Morgunblaðið - 18.06.2007, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 18.06.2007, Blaðsíða 26
26 MÁNUDAGUR 18. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Halldóra Sigríð-ur Guðmunds- dóttir fæddist í Reykjavík 23. sept- ember 1947. Hún lést á Landspítal- anum í Fossvogi 10. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Guðmundur Ingvar Sveinjónsson húsasmíðameistari, f. 1930, og Guð- munda Guðrún Kjartansdóttir, f. 1931, d. 2004. Hall- dóra var elst fjögurra systra, hin- ar eru; Lilja, f. 1951, maki Guð- mundur Vignir Hauksson, f. 1957; Andrea Guðrún, f. 1961, maki Ey- steinn Sigurðsson, f. 1958; og Helga, f. 1964, maki Ævar Rafn Kjartansson, f. 1962. Halldóra giftist árið 1966 Theo- dóri Jakobi Guðmundssyni, bók- bindara og knattspyrnuþjálfara, f. 1944, og eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: 1) Guðmundur Birgir, f. 1964, dóttir hans er Karen, f. 1998, 2) Thelma, f. 1966, synir hennar eru Aron Snorri, f. 1984, Theodór Elmar, f. 1987, og Brynjar Orri, f. 1988, 3) Hörður, f. 1967, maki Lára Eymundsdóttir, f. 1970. Börn hans eru Arnór, f. 1997 og Sonja Rán, f. 2001. Hörður og Lára eiga saman soninn Kristófer Elí, f. 2006, og dóttir Láru er Hildur Mar- ín, f. 1995. Árið 1988 hóf Halldóra sambúð með Magnúsi Finni Jóhannssyni hljóm- listarmanni, f. 1955. Þau giftu sig árið 2000. Halldóra og Magnús störfuðu saman á Arnarholti, sambýli fyrir geð- fatlaða á Flókagötu og í Víðinesi. Dætur Magnúsar eru Erla, f. 1974, og Íris, f. 1977. Börn Erlu eru Ísey, f. 1992, og Víkingur Breki, f. 2005. Halldóra ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hún útskrifaðist úr Sjúkraliðaskóla Íslands 1979 og starfaði sem sjúkraliði á Klepps- spítala 1980-1982, Landspítala, Barnaspítala Hringsins 1981-1986, Arnarholti geðdeild 1986-2006, sambýli fyrir geðfatlaða á Flóka- götu 2006 og í Víðinesi þar til hún lést. Frá árinu 2003 hafa Halldóra og Magnús búið á Suðurgötu 87 á Akranesi. Útför Halldóru verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. Elsku amma Denný. Verið þið sæl þið sólarbörn, þið sofið til vorsins rótt. Þið hurfuð mér öll í einum svip á einni kaldri nótt. (Bjarni Jónsson) Takk fyrir að hafa verið til og að ég hafi fengið að kynnast þér elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín. Elsku Finnur afi, Höddi, pabbi, Guðmundur og Thelma og aðrir fjöl- skyldumeðlimir, megi guð gefa okkur styrk á þessum erfiðu tímamótum. Kveðja, Sonja Rán og fjölskylda. Elsku Denný! Þetta stóra gat sem myndaðist í fjölskyldunni við fráfall þitt er ekki hægt að stoppa í. Alltaf vorum við svo nánar og mikl- ar vinkonur og höfðum gaman af að rifja upp okkar æsku, t.d. þegar þú áttir að leika við mig, en reyndir að stinga mig af og ég grét á eftir þér; Denný bíddu eftir mér. Nú loksins tókst þér að stinga mig af. Ég á eftir að sakna þín og ég veit að ég mun hitta þig seinna. Þín systir Lilja. Erfiðasta símtal sem ég hef fengið um ævina var laugardagsmorguninn 9. júní, þar sem mér var tilkynnt að Denný systir hefði slasast og lægi milli heims og helju á gjörgæsludeild Landspítalans. Hún lést af völdum al- varlegra meiðsla sinna sólarhring