Samvinnan


Samvinnan - 01.04.1958, Blaðsíða 19

Samvinnan - 01.04.1958, Blaðsíða 19
Goðsögnin um .... (Framh. af bls. 7) leyfi hjá Plútoni til að hverfa aftur til jarðarinnar til að refsa konu sinni. En þegar hann hafði séð heiminn á ný, not- ið vatns og sólar, sands og sjávar, lang- aði hann ekkert til að hverfa aftur til myrkheima. Endurteknar aðvaranir komu að engu haldi. Mörg ár í viðbót bjó hann við sjávarsíðuna, við glitrandi haf og bros- andi jörð. Afskipti guðanna urðu nauð- synleg. Hermes kom, þreif í kraga hins ósvífna manns, og færði hann með valdi til myrkheima aftur, þar sem kletturinn hans var til reiðu. Ykkur má nú vera ljóst, að Sísýfos var fjarstæðukennd hetja. Hann er sjálfum sér samkvæmur, jafnt í ástríðum sínum og þjáningum. Fyrirlitning hans á guðunum, hatur hans á dauðanum og ást hans til lífsins aflaði honum þessarar ólýsanlegu refs- ingar, þar sem allt hans verk verður til einskis. Slíkt er gjaldið, sem hann verð- ur að greiða vegna þrár sinnar til jarð- arinnar. Okkur er ekkert sagt um Sísýfos í undirheimum. Goðsagnir eru til þess, að ímyndun- araflið geti blásið í þær lífsanda. Gegn- um goðsögnina sést aðeins áreynsla lík- ama, sem streitist við að reisa hinn geysistóra stein, velta honum og ýta upp brekku, mörg mörg hundruð sinnum, andlitið þrútnar, vanginn liggur þétt upp að steininum, herðamar styðja við hið aurþakta bákn, fætumir styðja það líkt og fleygur, nýtt viðbragð með útrétt- um örmum, öll hin mannlega ábyrgð í tveimur auriþöktum höndum. Að hinu langa erfiði loknu, mældu í endalausum tíma án skynjunar, er tilganginum náð. Þá horfir Sísýfos á steininn velta á fá- um andartökum niður til hinna neðri byggða og þaðan verður hann að velta honum upp á ný. Hann snýr aftur niður á sléttlendið. Það er á þessum krossgötum, í þessu hléi, sem ég verð gripinn áhuga á Sísý- fosi. Andlitið svo nærri steininum er næstum því steinninn sjálfur. Ég sé manninn snúa til baka með þungum, af- mældum skrefum til kvalarinnar, sem hann fær aldrei enda á. Þessi tími er eins og örstutt hlé, sem endurtekur sig eins örugglega og þjáning hans, það er þá, sem hann skynjar. Á hverju því and- artaki, sem hann yfirgefur hæðimar og stefnir markvisst til heimkynna guðanna, er hann æðri forlögum sínum. Hann er sterkari en kletturinn hans. Ef þessi goðsögn er sorgarsaga, er það vegna þess, að hetja hennar er skyni gædd. Hvernig yrði þjáning hans, ef von- in um árangur brygðist honum í hverju skrefi? Verkamaður nútímans vinnur alla daga að sama skyldustarfinu og þau örlög eru ekki síður fjarstæðukennd. En þetta er aðeins sorgarsaga á þeim and- artökum, sem hún verður skynjuð. Sísý- fos, sem lýtur örlögum guðanna, valda- laus og uppreisnargjam, þekkir allan teygjanleik hinna níðingslegu skilmála, sem honum eru settir; það er það, sem hann hugsar um á niðurleið sinni. Eigin- leikarnir, sem urðu orsök ógæfu hans, eru um leið kóróna sigurs hans. Það eru engin örlög til, sem fyrirlitningin ekki sigrar. Ef gangan niður er þannig stundum sorgarsaga, getur hún einnig verið gleði- blandin. Þetta er ekki ofsagt. Aftur fylgi ég Sísýfosi að klettinum, að rótum sorg- arinnar. Þegar imynd jarðarinnar lætur of í endurminningunum, þegar hamingj- an verður of áleitin, kemur fyrir að ang- urværð myndast í hjörtum mannanna, það er sigur klettsins, kletturinn sjálf- ur. Hin takmarkalausa sorg er of þung til þess að hún verði borin. Þetta eru okk- ar Getsemanenætur. Hinn nístandi sann- leikur hverfur, þegar hann er viður- kenndur. Þannig hlýddi Ödipos örlögun- um, án þess að vita það. En þegar hann vissi það, hófst sorgarsaga hans. Einmitt þá á því andartaki skildi hann, blind- ur og örvæntingarfullur, að einu bönd- in, sem bundu hann í þessum heimi, var svöl stúlkuhönd. Þá var ógurlegri at- hugasemd slöngvað fram: „Þrátt fyrir svo margvíslegar eldraunir kemur aldur minn og göfgi sálar minnar mér til að álíta, að allt sé gott.