Morgunblaðið - 05.09.2008, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 05.09.2008, Blaðsíða 28
28 FÖSTUDAGUR 5. SEPTEMBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Kristján Stef-ánsson fæddist í Reykjavík 3. mars 1964. Hann lést á heimili sínu þriðjudaginn 26. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans eru Kolbrún Guð- mundsdóttir, f. 2.3. 1943 og Stefán Kristjánsson, f. 22.2. 1936. For- eldar Kolbrúnar voru Sigurbjörg Ólafsdóttir, f. 24.6. 1913, d. 10.7. 1989 og Guð- mundur Brynjólfsson, f. 13.8. 1915, d. 15.5. 2000. Foreldrar Stefáns voru Sigurlaug Magn- úsdóttir, f. 1.11. 1908, d. 30.8. 1998 og Kristján Stefánsson, f. 1.9. 1908, d. 28.8. 1963. Systir Kristjáns er Arna Stef- ánsdóttir, f. 23.7. 1960, maki Skapti Guðbergsson, f. 9.7. 1948. Kona Kristjáns er Þorbjörg Guðrún Friðberts- dóttir, f. 5.8. 1964. Foreldrar hennar eru Lilja Guðrún Eiríksdóttir, f. 29.8. 1926 og Frið- bert Elí Gíslason, f. 21.6. 1927, d. 2.10. 1980. Systk- ini Þorbjargar eru, Hafsteinn Ómar, f. 3.4. 1948, Frið- bert, f. 22.1. 1956, Elín, f. 19.5. 1957 og Anna, f. 24.9. 1962. Börn Kristjáns og Þorbjargar eru: 1) Friðbert Elí, f. 20.2. 1981, kona hans er Áslaug Ragnarsdóttir, f. 22.1. 1982. Börn: Elías Arnar, f. 27.3. 2000 og Viktoría, f. 30.3. 2007. 2) Karólína Birgitta, f. 30.1. 1992, kærasti Elvar Hákon Jóhanns- son, f. 15.5. 1987. Útför Kristjáns fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13. Ástin mín. Ég trúi ekki enn að þú sért farin frá mér og börn- unum okkar. Söknuðurinn er svo sár. Við vorum nýbúin að skipu- leggja haustið og framtíðina. Það voru svo bjartir tímar framundan. Það var svo margt sem við ætl- uðum að gera fyrir okkur, börnin og barnabörn okkar. Takk fyrir að gefa mér börnin okkar tvö, þau voru þér og okkur allt. Við vildum allt fyrir þau gera og þau gáfu okkur svo mikið. Við áttum tvö yndisleg barnabörn og tengda- börn. Takk fyrir allar góðu stund- irnar sem áttum í þrjátíu ár. Ég sakna þín svo mikið og það eina sem ég þrái er að fá faðma þig og finna fyrir þér. Ég veit það innst inni að við hittumst síðar og verð- um aftur saman. Minningar um allar okkar góðu stundir ber ég í brjósti mínu alla ævi. Ég elska þig að eilífu, ástin mín. Þar sem englarnir syngja sefur þú. Sefur í djúpinu væra. Við hin sem lifum, lifum í trú. Að ljósið bjarta skæra. Veki þig með sól að morgni. Veki þig með sól að morgni. Farðu í friði vinur minn kær. Faðirinn mun þig geyma. Um aldur og ævi þú verður mér nær. Aldrei ég skal þér gleyma. Svo vöknum við með sól að morgni. Svo vöknum við með sól að morgni. (Bubbi Morthens.) Þín, Þorbjörg. Elsku pabbi. Ó hve sárt við söknum þín. Það er svo erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur. Við sem áttum svo margt eftir að gera saman. Nú fyllir okkur stórt tóm. Þú varst okkar stoð og stytta í gegnum allt. Sú athygli og áhugi sem þú sýndir okkur er ómet- anlegt vegarnesti. Margt flýgur í gegnum hugann á þessari stundu. Af hverju pabbi? Af hverju fórstu þú svona fljótt frá okkur? Við sem vorum svo náin. Með söknuði og sorg kveðjum við þig, elsku pabbi. Megi