Morgunblaðið - 12.08.2008, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 12.08.2008, Blaðsíða 23
leið og hann var fastur fyrir og ákveðinn. Hann bjó yfir geðstilli og sáttfýsi og lagði sig fram í umgengni við aðra menn, um að sanngirni fengi að njóta sín. Hann var fé- lagslyndur og hrókur alls fagnaðar, þegar sá gállinn var á honum. Hann hafði afar gaman af vísum og kveð- skap, sem hann miðlaði gjarnan af í mannfögnuðum, sjálfum sér og öðr- um til skemmtunar. Leiðir okkar Gauta lágu ekki að- eins saman við leik heldur og við störf. Þegar ég var bæjarfulltrúi í Garðabæ, undir forystu Gauta sem bæjarstjóra, störfuðum við saman að hagsmunum bæjarins í nokkur ár. Þar kynntist ég í návígi sem samstarfsmaður, hvernig hæfileikar Gauta nýttust vel til góðra verka og ekki síður hinu, hvernig hann náði að kalla fram það besta í fasi og fari hvers einstaks samstarfsmanns, og gilti þá einu hvort um pólitískan samherja eða andstæðing var að ræða. Raunar er rangt að tala um andstæðinga í þessu sambandi, því Gauti átti enga slíka, bara mismun- andi samherja. Almenn orðvendni hans, þó einkum um eða í garð náungans, var honum töm og duldist engum, sem við hann átti viðskipti, að virðing og umburðarlyndi voru honum einlæg og aðalsmerki í við- skiptum við aðra menn. Ógleymanlegar, óteljandi ánægju- stundir, heima og að heiman, áttum við saman, bæði einir tveir og með fjölskyldum okkar. Myndir minn- inganna hrannast upp enda eru þær margar, en allar á einn veg. Myndir af góðum, ástríkum dreng, sem bar í fyrirrúmi hag annarra fölskvalaust fyrir brjósti, náinna sem ókunnra. Allt frá upphafi deildu eiginkonur okkar, Sólveig og Hallgerður, síðar Hólmfríður, og börn okkar þessum vinskap í gegnum árin. Ég er full- viss þess að við erum öll ríkari af, að hafa átt vinskap og ást Gauta, og átt þess kost að deila með honum stundum, bæði í meðlæti sem og mótlæti. Við Sólveig þökkum fyrir að hafa átt slíkan vin og samferðamann, sem Gauti var. Við sendum Hólm- fríði, fjölskyldu hans og öðrum ást- vinum okkar dýpstu samúð. Blessun og styrkur þess almáttuga fylgi ykkur og styðji. Megi hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar blessa og vernda ykkur og minninguna um okkar góða vin og samferðamann, Jón Gauta Jónsson. Árni Ólafur Lárusson. Jón Gauti hóf störf á Veðurstof- unni um mitt ár 2005 sem sviðsstjóri rekstrarsviðs. Fljótt kom í ljós að í honum hafði stofnunin fengið góðan fagmann og frumkvæðisríkan og lipran stjórnanda. Næstu tvö árin unnum við náið saman og varð okk- ur vel til vina. Fáa hef ég hitt sem áttu jafn auðvelt með mannleg sam- skipti og Gauti, hvort sem var á vinnustað eða utan. Hann varð einn- ig virkur í ýmsu félagslífi starfs- manna Veðurstofunnar. Það var því að vonum að honum voru falin aukin verkefni í starfsmannamálum og þ. 1. ágúst 2007 var hann gerður að að- stoðarforstjóra stofnunarinnar auk sviðsstjórahlutverksins. En skjótt skipast veður í lofti. Rúmum mánuði síðar var Gauti lagður inn á sjúkrahús til aðgerðar vegna alvarlegra veikinda. Jón Gauti var maður lífsglaður, bjartsýnn og með mikinn vilja. Veik- indin voru honum verkefni sem hann ætlaði að leysa. Hann vildi því sinna störfum sínum á Veðurstof- unni áfram eins og hann framast gat. Vann heima og kom á stofn- unina til starfa eins og orkan leyfði og jafnvel stundum meira en það. Uppgjöf var ekki til í orðasafni hans og baráttuviljinn var aðdáunarverð- ur. En enginn má sköpum renna og við á Veðurstofunni horfum nú á bak góðum félaga og