Samvinnan


Samvinnan - 01.05.1958, Blaðsíða 3

Samvinnan - 01.05.1958, Blaðsíða 3
r v. HAUKUR SNORRAS 0 N Þegar síðasti formurinn hefur verið leiðréttur, slúttaður og barinn, verður dálítið hlé í starfi ritstjórans. Prentar- inn hagræðir síðunum í pressunni, lætur undir myndir, skoðar fyrstu eintökin vandlega, ber þau upp í ljósið, lagar farvann og setur vélina af stað. Ritstjórinn röltir á skrifstofu sína og hallar sér aftur í sæti sínu. Það er lokið einni lotu í starfi hans, en sú næsta getur byrjað með símtali þá og þegar og hvíldin orðið stutt. Þá er að fara langferð með myndavél á brjóstinu, leita uppi menn, pæla gegnum bæk- ur og blöð, síma í fjarlægð héruð; með öðrum orðum: afla upplýsinga, sem verða nokkrar línur eða löng grein í næsta eintaki blaðsins. Þeg- ar handritin eru til, er ekki aðeins að lesa þau yfir, ákveða letur- gerð og stærð og semja fyrirsögn, sem á að gefa lötum lesanda kjarna málsins í nokkrum orðum og lokka hinn viljuga til lesturs, heldur verð- ur ritstjórinn að hafa heildarmynd blaðsins í huganum, brjóta um síðu fyrir síðu, þannig að allt falli vel saman eins og myndaþraut, þegar á borð prentarans kemur. Öðrum kosti kemst blaðið ekki í pressuna á rétt- um tíma, verður ekki snoturt eða læsilegt, ekki sá frétta- og hugmyndamiðill nútímans, sem borgarinn væntir hugsunarlaust að kastað sé að dyrum hans hverja viku, hvern dag. í þessu starfi var Haukur Snorrason meistari. Unun var að fylgjast með verki hans, hvort sem var í prentsmiðjunni við Pollinn á Akureyri, eða hornherberginu við Skuggasund í Reykjavík. Engan mann þekkti ég búinn meiri hæfileik- um til ritstjórastarfsins en Hauk. Hann gat skilið kjarna máls, áður en viðmælandi hafði sjálfur hugsað það á enda, og hann tók þann aragrúa af ákvörðunum án langrar um- hugsunar, sem gera blað að lifandi, f jörugu og góðu blaði. En það er ekki nóg að valda hinni flóknu tækni og vera herra hraðans við nútíma blað. Það er ekki nóg, að vita hvernig á að segja hlutina, ef menn hafa svo ekkert að segja. Það hafði Haukur vissulega. Hann var víðmenntaður maður, bæði af skólavist og sérstaklega af stöðugu sjálfsnámi. Hans líf var óslitin leit að fróðleik, stöðug og djúp skoðun á mannlífinu umhverfis hann. Hann hafði ákveðnar skoðanir og barðist fyrir þeim. Sterk- ust þeirra var trúin á samvinnustefn- una, sem hann helgaði líf sitt. Þegar endirinn bar skyndilega og óvænt að, var Haukur á ferð sem fulltrúi ís- lenzkra blaða að afla frétta og fróð- leiks til að miðla íslenzkum lesendum. Hann féll á vígvelli síns ævistarfs. Innan um blaðahrúgur, pappír, rit- vélar og bækur á skrifstofu Hauks var eitt, sem stakk í stúf við hið eirðar- lausa útlit ritstjórnarinnar. Það voru myndir á veggjum, myndir af fagurri náttúru, fljúgandi fuglum. Þarna var önnur hlið á Hauk, ekki síður minnis- stæð en blaðamennskan. Hann unni fagurri náttúru, kyrrð og tign nor- rænna fjalla, fuglum og fisk í á. Þessi ást dró hann út í óspillta óbyggð til hvíldar, hverja stund sem hann sjálfur gat átt. Með Hauki Snorrasyni hefur íslenzk blaðamennska misst einn sinn bezta forustumann; íslenzk stjórnmál misst hraðvaxandi þátttakanda; Samvinnan og íslenzkt samvinnustarf misst einn sinn bezta liðsmann. En um- fram allt sjáum við samferðamenn hans, fjölskylda og fjarskyldir, á bak góðum dreng, sem auögaði líf okkar. Við þökkum viðkynningu, sem varð alltof stutt. B. Gr. Haukur Snorrason. SAMVINNAN 3

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.