Morgunblaðið - 03.04.2008, Qupperneq 29
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. APRÍL 2008 29
✝ Erla Ágústs-dóttir fæddist í
Reykjavík 21. júlí
1932. Hún lést á
hjúkrunarheimilinu
Skógarbæ í Reykja-
vík að kvöldi skír-
dags 20. mars síðast-
liðins. Erla var yngst
fjögurra systkina.
Foreldrar hennar
voru hjónin Ágúst
Markússon vegg-
fóðrarameistari, f.
1891, d. 1965, og
Guðrún Guðmunds-
dóttir, f. 1893, d. 1947. Systkini
Erlu eru: Hörður, f. 1922, d. 2005;
Kristín, húsfrú í Washington, f.
1923, d. 2001; og Jóhann, fv. að-
stoðarbankastjóri, f. 1930.
Erla lauk námi frá Kvennaskól-
anum í Reykjavík 1950, vann á
bæjarskrifstofunni í Reykjavík frá
1952, hóf störf sem flugfreyja hjá
Loftleiðum vorið 1956 og sinnti því
starfi til ársins 1982. Auk þess var
hún kennari á flug-
freyjunámskeiðum
frá 1962 allt fram til
1998, og var eftirlits-
freyja frá 1970-1982.
Hún var formaður
Flugfreyjufélagsins
1959-60 og sat í
samninganefnd fé-
lagsins frá 1960 til
1966, þegar flug-
freyjur fóru í sitt
fyrsta verkfall.
Starfaði hjá Flug-
leiðum eftir samein-
ingu Loftleiða og
Flugfélags Íslands árið 1973. Hafði
yfirumsjón með pílagrímaflugi í
Nígeríu 1976 og Indónesíu 1978.
Eftir að hún hætti að fljúga fór
hún yfir í áhafnaskrána og starfaði
þar óslitið, auk þess að sinna
kennslu- og öryggismálum, þar til
hún lét af störfum 21. júlí 2001.
Útför Erlu fer fram frá Dóm-
kirkjunni í Reykjavík í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.
Mágkona mín og vinkona Erla
Ágústsdóttir lést fimmtudaginn 20
mars.
Margs er að minnast eftir nær 60
ára vinskap. Ég var aðeins 16 ára þeg-
ar ég kynntist fjölskyldunni á
Frakkastíg 9, Jóhanni, Erlu, Ágústi
föður þeirra og Ásu systur hans en
Guðrún móðir Erlu og Jóhanns var þá
látin. Kristín systir Erlu og Hörður
bróðir hennar voru þá flutt að heiman.
Erla sá um heimili föður síns þar til
hann lést árið l965. Alla tíð var mjög
gott samband á milli feðginanna.
Kristín, systir Erlu, bjó í Bandaríkj-
unum ásamt fjölskyldu sinni. Heimili
Kristínar var sem annað heimili Erlu,
sérstaklega eftir að faðir hennar lést.
Erla útskrifaðist úr Kvennaskóla
Reykjavíkur árið l950. Hún mat skól-
ann og skólasystur sínar mikils og
vinskapur við þær hélst alla tíð.
Árið 1956 hóf Erla störf hjá Loft-
leiðum. Flugfreyjustarfið átti mjög
vel við hana og gegndi hún mörgum
ábyrgðarstörfum innan félagsins, var
eftirlitsflugfreyja, kenndi tilvonandi
flugfreyjum, var um tíma formaður
flugfreyjufélagsins, sat í samninga-
nefnd fyrir þeirra hönd o.fl.
Haft var eftir henni í bókinni Dagur
við ský eftir Jónínu Mikaelsdóttur:
„þó að flugið og ferðalögin hafi heillað
á yngri árum og geri enn er mannlegi
þátturinn, vináttan og virðingin sem
gerir mér þetta fyrirtæki jafn kært og
raun ber vitni. Þar er taugin sem
tengir mig við upphafið og eftir henni
berast enn í dag leifar frá liðnu vori“.
Þetta voru orð að sönnu því þó hún
síðastliðið ár væri orðin mjög veik
kom sælusvipur á hana þegar minnst
var á flugið og þessa tíma. Þegar Erla
hætti sem flugfreyja bauðst henni
starf á skrifstofu Flugleiða.
Erla var afskaplega barngóð og
nutu börnin okkar Jóhanns þess.