starfsmanni. Æðruleysi Gauta á þessum erfiða tíma svo og umhyggja eiginkonu hans Hólmfríðar Árnadóttur allt frá upphafi veikinda hans verður okkur sem fylgdumst með einkar eftir- minnilegt. Um leið og ég fyrir hönd Veðurstofunnar þakka Gauta alltof stutta samferð votta ég Hólmfríði og öllum aðstandendum þeirra hjóna mína dýpstu samúð. Magnús Jónsson. Spurningunni um tilgang lífsins verður seint fullsvarað. Æskan lifir áhyggjulaus fyrir líðandi stund og getur varla beðið eftir því að verða eldri til að geta reynt eitthvað nýtt, en þegar árin færast yfir líta margir yfir farinn veg og reyna að skilja hvers vegna lífið fór þennan veg en ekki hinn. Í mörgum tilvikum erum við nú jafnnær og þá. – Það var kát- ur og lífsglaður hópur sem yfirgaf MR hinsta sinni í júní 1967 eftir síð- asta munnlega prófið, sumir með 1 og aðrir með 9 í einkunn, en það skipti ekki máli. Við vorum ung, hraust og glöð og tíminn var nógur. Ekki grunaði okkur vinkonurnar þá hvað fyrir okkur átti eftir að liggja og sumar örugglega orðið undrandi ef þær hefðu fengið að sjá fram á veginn. – Við höfum haldið hópinn meira og minna í meira en 40 ár, reynslunni ríkari, og eigum flestar börn, barnabörn og fyrrverandi og núverandi eiginmenn. – Gauti henn- ar Hólmfríðar var samstúdent okk- ar en við þekktum hann flestar lítið fyrr en leiðir þeirra lágu saman fyr- ir meira en tólf árum. Það varð þeirra gæfa en hún er ekki sjálf- gefin. Hún felst ekki í veraldlegum auði heldur samhljómi, samkennd og kærleika. Þannig er það að sumir eiga samleið og aðrir ekki og í raun- inni er varla hægt að hugsa sér þau tvö nema sem eitt. Nú stendur Hólmfríður eftir sem ekkja en hún hefur varla vikið frá Gauta frá því hann veiktist. Alltaf sterk eins og klettur. – Það verður tóm eftir þennan erfiða tíma, en Hólmfríður er svo heppin að eiga góða að, bæði sín börn og Gauta auk allra barna- barnanna, einkasystur, tengdafólks og vina. Megi góður guð veita Hólm- fríði, vinkonu okkar, og öllum sem að henni standa, styrk á sorgar- stundu. Minningin um góðan vin mun lifa í hugum okkar allra með þakklæti fyrir þau ár sem við áttum samleið. F.h. saumaklúbbs 6-C, MR 6́7, Anna Pálsdóttir. Kæri vinur, nú er stríðinu lokið, en baráttan hefur staðið í bráðum ár. Það hafa verið tímabil með bjart- sýni að þú myndir hafa sigur á veik- indinum, en því miður reyndist það ekki vera. Nafni og Gauti, það voru ávarps- orðin okkar á milli, og nú þegar ég lít yfir farinn veg rifjast upp ótelj- andi atvik og samverustundir alveg frá frumbernsku í Kópavoginum. Eitt það dýrmætasta sem okkur getur hlotnast í þessu lífi er að eign- ast vin. Tryggan vin sem alltaf var hægt að leita til hvernig sem á stóð, jafnvel þó að liði langur tími milli þess að við hefðum samband. Þessa hálfa öld sem við höfum þekkst hef- ur aldrei borið skugga á vináttuna. Nánustu kynnin urðu þegar við sát- um saman í MR í hinum „fræga“ Z- bekk. Z-liðið var óvenju samstilltur hópur og þarna á mótunarárunum mynduðust tengsl og væntumþykja sem enn varir. Við félagarnir úr Kópavoginum, þú, Tóti Axels og ég, vorum nánast samlokur, óaðskiljan- legir í öllu. Ég veit að bekkjarsystk- ini okkar taka undir með mér að þín glaða lund, tryggð og jákvæða við- mót eru eiginleikar sem við öll geymum í minningunni um þig. Að loknu stúdentsprófi skildi leiðir í nokkur ár. En þegar við hjónin fluttumst austur á Hallormsstað varst þú sveitarstjóri á Fáskrúðs- firði og heimsóknin til ykkar í að- draganda flutningsins er ógleyman- leg. Þar hnýttust enn