Morgunblaðið - 30.06.2007, Qupperneq 33
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. JÚNÍ 2007 33
MINNINGAR
✝ Guðlaug Einars-dóttir fæddist í
Reykjavík 9. maí
1915. Hún lést á
Dvalarheimilinu
Kirkjuhvoli á Hvols-
velli 24. júní síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar voru Einar
Runólfsson húsa-
smiður í Reykjavík,
f. 19.5. 1879, d. 1.12.
1961, og Guðlaug
Einarsdóttir, f.
29.11. 1880, d. 18.5.
1915. Þegar móðir
hennar dó kom föðursystir henn-
ar, Anna Runólfsdóttir, f. 12.7.
1886, d. 21.5. 1963, og gekk börn-
unum í móðurstað og fluttist síðan
með Guðlaugu í Fljótshlíðina og
var hjá henni til æviloka. Systkini
Guðlaugar voru: Einar, f. 1908, d.
1991, Ingólfur, f. 1910, d. 1969, og
Katrín, f. 1912, d. 1994.
Árið 1937 giftist Guðlaug Sæ-
mundi Úlfarssyni, f. 27.8. 1905, d.
16.2. 1982. Foreldrar hans voru
Guðlaug Brynjólfsdóttir og Úlfar
Jónsson, bændur í Fljótsdal í
Fljótshlíð. Dætur Guðlaugar og
Sæmundar eru: 1) Anna Sigurveig,
gift Sæmundi Árnasyni. 2) Guð-
laug, gift Yngva Þorsteinssyni. 3)
Ingibjörg, gift Sig-
urði Sigurþórssyni.
4) Aðalheiður. 5) Ás-
dís, gift Gunnlaugi
Jóni Karlssyni, d.
1990,hún var gefin í
fóstur til Aðalheiðar
Kjartansdóttur og
Magnúsar Árnason-
ar í Reykjavík. 6)
Elín Kristín, gift
Einari Þór Árna-
syni. 7) Eyrún Ósk,
gift Guðfinni Guð-
mannssyni. Barna-
börnin eru 21.
Barnabarnabörnin eru 36. Barna-
barnabarnabörnin eru 6.
Guðlaug ólst upp í Reykjavík.
Guðlaug og Sæmundur hófu bú-
skap sinn í Fljótsdal eftir að þau
giftu sig, þar bjuggu þau til ársins
1946, þegar þau fluttu sig til í
Fljótshlíðinni og færðu sig nær
barnaskóla og keyptu Heylæk, því
elstu dæturnar voru komnar á
skólaaldur. Þar bjuggu þau til árs-
ins 1975 en þá brugðu þau búi og
fluttust á Hvolsvöll. Árið 1985 fór
Guðlaug á Dvalarheimilið Kirkju-
hvol og bjó þar til dauðadags.
Útför Guðlaugar verður gerð
frá Hlíðarendakirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 11.
Í dag kveðjum við hinstu kveðju
móður okkar, Guðlaugu Einarsdótt-
ur. Hún kvaddi lífið í sólskini og fal-
legu veðri að morgni Jónsmessu.
Mamma var ávallt jákvæð, glöð og
þakklát. Þakklát fyrir góða og langa
ævi. Ánægð með sína stóru fjöl-
skyldu; sjö dætur, tengdasyni,
barnabörn, barnabarnabörn og
barnabarnabarnabörn. Að ógleymd-
um þeim börnum og unglingum sem
dvöldu sumarlangt eða í annan tíma,
hún hugsaði til þeirra með hlýhug.
Hún var líka vel gift eins og hún
sagði sjálf, enda voru foreldrar okkar
einstaklega samhent í lífinu. Söknuð-
ur hennar hefur verið mikill þegar
pabbi dó fyrir 25 árum, en samt sá
hún ávallt bjartar hliðar lífsins. Einn-
ig var hún þakklát öllum sem hugs-
uðu um hana og til hennar síðustu ár-
in.
Við fjölskyldan viljum þakka öllu
því góða fólki sem annaðist hana af
alúð. Hvíl í friði, móðir kær,
þínar dætur.
Ástkær tengdamóðir mín lést á
Dvalarheimilinu Kirkjuhvoli 24. júní
eftir stutt veikindi, Guðlaug var 92
ára þegar hún lést. Ég kynntist henni
fyrir rúmum 20 árum er ég hóf sam-
búð með Eyrúnu, dóttur hennar.
