Morgunblaðið - 17.08.2008, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 17.08.2008, Blaðsíða 22
22 SUNNUDAGUR 17. ÁGÚST 2008 MORGUNBLAÐIÐ Í sumar hefur allur tími minn farið í jarðskjálftana sem urðu 29. maí síðastliðinn,“ segir Ragnar við mig þegar við erum sestir á skrifstofu hans í húsi verkfræðideildar við Hjarðarhaga. „Við höfðum ekki endanlega lokið úrvinnslu gagna vegna jarðskjálftanna árið 2000. Ég fæ því ekki betur séð en jarð- skjálftar og afleiðingar þeirra verði meginviðfangsefni mitt það sem eft- ir er ævinnar.“ Jarðhrun og húsrið Ritaðar heimildir um jarðskjálfta á fyrri öldum er einkum að finna í annálum. Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur kannaði þessar heim- ildir og birti niðurstöður rannsókna sinna í nokkrum viðamiklum ritum. Verk hans, Jarðskjálftar á Suður- landi, sem fjallar um jarðskjálftana 1896, má hiklaust telja til merkustu verka um jarðskjálfta sem rituð hafa verið og er enn þann dag í dag undirstöðurit við rannsóknir á jarð- skjálftum á Íslandi. Byggir það m.a. á ítarlegum skýrslum sem hann lét safna um þessa atburði og afleið- ingar þeirra. Í formála verksins segir Þorvaldur um gildi slíkra heimilda: „Ef slíku er haldið saman geta menn seinna meir ef til vill leitt af því ýmsar ályktanir og haft af því ýmislegt gagn og ýmsan fróðleik fram yfir það sem nú getum vér. Það sýnir sig jafnan að hver öldin er annarri fremri í reynslu og þekk- ingu, en þá ríður á að frásögnin um liðna viðburði sé ítarleg, nákvæm og áreiðanleg.“ Rannsóknir Þorvaldar eru einkar mikilvægar vegna þess að jarð- skjálftarnir greindust á mælum á Ítalíu og í Rússlandi. Ragnar tekur fram að elstu heimildir um jarðskjálfta á Íslandi séu auðvitað ekki mjög nákvæmar. „Þær segja þó sína sögu. Jarð- skjálftanum 1151 er þannig lýst: „Húsrið og manndauði.“ Þetta er fáorð lýsing og gagnorð. Þó má ráða ýmislegt um eðli skjálftanna því að iðulega er getið um manntjón, hrun húsa, skriðuföll o.fl. sem varpar ljósi á hamfar- irnar.“ Ragnar segir að jarðskjálftar virðist hafa orðið á Suðurlandi á öll- um öldum Íslandsbyggðar að und- anskilinni 15. öldinni. Vera kunni að heimildir um þá hafi glatast. Ann- ars er ástæðan ekki kunn. Jarðskjálftar flýttu breytingum Heimildir um jarðskjálfta urðu mun ítarlegri eftir 1700 enda hafa samtímaheimildir varðveist. Árið 1706 urðu miklir jarð- skjálftar á Suðurlandi sem hófust 28. janúar. Hámarki náðu þeir 20. apríl þá um vorið. Þá féllu öll hús á 24 lögbýlum í Ölfusi og Flóa ásamt mörgum bæjarhjáleigum. Víða drapst búfénaður og fjórir týndu lífi. Áhrifunum er m.a. svo lýst: „Viðir í húsum mölbrotnuðu og húsin veltust um, svo undirstöður veggjanna urðu efstar, sumstaðar snerust hey um í heygörðum, svo botninn stóð upp, en torfið niður. Kofar og veik hús stóðu eftir sum- staðar þar sem hin sterkari féllu, matföng og búshlutir spilltust, kýr og kvikfénaður drápust víða, … “ Jarðskjálftarnir 1784 og 1789 höfðu afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Í fyrri skjálft- unum hrundi Skálholtsstaður að mestu og breytingar sem urðu á Þingvöllum eftir skjálftana 1789 eru taldar hafa flýtt þeirri ákvörðun að flytja þingið til Reykjavíkur. „Við höfum ítarlegar lýsingar á þessum jarðskjálftum og nokkrum sem riðu yfir á 19. öldinni en há- marki í nákvæmni og gæðum ná þessar lýsingar í verki Þorvaldar Thoroddsen.