Mjög oft gætti hún þeirra, bæði lengri
og skemmri tíma, hún var mjög greið-
vikin og ef til vill notaði maður það sér
of oft, þó veit ég að hún naut þess að
gera öðrum greiða. Síðast og ekki síst
ber að þakka glæsileg jóla- og ár-
mótaboð sem Erla hélt fyrir alla fjöl-
skylduna, þau eru okkur öllum
ógleymanleg.
Með þakklæti í huga kveð ég vin-
konu mína.
Svala Magnúsdóttir.
Komið er að leiðarlokum hjá föð-
ursystur minni, Erlu Ágústsdóttur.
Seinni hluta ævinnar hefur Erla
marga fjöruna sopið hvað heilsufar
snertir. Af æðruleysi tókst hún ávallt
á við veikindi sín og hafði jafnan sigur.
Fyrir nokkrum misserum varð þó
ljóst að tekið hafði sér bólfestu sjúk-
dómur sem ekki verður sigrast á.
Þykist ég viss um að undir lokin hafi
hún verið orðin sátt við að kveðja
þennan heim. Engu að síður er sárt að
horfa á eftir ættingja sem hefur verið
manni nákominn alla tíð og minning-
arnar hrannast upp.
Erla var yngst systkinanna fjög-
urra. Þau misstu móður sína ung og
það kom í hennar hlut þegar fram liðu
stundir að halda heimili fyrir afa
Ágúst, fyrst á Frakkastíg 9 og síðan í
Grænuhlíð 12. Frá því ég fyrst man
eftir mér starfaði hún sem flugfreyja
hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum.
Á þeim árum var mikill ævintýraljómi
yfir fluginu. Mér þótti mikil upphefð í
að eiga fyrir frænku flugfreyju sem
flaug reglulega heimsálfa á milli. Á
æskuárum mínum gat flugfólkið
nefnilega borið heim ýmsan varning
frá útlöndum sem ekki var fáanlegur
hér heima eftir hefðbundnum leiðum.
Því fylgdi ávallt mikil eftirvænting að
fara í heimsókn til Erlu frænku. Hún
var alltaf svo hress og hafði gaman af
að gantast við okkur krakkana og svo
gaukaði hún auðvitað að okkur dálitlu
af útlensku nammi.
Erla var á einhvern sérstakan hátt
fastur punktur í tilverunni. Það var
eins og tíminn stæði í stað í kringum
Erlu. Heimilið hennar tók nánast
engum breytingum frá því ég man
fyrst eftir því. Herbergið hans afa er
nákvæmlega eins og það var þegar
hann kvaddi þennan heim fyrir rúm-
um 40 árum. Meira að segja leikföng-
in sem ég lék mér með eru þarna enn
á sínum stað. Þótt árin færðust yfir
Erlu eins og aðra þá var hún samt
alltaf eins, talaði og hegðaði sér eins.
Lék sér og sló á létta strengi við börn-
in mín eins og hún hafði gert við mig.
Hún eignaðist ekki sjálf börn en var
að eðlisfari góður uppalandi og lét sér
mjög annt um börn sinna nánustu.
Erlu var umhugað um að halda
ættingjunum og vinum saman. Minn-
isstæð eru jóla- og gamlaársboðin
sem hún hélt í Grænuhlíðinni. Veislu-
borðin svignuðu undan framandleg-
um matarréttum en hráefnið var ekki
allt fengið úr hefðbundinni íslenskri
búð í þá daga. Þegar fram liðu stundir
varð, eins og gengur, heldur minni
samgangur milli ættingjanna en Erla
hélt ávallt góðu sambandi. Hún fylgd-
ist vel með öllum og í gegnum hana
var maður vel upplýstur um gang
mála hjá öðrum í ættinni.
Erla var mjög heilsteypt mann-
eskja, heiðarleg, sanngjörn og hrein-
skiptin. Ég og fjölskylda mín kveðj-
um Erlu frænku með söknuði.
Magnús Valur Jóhannsson.
Fyrsta minning mín um Erlu
frænku, eins og hún var alltaf kölluð,
er frá upphafi sjöunda áratugarins.
Þá er hún að taka leirtau upp úr kassa
í eldhúsinu í Grænuhlíð 12, þangað
sem þau fluttu, hún og Ágúst Mark-
ússon, faðir hennar og afi minn, um
1960, og hlær sínum dillandi hlátri
dulítið stríðin í bland. Síðan er það
Erla í blágrænu sixties kápunni að
koma í heimsókn á Laugaveginn til
okkar og taka mig í tíma í „manicure“
með nýja naglasnyrtingasettinu.
