Morgunblaðið - 05.08.2008, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 05.08.2008, Blaðsíða 8
8 ÞRIÐJUDAGUR 5. ÁGÚST 2008 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Fljótsdalur | „Það er fyrst nú í sumar að við erum farin að sjá fyrir endann á þessu verkefni. Það verð- ur sérstakt að ljúka uppgreftri en þá tekur við úrvinnsla og útgáfa á niðurstöðunum,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur og lektor í fornleifafræði við Há- skóla Íslands. Hún stjórnar rann- sókn á klausturrústunum á Skriðu- klaustri í Skriðdal. Steinunn gerði forkönnun á staðnum árið 2000 þegar hún var forstöðumaður Minjasafns Austur- lands og hefur stjórnað uppgreftr- inum sem hófst sumarið 2002 og er nú á sínu sjöunda sumri. Áformað er að ljúka uppgreftri allra klaust- urrústanna og kirkjugarðsins á næstu þremur árum. Stærð og umsvif koma á óvart Á þessum árum hafa fundist ýms- ir munir, úr rústunum og gröfunum, nú síðast sjaldgæfur gullhringur sem sagt hefur verið frá. Hluti munanna er hafður til sýnis í Gunn- arsstofnun á Skriðuklaustri, meðal annars hringurinn góði. Steinunn telur þó að mikilvægasti árangur rannsóknarinnar sé að fá heildarmynd af klaustrinu. Að- stæður eru einstakar á Skriðu- klaustri til rannsókna vegna þess að ekki hefur verið byggt á rústum klaustursins og þær eru því órask- aðar. Það sama er ekki að segja um aðrar klausturrústir hér á landi, til dæmis á Kirkjubæjarklaustri og í Viðey. „Með því að ljúka uppgreftri allra klausturrústanna er í fyrsta skipti hægt að fá heildarmynd af ís- lensku klaustri og nota til sam- anburðar við önnur klaustur,“ segir Steinunn. Talið er að stofnað hafi verið munkaklaustur á Skriðu árið 1493. Heyrði það til Ágústínussarreglu. Klaustrið lagðist af við siðaskipti, um 1550. Það hefur komið Steinunni á óvart hversu stórt klaustrið var og umsvif þar mikil. Hún segir að hingað til hafi verið talið að íslensk klaustur hafi verið lítil og ein- angruð. Rannsóknirnar sýni að veg- legar byggingar hafi verið á Skriðu- klaustri, að hluta til á tveimur hæðum, og húsaskipan mjög lík því sem algengast var í katþólskum klaustrum í Evrópu. Skipulag flestra klaustra í Evrópu tekur mið af klaustrinu í St. Gallen í Sviss sem stofnað var árið 613 – einnig klaustrið á Skriðu. Leita sér lækninga Búið er að grafa út um 900 fer- metra af rústunum sem taldar eru ná yfir um 1.300 fermetra. Steinunn tekur fram að æskilegt væri að fara yfir svæðið með jarðsjá á nýjan leik, til að átta sig betur á því sem eftir er. Stór hópur fornleifafræðinga, annarra sérfræðinga og fornleifa- fræðinema hefur unnið að upp- greftrinum, yfirleitt 15 til 20 manns á hverju sumri. Að vetrinum er síð- an unnið að greiningum, skráningu og úrvinnslu gagna frá sumrinu. Auk klausturrústanna hefur verið unnið að rannsókn á kirkjugarð- inum við klaustrið. Búið er að grafa upp 114 grafir af þeim 200 sem þar eru taldar vera. Steinunn segir einnig mikilvægt að ljúka rannsókn á öllum gröfunum til að fá heild- armynd af garðinum. Úr þessu er einnig orðið til stærsta beinasafn sem grafið hefur verið úr kirkju- garði hér á landi. Ekki eru allar grafirnar frá klausturtímanum því sýslumenn á Skriðu áttu leg þar ásamt fjölskyldum. Niðurstöður rannsókna á beina- grindunum frá klausturtímanum hafa vakið athygli. Nánast allir sem þar hafa verið jarðsettir hafa skorið sig úr fjöldanum með einhverjum hætti, vegna sjúkdóma eða van- sköpunar. Steinunn segir að fundist hafi merki um sjúkdóma allt frá eyrnabólgu til mun alvarlegri sjúk- dóma sem dregið hafi fólk til dauða. Á þessum tíma gátu sjúkdómar sem nú er auðvelt að lækna grafið um sig og valdið dauða. Telur Steinunn að rannsókn grafanna sé mik- ilvægur liður í öflun upplýsinga um heilsufarssögu landsmanna. Fyrir nokkrum dögum var grafin upp gröf með pínulítilli kistu þar sem lögð hafa verið tvö mjög lítil börn, fóstur eða fyrirburar. Veikt fólk hefur fengið skjól í klaustrinu og leitað þar lækninga. Þannig hafa fundist þar lækn- ingajurtir og 18 læknisáhöld sem segir sína sögu um starfsemi klaust- ursins. Gunnarsstofnun, Þjóðminjasafnið og Minjasafn Austurlands standa fyrir rannsóknunum í gegnum fé- lagið Skriðuklaustursrannsóknir en uppgröfturinn er kostaður eru með framlagi úr ríkissjóði og rannsókn- arsjóðum. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason Stjórnandi Steinunn Kristjánsdóttir hefur stjórnað uppgreftri á Skriðuklaustri í Skriðdal í sjö sumur og unnið að verkefninu í nærri áratug. Að loknum uppgreftri tekur við úrvinnsla og útgáfa á niðurstöðunum. Lítil kista Fyrir nokkrum dögum fundust í einni gröfinni í klausturgarð- inum tvö mjög lítil börn í sömu kistunni, fyrirburar eða fóstur. Mikil umsvif í munkaklaustrinu  Steinunn Kristjánsdóttir hefur stjórnað fornleifauppgreftri á Skriðuklaustri í sjö sumur  Áformað er að ljúka uppgreftrinum á næstu þremur árum Uppgröftur Búið er að grafa upp um 900 fermetra af fornleifasvæðinu. Uppgreftri lýkur á næstu þremur sumrum. ÍSLENSKAR friðarhreyfingar standa að kertafleytingu á Reykja- víkurtjörn miðvikudaginn 6. ágúst 2008 og við Minjasafnstjörnina á Akureyri fimmtudagskvöldið 7. ágúst klukkan 22:30. Í tilkynningu frá samstarfshópi friðarhreyfinga kemur fram að safnast verður saman sið suðvest- urbakka Tjarnarinnar í Reykjavík (við Skothúsveg) klukkan 22:30. Þar mun Kolbrún Halldórsdóttir al- þingismaður flytja stutt ávarp. Fundarstjóri verður Helga Nína Heimisdóttir. Flotkerti og frið- armerki verða seld á staðnum. Á Akureyri flytur Svavar Jónsson sóknarprestur ávarp. Flotkerti verða seld á staðnum. Kertunum er fleytt í minningu fórnarlamba kjarnorkueldanna í japönsku borgunum Hírósíma og Nagasakí dagana 6. og 9. ágúst 1945 og er þetta tuttugasta og fjórða kertafleytingin á Tjörninni af þessu tilefni. Fyrsta kertafleyt- ingin var í ágúst 1985 þegar 40 ár voru liðin frá kjarnorkuárásunum. Kertum fleytt í Reykjavík og á Akureyri Morgunblaðið/Brynjar Gauti FORELDRASAMTÖK gegn áfengisauglýsingum opnuðu heimasíðu þann 1. ágúst, slóðin er www.foreldrasamtok.is. Í tilkynningu frá samtökunum segir að efni síðunnar muni aukast að umfangi á næstu vikum. „Á síð- unni gefur að líta margskonar fróð- leik, s.s greinar, fréttir, dóma og fleira tengt þessu brýna málefni. Á heimasíðunni er einnig aðgengilegt kæruform þar sem hægt er að senda inn rafrænt, á mjög einfaldan hátt, kærur vegna brota á banni við áfengisauglýsingum. Foreldra- samtökin hvetja fólk eindregið til þess að notfæra sér þennan mögu- leika og tilkynna með þessum ein- falda hætti um öll brot sem viðkom- andi verður vitni að. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sem þau eiga lögum samkvæmt rétt á að vera laus við. Á meðan lögin eru ekki virt hvetja foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum alla þá fjölmörgu sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti sér að liggja ekki á liði sínu,“ segir í tilkynning- unni. Vefur gegn áfengis- auglýsingum ALLT tiltækt lið slökkviliðs Brunavarna Árnessýslu var kall- að út um klukkan 15:30 á sunnu- dag vegna elds í íbúðarhúsi við Austurbyggð í Laugarási. Sendir voru af stað dælubílar frá Selfossi og frá Reykholti. Fljótlega varð ljóst að ekki var um mikinn eld að ræða og því var dælubíl frá Laugarvatni og tankbíl frá Sel- fossi snúið við. Þegar slökkvilið kom á vett- vang höfðu húsráðendur slökkt eldinn og þar sem hann hafði komið upp í garðskála þurfti ekki að reykræsta. Talsverðar skemmdir urðu þó vegna elds og reyks þar sem garðskálinn er áfastur steinsteyptu tvílyftu ein- býlishúsi. Engan sakaði. Eldur kvikn- aði í garðskála BYGGINGAR Skriðuklausturs báru svipmót annarra klausturbygginga í Evrópu. Þar var þyrping vist- arvera, kapellu og veglegrar kirkju sem byggð var við skýrt afmark- aðan klausturgarð með brunni fyr- ir miðju. Í klausturgarðinum voru ræktaðar matjurtir og lækn- ingajurtir. Þar var jarðað og nið- urstöður rannsókna á beinagrind- um sýna að lækningar hafi verið stundaðar í klaustrinu. Kapellan hefur verið nýtt til daglegs bæna- halds og tíðagjörða reglubræðra en klausturkirkjan sjálf fyrir al- mennar guðsþjónustur. Ber svipmót klaustra í Evrópu

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.