síð- ar. Denný, stundum kölluð Nenna af okkur systrunum var elst okkar fjög- urra systra og ég leit mikið upp til hennar á mínum yngri árum. Ef eitt- hvað bjátaði á, var það iðulega mín fyrsta hugsun að hringja í Denný því mér fannst eins og hún ætti að vita allt, sem hún reyndar gerði ansi oft. Hún hafði sérlega góða nærveru, alltaf svo róleg og yfirveguð og þrátt fyrir að hún léti ekki mikið yfir sér var stutt í húmorinn og maður gat al- veg hlegið sig máttlausan yfir því sem henni gat dottið í hug. Undanfarin sumur höfum við verið í miklu sambandi og hist nánst um hverja helgi þar sem við vorum þrjár systurnar með sumarbústað rétt hjá hver annarri. Við fengum allar sum- arbústaðadelluna í arf frá foreldrum okkar og sú fjórða er með sinn bústað fyrir norðan. Oft var ákveðið að hitt- ast eftir matinn og taka eitt eða tvö spil og varð þá blekkingaleikurinn Fimbulfamb oftast fyrir valinu. Í þeim leik fór Denný á kostum. Hinn 1. janúar síðastliðinn fórum við allar fjórar systurnar til Indlands með tveimur vinkonum okkar. Sú ferð var mjög mikil upplifun og eitt það skemmtilegasta sem Denný hafði gert. Það er ómetanlegt að hafa átt þessar tvær vikur saman og allar ljúfu minningarnar úr ferðinni núna, þegar maður er að bugast af sorg. Við systurnar, makar og foreldrar okkar héldum á hverju sumri okkar eigin fjölskylduhátíð sem við kölluð- um Vísnavarg og var hún haldin í tíu ár. Móðir okkar lést fyrir þremur ár- um og var þá erfitt að halda áfram, en nú þegar Denný er farin líka er skarð- ið orðið of stórt til að hægt sé að fylla það og Vísnavargur því sungið sitt síðasta. Ég og Denný vorum byrjaðar að æfa okkar heimatilbúna skemmti- atriði sem okkur fannst meira en lítið fyndið fyrir hátíðina í sumar. Atriði sem Denný var búin að þaulskipu- leggja og við búnar að hlæja mikið að vitleysunni. Því miður verður ekkert af þeirri frumsýningu, en eins og ég hvíslaði að henni á dánarbeðinum þá höldum við áfram með það seinna á öðrum stað. Ég kveð með söknuði ljúfa og góða systur og óska henni góðrar ferðar til nýrra heimkynna. Andrea (Addý) systir. Elsku hjartans Denný mín. Mikið rosalega er þetta erfið stund. Ég er ekki enn búin að átta mig á að það sé raunveruleiki að þú sért dáin. Þetta gerðist svo snöggt, ég talaði við þig í síma fyrr um kvöldið og þú varst að segja mér að þú hefðir verið að gróðursetja sumarblóm og varst svo sæl og glöð og sagðist ætla að gera fínt og undirbúa KR-kaffiboð fyrir börnin þín og barnabörnin sem ætl- uðu að koma á sunnudeginum til ykk- ar. Svo sex klukkustundum síðar hringdi Finni eiginmaður þinn, sem þú elskaðir svo heitt, í mig og til- kynnti mér að þú hefðir dottið og værir komin á spítala. Og sólarhring síðar varstu dáin. Hvernig má þetta vera? Ég skil þetta ekki. Ég get ekki kyngt þessu. Og við sem ætluðum að gera svo mikið saman á næstu árum, manstu? Við vorum nánar, það leið varla sá dagur að við töluðum ekki saman í síma, og stundum oft á dag. Og núna allt í einu er klippt á það og ég á aldrei eftir að heyra frá þér meir. En guð minn góður Denný, hvað ég er þakklát fyrir að við náðum þó því að fara saman allar fjórar systurnar til Indlands í janúar sl. Sú ferð