Guðlaug var alveg einstök kona, allt-
af hress og kát, sérskaklega blíðlynd,
jákvæð og talaði alltaf vel um allt það
fólk sem hún hafði kynnst á langri
ævi. Það hljóta að hafa verið mikil
umskipti fyrir 22 ára stúlku úr
Reykjavík að hefja búskap austur í
Fljótsdal í Fljótshlíð, sem er innsti
bær í hlíðinni, það var ekki bílvegur
alla leið inn að Fljótsdal. En þar
höfðu þau samt rafmagn úr heim-
arafstöð. Rafmagn var ekki algengt á
sveitabæjum þá. Fljótlega byggðu
ungu hjónin sér nýtt steinhús. Þar
bjuggu þau í nokkur ár og þar fædd-
ust þeim fyrstu fimm dæturnar. En
er komið var að því að elstu dæturnar
voru komnar á barnaskólaaldur
fluttu þau sig framar í Fljótshlíðina
og hófu búskap á Heylæk. Þar fædd-
ust svo tvær dætur í viðbót. Voru þá
dæturnar orðnar sjö. Þegar Guðlaug
og Sæmundur seldu Heylækinn og
fluttu á Hvolsvöll 1975 starfaði Sæ-
mundur í pakkhúsinu og var hans að-
alstarf að afgreiða byggingarefni. Þá
var hafinn mikill uppgangur í bygg-
ingum á Hvolsvelli. Kynntist ég þá
Sæmundi vel og áttum við oft ágætis
spjall saman. Sæmundur lést 1982.
Árið 1985 fluttist Guðlaug á Dvalar-
heimilið Kirkjuhvol. Guðlaug hafði
mjög gaman af því að ferðast. Alltaf
var hún til í að fara í sumarbústað-
arferðir á hina ýmsu staði með okkur
Eyrúnu og börnunum ásamt fleirum
af hennar afkomendum og var þá oft
glatt á hjalla. Stundum var farið í úti-
legu á Klaustur og gisti Guðlaug þá
hjá nöfnu sinni og frænku. Enda voru
þær ávallt miklar vinkonur.Guðlaug
hafði mikla unun af músík og spilaði
alla tíð á orgel og sá oft um undirspil,
bæði á fjölskyldumótum og eins á
Kirkjuhvoli við ýmis tækifæri. Nýj-
asta orgelið eignaðist hún á níutíu
ára afmæli sínu og var það nokkuð
frábrugðið fyrsta orgelinu sem hún
eignaðist ung að árum. Enda var
Guðlaug mikið tækjafrík eins og
barnabörnin orðuðu það, um ömmu
sína. Enda átti hún ávallt auðvelt
með að tileinka sér allar nýjungar.
Mínar einlægu þakkir fyrir allt.
Hvíl í friði.
Guðfinnur Guðmannsson.
Elsku amma Lauga, ég veit að þú
ert nú komin á góðan stað og kveð ég
þig með söknuði. Ég man svo vel eftir
því þegar ég var lítill strákur og kom
í heimsókn til þín og afa. Hvað það
var gott að vera hjá ykkur, þegar við
afi fórum saman út að keyra í holur,
ekki veit ég hvor skemmti sér betur
ég eða afi og þegar að það var rigning
var aðalfjörið að láta pollana skvett-
ast sem lengst og við skemmtum
okkur konunglega.
Þegar ég var að byrja í skóla
fannst mér alltaf best að koma til þín,
amma og lesa og skrifa því þú hafðir
svo gott lag á því að láta þessi leið-
inlegu heimaverkefni vera skemmti-
leg. Svo var það ein jólin sem við
mamma vorum hjá ykkur og ég fékk
litla plastbílabraut í jólagjöf og hvað
við afi lékum okkur mikið með bíla-
brautina um jólin.
Minning þín hvílir í mínu hjarta,
elsku amma.
Úlfar Þór.
Elsku besta amma mín, þá er kom-
ið að kveðjustund. Undanfarnir dag-
ar hafa verið erfiðir, því söknuðurinn
er mikill. En ég hugga mig við það að
nú líður þér betur, og núna ertu kom-
in til afa Sæma. Eftir öll þessi ár eruð
þið aftur saman á ný.
Ég á margar góðar og ómetanleg-
ar minningar. Minningar sem ég
mun varðveita alla mína ævi.
Það var alltaf svo gaman og gott að
koma í heimsókn til þín. Þú tókst allt-
af á móti mér með opnum örmum, og
umvafðir mig með ást og hlýju.
