Samvinnan


Samvinnan - 01.11.1951, Blaðsíða 3

Samvinnan - 01.11.1951, Blaðsíða 3
SAMVINNAN Tveir skóíar samvinnumanna Fáar þjóðir leggja eins mikla áherzlu á að veita æsku- lýð sínum skólagöngu sem íslendingar. Skiptir það fólk nú tugum þúsunda, sem sezt á skólabekk á haustin og helgar sig námi meiri hluta ársins. Eru börn og ungling- ar á skólaskyldualdri þar fjölmennasti hópurinn, en auk þeirra sækja nú þúsundir manna ýmis konar skóla og námskeið af fúsum vilja og án opinberrar kvaðar. Hefur þetta fólk um ærið auðugan garð að gresja, þar sem stofn- aðir hafa verið í landinu margvíslegir skólar, þar sem læra má allt milli himins og jarðar. íslenzkir samvinnumenn hafa átt merkan þátt í því að opna dugandi og áhugasömu æskufólki leið til mennta með því að stofna og reka Samvinnuskólann. Þegar hann var settur á stofn fyrir rösklega þrem áratugum, var hér fátt um skóla til undirbúningsnáms, og tóku stjórnend- ur fullt tillit til þess í inntökuskilyrðum skólans, sem voru þung á sviðum bókmennta og almennrar þekkingar, en vægari í greinum, er krefjast mikillar tilsagnar, svo sem tungumálum. Samvinnuskólinn var all þungur, tveggja vetra skóli, og hefur hann alla tíð lagt áherzlu á að glæða áhuga nemenda á vandamálum samtíðarinnar, þjóðfélags- fræðum og bókmenntum, auk þess sem hann veitti verzl- unarþekkingu. Samvinnuskólinn hefur ekki bundið sig við hið upp- runalega form sitt, heldur breytt nokkuð kennslutilhög- un sinni með breyttum aðstæðum. Nú eru komnir til sög- unnar héraðs- og gagnfræðaskólar um land allt og mögu- leikar til sjálfnáms margvíslegir. Er því víða um landið hægt að fá svipaða kennslu og neðri deild Samvinnuskól- ans áður veitti, og var hún því lögð niður 1949. Jafnframt því, sem neðri deildin var lögð niður, var stofnuð ný framhaldsdeild, sem ætlazt er til að verði fá- menn, og mun í henni lögð áherzla á verklega kennslu í skrifstofu- og verzlunarstörfum. Að þessum vetri lokn- um munu einn eða fleiri nemendur deildarinnar fá þess kost að fara utan til framhaldsnáms hjá samvinnumönn- um nágrannalandanna, og eru tveir hinir fyrstu nýlega farnir til Bretlands og Svíþjóðar. Með þessari skipan standa vonir til þess, að hægt verði að sjá samvinnuhreyf- ingunni fyrir góðum og vel menntuðum starfskröftum. Mun því væntanlega reynast svo enn í framtíðinni, sem reynzt hefur í þrjá áratugi, að úr Samvinnuskólanum fái samvinnuhreyfingin marga góða liðsmenn, og nemendur þaðan verði liðtækir borgarar, hvar sem er í þjóðfélaginu. íslenzkir samvinnumenn eiga annan skóla en Sam- vinnuskólann, þar sem er Bréfaskóli SÍS. Er skóli þessi ein merkasta nýjung í kennslumálum landsins síðustu ár, og hefur hann opnað miklum fjölda landsmanna, ungra og gamalla, nýjar leiðir til fræðslu og menntunar. Skól- inn starfar árið um kring og sendir kennslubréfin til nem- enda, hvar sem þeir eru á landinu. Nemendur geta sjálf- ir ráðið námshraða, námstíma og námsgreinum, en skól- inn hefur ár frá ári boðið fjölbreyttara efnisval og fleiri fyrsta flokks kennara. Hefur hann nú tekið upp sam- starf við útvarpið um framburðarkennslu í tungumálum, og virðist tilvalið, að þessir aðilar vinni þannig saman. Nemendum Bréfaskólans hefur fjölgað mjög ört und- anfarin ár, og með bættum póstsamgöngum mun þeim vafalaust halda áfram að fjölga á komandi árum eftir því sem skólinn færir út kvíarnar og býður margvíslegra nám. Er þegar sýnt, að þessi skóli samvinnumanna er einn merkasti alþýðuskóli landsins.

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.