“ Ragnar segir að um 84 jarð- skjálftar hafi orðið á Suðurlandi frá upphafi Íslandsbyggðar sem valdið hafi tjóni. Í 37 þeirra varð mann- tjón og benda heimildir til að alls hafi um 106 manns farist. Síðast varð manntjón í jarðskjálftunum 1912. Minni híbýli drógu r manntjóni „Svo virðist sem dregið hafi úr manntjóni eftir því sem aldir liðu þótt eignatjón hafi aukist. Húsa- kynni voru stærri á miðöldum og skálarnir stóðust illa jarðskjálfta. Það má rekja til þungs torfþaks sem borið var uppi af trégrind. Máttarstoðir trégrindarinnar voru útstafir og innstafir sem sátu á sér- stökum steinum til þess að verja viðina fyrir jarðrakanum, en stoð- irnar voru án sérstakra tenginga við steinana. Aðrar tengingar einstakra ein- inga grindarinnar voru ófullkomnar og lítt færar um að standast mikil átök. Torf- og grjóthleðslur veggja höfðu einnig litla samloðun og voru viðkvæmar fyrir áhrifum jarð- skjálfta. Eftir því sem aldir liðu fram urðu einstök hús smærri og kann það að hafa ráðið miklu um manntjónið en eignaspjöll fóru í raun vaxandi. Þetta mat kann þó að stafa af ná- kvæmari skýrslum þegar farið var að rita um samtímaatburði.“ Hús reist á bjargi best Ragnar segir að eftir jarðskjálft- ana 1896 hafi nokkur umræða orðið um tjón á byggingum og ástæður þess. „Í því ljósi er athyglisvert að bera þær saman við tjónið sem varð í jarðskjálftunum á Suðurlandi árið 2000 og í vor en þá fóru þau hús einna verst þar sem undurstöð- urnar skemmdust. Er það athygl- isvert í ljósi þess sem kemur fram hjá séra Valdimar Briem á Stóra- Núpi í skýrslu hans 1896 til Þor- valdar Thoroddsen. Hann segir: „Því veittu menn eftirtekt, að bezt stóðu þau hús, sem stóðu á bergi eða fastri klöpp, en hrunið varð mest þar, sem jarðvegurinn er þykkur eða laus í sér, eða þá hraun undir.“ Jarðskjálftanefndin frá 1896 mælti með byggingu timburhúsa. Það ráð var byggt á reynslu timb- urhúsanna á Suðurlandi, en ein- ungis fimmtungur þeirra var dæmdur ónýtur eftir skjálftana.“ Reynslan féll í gleymsku Nokkuð virðist hafa verið byggt af timburhúsum fyrst eftir jarð- skjálftana 1896, en þegar frá leið voru það aðrar húsgerðir sem ruddu sér til rúms. Fyrst ber að nefna steinhúsin svonefndu. Þau voru með steinsteypta eða hlaðna veggi en gólf úr timbri. Það var litið svo á að hagkvæmast væri að nota innlend byggingarefni og með til- komu steinsteypunnar varð mögu- legt að auka hlut þeirra en hann hafði rýrnað mjög þegar hætt var að mestu að byggja torfbæi. Þessi steinhús voru alla jafna án járn- bendingar. „Járnbending fór fyrst að ryðja sér til rúms þegar byrjað var að nota steinsteyptar plötur í bygg- ingar, en án járnbendingar standast slíkar plötur ekki áhrif þyngd- arkraftsins. Járnbending var hins vegar ekki notuð í veggi ef frá eru talin járn sem sett voru yfir dyra- og gluggaop. Segja má að þetta hafi verið staða mála árið 1929 þegar mikill jarðskjálfti reið yfir. Hann átti upp- tök í Brennisteinsfjöllum og olli nokkrum skemmdum meðal annars í Reykjavík. Þá skemmdist m.a. Al- þingishúsið dálítið svo að eftir var tekið.“ Hugmyndir í glatkistuna Árið 1931 ritaði Sigurður Thor- oddsen verkfræðingur gagnmerka grein í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands þar sem hann fjallaði um áhrif jarðskjálfta á hús. Kveikjan að greininni voru jarðskjálftarnir 1929 og þær skemmdir sem þeir ollu. Í greininni kemur fram að timb- Morgunblaðið/G.Rúnar Hamfarir „Jarðskjálftanum 1151 er þannig lýst: „Húsrið og manndauði.“ Þetta er fáorð lýsing og gagnorð,“ segir dr. Ragnar Sigbjörnsson, prófessor í jarð- skjálftaverkfræði við Háskóla Íslands. Undanfarna áratugi hefur hann rannsakað áhrif jarðskjálfta á mannvirki og samfélagið í heild. Það var litið svo á að hagkvæmast væri að nota innlend byggingarefni og með tilkomu stein- steypunnar varð mögulegt að auka hlut þeirra en hann hafði rýrnað mjög þegar hætt var að mestu að byggja torfbæi. Þessi steinhús voru alla jafna án járnbendingar. Járnbending fór fyrst að ryðja sér til rúms þegar byrjað var að nota steinsteyptar plötur í byggingar. Fæst við skjálftana til æ Dr. Ragnar Sigbjörnsson, prófessor í jarðskjálfta- verkfræði við HÍ, hefur undanfarin 15-20 ár einkum rannsakað áhrif jarðskjálfta á mannvirki og samfélagið í heild. Arnþór Helgason tók hús á honum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.