Samvinnan


Samvinnan - 01.12.1960, Blaðsíða 11

Samvinnan - 01.12.1960, Blaðsíða 11
Birta yfir dánum manni Rektor Háskólans Þorkell Jóhannesson frá Syðra Fjalli í Aðaldal, andaðist 31. október 65 ára að aldri. Þessa merka manns, gáfna hans, ættar og fræðimennsku, var að makleikum minnst virðulega í blöðum landsins. Yfir öllum myndum í minningagreinum um hinn dána mann var óvenjuleg birta. f fátæklegum umbúðum prentaðs máls átti þetta fyrirbæri vel við. Birtan yfir myndum Þorkels rektors var einskonar endurskin af gáfum hans, skapgerð og æfistarfi. Þorkell var fæddur og alinn upp í fallegu héraði á ættarsetri í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Frændur hans eru á öðrum hverjum bæ í þessari frjó- sömu og fögru byggð. Þar voru góðir búþegnar mann fram af manni. Sumir í fremstu röð hinna heimamennt- uðu skálda í Þingeyjarsýslu, eða snjallir rithöfundar. Einhuga leiðtogar og liðsmenn samvinnuhreyfingarinn- ar meðan hún var á bernskuskeiði í landinu. ÖIl þessi aðstaða mótaði Þorkel Jóhannesson, þroskaferil hans og æfistarf. Faðir hans Jóhannes Þorkelsson hafði erft ættargarðinn eftir föður sinn sem talinn er fyrirmynd og söguhetja í skáldskap Guðmundar Friðjónssonar. Jó- hannes á Fjalli vildi vera og varð merkis bóndi og fræði- maður í fornum stíl. Ungur gekk hann í Möðruvalla- skóla. Þar voru kennarar hans tveir af kunnustu fræði- mönnum landsins, Þorvaldur Thoroddsen og Benedikt Gröndal. Báðir hafa þeir minnst Jóhannesar í æfiminn- ingum sínum mjög lofsamlega, en ekki mun þar getið fleiri skólabræðra. Þessir Möðruvallakennarar voru kröfuharðir um þá menn sem beir veittu viðurkenningu, þeir virtu og viðurkenndu, gáfur, fræðaþrá, festu og yfir- lætisleysi þessa lærisveins úr Aðaldal. Heima í sveit’nni reyndist Jóhannes á þann veg sem kennarar hans höfðu spáð. Hann var traustur bóndi og leiðtogi. Hjá honum þótti ungum mönnum gott að vera, því að heimilis- bragurinn var hlýr og bóndinn lagði stund á að fræða vistmenn sína með þroskandi orðræðum við borðhald og vinnu. Á Svðra Fjalli var bókakostur mikill en forðabúr hjá Kaupfélagi Þingeyinga á Húsavík. Jóhannes Þor- kelsson sameinaði flesta eðlisþætti hinna velmenntu og sjálfstæðu bænda fyrri alda. í húsi hans var fullkomið samræmi á milli öruggra starfshátta og bókmennta. Jó- hannes tók virkan þátt í ö'lum þáttum þjóðlífsins, bú- skap, félagsmálum, bókfræði og ritstörfum meðal ann- ars sinnti hann nokkuð hinni úrslitalausu deilu um upp- runa Eddu kvæðanna. Börnin á Fjalli voru fjögur einn sonur og þrjár dætur. Öll mannvænleg og fús að vinna að ættargarðinum. Þorkell fetaði i spor föður síns og frænda, og gerðist fjölmenntaður sveitamaður, gagnfræðingur frá Akur- eyri, stoð og stytta foreldra við búskapinn í mörg ár. Nátengdur sveit og sýslu en með hugann hálfan við bækur og fræðimennsku. Honum stóð til boða að erfa garð og aðstöðu föður síns en hann gat líka helgað krafta sína fræðimennsku og bókmenntum. Að lokum valdi hann síðari leiðina varð 27 ára heimalesinn stúdent. Síð- ar norrænumaður í Háskólanum. Doktor í íslandssögu. Prófessor og Háskólarektor. Hann giftist góðri konu Hrefnu Bergsdóttur úr Borgarfirði, þau mynduðu nýtt Syðra Fjall, fallegt heimili vafið gróðri undir veggjum Háskólahallarinnar, þangað leituðu nemendur Þorkels úr stærsta skóla landsins. Þeir fundu í heimili rektors hjónanna hlýjan andblæ hressandi þjóðmenningar, þeim andblæ höfðu ungir menn í Þingeyjarsýslu áður kynnst á heimili foreldranna í Aðaldal. Þorkell gerðist athafnamikill andans maður í höfuð- staðnum og bjó þar bæði að miklum heimafengnum þroska og fræðimannanámi. Hann veitti samvinnu- hreyfingunni mikinn stuðning með því að vera í nokkur ár ritstjóri Samvinnunnar og forstöðumaður Samvinnu- skólans. í öllu starfi var þjóðarsagan megin áhugamál hans og viðfangsefni. Þorkell var upphafsmaður þeirrar lengi vanræktu framkvæmdar að rita sögu íslendinga á þann hátt að verkið væri þjóðinni sæmandi. Hafði Þor- kell mikla forystu um það mál, og ritaði auk þess erfið- asta þátt þeirrar sögu svo vel að lengi mun þar búa við fyrstu gerð. Á 20. öldinni hefur gætt tveggja viðhorfa um sögurit- un. Annars vegar nýr og lítt ruddur vegur, lýsing at- vinnuhátta og f jármála. Hins vegar persónusaga. Þorkell beitti báðum þessum aðferðum með skarpskygni og hóf- semi. Hann gerðist hér á landi brautryðjandi að sögu- ritun um hinn óþekkta hermann, sem nýtur nú meiri og meiri viðurkennin^ar í nútíma sagnfræði ritum og er minnst á viðeigandi hátt undir sigurboga nútíma menn- ingar. Samhliða nýjum leiðum kunni Þorkell vel að meta gildi persónusögunnar og vann á síðustu árum æv- innar að hetjusö*rum skörunga aldamótatímans St. G. St. og Tryggva Gunnarssonar. Þorkels Jóhannessonar mun lengi minnst jafnt í átt- högum hans og frænda<rarði í Þingeyrjarsýslu og í fræði- manna fylkingu Háskólans í Reykjavík. Hvar sem Þor- ke’l kom vissu allir sem til þekktu að þar fór góður íslendingur, tryggur vinur hinna dreifðu byggða og sögu- fræða í Háskólanum í Reykjavik. Það verður ætíð bjart yfir nafni og minningu Þorkels Jóhannessonar í sveit sjálfmenntaðara þingeyinga og snjöllustu fræðimanna í höfuðstaðnum. Jónas Jónsson frá Hriflu. SAMVINNAN 11

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.