Skellirnir á borðstofuborðinu þegar
þau spiluðu vist hún, afi, pabbi minn
og Ása frænka. Lautarferðirnar inn í
Bolabás í ágústmánuði á afmæli afa,
sem Erla skipulagði og lagði til Mac-
intosh-sælgæti og fleira sem hún
hafði með frá Ameríku. Erla Kristín
og ég í gistingu hjá Erlu 9 ára gamlar
með uppblásnar hárþurrkur í amer-
ískum nælonsloppum.
Fyrir okkur krakkana hennar, sem
við vorum öll, bræðra- og systrabörn-
in og einnig börn vinkvenna hennar,
var hún alger perla. Alltaf mátti fá
kók hjá Erlu og jafnvel sleikjó með
útlensku bragði. Myndir af þeim öll-
um prýða skrifborðið inni í afaher-
bergi eins og það var alltaf kallað.
Síðar meir jóla- og áramótapartíin
hennar Erlu þar sem var kalkúnn á
borðum og útlensk skinka og maís-
mauk. Fastur liður að ráða mynda-
gátuna í Morgunblaðinu. Og þegar
maður hafði aldur til var manni boðið
upp á vermút í tilheyrandi iitala-glös-
um.
Hún mundi alla afmælisdagana
okkar, mætti alltaf með pakka, og
seinna í fermingar og brúðkaup og
aldrei var gert upp á milli, allir fengu
jafnt. Erlugjafir voru alltaf teknar
upp fyrstar á jólunum, fyrir matinn,
til að slá aðeins á jólaspennuna. Og
börnunum okkar sinnti hún jafnvel,
með sömu ræktarseminni, og tók
þeim öllum eins og hún ætti þau öll
sjálf. Erla var bara þannig mann-
eskja, hún tók öllum, börnum sem
fullorðnum, vel, var blátt áfram, sagði
sínar skoðanir, en sló svo öllu upp í
grín og þá var oft grátið úr hlátri.
Við eyddum saman sjötugsafmæl-
isdeginum hennar, 21. júlí 2002, sem
bar upp á sunnudag, saman í Reykja-
vík. Fórum í menningarreisu í rign-
ingunni og enduðum á eina kaffihús-
inu þar sem mátti reykja.
Hún heimsótti mig til Vínarborgar
fyrir nokkrum árum og þá voru rifjuð
upp Evrópuferð hennar og Erlu Ein-
ars, góðrar vinkonu á sjötta áratugn-
um, þær báðar rétt tvítugar og þótti
nokkuð djarft á þeim árum. En þær
redduðu sér, þessar konur, sjálfstæð-
ar og óháðar. Þannig var það með
Erlu alla tíð. Æðrulaus tókst hún á
við brjóstakrabbamein og fleiri veik-
indi sem á henni dundu þar til minnið
fór að bresta og hún var ekki lengur
hún sjálf, stjórnaði ekki sínu eigin lífi.
Þá gat hún ekki meir, vildi ekki meir.
Takk fyrir allt, Erla, við gleymum
þér ekki.
Steinunn Harðardóttir.
Í dag kveðjum við elskulega
frænku mína, Erlu Ágústsdóttur, í
hinsta sinn. Við stund sem þessa fara
ótal minningar um hugann. Eitt það
fyrsta sem kemur upp í hugann eru
flugfreyjuleikirnir mínir heima hjá
Erlu. Sem lítil stelpa fékk ég að
klæða mig í flottu flugfreyjubún-
ingana hennar, setja á mig hárkolluna
hennar og flottan flugfreyjuhatt.
Þessir búningar voru í öllum litum og
gerðum. Þannig ferðaðist ég um allan
heim. Ég ætlaði sko að verða flug-
freyja þegar ég yrði stór! Alveg eins
og mín uppáhaldsfrænka.
Í mörg ár fórum við á vorin saman í
fjöruferð. Þá keyrðum við á Lödunni
hennar suður með sjó, tókum með
okkur nesti, gengum fjörur og söfn-
uðum skeljum og fallegum glerbrot-
um sem sjórinn hafði unnið á í langan
tíma. Þetta var fastur punktur í til-
verunni í mörg ár, eða þar til að gelgj-
an tók við hjá manni geri ég ráð fyrir.