gerði okkur bara enn nánari. Mikið rosa- lega var það gaman, enda vorum við byrjaðar að plana næstu ferð, og þá ætluðum við að taka mennina okkar með. Það eru svo mikil forréttindi að eiga þessa fjölskyldu og ótrúlegt hvað við systurnar náðum allar vel saman. Það er svo sárt að þú sért ekki lengur á meðal okkar. Þrátt fyrir 17 ára ald- ursmun á mér og þér, þá vorum við eins og jafnaldrar. Eineggja tvíburar sögðum við stundum í gríni, þrátt fyr- ir 17 cm hæðarmun og 17 ára ald- ursmun. Það verður tómlegt að fara upp í sumarbústað og hafa þig ekki við hlið- ina á okkur í næsta bústað. Og það verður sárt að heyra þig ekki framar spyrja „eigum við að spila Fimbul- famb eða Trivial Pursuit í kvöld?“ Æ, svo man ég alltaf Denný þegar þið Finni fenguð ykkur kisurnar þrjár, bræðurna Lon, Don og Castro. Þú varst svo sæl, enda mikill dýravin- ur og sérstaklega kattavinur. Þú hringdir í mig á hverjum degi til þess að segja mér hvað þeir væru að gera. En svo misstuð þið tvo þeirra undir bíl og það var svo sárt. Ég gleymi því aldrei hvað þú áttir bágt þá og þið bæði. En núna eru Don og hinir tveir sem komu síðar búnir að missa ynd- islega móður. Elsku Finni, Mummi, Thelma, Höddi og pabbi, megi allt gott í heim- inum styrkja ykkur í gegnum þennan óbærilega söknuð. Ég kveð þig hér, elsku Denný mín, með miklum söknuði. Ég veit að þér líður vel hinum megin með mömmu, kisunum þínum og öðrum ættingjum okkar og ég veit líka að við eigum eftir að hittast aftur. Hvíldu í friði. Ég gleymi þér aldrei. Helga systir. Það er skarð fyrir skildi. Djúpt særandi og blæðandi. Í einni svipan er hrifsuð frá okkur ástkær systir og mágkona. Enginn undanfari, engin veikindi. Hún er bara einn daginn ekki lengur hér. Og við sitjum eftir og neitum að trúa þessu. Óraunverulegt og ósann- gjarnt eru orð sem hamast á okkur og við viljum að einhver segi við okkur að þetta séu bara mistök. Það sé allt í lagi. En það er ekki allt í lagi. Denný er dáin og það er raunveruleikinn, alveg sama hversu það sé óraunverulegt í okkar hugum. Það að fjórar systur, foreldrar þeirra og makar verði eins náinn fé- lagsskapur og við urðum er sennilega einstakt. Þrátt fyrir yfir 30 ára ald- ursmun á milli þess elsta og þess yngsta héldum við saman með svipuð áhugamál og á árlegri hátíð okkar „Vísnavargi“ sameinuðumst við í vísnagerð, stökum og botnum ásamt pílukasti, vítakörfu, leiknum skemmtiatriðum, söng og gríni, þar sem keppnisandinn, góður matur og fallegasta sveit landsins voru í bak- grunni. Denný var ein af heitustu „vörgunum“ og byrjuð að undirbúa og skipuleggja atriði næsta vargs á heimleið frá þeim síðasta. Seinni árin stofnuðum við strák- arnir meira að segja hljómsveit gagn- gert útfrá þessu. Það eru sennilega ekki margar systur, hversu nánar sem þær eru, sem eignast allar maka með áhuga á tónlist og spilandi á hljóðfæri. En hvalirnir fjórir eins og pabbi þeirra kallaði þær, gerðu það. Denný hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum og þau eru ófá skiptin sem við deildum, rökræddum og rifumst um ýmis málefni. Samt vorum við undirliggjandi oftast sammála. Það var bara svo gaman að rífast við Denný og ég efa að hægt verði