Morgunblaðið - 17.08.2008, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 17.08.2008, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17. ÁGÚST 2008 19 Í stórri íbúð í miðbæ Keflavík- ur búa Sylvía og kötturinn Kiki. Kiki finnst skemmti- legast að stríða Sylvíu með því að hoppa upp á borð og sniglast í kringum blómavasann. Þá hendir Sylvía henni hlæjandi niður. „Kiki, þú veist að þú mátt ekki gera þetta! Farðu eitthvert annað, þetta er svo stór íbúð!“ Íbúðin er margfalt stærri en litla herbergið þar sem Sylvía bjó áður. Þar hafðist hún við meðan hún beið eftir því að vita hvort hún fengi að vera á Íslandi eða yrði send úr landi. Sylvía er flóttamaður frá Kenía og sótti um hæli á Íslandi. Svarið kom 22 mánuðum síðar. Þá fékk Sylvía fréttirnar sem breyttu lífi hennar – fréttir sem hún líkir við kraftaverk. „Ég fæ að setjast hérna að!“ segir hún stolt. Hún fékk dval- arleyfi á Íslandi af mannúðar- ástæðum. Skrýtnar aðstæður Að bíða eftir svarinu var langt frá því að vera auðvelt. Hvað myndi hún gera ef henni yrði vísað burtu? Hvert átti hún að fara? Eins og aðrir hælisleitendur bjó Sylvía á gistiheimilinu Fit í Reykja- nesbæ meðan mál hennar var tekið fyrir. Allir hælisleitendur á Íslandi búa þar meðan umsóknir þeirra eru ýmist afgreiddar eða ákvarðanir teknar um að taka þær ekki form- lega fyrir heldur senda fólk aftur til þess ríkis þaðan sem það kom. „Við fengum mat og gistingu og það var vel séð um okkur. Við mátt- um hins vegar ekki vinna neins stað- ar,“ segir Sylvía. „Það er mjög erfitt að mega ekki vinna því auðvitað langar mann að hafa eitthvað til að takast á við. Við fengum 2.200 krónur í vasapeninga á viku og það er ekki hægt að gera mikið fyrir það á Íslandi, eiginlega ekki neitt, þannig að dagarnir fóru oft bara í að hanga og bíða – bíða eft- ir svari. Þetta eru skrýtnar og nið- urdrepandi aðstæður, allir að bíða og vona, allir í sama húsi og enginn að vinna úti. Maður er bara í einu herbergi, með sameiginlegu klósetti, og finnst maður engan veginn vera frjáls.“ Þegar framtíðin er óviss Biðin og óvissan tók mikið á Syl- víu, kannski meira en hún gerði sér grein fyrir meðan á því stóð. „Ég finn það bara núna hvað ég er öll miklu afslappaðri, það er eins og ég sé loksins að byrja að geta tekið því rólega!“ segir hún brosandi en bendir síðan alvarlegri á að það sé erfitt að slaka á þegar framtíðin sé óviss. Hún hafði raunar litla matarlyst meðan á biðtímanum stóð og leið oft mjög illa. „Það er líka erfitt að kynn- ast alltaf nýju og nýju fólki og horfa síðan upp á það vera sent í burtu. Og auðvitað hugsaði maður alltaf: Verð ég næst?“ Einn daginn fékk fjölskylda sem Sylvía hafði tengst nánum böndum neikvætt svar um dvalarleyfi á Ís- landi. Sjálf mun Sylvía aldrei gleyma þessum degi. „Þegar verið var að flytja þau í burtu var ég algjörlega miður mín og grét og grét. Allt í einu fannst mér þetta eitthvað svo hryllilega vonlaust. Einn af starfsmönnunum spurði mig hvað ég héti og sagðist vera með bréf til mín. Ég fékk áfall, tók hágrátandi við bréfinu og var viss um að núna væri komið að mér að fara. Þegar ég opnaði bréfið fékk ég hins vegar annað áfall. Svarið var jákvætt. Ég hélt áfram að gráta en núna af gleði!