Þegar ég var 12 eða 13 ára bauð Erla
mér í ógleymanlega ferð til Banda-
ríkjanna að heimsækja Diddý systur
hennar. Erla var vön að fara þangað
nokkrum sinnum á ári og í þetta sinn
var ég svo heppin að fá að fara með.
Þetta var frábær ferð og ómetanlegt
tækifæri til að kynnast betur frænd-
fólkinu sem bjó hinum megin Atlants-
hafsins.
Erla var einstaklega mikil barna-
gæla og því sorglegt að hún skyldi
ekki hafa eignast börn sjálf. Hún
hugsaði um börn systkina sinna og
þeirra barna af einskærri vinsemd og
alúð á sinn óeigingjarna hátt. Hún var
kona sem átti auðvelt með að gefa
öðrum mikla væntumþykju og síðast
en ekki síst alltaf stórt knús. Ég er
þakklát fyrir að hafa átt öll þessi ár
með Erlu og þakka einnig fyrir að
börnin mín skuli hafa fengið tækifæri
til að kynnast henni.
Hvíl í friði.
Sólveig Jóhannsdóttir.
Þegar horft er yfir litróf minning-
anna um Erlu frænku er margt að
staldra við.
Það leikur sólskin um minninga-
brotin úr Grænuhlíðinni. Heimili
Erlu var spennandi staður fyrir börn.
Dótið í skápnum í norðurherberginu
og framandi nammi í skálum í stof-
unni. Albúmin frá flugfreyjuárunum
hrifu dreymandi stúlku með á fjar-
lægari slóðir en nokkur von var til að
hún kæmist sjálf á, þótt hún yrði stór.
Í albúmunum var gleðin greinilega
við völd hjá Erlu og samferðafólki
hennar, hún var virkur hluti af Loft-
leiðaandanum góða sem orð er haft á
hjá þeim sem til þekkja. Henni var
glaðlyndið eðlislægt, engin tilgerð
þar. Hún gat líka verið hvöss þegar á
þurfti að halda og stóð á sínu.
Gamlárskvöld og nýársnætur hjá
Erlu eru ógleymanleg. Fjölskylda,
vinir, allar kynslóðir saman, jafn
ánægðar í gleðskapnum, áramót eftir
áramót. Nóg að bíta og brenna, fast
og fljótandi. Sprengjugleði í garðin-
um og stöðugt rennerí af fólki var
krydd í stemninguna.
Gjafmildi Erlu var ríkur þáttur í
fari hennar. Mér fannst hún alltaf
vera að gefa mér eitthvað, hvort sem
var eitthvert smáræði sem mér þótti
til um eða stóru, fallega innpökkuðu
jóla- og afmælisgjafirnar.
Gjafmildin fólst líka í að gefa fólki
að borða, hvort sem var í veislum eða
hversdags. Og að vera það sem hún
var og taka alltaf svo vel á móti.
Myndin sem kemur upp í hugann er
brosandi Erla sem er um það bil að
fara að knúsa mann.
Ófáar hremmingar, sjúkdómar af
ýmsum toga, sumir illkynja, dundu
yfir Erlu á seinni hluta ævi hennar en
af óskiljanlegu æðruleysi stóð hún
ávallt upp og horfði bjartsýnum aug-
um fram á veginn. Hún lifði að fylgj-
ast með börnum systkinabarna sinna
vaxa úr grasi og barnabörnum vin-
kvenna. Það er stór hópur sem hún
átti hlut í, var nokkurs konar spari-
amma þessara barna.
Heilabilun með hröðum framgangi
tók Erluna sem við þekktum frá okk-
ur fyrir nokkru. Nú hefur hún kvatt
fyrir fullt og allt og er lögð af stað í
sína hinstu för um ókunnar víddir. Ef
til vill er þar umhorfs líkt og við sól-
arupprás ofar skýjum í 33 þúsund
feta hæð.
Ég vil þakka Erlu fyrir mig og
mína. Guð blessi minningu hennar.
Guðrún Harðardóttir.
Mínar fyrstu minningar um Erlu
eru frá sjö ára aldri þegar hún eyddi
sumarfríinu sínu með okkur í Aþenu.
Við tókum á móti henni á flugvellin-
um og ég man enn hvað hún var
glæsileg. Í augum lítillar stelpu var
hún stórglæsileg. Hún faðmaði okkur
öll á flugvellinum eins og við værum
gamlir vinir hennar. Þetta sumar var
upphafið að löngum vinskap við
frænku mína. Við eyddum sumrinu í
að skoða ferðamannastaði, liggja á
ströndinni, læra gríska dansa og út-
reiðartúra á ösnum. Ég man enn hlát-
urinn hennar þegar hún sat asnana
ásamt Jim. Þetta var ógleymanlegt
sumar.
