Morgunblaðið - 22.02.2008, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 22.02.2008, Blaðsíða 35
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. FEBRÚAR 2008 35 draumi í staðinn til að kveðja. Þú brást mér ekki frekar en fyrri dag- inn. Um nóttina heimsóttirðu mig í draumalandið og þú sagðir við mig dálítið kankvís: „Ég hefði nú ekki farið langt án þess að kveðja þig, Ragga mín.“ Í sólríku landslagi draumsins kvöddumst við með tár- um. Um morguninn vaknaði ég full- viss um að þú og Jói afi væruð loks- ins saman á ný og að ykkur liði vel. Elsku amma mín, ég sakna þín svo mikið en ég er þakklát fyrir að hafa þekkt jafn dásamlega konu og þig. Þín dótturdótturdóttir, Ragnheiður Júlía. Við Jóna höfum dvalið mestalla ævi okkar á Hverfisgötunni í Reykjavík. Þar var oft glatt á hjalla þegar við börnin lékum okkur í ýmsum leikjum sem nú heyra að mestu sögunni til, s.s. hverfa fyrir horn, fallin spýta, dönskum o.fl. Þrátt fyrir ólíkar námsleiðir hélst vinátta okkar óbreytt og eftir að við stofnuðum fjölskyldur á æskuheim- ilum okkar við Hverfisgötu hittumst við reglulega í saumaklúbb ásamt sex öðrum vinkonum og síðar á æv- inni bættist við sameiginleg leikfimi og sund sem oftast endaði í spjalli yfir kaffibolla. Jóna var sérstök kona, vel gefin, ljóðelsk, skemmtileg, gerði grín að sjálfri sér og kom öllum í gott skap. Hún var gestrisin og bóngóð, sem m.a. kom fram í eftirfarandi sögu. Eldri maður, nýfluttur í bakhús fyr- ir ofan heimili hennar, hringdi einn morgun dyrabjöllunni. Hann bað hana fyrst að líta eftir sér þar sem strákar í nágrenninu væru að hrella sig. Stuttu síðar kom hann á ný og sagðist hafa fengið augndropa hjá lækni sínum sem hann ætti erfitt með að setja sjálfur í augun. Jóna tók vel í allt þetta og kom hann til hennar á hverjum morgni í heitt kakó og smurt brauð og hún setti augndropana í augu hans. Jóna leit til með þessum manni þar til hann flutti á elliheimilið Grund en þangað heimsótti hún hann og aðstoðaði hann við að skrá endurminningar hans. Þetta er bara ein saga af mörgum slíkum er lýsa greiðvikni hennar. Jólaboð Jónu og Jóhannesar (Jóa) eiginmanns hennar eru gott dæmi um góðan jólaanda enda fjölgaði gestum stöðugt með árunum þrátt fyrir að fermetrar heimilisins væru ætíð þeir sömu. Ein jólin kom ég í vissum erindum til hennar áður en gesti bar að garði. Í ganginum var búið að setja upp borð með jóladúk, skreytingum og kveikt var á kert- um. Jóna var í eldhúsinu með rauða jólasvuntu með stórri pífu og Jói hrærði í stórum potti með súkkulaði en það var hans hlutverk á hverjum jólum. Jólatréð var á miðju gólfi með ljósin tengd í ljósastæði ofan við tréð svo allir gætu gengið óhindrað í kringum tréð og sungið jólalög. Húsbóndinn var mjög tón- elskur og átti hljóðfæri sem hann spilaði á við góð tækifæri. Þessi samsetning jólagrenis, ljósa, ilm- andi súkkulaðis ásamt samheldum hjónum snart mig svo mjög að ég hef aldrei síðan gleymt þessari fal- legu upplifun. Eftir að Jóna missti mann sinn fyrir aldur fram bjó hún um sinn áfram á Hverfisgötunni en þegar byrjað var að byggja Gulu húsin milli Lindargötu og Skúlagötu, með sameiginlegu heimili fyrir aldraða ásamt félagsmiðstöð, ákvað Jóna að flytja þangað. Þegar ég spurði hana hvort það væri ekki of snemmt að flytja svaraði