að finna manneskju sem hún hefur gagnrýnt, hallmæla henni. Hún var nefnilega því sama fólki alltaf til stað- ar og stuðnings. Tilhugsunin um það að við spilum ekki oftar eða grillum saman uppi í bústað er þungbær. Ég veit það eitt að framundan eru mörg tár okkar Helgu næstu mánuði þegar við förum upp í sveit og það er ekkert líf við hlið- ina á okkur. Mikið eigum við eftir að sakna þín og mikið finn ég til með konunni minni (tvíburasysturinni), manninum þínum, börnunum og pabba þínum. Ég er búinn að gráta þig mikið og á eftir að gráta oftar en það er af eig- ingirni yfir mínum missi. Missir þeirra er meiri og það eina sem ég get gert er að reyna að gera það sem þú hefðir gert. Vera til staðar fyrir þau. Ævar Rafn Kjartansson. Mig langar að minnast með nokkr- um orðum fyrrverandi eiginkonu minnar og barnsmóður, er lést í hörmulegu slysi. Við kynntumst mjög ung og byrj- uðum að búa saman, hún aðeins 16 ára gömul. Við eignuðumst fljótlega þrjú frábær börn, Guðmund Birgi, Thelmu og Hörð. Þau syrgja nú móð- ur sína. Á þessum árum sýndi Denný mér og börnum okkar einstaka ást og umhyggju. Þrátt fyrir lítil efni bjó hún okkur gott og fallegt heimili og smám saman lagaðist efnahagurinn. Við eignuðumst eigið húsnæði og börnin uxu úr grasi. Hún fór í sjúkra- liðanám og lauk því með sóma. Eftir 22 ár saman, börnin orðin fullorðin og afkoman góð. Er það ekki ótrúlegt, þá var ákveðið að skilja. Ég þakka fyrir allar yndislegu stundirnar sem hún gaf okkur. Öldruðum föður og systrum sem og öðrum aðstandendum sendi ég sam- úðarkveðjur. Theódór J. Guðmundsson. Harmafregn. Denný, mín elskuleg fyrrverandi mágkona, látin. Af eilífðarljósi bjarma ber, sem brautina þungu greiðir. Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri en auga sér mót öllum oss faðminn breiðir. (Einar Benediktsson.) Megi ljúf minning hennar lýsa ást- vinum og fjölskyldum. Soffía Guðmundsdóttir. Elskulega frænka mín Denny er látin, langt fyrir aldur fram. Við Agga vorum að nefna Denny á nafn rétt áður en síminn hringdi og okkur voru sögð þessi hörmulegu tíð- indi. Við Denny fæddumst sama ár með tveggja mánaða millibili, það var því upplagt fyrir Mundu og mömmu að setja okkur í sama barnavagninn og rölta með okkur ungana niður á Tjörn. Við fullorðnuðumst, eignuðumst okkar eigin fjölskyldur en alltaf héld- um við sambandi. Í gegnum árin eru góðu stundirnar svo margar og geymi ég þær í minn- ingum mínum. Elsku Finni, Guðmundur Thelma, Hörður og fjölskylda, ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur, Guð gefi ykkur styrk til að takast á við þessa miklu sorg. Hvíldu í friði elsku Denny. Þinn frændi og vinur, Sveinjón. Horfin er á braut Halldóra Sigríður Guðmundsdóttir, eða Denný eins og hún var ætíð kölluð. Ég varð fyrir því láni að kynnast Denný þegar við lögðum leið okkar til Indlands ásamt fjórum öðrum, þ. á m. þremur systrum hennar. Snemma kom í ljós að við Denný áttum gott skap saman og við tókum fljótlega ástfóstri hvor við aðra. Denný var sú hæglátasta í ferðinni en stutt var í leiftrandi kímni. Hún var ætíð yfir- veguð en þegar kom að því að láta reyna á hlutina var hún oftar en ekki fremst í flokki, ævintýramennskan