Ég er heppin að hafa átt þig sem
ömmu. Þú hafðir mikil áhrif á líf mitt.
Þú fylgdist alltaf vel með því sem ég
gerði, og varst alltaf að hvetja mig til
að vera dugleg að teikna, því að ég
væri með svo mikla hæfileika.
Þú varst manneskja sem maður
tekur sér til fyrirmyndar. Þú varst
svo góð og heiðarleg. Það kemst eng-
in nálægt því að vera jafn góð og fal-
leg og þú.
Elsku amma takk fyrir allt og allar
góður stundirnar sem við áttum sam-
an. Þú munt alltaf eiga stóran sess í
hjarta mínu. Ég mun varðveita minn-
ingu þína alla ævi.
Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(Höf. ók.)
Þín ömmustelpa
Anna Þorsteinsdóttir.
Elsku amma Lauga, nú hefur þú
fengið hvíldina. Við sitjum eftir með
söknuð í hjarta en um leið og við fell-
um sorgartár þá gleðjumst við og
huggum okkur við minningar um
bestu ömmu í heimi.
Gulla minnist margs frá árunum á
Heylæk, þar fengu krakkarnir að
taka þátt í öllum sveitastörfunum en
einnig var nægur tími til þess að fara
í búleik, leika í gamla fjósinu og fá að
fara á hestbak á Nasa gamla. Það var
alltaf nóg pláss í sveitinni fyrir alla og
alltaf jafn vinsælt þegar amma las
sögurnar um börnin í Ólátagarði.
Á Hvolsveginum var enn lesið úr
bókinni um börnin í Ólátagarði sem
og úr öðrum góðum bókum. Þaðan
eigum við allar góðar minningar. Eitt
af því sem við tókum þátt í með
ömmu var að færa afa morgunmat í
rúmið. Amma stjanaði við hann á all-
an hátt, hún rakaði til dæmis af hon-
um skeggið og snyrti á honum negl-
urnar. Rauðsokkur nútímans myndu
sjálfsagt súpa hveljur en ömmu og
afa virtist alltaf líða vel saman, þau
voru svo ánægð hvort með annað.
Hjá ömmu og afa var oftar en ekki
hægt að fá ís eða annað góðgæti á
appelsínugulu diskana sem við
krakkarnir notuðum hjá þeim.
Heima hjá ömmu mátti líka týna rifs-
berin af trjánum og meira að segja
borða þau inni. Heimili þeirra var á
þessum árum aðalsamkomustaður
stórfjölskyldunnar og mikið var oft
glatt á hjalla, gamla orgelið var þan-
ið, græni sófinn nýttur sem trampól-
ín, garðurinn ævintýraland, sögu-
bækur lesnar á hverju kvöldi og dótið
í Tótubúð ótrúlega skemmtilegt. Oft-
ar en ekki var tekið í spil og þá var al-
veg merkilegt hvað maður var hepp-
inn, amma tapaði næstum alltaf.
Amma var gestrisin fram á síðasta
dag, alltaf voru kökur eða nammi á
borðum og þegar hún bauð var „Nei,
takk“ ekki tekið gilt. Hún amma var
sérstaklega vel með á nótunum og
fylgdist alltaf vel með öllu sem var að
gerast í þjóðfélaginu og ekki síður
hvað var að gerast hjá öllum í fjöl-
skyldunni. Það var einstaklega gam-
an að koma til ömmu og heyra sögur
úr hennar lífi en ekki hafði hún minni
áhuga á því að heyra hvað var að ger-
ast hjá okkur.
Í dag kveðjum við konu sem var
gull af manni, hver sem var svo hepp-
inn að kynnast þér dáðist að þér og
dugnaði þínum. Það var svo gott að fá
tækifæri til að kveðja þig og vera bú-
in að heyra þig tala um að þú værir
svo sátt við guð og menn. Þú dáðist
að hópnum þínum, dætrum þínum
sem eru hver annarri yndislegri,
barnabörnum, barnabarnabörnum
og fjölskyldum þeirra. Þú skildir
ekkert í því hvers vegna í ósköpunum
þú fengir að lifa svona lengi, þó sökn-
uðurinn sé mikill þá er samt svo góð
tilfinning í hjörtum okkar. Minning-
arnar lifa áfram með okkur og ef við
þekkjum þig rétt þá vakir þú nú yfir
hópnum þínum og dáist að honum.