hún að fólk ætti að njóta þess sem væri í boði áður en það væri of seint. Á nýja staðnum var hún í föndri, bjó til glermyndir í glugga, spilaði brids, las upp fyrir aðra, fór í ferðalög og endaði sem sýningardama. Segið svo að það sé ekki fjör á heimilum aldraðra. Jónu er sárt saknað en minningin lifir. Ég og fjölskylda mín vottum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúð. Far þú í friði, góða vinkona, sjáumst síðar. Brynja Helga Kristjánsdóttir. Í minningunni voru Jói og Jóna á Hverfisgötunni stór og fastur punktur í tilveru stórfjölskyldunnar frá Botni í Súgandafirði. Jóna sinnti þeirra góða og menningarlega heim- ili af myndarbrag. Jói stundaði sína vinnu – síðast framleiðslu Sóló-elda- véla. Þau nutu alla tíð virðingar okkar og væmtumþykju og það var sannarlega gagnkvæmt. Segja mátti að nær alltaf væri einhver heima á Hverfisgötunni. Viðkvæðið hjá Jóa var að einhver gæti komið. Til þeirra var líka gott að koma og eftirsótt. Allir alltaf vel- komnir og tekið fagnandi. Áratug- um saman mættu allir til fagnaðar hjá þeim á jóladag. Nýir ættliðir bættust við og alltaf fjölmennt, en aldrei þröngt. Slíkur andi ríkti þar og allir sáttir. Á þessum degi var líka hátíð á Ránargötunni á Flat- eyri, þegar við fengum að heyra í síma í ættingjunum í jólaboðinu á Hverfisgötunni. Kært var og er með fjölskyldum okkar. Fyrir það skal enn þakkað. Kærleiki Jónu til okkar var ekki síðri en Jóa. Foreldrum mínum og fjölskyldum mínum og systkina minna sýndu þau ástúð og umhyggju. Sjálfur naut ég sérstakr- ar velvildar þeira og gat aldrei að fullu þakkað né endurgoldið sem þó var aldrei ætlast til. Því mun ég aldrei gleyma. Jóna var sómakona. Hún var staðföst í skoðunum, fróð og skemmtileg. Hennar störf voru mest á heimilinu og þeir sem minna máttu sín og erfitt áttu nutu einnig hennar skjóls og skilnings. Þau Jói voru sömu skoðunar í þjóðfélags- málum – stundum kennd við Bröttu- götu – og studdu að framgangi þeirrar stefnu af heilum hug. Jóna var bæði greind og gáfuð. Hún var ræðin og hafði frá mörgu að segja. Aldrei var hægt að láta sér leiðast í nærveru hennar. Hún var ætíð já- kvæð og létt yfir henni. Nokkrum dögum fyrir andlátið fagnaði hún með stórfjölskyldunni á þorrablóti ættarinnar hress og kát. Færði sig að borði systkina minna og spjallaði lengi kvölds. Því miður var ég ekki þar. Hún naut kvöldsins og samver- unnar til hins ýtrasta. Jóna – sú góða kona – var alltaf eins, allt frá því við kynntumst henni sem börn. Jóna lifði langa ævi og kvaddi skyndilega. Lengst af naut hún góðrar heilsu og ætíð hamingju. Að leiðarlokum er okkur systkinum og fjölskyldum okkar efst í huga löng, góð og kærleiksrík samferð með henni, sem er nú kært kvödd, og líka Jóa sem við minnumst með virðingu og söknuði. Blessuð sé minning þeirra. Hlöðver Kjartansson. Manni finnast orð vera fremur fá- tækleg þegar kveðja á konu eins og hana ömmu mína. Einhvern veginn innst inni fannst mér eins og við fengjum að hafa hana hjá okkur alltaf og það er sárt að standa nú frammi fyrir þeim raunveruleika að svo verður víst ekki. Hún verður nú í dag lögð til hinstu hvílu frá Dóm- kirkjunni í Reykjavík. Þó ég hafi ekki dvalið jafnmikið hjá ömmu og systkini mín, sem voru með annan fótinn á heimili hennar frá því er klippt var á