Samvinnan - 01.06.1970, Síða 19

Samvinnan - 01.06.1970, Síða 19
rita og pólitísk blöS hafa velt því á milli sín. Við slík efni verða rithöfundar að beita sérstakri gát, svo að þeir sendi ekki frá sér verk, nema þeir séu þess fullvissir, að þeir hafi sjálfir raunverulega eitthvað nýtt til málanna að leggja, en jórtri ekki aðeins upp margþvælda tuggu. Ekki er ólíklegt, að hér sé einmitt komin ástæðan fyrir því magnleysi, sem einkennt hefur mörg af þeim ádeiluverkum, sem fram hafa komið hér undanfarið, þ. e. að sjálfstæð efnistök hafi vantað og frumlega afstöðu höfundanna til yrkisefnanna. Annað er og greinilegt þetta varðandi, en það er, að stórir flokkar skáldverka virðast hafa orðið meira eða minna út undan í efnis- vali íslenzkra rithöfunda. Þar má t. d. nefna sálfræðilegu skáldsöguna, sem naumast er unnt að segja, að eigi sér nokkra hefð hér á landi, og raunar á það við um flestar per- sónulýsingar og umfjallanir um mannleg vandamál, að þær vilja ærið oft vera grunn- ar og yfirborðskenndar. Þá má líka nefna sagnfræðilegu skáldsöguna, en þrátt fyrir nokkrar ánægjulegar undantekningar, má samt finna allmörg dæmi um algjörlega mis- heppnuð verk þeirrar tegundar. í íslands- sögunni er að finna ótalmörg yrkisefni fyrir rithöfunda, jafnt ljóðskáld sem sagnahöf- unda, en þar stendur allt og fellur með því, að höfundunum takist að blása í atburðina og sögupersónurnar lífi, eða með öðrum orðum, að þeir hafi sjálfir eitthvað fram að færa verkinu til lífsgildis. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli, hversu rækilega höf- undurinn hefur kannað heimildir, hve vel hann fyllir upp í eyður sagnfræðilegrar vitneskju og vinnur upp samtöl fólks og einstaka smáatburði —■ það sem gefur verk- inu líf verður alltaf þegar til lengdar lætur innlifun og heildarboðskapur skáldsins, enda eru sagnfræði og skáldskapur á sögulegum grunni tvö aðskilin svið. Þá eru skyldur höfunda við móðurmálið og kröfur þess til þeirra ekki síður mikil- vægur þáttur. Það er ekki nóg til þess að geta staðið undir rithöfundarnafninu að kunna algengustu reglur um skólastafsetn- ingu og beygingu vandmeðfarinna orða, heldur verður rithöfundurinn að vera á stöð- ugum verði við að auka orðaforða sinn, og hann verður að halda hugsmíðaafli sínu nægilega frjóu til að það orki að smíða ný orð og teygja merkingar annarra yfir ný merkingarmið. Bækur, sem skrifaðar eru á venjulegu talmáli eða dagblaðamáli, verða sjaldnast annað en léleg eftiröpun, nema þá í þeim tilvikum, þegar málfarið er á þann veg tengt við efnið, að sérstök og frumleg hugmyndatengsl skapist. Nauðsynlegt er því, að rithöfundar séu stöðugt vakandi við að heyja sér orðaforða, en til þess er víðtækur bóklestur og náin kynni af handbókum um þessi efni nauðsynleg undirstaða. Á þessu sviði er hins vegar mörgum þeim rithöfund- um, sem sent hafa frá sér bækur á undan- förnum árum, greinilega áfátt. Sé þessara atriða gætt, og væntanlega annarra í viðbót, sem koma myndu fram við nánari umfjöllun en hér er kostur á, þá er erfitt að taka undir þann söng, að óhugs- andi sé fyrir dugandi rithöfund að lifa af verkum sínum á íslandi. Þetta má reyndar skýra með einföldu reikningsdæmi, sem byggt er upp á grundvelli þeirra forsendna, sem að framan var getið. Ef gert er ráð fyr- ir, að meðalfjöldi seldra eintaka af nýrri skáldsögu hér á landi sé 1000 og meðaltekj- ur höfunda 75 þús. kr., þá verður meðal- hagnaður höfunda 75 kr. af hverju seldu eintaki. Ef sömuleiðis er gert ráð fyrir 500 eintaka meðalsölu á ljóðabók, og að skáldið fái 30 þús. kr. í sinn hlut, þá verður hlutur þess af seldu eintaki 60 kr. Setjum nú svo, að fram komi höfundur, sem hefur þá hæfi- leika og kunnáttu til að bera, að honum takist að beina athygli bókakaupenda að verki sínu í umtalsverðum mæli, þá er naumast vanmetið, að búast megi við því, að verk hans geti selzt í 4—5000 eintökum. Þess verður að geta, að slík upplög skáld- verka munu ekki vera óþekkt hér á landi, þegar um er að ræða verk hinna eldri og virtari höfunda, eða með öðrum orðum, þeg- ar á boðstólum eru bækur, sem fólki virðist, að gefi fyrirfram tryggingu fyrir verulegum gæðum. Með einfaldri margföldun fæst út, að tekjur skáldsöguhöfundar af sölu bókar í þessu upplagi yrðu 300—375 þús. kr., og ljóðskáldsins 240—300 þús. kr., auk þess sem þessar tölur kann að mega hækka eitt- hvað með hliðsjón af því, að með stærri upplögum deilist fastur kostnaður eins og setning, prófarkalestur, auglýsingar og skrif- stofukostnaður útgáfufyrirtækis á fleiri ein- tök og lækkar því hlutfallslega. Ef