Samvinnan


Samvinnan - 01.06.1950, Blaðsíða 29

Samvinnan - 01.06.1950, Blaðsíða 29
(Framhald.) Hún dró upp gamlan og gulnaðan pappírsmiða og rétti Elísabet hann um leið og hún fór. Elísabet sat lengi hljóð og döpur eftir að frúin var farin og hugsaði um hana og komu hennar. Nú skildi hún, hvers vegna frú Beck var ávallt svo föl og gleðivana á svip. Engin hrukka markaði ennþá andlit hennar og tíguleg var hún og stolt í fasi. En hversu kalt og þröngt var þó, þegar inn kom úr skelinni, sem lukizt hafði um hjarta hennar. — Vesalingurinn! Víst leið henni illa. Það var ekki auðvelt að þekkja Maríu Forstbery aftur í gervi frú Maríu Beck. „Svona er það þá að vera ólánssamur í hjónabandinu," sagði Elísabet við sjálfa sig. Henni fannst sem sér hefði gefið sýn inn í einhvern skelfilegan, dapran, dimman og kaldan heim, sem hana hafði aldrei órað fyrir áður, þrátt fyrir allt það, sem á móti hafði blásið í hennar eigin hjónabandi. Lengi dvaldi hugur hennar með furðu og meðaumkun við þetta samtal, er hún sat við sjúkrabeð frænku sinnar gömlu. En þegar frá leið beindist þó hugsun hennar eink- um að vissum orðum, sem frá Beck hafði látið falla um hana sjálfa og hennar eigið hjónaband. — „Svo að þetta er það þá, sem fólkið segir og heimurinn heldur um okkur Sölva," hugsaði hún með sjálfri sér — „að við séum ósátt og óánægð í hjónabandinu!" — En var það þá annars nokkur fjarstæða? Var hún sjálf ánægð? Og var Sölvi ánægður? — Hún sá hann fyrir hugskotssjónum eins og hann var, og þegar þau kynntust fyrst — og eins og hann var nú orðinn — þungbúinn, uppstökkur og tor- trygginn á sínu eigin heimili. Hún minntist þess, að nú orðið tók hún ávallt móti honum með duldum ótta í brjósti í stað þess fagnaðar, sem eiginkonan átti að fyllast í hvert sinn, er hún heimti eiginmann sinn aftur utan úr háska hafsins og lífsins. Og hún minntist þess með hvað hætti þau höfðu síðast skilið, og hvernig henni hafi verið innan brjósts. — Svona var þá sambúð þeirra komið. Og þó vissi hún vel, að Sölvi hafði ávallt elskað hana og þráð hana og enga aðra. Og víst hafði hún sjálf fengið þann, sem hún vildi — eina manninn, sem hún nokkru sinni hafði viljað ganga með út í galdrahríð lífsins og örlaganna. Svona undarlegt og meinlegt gat lífið og örlögin verið! Þegar leið að morgni, sat Elísabet enn sem í draumi með spenntar greipar í kjöltu sér. Enn heyrði hún orð frú Beck í láta í eyrum sér: „Ég er alltaf að deyja og minnka með hverjum degi, sem líður. Og sjálf veit ég það bezt, hversu lítið lifandi er orðið eftir af mér. Lífið var, en búið er." — Eitthvað á þessa leið höfðu henni farizt orð. — En gat hún og Sölvi ekki sagt hið sama. Voru þau ekki einnig sjálf að minnka og deyja hvort við annars hlið? Eru ekki öll hjón, sem hætt eru að vaxa í ástúð og samúð hvort í annars garð — alltaf að minnka og deyja hvort frá öðru — fjarlægjast hvort annað, unz hið bezta og dýrmætasta, sem þau eiga bæði, er horfið og dáið með öllu? Lengi sat hún hnípin og hugsaði. En allt í einu var sem þrek hennar, viljastyrkur og bjartsýni vaknaði skyndi- lega af svefni. Hún kerrti hnakkann og ljóma sló á frítt og kjarklegt andlit hennar. — „En svona má þetta ekki lengur ganga. Við Sölvi megum ekki eyðileggja lífið hvort fyrir öðru — ekki glata af misskilningi og handvömm þeim mikla og dýrmæta fjársjóði, sem við eigum saman," hrópaði hún með sjálfri sér. Bros lék henni um varir, því að nú hafði hún gert upp reikningana við sjálfa sig og skilið til fulls, hversu óendanlega mikið var í húfi fyrir þau bæði. Og hún var reiðubúin að taka enn á ný upp baráttuna fyrir sjálfri sér við sjálfa sig — hefja ótrauð stríðið vegna manns- ins, sem hún unni — við manninn, sem hún unni. XXVII. Sölvi hafði verið svo heppinn að koma ensku bark- skipi, er statt var í sjávarháska, til hjálpar og stýra því heilu á húfi inn í Hestnes. Fyrir þetta hafði hann hlotið mikla fjárhæð í björgunarlaun. Hann hafði að vanda kviðið fyrir heimkomunni. En þegar heim kom og hann fann ekki konu sína þar fyrir en frétti ástæðuna fyrir brottför hennar, flýtti hann sér strax á eftir henni inn í Arnardal og á hennar fund. Hún kom á móti honum fram í ganginn. „Ég hefi verið kvíðandi út af þér, Sölvi, af því að ég frétti ekkert frá þér. Ég hefi beðið eftir þér, skaltu vita," sagði hún glaðlega. — „Þú verður að ganga hljóðlega um. — Komdu hingað með mér," sagði hún og vísaði honum inn í hliðarherbergi. — „Hvar er Gjert?" spurði hún ennfremur. Sölvi horfði dálítið furðulega á' konu sína. Hún var ekki vön að taka á móti honum á þennan hátt, svona djarfleg og ugglaus, eins og hún krefði hann óhikað reikningsskapar vegna hinnar löngu fjarveru hans. Annars var það alltaf hann sjálfur, sem ráðið hafði tóninum og hagað upphafinu eftir því á hversu góðu eða slæmu skapi hann var hverju sinni. — 29

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.