naflastreng- inn hjá þeim, þótti mér alltaf gaman að koma þangað í heimsókn. Amma hafði það fyrir reglu að fara í sund á hverjum degi og ég sótti það fast að fá að fara í heimsókn til hennar um helgar svo ég kæmist í sund og Lúllabúð með ömmu. Samgangur- inn hafði eitthvað minnkað í seinni tíð en ég talaði oft við hana í síma og er mér því kannski minnisstæðara en annað hversu fyndin hún var og hve skemmtilega hún sagði frá. Hvort sem það voru sögur frá lið- inni tíð eða eitthvað nýtt sem hún lenti í hafði hún einstakt lag á að láta mann skella upp úr. Hún var of- boðsleg félagsvera og eftir að hún flutti niður á Lindargötu varð fjöl- skyldan að verða henni úti um GSM-síma og kenna henni á slíkt apparat því ómögulegt varð að ná í hana fyrir félagsstarfi hvers kyns sem hún sökkti sér ofan í. Og þó hún væri lasin í fótunum og ætti erf- itt um gang síðustu árin var hún alltaf á stanslausu ferðalagi um borg og bý. Eitt árið villtist hún ein- hvern vegin inn í Gay Pride-skrúð- gönguna með göngugrindina sína og þrammaði þar fremst í flokki frá Hlemmi og alla leið niður á Lækj- artorg. Þrátt fyrir verki í hnjánum var ekki annað á henni að heyra en hún væri hæstánægð með þetta upplifelsi. Mannfjöldinn og gleðin þarna átti vel við hana og ég man ekki eftir þeim mannfagnaði innan fjölskyldunnar frá því að ég fæddist að amma væri ekki á staðnum. Allra mest gaman fannst henni þegar ættmennin fóru að syngja, þó sjálf fengist hún aldrei til þess að taka undir sökum lagleysis. Ég á eftir að sakna hennar. Ó, minning þín er minning hreinna ljóða, er minning þess, sem veit hvað tárið er. Við barm þinn greru blómstur alls þess góða. Ég bið minn guð að vaka yfir þér. (Vilhjálmur frá Skáholti.) Aldís Jóna Ásgeirsdóttir.  Fleiri minningargreinar um Aldísi Jónu Ásmundsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Miðvikudaginn 6. febrúar bárust okkur þau tíðindi að elsku litla syst- urdóttir mín, hún Indíana Íris, væri látin eftir stutt og snögg veikindi. Þá kom upp í huga minn, þegar stoltur nýbakaður faðir hringdi í okk- ur 20. apríl 2004 með þau gleðitíðindi að þú værir komin í heiminn. Ég man fyrst þegar ég sá þig með þitt fallega rauða hár, en þú varst smækkuð mynd af pabba þínum. Í ágúst árið eftir hringdi svo pabbi þinn aftur og tilkynnti okkur að lítill drengur væri fæddur, litli bróðir þinn. Hvað þú varst stolt af því að vera orðin stóra systir, þú þurftir að draga alla sem komu í heimsókn inn í herbergi til að sjá hvað hann væri fal- legur. Mikið varstu dugleg að hjálpa að hjálpa mömmu og pabba að passa litla bróður. Þú varst alveg ekta stóra systir. Mikið eigum við eftir að sakna þín þegar við komum í hvíta húsið (en það kallaðirðu húsið ykkar) að sjá þig ekki skoppa um allt eins og lítið fallegt rauðhært fiðrildi eins og þú ert í huga okkar. Mikið varstu dugleg þriggja Indíana Íris Brynjólfsdóttir ✝ Indíana ÍrisBrynjólfsdóttir fæddist á Akureyri 20. apríl 2004. Hún lést úr bráðahvít- blæði í Reykjavík 6. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Jóhanna Kristín Birgisdóttir f. 30. janúar 1962 og Brynjólfur Haralds- son f. 9. febrúar 1960. Systkini Ind- íönu eru Haraldur, f. 2. ágúst 2005 og sammæðra þríburarnir Birgitta Elín, Hanna María og Fannar Hólm, fædd 29. júní 1985. Útför Indíönu fer fram frá Ak- ureyrarkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 10.30. ára snót. Þú kunnir alla litina, tölustafina og stafina. Mikið þótti þér gaman að teikna og púsla. Enda þótti okk- ur gaman að fylgjast með þér. Veit ég fyrir víst að langamma og amma munu taka vel á móti þér og passa þig fyrir mömmu þína og pabba Mamma, ekki gráta mig, ég veit þú saknar mín. Mig langar að vera hjá þér og þerra tárin þín. Ég fékk aldrei að sjá þig og blíðu brosin þín, Guð vantaði lítinn engil og kallaði mig til sín. Segðu pabba að ég elsk’ann því pabbi á líka bágt, faðmaðu hann fyrir mig og hvíslaðu ofur- lágt. Segð’onum frá stjörnunni sem á himnum skærast skín, kennd’onum að þekkja hana því hún er stjarnan mín. Núna áttu lítinn engil sem vakir yfir þér, ég passa líka pabba, segðu honum það frá mér. Það eru hér svo margir sem þykir vænt um mig, fjöldi fallegra engla sem gæta mín fyrir þig. Tendraðu lítið kertaljós til að lýsa þér til mín láttu á leiðið mitt hvíta rós, það læknar sárin þín. Þegar sorgarinnar skuggi dvín, þá muntu minnast mín og tár þín verða gleðitár því ég verð ávallt þín. (Höf. ók.) Með þessum fátæklegu orðum kveð ég litlu systurdóttur mína og þakka henni fyrir yndisleg kynni á hennar stuttu ævi. Elsku Hanna, Binni, Birgitta, Hanna María, Fannar, Haraldur og aðrir ástvinir, guð gefi ykkur styrk í þessari miklu sorg. Og megi minning- in um Indíönu Írisi lifa í hjörtum okk- ar allra. Guðbjörg frænka og fjölskylda. „Hvernig getur maður dáið þegar maður er bara þriggja ára,“ sögðu börnin okkar og grétu sárt. Hverju er svo sem hægt að svara þeim? Litla frænkan hún Indiana Iris hafði látist fyrr um kvöldið eftir skammvinn veikindi. Frænkan sem labbaði stolt um meðal frændsystkina sinna á fimmtíu ára brúðkaupsafmæli afa og ömmu á Kirkjusandinum aðeins þremur mánuðum áður. Þetta gátu þau ekki skilið og það er lítil huggun í þeim orðum að svona sé gangur lífs- ins. Það er ekki venjan að þeir yngstu fari fyrst. En huggunin fólst í trúnni á að fyrir handan bíði betri heimur þar sem allt er gott. Ljúfar minningar um litla snót ylja í sorginni. Hún var falleg með rauða hárið sitt og alltaf svo fín, ákveðin og dugleg. Tók til morgunmat handa Imbu frænku og frændum sínum þeg- ar þau komu í heimsókn. Raðaði disk- um og morgunkornspökkum á borðið. Sigurbjörgu ömmu og Halla afa þótti mjög vænt um það þegar In- diana talaði við þau í símann því hún átti heima á Akureyri svo að ekki gáf- ust eins mörg tækifæri til að hitta hana og þau vildu. Það er engin leið fyrir þann sem ekki hefur reynt að skilja hversu djúpstæð sorg foreldra er sem misst hafa barn sitt. Huggunarorðin megna lítils til að sefa sorgina. Reynum þó af veikum mætti að setja hér fram bænina þekktu og ljóð eftir Davíð Stefánsson. Legg ég nú bæði líf og önd, ljúfi Jesús í þína hönd, síðast þegar ég sofna fer sitji Guðs englar yfir mér. (Hallgrímur Pétursson.) Skært geta leiftrin logað. Liðin og myrkvuð ár birtast í blárri móðu sem bros í gegnum tár. Bak við heilaga harma er himinninn alltaf blár. (Davíð Stefánsson.) Elsku Binni, Jóhanna og systkini, við vildum eiga orð sem sefa sorgir. Munið samt að á bak við skýin er allt- af sól. Amma og afi Kirkjusandi, föðursystkini og fjölskyldur. Það voru sárar fréttir sem við feng- um að kvöldi öskudagsins 