“ Ödipos Sófóklesar, eins og Kirilov Dostojevskys, votta þann- ig hinn fjarstæðukennda sigur. Forn vizka staðfestir hetjudáðir nútímans. Maður uppgötvar ekki hið fjarstæða, án þess að finna hjá sér hvöt til þess að skrifa handbók hamingjunnar. „Hvað er þetta? Er vegurinn svona þröngur?“ Samt er aðeins til einn heimur. Ham- ingjan og hið fjarstæða eru tvö börn sömu jarðar. Þau eru óaðskiljanleg. Það væri misskilningur að halda því fram, að hamingjan þurfi endilega að stafa frá uppgötvun hins fjarstæða. Það skeður eins oft, að tilfinningin fyrir hinu fjar- stæða stafar af hamingju. „Ég álít, að allt sé gott,“ sagði Ödipos, og sú athuga- semd er heilög. Hún bergmálar í hinum órólega og takmarkaða heimi mannsins. Hún kennir okkur, að ekki hefur allt verið rætt til hlítar. Hún rekur út úr þessum heimi þann guð, sem kom með óánægjuna og framkvæmd hinna síend- urteknu þjáninga. Hún gerir örlögin að málefni, sem mennimir þurfa að leysa. Öll hin þögula gleði Sísýfosar er inni- falin í þessu. Hann á sjálfur forlög sín. Kletturihn er hlutskipti hans. Aiveg eins og hinn fjarstæðukenndi maður, þegar hann íhugar kvöl sína, þaggar niður í öllum átrúnaðargoðum. Sú þögn berg- málar í heimi þeirra, og ótrúlegur fjöldi dásamlegra smáradda frá jörðinni berst þangað upp. Óvitandi, leynileg hróp, heimboð frá öllum andlitum, þetta er hinn nauðsynlegi bakgrunnur og gjald sigursins. Ekkert sólskin er án skugga. Það er mikilvægt að þekkja nóttina. Hinn fjarstæðukenndi maður segir já, og hann mim stöðugt halda áfram tilraun- um sínum. Ef þetta eru hans eigin forlög, stafa þau ekki frá æðri forlögum, og að síðustu eru það aðeins ein forlög, sem hann álítur óhjákvæmileg og auðvirðileg. Og að síðustu veit hann, að hann er herra dagsins. Á andartaki skarpskyggn- innar, þegar maðurinn lítur yfir farinn veg, þegar Sísýfos snýr aftur til kletts- ins síns, það er á slíkum mótum, sem hann íhugar þá röð af óframkvæmdum verkum, sem liggja í forlögum hans, sem hann sjálfur hefur skapað, sameinuð með endurminningum hans og innsigl- uð með dauða hans. Sannfærður um, að allt mannlegt sé af mannlegum uppruna, líkt og blindan mann langar ákaft að vita, hvort nóttin er liðin, þannig held- ur hann áfram göngu sinni. Kletturinn veltur stöðugt. Ég yfirgef Sísýfos við rætur fjallsins. Maðurinn finnur alltaf byrði sína aft- ur. En Sísýfos kennir æðri hollustu, sem afneitar tilveru guðanna og flytur fjöll. Hann álítur einnig að allt sé gott. Þessi heimur, sem heldur áfram tilveru sinni án drottnara, virðist honum hvorki ófrjór né eilífur. Hver frumeind þessa steins, hver flaga úr hinu náttsvarta fjalli, er heimur í sjálfu sér. Baráttan til að kom- ast á æðra stig, veitir hjarta mannsins fullnægingu. Og við hljótum að ímynda okkur, að Sísýfos sé hamingjusamur. (Sigurður Hreiðar Hreiðarsson og Dagur Þorleifsson þýddu úr ensku.) — Geturðu lánað mér lak, félagi? SAMVINNAN 19

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.