“ Að detta í lukkupottinn Næsta morgun vaknaði Sylvía fyrir allar aldir. Klukkan var ekki nema sex en hún var svo spennt að hún læddist út í garð. „Þetta var allt svo ótrúlegt, eftir tvö ár mátti ég lokins fá að setjast að á Íslandi og vinna og verða hluti af samfélaginu! Ég var svo ánægð og það var svo þungu fargi af mér létt að ég stóð bara þarna í náttkjólnum í blautu grasinu og beygði mig niður og kyssti jörðina – kyssti nýja heim- ilið mitt … Ég leit náttúrlega út eins og ég væri rugluð en ég trúði þessu bara varla.“ Auðvitað var líka skrýtið að detta í lukkupottinn. Sylvía viðurkennir að hún hafi ósjálfrátt fengið sam- viskubit gagnvart þeim sem ekki voru jafnheppnir. Og hún finnur til samúðar með fólkinu sem er enn á farfuglaheimilinu. „Þau bíða öll og vona að þau kom- ist út.“ Kenndi sjálfri sér að lesa Sjálf hefur Sylvía haft nóg fyrir stafni síðan hún flutti af gistiheim- ilinu og í eigin íbúð. Hún er búin að koma sér fyrir, taka bílpróf og er að vinna. „Það er reyndar bara tímabundið. Mig vantar enn framtíðarvinnu en það kemur allt með tímanum. Hver veit nema ég opni bara minn eigin veitingastað. Það væri gaman! Síðan er draumurinn að kaupa hús á Reykjanesinu eða í Reykjavík. Og eiga hund. Og auðvitað að reyna að komast í skóla.“ Skólaganga er raunar stór draum- ur fyrir Sylvíu. Þegar hún var lítil stúlka í Kenía lærði hún örlítið í lestri og skrift en það var á swahili og hún fékk ekki tækifæri til að vera nema stutt í skóla. Þegar hún kom til Íslands var hún því ólæs og óskrif- andi. „Ég vissi samt hvernig lestur virkar og hvað ég átti að gera. Þann- ig að ég ákvað að kenna bara sjálfri mér að lesa og skrifa! Ég skellti mér á bókasafnið, fékk lánaðar barna- bækur og byrjaði að æfa mig.“ Sylvía kallar ekki allt ömmu sína – til viðbótar þessu er hún að læra ís- lensku og kenna sjálfri sér á tölvur. Sylvía kann vel við kuldann og myrkrið á Íslandi og bendir glott- andi á að hún sé líka farin að venjast vindinum hér á landi. „Síðan er ég smám saman að læra á verðlagið. Þegar ég fékk fyrstu 100.000 krónurnar í hendurnar leið mér eins og milljónamæringi! Það var náttúrlega stór munur á því og 2.200 krónum. Ég hafði aldrei átt svona mikla peninga á ævinni! Mér fannst ég eiga allan heiminn og vera forrík. Síðan áttaði ég mig á því að peningarnir eru fljótir að fara á Ís- landi. Í desember var ég búin að eyða í jólaskraut og húsgögn og alls kyns hluti, því ég var svo ánægð að eiga loksins mitt eigið heimili – þeg- ar ég uppgötvaði allt í einu að veskið var næstum því tómt og ég ekki búin að kaupa neinn jólamat!“ Sylvía skellihlær og bætir við að þetta hafi þó allt farið vel að lokum. Hún bendir á að allan tímann sem hún hafi verið á Íslandi hafi hún fengið aðstoð sem hún sé þakklát fyrir, meðal annars ómetanlegan stuðning frá starfsfólki Rauða kross Íslands. Þótt Sylvía hafi ekki fengið formlega stöðu flóttamanns ákvað Rauði krossinn að veita henni sams- konar aðstoð og svokallaðir kvóta- flóttamenn hafa fengið. „Kenía er heimaland mitt og ég elska landið mitt en ég get ekki búið þar. Ég er þakklát fyrir að fá að hefja nýtt líf á Íslandi. Það er stór- kostleg tilfinning að þurfa ekki leng- ur að hafa áhyggjur af því að vera send úr landi – að vera frjáls og finna að ég er örugg.