Guð og góðir englar gæta þín. Ljúfi drottinn, lýstu mér, svo lífsins veg ég finni láttu ætíð ljós frá þér ljóma í sálu minni. (Gísli á Uppsölum.) Þín börn, Friðbert Elí Kristjánsson og Karólína Birgitta Kristjánsdóttir. Það er erfitt að setjast niður og skrifa eftirmæli um son og bróð- ur. Kristján var fæddur í Smá- íbúðahverfinu í húsinu hjá móð- urafa sínum og ömmu. Fjölskyldan fluttist í Holtagerðið í Kópavogi þegar hann var 4 ára. Tveimur árum síðar fluttist fjöl- skyldan í Vallargerðið þar sem hann ólst upp. Kristján gekk í skóla í Kópavogi og eignaðist þar fjölda vina. Þar kynntist hann einnig konunni sinni, henni Tobbu. Frumburður þeirra Frið- bert Elí fæddist í febrúar 1981 og tveimur árum síðar keyptu þau sína fyrstu íbúð á Sæbólsbraut- inni. Í janúar 1992 fæddist dóttir þeirra Karólína Birgitta. Kristján varð snemma afi þegar Friðbert Elí eignaðist soninn Elías. Síðan varð hann aftur afi þegar Frið- bert Elí og Áslaug kona hans eignuðust Viktoríu. Var hann ákaflega stoltur af börnunum sín- um. Kristján átti afar auðvelt með að kynnast fólki og var hann hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Hann hafði mjög gam- an af því að bjóða fólki í mat enda var hann snilldarkokkur. Hann byrjaði snemma að vinna með fjölskyldunni við veitingarekstur en þegar hann ásamt fjölskyld- unni stofnaði fiskvinnslu- og út- flutningsfyrirtæki átti fiskurinn hug hans allan. Við kveðjum elsku drenginn okkar sem kvaddi þennan heim langt um aldur fram og biðjum góðan Guð að styrkja fjölskyld- una á þessum erfiðu tímum. Mamma, pabbi, Arna systir og Skafti. Elsku tengdapabbi. Ég trúi varla að þú sért farinn. Mér þótti svo vænt um þig. Vin- átta þín var mér sérstaklega dýr- mæt og söknuðurinn er mikill. Þakka þér fyrir hve yndislegur þú varst við mig og hve vel þú tókst á móti mér inn í fjölskylduna. Minningin um þig mun lifa með mér um ókomna framtíð. Það er því með hlýju og þakklæti að ég kveð þig núna. Þín tengdadóttir, Áslaug Ragnarsdóttir Thorarensen. Elsku afi okkar. Mikið fengum við stuttan tíma með þér. Þrátt fyrir það munt þú alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar og þannig lifa með okkur. Við elskum þig afi og biðjum fyrir því að barnaenglarnir á himninum verði ávallt hjá þér og gæti þín. Einn dag munum við svo hittast aftur. Einn fallegan dag. Leiddu mína litlu hendi, ljúfi Jesús, þér ég sendi bæn frá mínu brjósti, sjáðu, blíði Jesús, að mér gáðu. (Ásmundur Eiríksson.) Þín barnabörn, Elías Arnar Friðbertsson og Viktoría Friðbertsdóttir. Elsku Kiddi minn. Hún var löng leiðin heim til ykkar eftir að Tobba hringdi í mig og sagði mér að þú værir dáinn. Tobba mín var svo sterk þegar hún hringdi, nýbúin að missa þig. Missir henn- ar og barna ykkar er svo mikill og harkalegur. Ég var nýbúin að ræða við þig í síma þegar hjarta þitt gaf sig. Ótrúlegt hvað lífið getur tekið óvæntar stefnur á einu augnabliki. Kiddi minn, þið voruð svo ung þegar þið byrjuðuð að vera saman og árin ykkar voru nær þrjátíu. Þið eigið yndisleg börn, Friðbert Elí og Karólínu, og barnabörnin tvö, Elías Arnar og Viktoríu. Þú varst