okkar vinabönd. Þú aflaðir þér mikillrar reynslu og þekkingar árin sem þú gegndir stöðu sveitarstjóra í mörg- um sveitarfélögum. Þegar ég tók við stöðu skógræktarstjóra 1990 varst þú farinn að reka eigið ráðgjafarfyr- irtæki og síðan hefur þú verið í því hlutverki meira og minna. Þessi víð- tæka reynsla af stjórnun og mann- legum samskiptum gerði þig að ein- um besta ráðgjafa sem við höfum leitað til enda hefur þú komið að mörgum verkefnum hjá minni stofn- un sem varða stefnumótun og ráð- gjöf í starfsmannastefnu. Það var ekki ónýtt að hafa aðgang að þér nánast hvenær sem var og geta bor- ið undir þig vandamál og viðrað hugmyndir og áform. Þú varst ráða- góður og hreinskilinn og hafðir þann eiginleika með lagni og áreynslu- leysi að leiða mig á rétta braut ef ég var að fara út af sporinu. Þannig minnist ég samskipta okkar, við gát- um tekist á, vorum ekki alltaf sam- mála en vegna okkar einlægu vin- áttu komumst við að niðurstöðu og vorum enn betri vinir á efir. Þó að Hólmfríður væri samstúd- ent okkar kynntist ég henni ekki í alvöru fyrr en þið rugluðuð reytum saman og margar góðar stundir höf- um við átt saman á síðustu árum, heimsóknir til ykkar í Lágaland og eins hafið þið komið á Stór-Sandfell til okkar Beritar fyrir utan bekkj- arhátíðir og samkomur gömlu MR- inganna. Fallega heimilið ykkar, væntumþykja og samstaða var sannarlega eitthvað sem yljar um hjartarætur. Hvernig þú, Hólmfríð- ur, hefur staðið eins og klettur við hlið Jóns Gauta þetta síðasta og erf- iða tímabil er aðdáunarvert og hefur líka styrkt tengslin og vináttuna við þig. Fyrir hönd Z-bekkjar MR 1967 vottum við Hólmfríði, fjölskyldu og aðstandendum innilega samúð. Jón Loftsson og Berit H. Johnsen. Genginn er góður maður en Jón Gauti Jónsson var mörgum mikið. Ég fylgdist með Jóni Gauta úr fjar- lægð enda maðurinn áberandi á vettvangi sveitarstjórnarmála í mörg ár. Leiðir okkar lágu saman eftir að hann hafði um 10 ára skeið rekið ráðgjafarfyrirtæki sem sam- einaðist því fyrirtæki sem ég starfa hjá. Í kjölfar þess hófst samstarf og síðar vinátta sem óx og dafnaði og lifði góðu lífi þó hann hyrfi síðar til annarra starfa. Það er yngri mönnum ávallt mik- ilvægt að eignast samstarfsmenn sem leiðbeina, efla og hvetja. Gauti leiðbeindi og hvatti eins og hann hefði tekið að sér föðurhlutverk en var líka nógu stór til þess að leita til okkar yngri samstarfsmanna á svið- um sem hann þekkti minna til á. Nokkur orð sem fanga persónu Gauta eru trúmennska, réttsýni og lífsgleði. Á faglega sviðinu togaðist á náttúruleg íhaldssemi og framsækni þar sem framsæknin hafði iðulega yfirhöndina sem sést á glæsilegum starfsferli. Fyrir hönd fyrrverandi sam- starfsmann Gauta hjá ParX votta ég Hólmfríði og börnum dýpstu samúð. Ég treysti því að Gauti sé guði fal- inn. Arnar Jónsson. Fallinn er frá góður félagi og samstarfsmaður. Ég kynntist fyrst Jóni Gauta þegar hann stundaði nám í opinberri stjórnsýslu við Há- skóla Íslands. Í lok námsins skrifaði hann MPA ritgerð um stefnumótun stofnana og kenndi síðar námskeið um þetta viðfangsefni. Hann kom einnig að kennslu fleiri námskeiða. Það var mikill fengur fyrir okkur sem stöndum að námi í opinberri stjórnsýslu að hafa innanborðs jafn reynslumikinn og hæfan nemenda og síðar kennara og Jón var. Óhætt er að segja að fáir Íslendingar hafi haft jafnmikla þekkingu á vettvangi sveitarfélaga, þar sem hann starfaði í fjölmörg ár, bæði sem stjórnandi og sem ráðgjafi. Hann hafði einnig mikla þekkingu á stjórnsýslu rík- isins, stefnumótun og skipulagi. Hann var frjór í hugsun og hafði einstakt lag á að miðla þekkingu sinni og tengja við viðfangsefni dagsins, bæði kenningar og málefni sem efst voru á baugi hjá hinu op- inbera og að draga fram ný og áhugaverð sjónarmið. Síðast þegar ég talaði við Jón Gauta fyrir u.