“ sigridurv@mbl.is Verð ég send í burtu næst? Hún bjó í tæp tvö ár á gistiheimili í Reykja- nesbæ þar sem hælisleit- endur bíða meðan mál þeirra eru tekin fyrir. Henni fannst erfitt að kynnast stöðugt nýju fólki og horfa síðan á eftir því vera sent í burtu. Sigríð- ur Víðis Jónsdóttir ræddi við Sylvíu Kithole Moudi frá Kenía sem datt í lukkupottinn í fyrra og fékk dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum. Morgunblaðið/Sigríður Víðis Heima Sylvía og kötturinn Kiki una hag sínum vel í íbúðinni í Keflavík. Þegar manneskja sækir um hæli utan eigin ríkis upp á eigin spýtur er hún skilgreind af stjórnvöldum sem hælisleitandi. Með umsókn sinni um hæli biður viðkomandi um viðurkenningu stjórnvalda á stöðu sinni sem flótta- maður, samkvæmt Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þótt stjórnvöld fallist ekki á umsóknina og vilji ekki veita viðkomandi slíka stöðu flóttamanns geta þau engu að síður ákveðið að veita honum dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Sumir fá aðstoð Stjórnvöld geta einnig boðið sjálf til landsins flóttafólki frá svæðum þar sem neyð ríkir. Gjarnan er vísað til þeirra sem kvótaflóttamanna. Til Ís- lands hefur til dæmis komið fólk frá Víetnam, Kosovo og Króatíu. Ís- lenska ríkið er með samning við Rauða kross Íslands um að aðstoða flóttafólkið og áður en það kemur er því útvegað húsnæði. Þeir sem koma upp á eigin spýtur til landsins og sækja um hæli búa aftur á móti á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ. Kemurðu einn eða í hópi með öðrum?  Frá árinu 1991 hefur einungis einn hælisleitandi fengið viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á stöðu sinni sem flóttamaður.  Umsækjendur hafa verið rúmlega 600.  Auk þess eina sem fékk formlega stöðu flóttamanns hafa 53 fengið dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum. Sylvía Kithole Moudi er í þeim hópi.  Í nýju útlendingalögunum var heimildarákvæði bætt inn um slík dval- arleyfi.  Í lögunum er lögð sú skylda á Útlendingastofnun að kanna hvort hæl- isleitanda sem ekki teljist vera flóttamaður í skilningi Flóttamannasamn- ings Sameinuðu þjóðanna skuli engu að síður veitt dvalarleyfi af mann- úðarástæðum. Einungis einn af 600 hlotið stöðu flóttamanns HAGFRÆÐIDEILD HÁSKÓLA ÍSLANDS www.hag.hi.is Hagfræðideild HÍ – Málstofa í efnahagsmálum Mánudaginn 18. ágúst kl. 12:00-13:30, Hátíðasalur HÍ Staða efnahagsmála: Er kollsteypa í nánd? Jón Steinsson, Columbia háskóla, New York Staða efnahagsmála hefur breyst hratt til hins verra eftir margra ára góðæri. Á síðustu 12 mánuðum hefur gengi hlutabréfa á Íslandi hrapað um ríflega helming, gengi krónunnar lækkað um meira en 30% og verðbólga farið yfir 10 prósentustig. Þá birtast reglulega fréttir af erfiðri stöðu bankanna og fjöldauppsögnum fyrirtækja. Í fyrirlestri sínum mun Jón fjalla um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Hann mun leitast við að greina orsakir vandans og fjalla um æskileg viðbrögð stjórnvalda. Mun Jón fjalla sérstaklega um framtíðarskipan bankamála og peningamála á Íslandi. Allir velkomnir. Aðgangur ókeypis.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.