Morgunblaðið - 13.08.2008, Síða 25

Morgunblaðið - 13.08.2008, Síða 25
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. ÁGÚST 2008 25 ✝ Guðný Tómas-dóttir fæddist 19. mars 1912. Hún lést 6. ágúst síðast- liðinn. Foreldrar hennar voru Tómas Gíslason kaup- maður á Sauð- árkróki, f. 21.10. 1876, d. 12.10. 1950 og kona hans El- inborg Jónsdóttir, f. 23.7. 1886, d. 23.7. 1975. Systkini Guð- nýjar: Gísli, f. 25.12. 1908, d. 26.9. 1927. Sigurður, f. 31.3. 1914, d. 9.8. 1978, kvæntur Herborgu Guð- mundsdóttur, dætur þeirra Ingi- björg og Elinborg. Herborg átti Jónínu og Jón frá fyrra hjóna- bandi. Jón, f. 27.9. 1924, kvæntur Önnu Árnadóttur. Börn þeirra El- inborg, Valgerður Katrín, Mar- grét, Anna Jóna, d. 11.6. 1988, og Guðmundur Árni. Gísli, f. 19.7. 1927, d. 20.4. 1998, kvænt- ur Kristbjörgu Sig- jónsdóttur. Börn þeirra Sigrún, Tóm- as, Gísli Friðrik. Guðný var við nám í Kvennaskól- anum í Reykjavík 1929-1930. Hún hóf störf sem talsíma- kona á Ísafirði 1931 og var skipuð tal- símakona þar 1.10. 1931-1935. Hún fluttist til Borðeyrar 1.1. 1941-1.6. 1942, síðan á Langlínuna í Reykjavík 8.10. 1942. Hún lét af störfum vegna veikinda 1.10. 1946. Guðný var gjaldkeri hjá Agli Vilhjálmssyni frá 1953-1982. Guðný verður jarðsungin frá Fossvogskapellu í dag og hefst at- höfnin klukkan 11. Ég vil minnast hér Guðnýjar frænku minnar. Ein fyrsta minning mín um Guð- nýju frænku er tengd heimili föður- ömmu minnar Elinborgar eða ömmu á Vífó eins og við krakkarnir kölluð- um hana. Í Mýrinni á Vífilsgötunni bjuggu þær fyrstu ár ævi minnar. Heimur barna er lítill en man ég eftir götunni, öll húsin svo lík hvoru öðru að auðvelt var að villast, garðinum, góða veðrinu, blómunum, lyktinni, svölunum, kandísnum með bandinu og ferðunum í búðina með Guðnýju frænku. Seinna fluttu þær svo saman í blokkaríbúð við Álftamýrina og bjó amma mín hjá Guðnýju alla ævi eða þar til hún lést árið 1976. Guðný var margfróð kona sem fylgdist ákaflega vel með allri þjóðfélagsumræðu. Hún hafði sínar skoðanir á hlutum og las mikið, var vel að sér um ætt sína og mundi svo vel gamla tímann. Það var því veruleg skemmtun að fara til hennar, setjast við eldhúsborðið og fá sér kaffisopa, alltaf átti hún eitthvað til með kaffinu. Hún hlustaði vel, var ekki margorð í fjölmenni en gat verið ákaflega orðheppin og fyndin og sá alltaf spaugilegar hliðar á lífinu. Hún fylgdist vel með fólkinu sínu, hafði gaman af að heyra af unga fólkinu og sýndi því mikla góðvild. Mér eru minnisstæðar tvær ferðir sem ég fór með Guðnýju. Önnur var norður á Akureyri í gömlum Volvo ár- ið 1987, með fjögur börn í aftursætinu fórum við að stað. Guðný sat í fram- sætinu og þessi ferð var svo sannar- lega ferð aftur til fortíðar. Eftir því sem norðar dró færðist Guðný frænka mín í aukana, hún vissi deili og þekkti til; ég þori nú ekki að segja allra bæja og fólks sem þar hafði búið, en það var ótrúlegt að sitja þarna og hlusta á. Einnig þegar hún heimsótti mig til Ameríku tveimur árum seinna. Alein á ferð á ókunnar slóðir, þá 76 ára gömul. Henni fannst gaman að ferðast og naut þess að vera á ferða- lögum. Þegar ég hugsa til baka og rifja upp þau áhrif sem frænka mín hefur haft á mig þá held ég að nær- vera hennar í gegnum árin hafi mikið hjálpað mér til að öðlast skilning á því umhverfi sem við hér á Íslandi erum sprottin upp af. Guðný var berklasjúklingur í mörg ár á þeim tíma sem hvorki var mikið rætt um tilfinningar né veikindi. Það að vera berklaveikur þýddi einangr- un. Það var bara að þrauka hvernig sem fór. Þegar kom að því að velja hjúkrunarheimili þá kaus hún að fara á Vífilsstaði. Þar hafði henni liðið vel þrátt fyrir veikindin. Síðustu árin dvaldi hún þar sem hún naut góðrar umönnunar og á starfsfólk þar miklar þakkir skildar fyrir. Ég þakka Guðnýju fyrir vináttuna, samferðina um lífið og að hafa verið mér svona góð frænka. Margrét Jónsdóttir. Guðný föðursystir mín er látin og náði því að verða 96 ára, langlíf eins og hún á reyndar