Morgunblaðið - 11.03.2008, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 11.03.2008, Blaðsíða 6
6 ÞRIÐJUDAGUR 11. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR „VATN? Eða áfengi kannski?“ spyr Spasskí og lítur á Friðrik. „Til að tefla betur?“ spyr Friðrik fullur efasemda. Gömlu stórmeistararnir eru mættir, Spasskí og Lombardy láta sér nægja að sitja á hliðarlínunni, en að skákborði setjast Friðrik, Benkó, Hort og Portisch. Nú er að hefjast „afakeppnin“, sem Spasskí nefnir svo, og hann mælir varnaðarorð til sinna gömlu félaga: „Varist skák, en þó umfram allt mát.“ Hildur Berglind, átta ára, leikur fyrsta leikinn fyrir Friðrik. Hann brosir til hennar og segir: „Þú ræð- ur.“ Og hún leikur fumlaust kóngs- peðinu fram, e2-e4. Hins vegar gerist ekkert þegar ýtt er á klukkuna, afarnir líta áhyggjufullir hver á annan, Friðrik setur upp gleraugun og rýnir í vís- ana á úrverkinu. Svona er framþró- un tækninnar. Loks tekst þeim að hreyfa tímann úr stað. Og það er sem áhorfendur hverfi aftur til síðari hluta tuttugustu aldar. Samræðurnar eru með gáfuleg- asta móti í mötuneyti Ráðhússins, þéttsetnu af skákáhugamönnum. Tveir aldnir skákmeistarar, Lomb- ardy og Spasskí, tíundi heimsmeist- arinn, lýsa orrahríð á skákborðinu, sem minnir helst á sviptingarnar í borgarstjórn undanfarna mánuði. „Skákin er rómantísk,“ segir Lombardy engu að síður og leggur höndina á brjóstið. „Samband hugar og hjarta – af því ræðst karakter taflmennskunnar.“ Eitt afbrigði skákarinnar er kennt þessum rómantíska skákmeistara, en hann segist sá eini sem teflir það: „Ég hef teflt það tuttugu sinnum og aðeins tapað einni skák. Þá var ég vankaður eftir bílslys fyrr um dag- inn. Þetta var á ólympíuskákmótinu í Munchen 1958 og ég lét næstum líf- ið. Sem betur fer ók ég Chrysler Zedan, sem er byggður eins og skriðdreki. Ég rakst á flutningabíl. Ef ég hefði verið á plastvagni, eins og bílarnir á götunum eru núna, þá hefði allt þurrkast út.“ Á bindi Lombardys eru skákborð. Þannig var að gamall lögfræðingur og skákáhugamaður, Louie Wolf, snæddi hádegisverð með skákmeist- aranum Capablanca árið 1909, náði 99 ára aldri og kom færandi hendi til skákmeistarans Jack Collins með ís á hverjum þriðjudegi. „Þar biðum við Fischer einn daginn til að hitta hann,“ segir Lombardy. „Hann vissi af okkur og færði okkur báðum bindi. Þetta var fyrir 50 árum og Fischer fór því að ganga með bindi sextán ára.“ Þetta er í síðasta sinn sem Lomb- ardy gengur með bindið, því hann ætlar að gefa það skáksetri, sem helgað verður Bobby Fischer og Friðriki Ólafssyni. Spasskí er með svört sólgleraugu, en óvíst að hann gefi þau til safnsins, því þá þyrfti hann að taka þau af nef- inu. Enn er tæknin að stríða gömlu meisturunum, nú í mötuneytinu, ekkert hreyfist á tjaldinu og þegar Spasskí bregður sér frá grípur Lombardy tækifærið, sýnilega farið að leiðast þófið: „Á ég að sýna ykkur skák sem ég tefldi?“ Það leiðist honum ekki. Hann skýrir skák sína gegn einum efnilegasta skákmanni Þýskalands í þá daga. Skák verður einfalt fyr- irbæri í löngu og myndríku máli Lombardys, sem var einn af læri- meisturum Fischers, og hann notar jafnvel hagfræði til að varpa ljósi á leikina. Er skyndilega farinn að tala um 122% vexti á bankareikningum í Þýskalandi. Spasskí sest aftur og drekkur úr kaffibolla Lombardys, sem fer að spyrja hann hvort hinn og þessi skákmeistari hafi verið í KGB. „Ég man þegar ég hitti Bobby fyrst, þá sagði hann að allir sovéskir skák- menn væru foringjar í KGB!