Þú fékkst að deyja heima í faðmi fjöl-
skyldunnar eins og þú vildir, sátt við
að fara og nú tekur afi á móti þér eft-
ir öll þessi ár.
Við biðjum algóðan guð að blessa
þig og minningu þína, biðjum hann
að styrkja okkur öll og gefa að nú líði
þér vel. Minning þín lifir í hjörtum
okkar.
Þínar ömmustelpur
Elín, Þorbjörg og Guðlaug
Yngvadætur og fjölskyldur.
Við eigum margar minningar um
langömmu og allar eru þær góðar.
Frá því að við munum eftir okkur var
hún alltaf hluti af tilveru okkar. Hún
hafði mikið að gefa þeim sem í kring-
um hana voru, var svo hlý og barngóð
með eindæmum. Alls þessa nutum
við.
Þannig munum við Guðlaugu lang-
ömmu og sú fallega minning um góða
konu mun lifa með okkur alla tíð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Langömmubörnin þín í Vest-
mannaeyjum,
Ingvar, Þorbjörg Júlía,
Árni Þór og Aðalheiður Stella.
Elsku langa amma mín. Nú ertu
farin á betri stað og eftir skilur þú
góðar minningar um þig og allt það
sem þú hefur gert.
Ég gleymi því aldrei þegar ég kom
í heimsókn til þín og þú áttir alltaf
nammi og gos í skápnum. Ég át
nammið eins og ég gat í mig látið og
alltaf gastu sett meira í skálina. Þú
áttir hækjur sem mér fannst svo
gaman að leika mér að. Þú leyfðir
mér að fara fram á gang á elliheim-
ilinu og leika mér þar á þeim en sagð-
ir mér samt að passa mig á stiganum,
ég gæti dottið. Þar lék ég mér tím-
unum saman hoppandi og skoppandi
á hækjunum. Þegar ég var orðin
þreytt á að vera á hækjunum sett-
umst við við píanóið og þú kenndir
mér nokkur létt lög, spiluðum við þau
fram og aftur. Þetta voru svo góðir
tímar sem lifa núna aðeins í minning-
unni.
Ég mun ávallt elska þig og sakna
þín svo mikið.
Þín
Kristrún Anna Óskarsdóttir.
Elsku amma Lauga, ég veit að þú
ert nú komin á góðan stað og kveð ég
þig með söknuði. Ég man svo vel eftir
því þegar ég var lítill strákur og kom
í heimsókn til þín og afa. Hvað það
var gott að vera hjá ykkur, þegar við
afi fórum saman út að keyra í holur.
Veit ég ekki hvor skemmti sér betur
ég eða afi og þegar það var rigning
var aðalfjörið að láta pollana skvett-
ast sem lengst og við skemmtum
okkur konunglega.
Þegar ég var að byrja í skóla
fannst mér alltaf best að koma til þín,
amma, og lesa og skrifa því þú hafðir
svo gott lag á því að láta þessi leið-
inlegu heimaverkefni vera skemmti-
leg. Svo var það ein jólin sem við
mamma vorum hjá ykkur og ég fékk
litla plastbílabraut í jólagjöf og hvað
við afi lékum okkur mikið með bíla-
brautina um jólin.
Minning þín hvílir í mínu hjarta
elsku amma.
Úlfar Þór Gunnarsson.
Elsku langamma, ég mun alltaf
hugsa um þá gömlu og góðu daga
sem við áttum saman. Þegar maður
kom í heimsókn til þín var manni boð-
ið upp á ís eða appelsín og alltaf var
til kaka. Oft reyndi maður að spila á
orgelið en maður verður aldrei eins
góður og þú. Ég mun ávallt hugsa um
þig og muna það hvað þú varst alltaf
góð. Þú sagðir líka alltaf að ég væri
alveg sérstakur fyrir þér.
Hvíldu í friði.
Magnús Yngvi Einarsson.
Jörðin Heylækur í Fljótshlíð er vel
í sveit sett, grösug og víðsýnt er í all-
ar áttir. Þessir kostir urðu þó ekki til
þess að fimm ára telpukorn úr
Reykjavík vildi ekki fara í bæinn aft-
ur eftir heimsókn að Heylæk. Það
var svo gaman í sveitinni. Ég fékk að
verða eftir og sú sumardvöl marg-
faldaðist og varð að tíu sumrum.