6. febrúar. Indiana litla hafði kvatt þennan heim svo snöggt. Þetta hrausta og glaðlega stelpuskott var farið án nokkurs fyr- irboða. Þú sem ætlaðir að vera prins- essa með vængi þennan örlagaríka öskudag. Þó að ævi þín hafi ekki verið löng þá markaðir þú spor þín í hjörtu okk- ar og þar verða þau geymd um ókomna tíð. Mikil var gleði foreldranna þegar rauðhærði gullmolinn kom í heiminn og leyndi sér ekki hversu velkomin þú varst og stolt þeirra mikið. Alltaf var gestkvæmt á heimili þínu í Lyngholtinu og ævinlega fagnaðir þú komu gestanna og vorum við þar engin undantekning. Aldrei mátti fara án þess að fá kveðjukoss frá þér. Þá var líka heimsókn lokið af þinni hálfu og ekki vel séð að gestir ílengd- ust eftir það. Þó kallaðir þú á eftir okkur „Komdu fljótt aftur í hvíta hús- ið“ eins og þú kallaðir heimili þitt. Þú varst ljúft og þægilegt barn en hafðir ákveðnar skoðanir á flestum hlutum. Það fór ekki framhjá neinum hversu vel þú varst af Guði gerð, bráðgreind með sposkan svip innrammaðan í rauða fallega hárið þitt. Mikið varstu stolt þegar þú eign- aðist litla bróður þinn fyrir rúmum tveimur árum. Þú tókst hlutverk þitt mjög alvarlega sem stóra systir og varst dugleg að passa upp á Halla litla jafnframt því sem þú reyndir að hemja prakkarann í honum. Oftast lékuð þið ykkur þó saman í sátt og samlyndi. Svo varstu þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þrjú eldri systkini, Fannar, Birgittu og Hönnu Maju sem þú elsk- aðir að vera í samvistum við. Þrátt fyrir 19 ára aldursmun var samband ykkar náið. Elsku Indiana, þín verður sárt saknað af öllum sem kynntust þér. Við erum vissar um að núna sért þú prinsessa með vængi á himnum um- vafin ást og hlýju þeirra sem þar biðu þín. Litla vinkona, þú auðgaðir líf okk- ar þann stutta tíma sem þú varst hjá okkur. Guð varðveiti þig. Elsku Hanna, Binni, Halli, Fannar, Birgitta og Hanna Maja, Guð styrki ykkur í ykkar miklu sorg. Ég fel í forsjá þína, Guð faðir, sálu mína því nú er komin nótt. Um ljósið lát mig dreyma og ljúfa engla geyma öll börnin þín svo blundi rótt. (Matthías Jochumsson.) Sóley og Guðrún. Gleðin var mikil er þú varðst til, svo mikil að himinninn skartaði sínum fegursta regnboga í regnvotum geislum sólarinnar. Ég mun alltaf muna þessa sögu á bakvið nafnið þitt Indíana Iris, muna hamingju foreldra þinna og stóru systkina yfir tilvist þinni, já og stór- fjölskyldunnar allrar. Þú varst falleg, sterk og svo sann- arlega litríkur sólargeisli. Með brosi man ég sögurnar sem pabbi þinn sagði af þér, hversu sterk- ur karakter þú varst, alveg frá upp- hafi. Sorg. 4 stafa orð. Lítið orð með stóra merkingu, lítið orð sem geymir svo mikið: tilfinningar, minningar, hugsanir, missi, depurð, söknuð en einnig gleði. Ég gleymi aldrei regnbogasögunni hennar Indíönu Irisar og ég mun allt- af muna þig, elsku litla frænka mín. Ég vildi að ég ætti til orð sem sefa sorgir, en ég á engin svo ég fæ að láni orð Kahlil Gibran : „Sorgin er gríma gleðinnar. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“ (Kahlil Gibran, Spámaðurinn) Elsku Binni, Hanna og þið systk- inin Fannar, Birgitta, Hanna og Har- aldur litli, hugsanir mínar eru hjá ykkur. Njóttu þín, litla frænka, þar sem þú ert. Þín, Sóley.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.