“ segir Spasskí og hlær. „Foringjar! Svo þegar ég bauð honum út að borða, þá leit hann á mig og sagði: „Yeah.““ Skák Friðriks og Benkós er kom- in á tjaldið. Lombardy hugsar nokkra leiki fram í tímann fyrir hvítan og klykkir út með: „Þessi flétta lítur vel út, ef svartur leikur ekkert á meðan.“ Spasskí gengur aftur út úr saln- um. „Lombardy kjaftaði hann út,“ hvíslar úlpuklæddur skák- áhugamaður við hlið blaðamanns. Skyndilega hverfur skákin af tjaldinu og skák Lajos Portisch og Hort ratar þangað upp. „Var þetta jafntefli?“ spyr Lomb- ardy ráðvilltur. „Nei, Spasskí fannst þetta leið- inleg skák,“ kallar gamall þing- forseti. Spasskí sest aftur. Hort leikur hróknum og Spasskí segir um leið: „Dæmigerður afaleikur.“ En Hort lendir í miklu tímahraki, á aðeins átta sekúndur eftir, en fimm sekúndur bætast við þegar ýtt er á klukkuna og hann nær af snarræði að komast hjá því að falla. „Ojojojoj,“ stynur Spasskí þegar hann horfir á Portisch leika. „Lék hann svona?“ spyr Lomb- ardy undrandi. „Lajos!“ hrópar Spasskí. „Guð minn góður!“ kallar Lomb- ardy. Svo fara leikar að Hort nær jafn- tefli, eftir að hafa verið skiptamun undir. Spasskí grípur um höfuðið á sér og hleypur út: „Ojojojojoj …“ Það kjaftar á Spasskí og Lomb- ardy hver tuska og í raun eru þeir ekki ólíkir gömlu körlunum á svöl- unum í Prúðuleikurunum í látbragði sínu. „Þeir geta kjaftað, þessir gæjar, segir sá úlpuklæddi. „Sessunautur þinn kemst ekki í hálfkvisti við þá.“ „Hvað sagði hann,“ spyr gamli þingforsetinn. Á milli skáka ræða Spasskí og Lombardy saman. „Veistu af hverju ég hætti að tefla?“ spyr Spasskí og bíður ekki svars. „Metnaðurinn var horfinn. Af því að ég fann til sam- úðar með andstæðingnum ef hann tapaði – ég hafði enga löngun til að vinna lengur.“ Svo hefst skákin. Nú teflir Friðrik við Lajos Port- isch og leikur drottningu á c8. „Hann er mjög hógvær maður,“ segir Spasskí. Portisch leikur hrók á g1. „Ojojojoj,“ segir Spasskí. Friðrik hrókerar. „Hann er mjög hógvær maður,“ endurtekur Spasskí. Svo hættir honum að lítast á blik- una. „Lajos! Varaðu þig!“ Og bætir við: „Friðrik! Mér líkar Friðrik núna. Í þessari skák er La- jos sofandi.“ En þá leikur Friðrik af sér peði. „Svona fer um kenningasmiði eins og okkur,“ segir Lombardy uppgef- inn. „Við getum rausað hér, en svo tapast allar atskákir vegna afleikja.“ Þá vinnur Friðrik peðið aftur. „Lajooooos!“ hrópar Spasskí. Innan um áhorfendurna eru kunn- ugleg andlit gamalkunnra íslenskra stórmeistara, sem verða aftur eins og unglingar er þeir fylgjast með lærifeðrunum. Jóhann Hjartarson segist hafa lært mikið af Portisch. „Við tefldum nokkrum sinnum og hann grísaði alltaf af mér mann,“ játar hann. „En Friðrik hafði gott tak á hon- um og grísaði alltaf af honum mann.“ Helgi Ólafsson horfir yfir salinn og segir við blaðamanni: „Hún trekkir ennþá gamla Frið- rikskynslóðin. Það er sjarmi yfir henni.“ Skákin og rómantíkin Sex rómaðir skákmeist- arar settu svip á Reykjavíkurskákmótið í gær. Pétur Blöndal fylgdist með gömlu hetjunum og tilþrifum þeirra. Morgunblaðið/Ómar Efnileg Hildur Berglind, átta ára, fann fyrsta leikinn fyrir Friðrik Ólafsson í skák hans gegn Hort. Spekingar Lombardy, Guðfríður Lilja, forseti Skáksambandsins, og Boris Spasskí velta fyrir sér möguleikum á skákborðinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.