Þegar við fluttum til Bandaríkj-
anna var heimili okkar oft sá staður
sem hún kom til að hvíla sig og ná
kröftum. Hún kenndi mér 13 ára
gamalli að krulla hár mitt, hún kenndi
mér að dansa og deildi áhuga mínum
á bókum. Fyrir ungling sem fannst
lífið ekki alltaf vera réttlátt var ómet-
anlegt að hafa Erlu því hún átti svo
gott með að hlusta á unglingavanda-
málin og gefa góð ráð. Ég mun ávallt
minnast Erlu með mikilli væntum-
þykju.
Karin Cannaday.
Nú er hún Erla Ágústsdóttir, félagi
okkar í Svölunum, félagi núverandi
og fyrrverandi flugfreyja, farin yfir
móðuna miklu. Hún mun þó aldrei
fara alveg frá okkur því að minningin
um hana mun lifa með okkur um
ókomin ár, hennar sterka mynd mun
seint gleymast.
Erla sá í mörg ár um þjálfun á okk-
ur flugfreyjunum, einnig eftir að hún
hætti sjálf að fljúga. Þar naut hún sín
vel enda var það henni eðlilegt að vita
hvað átti að gera hverju sinni. Hún
var mjög ábyggileg í starfi sínu og var
okkur hinum ávallt góð fyrirmynd og
ekki síst styrkur þegar á þurfti að
halda. Hún átti auðvelt með að um-
gangast fólk og einnig að leysa hvers
kyns vanda sem upp kom. Því var það
við hæfi að hún tæki að sér að kenna
okkur hinum hvernig hægt væri að
leysa málin við þær ótrúlegu aðstæð-
ur sem flugfreyjur lenda oft í við starf
sitt.
Ég kynntist Erlu þegar sameining
Flugfélags Íslands og Loftleiða átti
sér stað. Hún var þá eftirlitsflug-
freyja Loftleiða en ég hafði verið flug-
freyja hjá Flugfélagi Íslands. Heppni
mín fólst í því að hún hafði unnið með
manninum mínum hjá Loftleiðum og
þegar hann bað hana um að passa mig
í stórborgum Bandaríkjanna þá tók
hún það svo bókstaflega að hún var
með mér í öllum mínum fyrstu ferð-
um. Hún kynnti mig fyrir Ameríku og
öllu því sem hún hefur upp á að bjóða.
Það sem Erla tók að sér gerði hún
eins vel og mögulegt var.
Í félaginu Svölunum, félagi fyrr-
verandi og núverandi flugfreyja, var
Erla virk eins og alls staðar þar sem
hún kom að. Hún hafði mjög mikinn
áhuga á að vernda sögu flugfreyja,
t.d. safnaði hún hinum ýmsa einkenn-
isfatnaði flugfreyja í mörg ár. Hún
varðveitti hann og þökk sé henni þá
er þessi saga flugfélaganna til í ein-
kennisfatnaði í dag. Erla afhenti okk-
ur í Svölunum þennan fjársjóð til
varðveislu og erum við ævinlega
þakklátar fyrir það.
Ég vil persónulega þakka fyrir að
hafa kynnst Erlu, hún gerði mig að
betri konu.
Við Svölurnar minnumst Erlu með
virðingu og þakklæti fyrir allt sem
hún gerði fyrir okkur og með okkur í
gegnum tíðina.
Við kveðjum þig með söknuði.
F.h. Svalanna
Bryndís Guðmundsdóttir.
Erla Ágústssdóttir
Fleiri minningargreinar um Erlu
Ágústssdóttur bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.
Fallegir legsteinar
á góðu verði
Englasteinar
Helluhrauni 10
Sími 565 2566 - www.englasteinar.is
Sendum
myndalista
✝
Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem sýndu
okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar
ástkærs föður okkar, tengdaföður, afa og langafa,
EINARS HALLDÓRS BJÖRNSSONAR
bifreiðastjóra,
Hjallaseli 55,
áður Hjarðarhaga 40.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Seljahlíðar og sr. Hans Markúsar
Hafsteinssonar.
Björn Á. Einarsson, Emilía Jónsdóttir,
Tómas Á. Einarsson, Elísabet Benediktsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.