stoltur faðir og afi og vildir allt fyrir fjölskyldu þína gera. Það er svo margs að minnast. Matarboðin sem ég elskaði að þiggja, því þú varst svo góður kokkur og gerðir ótrúlega góðar sósur. Allar samverustundirnar sem við áttum og ferðirnar sem við fórum saman til útlanda, síð- ast fyrr á þessu ári til Tyrklands. Þar skemmtum við okkur vel og nutum lífsins. Við ætluðum síðan að plana saman draumaferðina. Við hlógum þegar ákváðum að þar mættu ekki vera neinar búðir. Tobbu minni var nú ekki skemmt en hún hlær að þessu núna. Þú varst draumlyndur og lést drauma þína rætast. Þótt á móti hafi blásið stóðst þú teinréttur og horfðir fram á veginn. Þú varst lífsglaður maður og vinur vina þinna. Það er því svo sárt, Kiddi minn, að horfa á eftir þér svona ungum, áhugasömum og fullum af hugmyndum um framtíðina. Við kveðjum þig með sárum söknuði og biðjum Guð að vera með þér. Elsku Tobba mín, Elli, Áslaug, Elías Arnar og Viktoría. Karólína og Elvar, Kolbrún og Stefán, Arna og Skapti. Megi Guð veita ykkur styrk til að komast í gegnum þessa miklu raun. Anna og fjölskylda. Kiddi vinur minn er dáinn. Allt- of ungur og langt fyrir sinn tíma. Við Kiddi og Tobba þekktumst frá barnæsku í vesturbæ Kópa- vogs og mynduðust strax mikil og sterk vinabönd sem héldu áratug- um saman og hafa þroskast áfram í gegnum fjöldskyldur okkar, börn og barnabörn hans. Það var dásamlegur tími að alast upp í Kópavogi og verða að manni. Við götu bernskunnar nut- um við lífsins og hlökkuðum til að takast á við lífið sjálft og þær áskoranir sem biðu okkar. Óhræddir og spenntir tókum við því sem að höndum bar og ávallt var Kiddi fremstur í flokki, enda gæddur hæfileikum leiðtogans. Ávallt fremstur meðal okkar jafningjanna. Þrátt fyrir að samband okkar minnkaði um tíma á meðan ég stundaði nám og bjó erlendis þá var það alltaf einsog við Kiddi hefðum hist í gær þegar ég kom til landsins. Margra mánaða að- skilnaður varð að engu þegar ég hitti vin minn. Það var alltaf til- hlökkun að koma í Kaffivagninn og hitta Kidda og fjölskylduna. Þannig var bara okkar vinskapur og hans viðhorf til vina sinna. Kiddi naut mannlegra og verk- legra hæfileika sem fáum hlotnast á lífsleiðinni. Hann hafði einstakt lag á bátum og naut sín vel á bæði sjó og vatni þar sem hann hafði einstaka lagni við aðstæður og umhverfi. Ég og félagar mínir í Nordic Partners og hann áttum góðar stundir enda þó svo þær hafi ekki náð markmiðum sínum. Kiddi var mikill pabbi og var mjög stoltur yfir börnum sínum og metnaðarfullur fyrir þeirra hönd. Minn missir er mikill en þeirra missir er mestur. Kiddi var einstakur maður sem vílaði aldrei fyrir sér að koma öðrum til hjálpar eða rétta hjálp- arhönd hvenær sem var. Alltaf var Kiddi vinur minn tilkallaður og naut þess að geta látið gott af sér leiða. Hann hafði þennan eig- inleika að vera sannur vinur vina sinna og hvikaði aldrei frá því. Þetta er einstakur hæfileiki þar sem vináttan skiptir meiri máli en eigin hagsmunir. Hann hafði allt- af rétt svör og lausnir á öllum hlutum þegar ég hringdi og kvartaði yfir tíu þumalputtunum mínum! Hve sárt ég sakna