Ekki hefðu allir nennt að taka smá-
krakka inná stórt heimili en kannski
hafa þau Guðlaug og Sæmundur
hugsað að það munaði ekki um eina
stelpu í hópinn. Þau áttu barnaláni að
fagna, sjö dætur. Eina þeirra höfðu
foreldrar mínir að láni svo ég deildi í
raun systur með systrunum frá Hey-
læk og leið strax einsog einni úr
hópnum. Þar áttu stelpurnar vissu-
lega hlut að máli en ekki síst Lauga,
sem var mér alltaf einsog önnur
mamma.
Guðlaug Einarsdóttir var fædd og
uppalin í Reykjavík. Á kreppuárun-
um lá leið fólks suður en þó kom fyrir
að kaupakonurnar að sunnan yrðu
eftir í sveitinni. Guðlaug hitti ástina
sína fyrir austan, Sæmund Úlfars-
son, og sá kærleikur entist meðan
bæði lifðu. Þetta var ást af bestu sort;
gagnkvæmur húmor, væntumþykja
og umburðarlyndi. Þau hófu búskap í
Fljótsdal og þar fæddust fimm elstu
dæturnar. Það hljóta að hafa verið
mikil viðbrigði frá bernskuheimilinu
á Lindargötunni að setjast að á lítilli
jörð úr alfaraleið.
Störf sveitakvenna eru fjölbreytt
en erfið og taka aldrei enda. Orða-
sambandið „að tylla sér“ á vel við
þær. Ég man ekki eftir að Lauga
settist, hún tyllti sér, hvíldi olnbog-
ann á borðbrúninni, fleygði sér smá-
stund síðdegis þegar höfuðverkurinn
var slæmur, en ég vissi aldrei hvar
hún svaf á nóttunni. Kannski svaf
hún ekki neitt. Samt var hún alltaf
jafn léttstíg, kvik í hreyfingum og
snör í snúningum hvort heldur þurfti
að reka kýr eða vippa sér uppá koll
eftir kindabyssunni, sem var vendi-
lega falin í brúnum bréfpoka hjá
brennivíninu efst í eldhússkápnum.
Þangað sótti enginn neitt nema
Lauga. Heimurinn væri tvímæla-
laust betri ef fleiri vopn væru geymd
í hirslum kvenna. Öll verk Guðlaugar
voru samt laus við asa, þeim fylgdi ró
og festa. Og þótt búið nyti dyggrar
aðstoðar dætranna hafði ég alltaf á
tilfinningunni að kúnum liði aldrei
betur en þegar Lauga fór í fjósið.
Í Guðlaugu runnu þær í eitt,
sveitakonan og borgarstúlkan sem
alla tíð blundaði undir niðri, amma
hans Álfgríms í Brekkukoti og Aust-
urstrætisdóttirin. Þær spiluðu á org-
elið eftir að húsfreyjuamstri linnti,
dáðust að fallegri flík eða handverki,
og fylgdust vel með öllu innan fjöl-
skyldu og utan, til dæmis pólitíkinni.
Þar bar einn maður höfuð og herðar
yfir hina; einhvern tíma meðan Vig-
dís var forseti kom til tals hver gæti
tekið við af henni. Ja, ég veit hvern
ég vil sjá, sagði Lauga, Ólaf Ragnar
Grímsson. Þetta var löngu áður en
nafn hans var nefnt í almennri um-
ræðu um forsetaval.
Guðlaug Einarsdóttir var einstak-
lega hlý manneskja, glaðlynd og já-
kvæð. Kankvíst bros hennar náði
ekki bara til augnanna heldur fyllti
herbergið löngu eftir að hún gekk út,
bros sem varðveitist vel í endurminn-
ingunni. Hjá henni var gott að vera
og lán mitt að fá að dvelja hjá svona
góðu fólki öll þessi sumur á Heylæk.
Ég sendi dætrunum og fjölskyld-
um þeirra mínar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Guðrún Magnúsdóttir.
Guðlaug Einarsdóttir
Hjartkær sonur okkar, bróðir og mágur,
GUNNAR LEÓ LEOSSON
tónlistarmaður,
Þjórsárgötu 3,
Reykjavík,
lést 20. júní.
Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Innilegar þakkir sendum við þeim sem stutt hafa okkur með hlýhug og
ýmislegri aðstoð á þessum erfiðu tímamótum.
Blóm og kransar afþökkuð. Þeim sem vildu minnast hins látna er bent
á Stef, Laufásvegi 40.
Leo(nardus) J. W. Ingason, Guðrún Karlsdóttir,
Karlotta María Leosdóttir, Hugues Pons.