kyn til. Guðný var ekki hávær kona, hún kunni þá list að hlusta og fylgjast með fólki og um- hverfi sínu og byggði á þann hátt upp safn þekkingar og visku um menn og málefni sem hún veitti af á sinn sér- staka máta þeim sem vildu á hlýða. Það var alltaf gaman að koma í heim- sókn til hennar, hún var upplyftandi sál og hafði ekki áhuga á að verja orku sinni í að kvarta. „Hvað segirðu fal- legt“ var ávarpið og auðvitað reyndi maður að segja eitthvað fallegt og skemmtilegt og þá var stutt í bros allt fram á síðustu stund. Hún var ein- staklega vel gefin og listræn enda ekki langt í skyldleika við ýmsa and- ans menn og þá sem voru innundir hjá listagyðjunni svo sem heimspeking- inn Helga Péturs, ljósmyndarann Jón Kaldal og skáldið Guðmund Kamban. Hún var alin upp á miklu menningar- heimili hjá afa og ömmu á Króknum og eftir að afi dó 1950 flutti amma suð- ur og fyrstu bernskuminningarnar eru frá því þær bjuggu saman á Vífils- götunni. Litlu barni fannst upphefð í að heimsækja þær, þar var boðið upp á kaffisopa, eða heita mjólk með dropa af kaffi í og kandís, eða fjallagrasamjólk. Guðný var um nírætt þegar henni áskotnaðist tölva og hafði mikinn áhuga á að tileinka sér tæknina en lík- aminn lét ekki lengur vel að stjórn. Hugurinn var alltaf ungur og vak- andi, hún las jafnt Íslendingasögurn- ar sem samtímabókmenntir vel fram yfir nírætt og gagnrýndi á sinn hátt. Hún sá um sig sjálf þar til hún var 93 ára, þá varð mjaðmagrindarbrot til þess að hún þurfti að yfirgefa heimili sitt um tíma meðan gerð var aðgerð til að koma því í lag. Í kjölfarið fylgdi annar erfiður uppskurður. Guðný komst á ótrúlegan hátt í gegnum það eins og reyndar svo margar aðrar hindranir í lífinu fram að því og frá þeim tíma síðar. Ung kona var hún um langan tíma berklaveik á Vífils- stöðum og síðustu rúm tvö árin dvaldi hún þar, en í þetta sinn átti hún ekki afturkvæmt. Þó að líkaminn væri kominn að þrotum gafst andinn þó aldrei upp. Eins og kostur var reyndi hún að búa heima með hjálp heima- hjúkrunar og heimaþjónustu eftir tvær erfiðar aðgerðir en það gekk ekki upp. Gott atlæti á Vífilsstöðum vakti vonir um að hún gæti „hert sig upp í“ að fara heim aftur. Það var ekki fyrr en í sumar að ljóst var að hugur hennar var að taka þá stefnu að ljúka jarðvistinni því það átti ekki við hana að fara að verða bundin við rúmið. Ég kveð þig kæra frænka og þakka þér allar samverustundirnar. Það var gaman að fylgjast með því hvað þér þótti vænt um litlu manneskjurnar sem voru að bætast við fjölskylduna. Andlitið ljómaði þegar ég sagði þér sögur af þeim og enn meir þegar litlir fætur fengu að koma í heimsókn, síð- ast nú í sumar. Brottfarartíminn var kominn, ég er þakklát fyrir að hafa getað verið hjá þér ásamt systrum mínum og frænku síðustu sólarhring- ana og góðu starfsfólki á Vífilsstöðum og veit að þú ert í góðum höndum. Valgerður Katrín Jónsdóttir (Systa). Þitt er valið, hann er sífellt innan seilingar þegar syrtir í álinn, kaleikur bölsýni og kjarkleysis fleytifullur af myrkri. Fjær stendur bikar vonar og bjartsýni, barmafullur af ljósi. Teygðu þig í hann. (Ólafur Ragnarsson.) Guðný föðursystir mín var alveg einstök frænka. Hún var barnlaus en bræðrabörn hennar voru hennar börn. Hún umvafði fjölskylduna sína kærleik og væntumþykju. Það sýndi hún með mikilli ræktarsemi og ein- stökum áhuga á velferð okkar. Allar minningar tengdar henni eru ánægjulegar. Mínar fyrstu minningar tengjast Guðnýju frænku og ömmu Elinborgu í jólaboðum með súkkulaði og kræsingum á jóladag, bæði á Víf- ilsgötunni og Álftamýrinni þar sem þær mæðgur bjuggu saman þar til amma lést árið 1975. Sem unglingur var hún ekki hraust og um fertugt fékk hún berkla og dvaldist langdvöl- um á Vífilsstöðum og Reykjalundi sér til lækningar og endurhæfingar. Eftir það náði hún nokkuð góðri heilsu og gat starfað þar til hún fór á eftirlaun. Er ég dvaldist unglingur sumarlangt í Noregi skrifuðumst við á og var alltaf skemmtilegt að fá bréf frá