þ.b. hálfu ári var hann að fara í endurhæfingu á Reykja- lundi og var bjartsýnn um bata. Við ræddum um framtíðaráætlanir, bæði fyrirhugaða kennslu og útgáfu á riti um stefnumótunarfræði. Nú er skarð fyrir skildi. Það var heiður fyrir mig að fá að starfa með Jóni Gauta. Ég minnist hans með virð- ingu og þakklæti. Ég vil votta eig- inkonu hans, börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum mína dýpstu sambúð. Blessuð sé minning Jóns Gauta Jónssonar. Ómar H. Kristmundsson. Látinn er góður vinur okkar og félagi langt um aldur fram. Þegar ágústblærinn fer höndum sínum um úthagann og litróf jarð- arinnar er kannski hvað fegurst og fuglar himinsins hópast saman og æfa flug til hlýrri landa, kvaddi Jón Gauti vinur okkar þessa jarðvist eft- ir harða baráttu og hvarf á braut til þeirra heimkynna sem bíða okkar allra. Nú er skarð fyrir skildi, litli kær- leikshópurinn okkar verður aldrei samur aftur, Jón Gauti er horfinn. Hann sem kunni þá list betur en margir aðrir að láta fólki líða vel í kringum sig. Jón Gauti var sérstak- lega gamansamur og var ávallt hrókur alls fagnaðar og oft var mik- ið hlegið þegar hann fór með vísu eða gamansögu af mönnum og mál- efnum úr fortíðinni eða frá líðandi stundu og líkast til hafa fáir náð svo góðu valdi á frásagnarlistinni sem hann, svo allar sögur urðu góðar í meðförum hans. Það er okkur öllum mikill fengur að hafa fengið að kynnast þeim hjónum Jóni Gauta og Hólmfríði, en með þeim höfum við átt yndislegar samverustundir í kærleikshópnum sem stofnaður var eftir LH-helgi árið 2003. Í 23. Davíðssálmi segir: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Það er okkar trú í kærleikshópn- um að þangað sé Jón Gauti vinur okkar kominn og njóti þar hvíldar eftir erfiða ferð í mótvindi síðasta árs, það er ósk okkar að þar megi hann næðis njóta. Elsku Hólmfríður, megi bænir okkar og óskir fylgja þér og þinni fjölskyldu á þessum erfiðu tímum og megi haustblærinn bera kveðju kærleikshópsins í Lálandið heim til þín. F.h. Kærleikshóps 212, Gils Einarsson. Látinn er góður félagi okkar í Lionsklúbbnum Víðari. Jón Gauti gekk í klúbbinn okkar í byrjun árs 2003 en áður hafði hann verið virkur félagi í Lionshreyfingunni í mörg ár. 1974 gerðist hann félagi í Lions- klúbbnum Skyggni á Hellu, síðar í Lionsklúbbi Garðabæjar með við- komu í Lionsklúbbi í Lagos í Níger- íu en þar starfaði hann um tíma. Þó Jón Gauti hafi ekki verið lengi í okkar klúbbi valdist hann fljótlega til ábyrgðastarfa, enda einstaklega skemmtilegur og góður félagi. Rit- ari klúbbsins var hann starfsárið 2006 – 2007 og síðan formaður árið eftir. Vegna veikinda sinna gat hann ekki sinnt formannsstarfinu í þeim mæli sem hann hefði viljað. Þau tvö ár sem ég var með honum í stjórn okkar klúbbs voru afskaplega góð og sýndi það best að mætingar á fundum voru í hámarki þegar hann stjórnaði fundum okkar. Öll hans störf fyrir klúbbinn okkar vann hann af mikilli samviskusemi og al- úð. Nærvera hans á fundum var allt- af skemmtileg, en hann fór gjarnan með gamanmál bæði í bundnu og óbundnu máli, enda kunni hann ógrynni af skemmtilegum sögum af fólki og vísur kunni hann eftir að hafa heyrt þær einu sinni. Hann var reyndar ekki alveg ókunnur okkar