þín. Ég sit við legstein þinn og hugsa um horfna tíð, hjartans vinur minn. Sú sannreynd sturlar mig að við sjáumst aldrei meir. Þú gafst mér nýja sál sál sem eitt sinn deyr. Ó hve sár er dauði þinn, þú varst eini vinur minn. Einn ég stari í sortann inn með sorgardögg á kinn. Hve leið og laus við svör er lífsins gönguför. Við leyndardómsins dyr deyja mennirnir. (Sverrir Stormsker .) Elsku Tobba, Elli, Karólina, Áslaug, Elías, Viktoría, Kolla, Stefán og Arna, ykkar missir er mikill. En eftir situr minning um einstakan mann sem aldrei mun gleymast. Hugsanir okkar Önnu og fjölskyldu eru með ykkur. Guð varðveiti minningu Kristjáns Stefánssonar. Gísli Þór Reynisson. Vinur minn Kristján Stefánsson er látinn. Þetta er staðreynd sem erfitt er að meðtaka. Sá allra harðasti er farinn útaf, eftir situr liðið og þarf að spila leikinn án hans. Það gegna allir hlutverkum í lífinu en það má með sanni segja að hans hlutverk hafi verið stórt. Hann sóaði ekki tímanum að óþörfu heldur lifði hratt. Hann hitti konuna sína ungur, eignaðist börnin ungur og fór í viðskipti ungur. Kristján var harður nagli og kom það sér oft ágætlega. Hans stærsti kostur var þó hve mikið ljúfmenni hann var og kynntist ég því af eigin raun. Kristján var vinur vina sinna, hafði endalausar áhyggjur af þeim og gerði sér far um að setja sig inn í þeirra mál. Leiðir okkar Kristjáns lágu saman fyrir rétt rúmum tveimur árum þegar hann fékk mig til starfa hjá Sjófiski og Fiskisögu. Vann ég náið með honum þann tíma sem hann stjórnaði fyrirtæk- inu. Á þeim tíma stækkaði fyr- irtækið mjög mikið og átti hann stóran þátt í þeirri velgengni. Það gekk oft á ýmsu í kringum Kristján en alltaf var hann tilbú- inn að hlusta á rök annarra. Mér er minnistætt þegar ég var ný- byrjaður hjá Sjófiski og kom að máli við hann um að mér þætti nauðsynlegt að halda veislu fyrir helstu viðskiptavini fyrirtækisins. Það er skemmst frá því að segja að það tók mig ekki langan tíma að sannfæra hann um gildi slíks viðburðar heldur þurfti ég, ef eitthvað var, að halda aftur af honum svo mikill var eldmóður- inn. „Bara hafa það nógu grand,“ sagði hann og auðvitað gekk það eftir. Lífið var samt ekki alltaf dans á rósum hjá Kristjáni og þurfti hann að glíma við ýmis öfl sem að honum sóttu. Alltaf stóð hann þó upp að nýju og hélt áfram. Ég lærði margt af honum sem ég mun taka með mér út í lífið, sér- staklega það að missa aldrei trúna. Vinskapur okkar Kristjáns varð enn nánari á þessu ári og má segja að við vorum í daglegum samskiptum allt til dauðadags. Til marks um það þá áttum við gott samtal nokkrum klukkustundum áður en hann dó. Eftir sit ég og bíð eftir að hann hringi í mig en svo verður ekki um sinn því hann þurfti að hverfa frá til annarra og æðri verka. Ég veit þó það að hann mun fylgjast vel með öllu sem fram fer enda var hann vanur því. Kæra fjölskylda og aðstandend- ur, hugur minn er hjá ykkur og veit ég að Guð mun gefa ykkur styrk í þeirri sorg sem nú er. Með þessum orðum vil ég þakka fyrir mig og kveðja góðan vin minn. Blessuð sé minning Kristjáns Stefánssonar. Ágúst Reynir Þorsteinsson. Í