var henni í blóð borin. Eins fór ekki framhjá mér, né neinum sem kynntist Denný, að hún var víðlesin og afskap- lega greind. Ég syrgi Denný og sakna þess að fá fleiri tækifæri til að hitta hana. Ég ætla að halda fast í minninguna þar sem hún Denný mín dansar frjálslega við varðeldinn í eyðimörkinni á Ind- landi. Tónlistin dunar og augu Den- nýjar geisla af hamingju. Elsku Finni, systur og fjölskylda, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúð- arkveðju. Denný okkar dansar nú á nýjum heimaslóðum í góðum félagsskap móður sinnar. Kveðja Kolbrún. Það er stutt á milli lífs og dauða, var það fyrsta sem kom í hugann þeg- ar við fréttum af sviplegu fráfalli þínu, elsku Denný. Minningarnar streyma fram með sorginni, en enginn fær flú- ið sitt skapadægur. Nú verða sam- verustundirnar ekki fleiri og ekki skrafað lengur um lífið og tilveruna eða eilífðarmálin. Pólitíkin ekki rædd frekar eða trúmálin né listin. Það var alltaf gott að vera nálægt þér. Þú hafðir svo góða nærveru og varst mikil prinsipp-manneskja sem stóðst alltaf fast á þínu, enda hafðir þú skarpa sýn á tilveruna. Í starfinu sem þú valdir þér komu allir þínir mannkostir fram enda varstu frábær sjúkraliði. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Sendum öllum aðstandendum okk- ar dýpstu samúð. Jenný og Þórir. Halldóra Guðmundsdóttir var fal- leg kona og ákaflega sterkur persónu- leiki, vel gefin og frábær húmoristi. Sem samstarfsfélagar hennar kynntumst við því vel hve samvisku- söm hún var. Verkin hennar voru unnin af svo miklum hlýhug og trú- mennsku, að fáir fóru í sporin hennar. Denný, eins við kölluðum hana, og Finni maðurinn hennar keyptu sér hús uppi á Akranesi og áttu sumarbú- stað fyrir austan. Þar gátu þau verið úti og notið náttúrunnar og ræktað jörðina. Þau voru ákaflega samrýmd og elskuðu sólina. Það eru erfiðir tímar framundan hjá Finna, þegar dökkt ský dregur nú fyrir sólu á lífsins vegi við fráfall ást- kærrar eiginkonu og félaga. En kær- ar minningar eru geymdar í sólar- geislunum að baki sorgarskýja. Sólin er þarna geymd þrátt fyrir allt, og þeir sem syrgja mega ekki loka hjarta sínu fyrir henni. Við samstarfsfélagar þinnar góðu konu vitum, kæri Finni, að sorg þín og söknuður er mikill og sár og við vonum að allar góðar vættir verndi þig og styðji. Fyrir hönd vina og samstarfs- manna á Arnarholti á Kjalarnesi, Margrét Guðnadóttir. Halldóra Sigríður Guðmundsdóttir Mamma, elsku mamma, man ég augun þín, í þeim las ég alla elskuna til mín. (Sumarliði Halldórsson) Hvíl þú í friði, elsku mamma. Guðmundur Birgir, Thelma og Hörður. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Elsku afi, Finni, Mummi, Thelma, Höddi og aðrir að- standendur, Guð veri með ykkur. Jessica og John og fjölskyldur. Ég kveð í dag hlýja og yndislega manneskju hana Denný með þessum orðum: Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. Eg veit einn að aldrei deyr: dómur um dauðan hvern. (Úr Hávamálum.) Ég sendi ástvinum Den- nýjar mínar innilegustu sam- úðarkveðjur og bið þess að æðri máttarvöld verði þeim nálæg á þessari sorgar- stundu. Petrína (Peta). HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.