starfi en fyrir nokkrum árum stjórnaði hann okkar Víðarsblóti með miklum glæsibrag. Sjálfum er mér minnisstæð ferð sem við fórum saman á Lionsþing til Ólafsvíkur í júnímánuði 2007. Varla var hægt að hugsa sér betri ferða- félaga, en Jón Gauti sagði sögur og fór með vísur allan leiðina vestur þannig að ökuferðin varð ógleym- anleg. Sama var um dvölina á þinginu og heimferðina. Hans létta og góða lund smitaði út frá sér þannig að það var afskaplega gaman og gott að starfa með honum í okkar klúbbstarfi. Fyrir hans mikla og góða starf innan Lionshreyfingar- innar hefur hann fengið ýmsar við- urkenningar, m.a. Melvin Jones sem er mesta viðurkenning sem Lions- manni getur hlotnast fyrir starf sitt innan hreyfingarinnar. Ég vil fyrir hönd okkar félaganna í Lionsklúbbnum Víðari þakka Jóni Gauta fyrir gott og ánægjulegt sam- starf og votta eiginkonu hans og fjölskyldu samúðar og óska þeim Guðs blessunar. F.h. Lionsklúbbsins Víðarr, Örn Helgason formaður. Kæri Jón Gauti, mig langar að þakka þér fyrir þær stundir sem við áttum saman. Leiðir okkar lágu saman vestur í Súðavík í janúar 1995, þar hafði fall- ið snjóflóð, orðið mikið slys, aðstæð- ur erfiðar og samfélagið í sárum. Þú hafðir verið fenginn til að fara vest- ur og taka við stjórn sveitarfé- lagsins á þessari ögurstund og ég var fenginn til að fara þangað og vera þér til aðstoðar í þessu starfi. Ég man svo vel eftir þér þegar ég kom inn á skrifstofuna þína í Súða- vík í fyrsta sinn, vel klæddum, snyrtilegum og geðþekkum manni. Við vissum ekki þá hvaða ferð beið okkar saman í Súðavík, okkur grun- aði ekki hvað biðu okkar mörg erfið verkefni og hvað þau áttu eftir að taka á, að endurreisa samfélag eftir stórslys og flytja heilt þorp um set. Mér er svo ljúft að segja að alltaf lagðir þú þig fram af öllu þínu hjarta og allri þinni sál. Þú gafst allt af þér sem þú áttir til þess að gera sem best fyrir byggðarlagið og fólk- ið, þú vildir svo vel og gerðir svo vel. Ég veit líka að oft tók það á, oft var það mjög erfitt og stundum fannst okkur við fá meira tómlæti fyrir en sanngjarnt var. Ég dáðist að þér, dugnaði þínum, krafti þínum, sann- færingu þinni og öllum þeim góðu ráðum sem þú komst með. Þú kenndir mér svo margt og leiðbeind- ir mér svo mikið. Það sem ég lærði af samstarfi okkar er gullnáma sem fáir hefðu getað gefið mér. Ég er stoltur af þér fyrir það sem þú gerð- ir í Súðavík. Ég tók við starfi sveit- arstjóra þegar þú hættir og enginn veit það betur en ég hverju þú áork- aðir þar. Ég man svo vel þegar þú fórst og gafst mér góð ráð og sagðir við mig: „Mundu, Ágúst, berðu allt- af höfuðið hátt, horfðu til sólar og reyndu að brosa, sama hvað á þér dynur“. Kæri vinur, ég er þakklátur fyrir að leiðir okkar lágu saman, ég er í hjartanu þakklátur fyrir allt sem við gerðum saman og allt sem þú kenndir mér. Okkur var nánast ýtt saman til starfa við aðstæður sem erfitt er að lýsa og ég segi af heilu hjarta að aldrei hef ég kynnst manni á slíkri ögurstund sem reyndist jafn vel. Ég mun ávallt sakna þín. Þegar ég kveð þig í hinsta sinn sendi ég öllum aðstandendum þín- um innilegar samúðarkveðjur. Minning þín um lifa alla tíð. Ágúst Kr. Björnsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík. MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. ÁGÚST 2008 23 MOSAIK Hamarshöfða 4 - 110 Reykjavík sími 587 1960 - www.mosaik.is Legsteinar og fylgihlutir Vönduð vinna og frágangur Yfir 40 ára reynsla Sendum myndalista

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.