henni. Það var einstaklega notalegt að vera í ná- vist hennar. Hún hafði ekki mörg orð um hlutina, kom sér alltaf beint að efninu. Ég minnist hennar með þakklæti. Hún hafði mikil áhrif á mig og var mér að mörgu leyti fyrirmynd. Hún var svo gefandi, hvetjandi og uppörv- andi og sýndi mér alltaf mikinn áhuga eins og öðrum ættingjum sínum. Hún fylgdist með fjölskyldu minni eftir að ég gifti mig og eignaðist fjölskyldu. Börn, tengdabörn og barnabörn, hún fylgdist með þeim öllum og vissi hvað þau voru að gera í námi og starfi. Hún var einstakur persónuleiki, alltaf stutt í húmorinn hjá henni. Hún hafði mun meiri áhuga á líðan og velferð annarra en sinni eigin og kvartaði sjaldan. Við fórum í nokkur ferðalög saman bæði erlendis og innanlands. Hún var skemmtilegur ferðafélagi og aldrei fannst mér ég vera að ferðast með gamalli konu þrátt fyrir 40 ára ald- ursmun. Hún var ung í anda alla tíð og hugsaði alltaf um framtíðina. Hún tók þátt í lífi fjölskyldu minnar á gleði- og hátíðarstundum. Síðan ég man eftir mér hefur hún alltaf verið með fjölskyldu minni á gamlárskvöld, þar naut hún sín og verður hennar saknað. Gunnsa frænka var alltaf opin fyrir nýjungum. Hún las mikið og fylgdist vel með því sem var að gerast, hvort sem það voru fréttir, sjónvarpsþættir eða dönsku blöðin. Ekki alls fyrir löngu þegar við spjölluðum saman sagðist hún vera orðin södd lífdaga og tilbúin að kveðja. Hún var einstaklega ánægð á Vífilsstöðum og naut þess að vera umvafin góðu hjúkrunarfólki. Guðný frænka teygði sig í ljósið og bjartsýnina, þannig fékk hún það besta út úr lífinu. Fjölskylda mín er þakklát fyrir samfylgdina með þér, kæra frænka, þú hefur auðgað líf okk- ar allra. Sigrún Gísladóttir. Guðný Tómasdóttir                          ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför RÓSU PÉTURSDÓTTUR, Grænumörk 5, Selfossi. Börn, tengdabörn, ömmubörn og langömmubörn. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir og amma, JÓNÍNA S. SNORRADÓTTIR, lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund laugardaginn 9. ágúst. Snorri Aðalsteinsson, Martha Sverrisdóttir, Eggert Aðalsteinsson, Guðrún E. Bjarnadóttir, Gunnar Aðalsteinsson, Guðbjörg Guðmundsdóttir og barnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, BJÖRN STEINAR GUÐMUNDSSON, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 9. ágúst. Útförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju föstudaginn 15. ágúst kl. 13.00. Anna Stefanía Þorvaldsdóttir, Guðmundur Ellert Björnsson, Björn Stefán Björnsson, Linda Jafetsdóttir, Þórunn Anna Björnsdóttir, Friðbjörn Marteinsson, Sigurbjörg Árný Björnsdóttir, Vigfús Davíðsson, barnabörn og barnabarnabarn. ✝ ÓLÖF JÓHANNESDÓTTIR, Oddeyrargötu 12, Akureyri, sem andaðist á dvalarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði, þriðjudaginn 5. ágúst, verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 14. ágúst kl. 13:30. Blóm og kransar afþakkaðir en þeir sem vilja minnast hennar láti dvalarheimilið Hornbrekku njóta þess. Sigurbjörg Unnur Þengilsdóttir, Stefán Ásberg, Jóhannes Þengilsson, Seselía María Gunnarsdóttir, Jón Marteinn Þengilsson, Erla Vilhjálmsdóttir, Guðmundur Þengilsson og fjölskyldur þeirra. ✝ Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, EYJÓLFUR ÁRNASON skipstjóri, Hrafnistu, Hafnarfirði, sem lést á Dvalarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði laugardaginn 9. ágúst, verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju fimmtudaginn 21. ágúst kl. 15.00. Anna Bjarney Eyjólfsdóttir, Ingvar Benediktsson, Þórunn Ólöf Sigurðardóttir, Sigrún Jóna Eyjólfsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Bibi Steinberg, Ragnheiður Steinunn Eyjólfsdóttir, Hákon Magnússon, afabörn og langafabörn. ✝ Bróðir minn, HAFLIÐI GUÐMUNDSSON, Öldugötu 40, lést laugardaginn 2. ágúst á Líknardeild Landakots. Útförin fór fram í kyrrþey. Fyrir hönd aðstandenda, Elín Guðmundsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.