnarformaður Rosneft, Ígor Í.
Setsjín, er einn nánasti aðstoðar-
maður Vladímírs Pútíns. Líklegt er
að Edúard K. Rebgún, þrotabús-
stjóri í Júkos-málinu og sá sem hafn-
aði beiðni um að fyrirtækinu yrði
áfram leyft að starfa, taki brátt sæti í
stjórn Rosneft.
Risar Pútíns hirða leifar Júkos-veldisins
Vladímír V. Pútín Rússlandsforseti vinnur skipulega að „endurþjóðnýtingu“ olíu- og gasfyrirtækja
Umdeildum uppboðum beitt til að endurheimta þjóðarauð Rússa, sem fenginn var útvöldum
Í HNOTSKURN
»Rosnefnt ræður nú yfir 22milljörðum Bandaríkja-
dala, rúmlega 1.400 millj-
örðum króna, sem fyrirtækið
hefur fengið að láni á afar
hagstæðum kjörum á Vest-
urlöndum.
»Barclays, ABN Amro ogCitibank eru í hópi þeirra
banka, sem tryggt hafa þessa
fjármuni. Lánin eru veitt á
0,25% vöxtum.
»Fjármunum þessum hyggj-ast forráðamenn Rosneft
verja til að kaupa upp leif-
arnar af veldi auðkýfingsins
Míkhaíls B. Khodorkovskíjs.
Reuters
Úr leik Míkhaíl Khodorkovskíj var handtekinn haustið 2003 og síðar
dæmdur í fangelsi fyrir skattsvik. Auður hans tryggði pólitísk áhrif.