dag kveð ég kæran vin með söknuði Kristján, sem var fullur af orku og eldmóði. En hefur nú kvatt þetta líf langt um aldur fram. Leiðir okkar Kristjáns lágu saman á Grandanum þegar við tæplega tvítugir fjölskyldumenn unnum í fyrirtækjum foreldra okkar. Kristján hjá Kaffivagnin- um og ég hjá Sæbjörgu. Það tókst með okkur góður vinskapur sem hefur haldist æ síðan. Strax varð mér ljóst að Kristján var mikill hugsjónamaður, hann fékk marg- ar góðar hugmyndir í sambandi við atvinnulífið sem hann deildi með mér og vinum sínum enda vinamargur. Hugur hans stóð þó alltaf til fyrirtækjareksturs af einhverju tagi, enda hafði hann til að bera góða yfirsýn og hæfileika til mannlegra samskipta og hafði ávallt rök fyrir sínu máli. Árið 2002 varð hans hugarfóst- ur að veruleika og með stuðningi vina og fjölskyldu stofnaði hann Sjófisk og árið 2006 Fiskisögu ásamt fleirum. Ég er stoltur af að hafa fengið að taka þátt í því með honum. Við Kristján störfuðum saman í rúm 2 ár hjá Sjófiski og fór hann þá til annarra starfa. Kristján og eiginkona hans Þor- björg voru miklir höfðingjar heim að sækja. Ávallt stóð glæsilegt heimili þeirra opið fyrir fjöl- skyldu og vini. Gestristni og veg- legar veitingar ásamt skemmti- legum umræðum lýsa þeim hjónum best. Ég þakka honum samfylgdina og bið Guð almáttugan að styrkja Tobbu, Ella, Karólínu, Stefán, Kolbrúnu, Áslaugu, barnabörn og aðra aðstandendur. Birgir Guðmundsson. Mér finnst ég varla heill, né hálfur maður, og heldur ósjálfbjarga, því er verr. Ef þú værir hjá mér, vildi ég glaður verða betri en ég er. Eitt sinn verða allir menn að deyja eftir bjartan daginn kemur nótt. Ég harma það, en samt ég verð að segja að sumarið líður allt of fljótt. (Vilhjálmur Vilhjálmsson.) Hann Kristján er horfinn á braut, langt fyrir aldur fram. Ég kynnist Kristjáni fyrst í janúar 2007 þegar ég hóf störf hjá Sjó- fiski. Gleymi aldrei atvinnuviðtal- inu sem hann tók við mig og sann- aði það strax þá hversu góður maður Kristján var. Metnaður og ákveðni hans sýndu mér betur og betur hversu gott var að vinna í návist hans. Ég man alltaf eitt af mínum fyrstu verkefnum sem hann fól mér. Hann skellti mér niður í vinnslusal og sagði að ef ég ætlaði að selja fisk þá yrði ég að hafa tilfinningu fyrir afurðun- um. Þrátt fyrir alltof stutt kynni þá fékk ég samt að kynnast þess- um hlýja og hörkuduglega manni. Kristján var svo sannarlega vinur í raun. Vinur sem maður gat ávallt leitað til, stóð alltaf með vinum sínum, hafði trú á þeim og vísaði þeim rétta leið í lífinu. Þó að mótbyr fengi hann þá gafst Kristján aldrei upp, alltaf stóð hann upp, hélt áfram og gerði betur. Vináttu minni við Kristján og hans fjölskyldu bý ég að alla tíð. Alltaf tekið á móti manni með opnum örmum og bros á vör. Trú hans á mér kemur mér lengra í lífinu. Geri þig stoltan, kæri vinur. Elsku Tobba , Elli, Karólína, Áslaug, Elías, Viktoría, Gucci og aðrir aðstandendur, megi guð gefa ykkur styrk í þessari miklu sorg. Minning hans lifir að eilífu í hjörtum okkar. Bergrún Ósk Ólafsdóttir. Kristján Stefánsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.