tekið er tillit til þess, að samkvæmt nýlegu hefti af Hagtíðindum voru meðaltekjur framtelj- enda til tekjuskatts í kaupstöðum árið 1968 rétt um 200 þús. kr., er augljóst, að með slíkum tekjum af verkum sínum þyrftu rit- höfundar naumast að eyða tíma sínum í þinghald til að ræða kjaramál sín sérstak- lega. Það kom fram á rithöfundaþinginu, að í Rithöfundasambandi íslands eru nú nálægt 140 félagsmenn. Hver einasti maður, sem eitthvað hefur fylgzt með framþróun ís- lenzkra bókmennta síðustu áratugina, veit það án frekari rökstuðnings, að svo margir skapandi höfundar lífrænna skáldverka eru ekki uppi á íslandi í dag. Það eru alkunn sannindi, að útgáfa bókar, jafnvel þótt skáld- saga eða ljóðabók sé, veitir höfundi síður en svo sjálfkrafa sæti í bókmenntasögunni, og fólk í fullu starfi, sem hefur búið sig undir og helgað sig öðrum lífsstörfum, en hefur það að tómstundastarfi að búa hug- myndir sínar í bókarform, er alls ekki þar með búið að tryggja sér óskoraðan rétt til setu á skáldabekk. Bókmenntaleg sköpunar- starfsemi er óhemju timafrek og útheimtir auk langrar þjálfunar fyrst og fremst gott næði og aðstöðu til einbeitingar. Það er þess vegna m. a. erfitt að sjá, hversu raunhæfur stuðningur íslenzkum nú- tímabókmenntum væri að því, þótt ríkis- kassinn hlypi undir bagga með öllum þeim, sem gefa út skáldskap á íslandi, og keypti sjálfkrafa af þeim 500 eintök til að dreifa á söfn, því að þar hlyti óhjákvæmilega að fylgja með verulegt magn lestrarefnis, sem lítil ástæða væri til að veita slíkan stuðning. Aftur á móti er full ástæða til að fagna þeim hugmyndum rithöfundaþingsins, sem beinast að því, að rithöfundum verði á einn eða annan hátt auðveldað um vik við sköpun nýrra skáldverka. Við eigum til allrar ham- ingju nokkurn hóp ungra höfunda, sem lík- legir eru til heillavænlegra framtíðarstarfa, ef þeim geíst tækifæri til að sinna list sinni eftir þörfum, og eigi einhvers staðar að styðja við bakið á bókmenntunum, þá hlýtur það að vera þar. Það á við um bókmenntirn- ar eins og önnur svið þjóðlífsins, að þar ríður á öllu, að höfundarnir séu ungir og ferskir, ef ekki að árum, þá a. m. k. í anda, og slíka menn á hiklaust að styðja til rit- starfa, áður en það er orðið um seinan og þeir hafa orðið fórnarlömb stöðnunar og brauðstrits. í þessu sambandi er rétt að minna á gagn- lega tillögu, sem samþykkt var á rithöfunda- þinginu og beinist að því, að ungir rithöf- undar geti sótt um námsstyrki úr námslána- kerfi ríkisins á sama hátt og skólafólk. Sú tillaga var reyndar komin til af raunhæfu dæmi, þar sem ungur höfundur bókar, sem gaf góðar vonir, sótti um námslán til Lána- sjóðs ísl. námsmanna, en var synjað á þeirri forsendu, að sjóðsstjórnin gæti ekki veitt styrki til annarra en þeirra, sem legðu stund á beint skólanám. Rithöfundar þurfa ómót- mælanlega að læra til verka sinna á sama hátt og aðrar starfsstéttir, en nám þeirra hlýtur alltaf að vera frjálst og meira eða minna óbundið af hefðbundnum mennta- stofnunum, a. m. k. á meðan ekki eru settir upp sérstakir rithöfundaskólar, svo að flest- ir ættu að geta verið sammála um, að hér sé skynsamleg tillaga á ferðinni, sem von- andi fái hraðan framgang. Svipað er og að segja um hugmyndirnar um Bókmenntasjóð Ara og Snorra, en þó að deila megi bæði um nafn hans og rétt- mæti ýmissa þeirra tekjulinda, sem rithöf- undar vilja láta til hans renna, þá er þar tvímælalaust um að ræða hugmynd, sem kemur til móts við þarfir bókmenntanna eins og þær eru nú. Á hinn bóginn er mikil- vægt, að fjárveitingar úr slíkum sjóði verði hvorki gerðar af hálfu væntanlegra stjórn- enda hans né meðal almennings að neins konar verðlaunaveitingu fyrir þegar unnin verk. Fjárstyrki úr slíkum sjóði ætti að auglýsa lausa til umsóknar, og um þá ættu þeir einir að geta sótt, sem hafa verk í smíð- um, en skortir aðstöðu til að skapa sér næði til að vinna að þeim, og yrði framkvæmd þessara styrkveitinga þá með svipuðum hætti og nú er um styrki Vísindasjóðs til vísinda- og fræðimanna. Með slíkum hætti gæti þessi sjóður orðið bókmenntunum að verulegu gagni og skapað ungum höfundum aðstöðu, sem þeir hafa nú fæstir, til að helga sig óskiptir verkum sínum og sköpun þeirra. Hins vegar verður að leggja á það áherzlu, að í sambandi við veitingu styrkja úr slík- um sjóði verður jafnhliða að gera kröfur til þeirra, sem fjárins njóta, þannig að þeir nýti það raunverulega til að efla eigin skáld- þroska og skrifi síðan betri bækur en ella. Það sem á skortir fyrst og fremst í bók- menntum okkar eru fullburða verk, unnin af höfundum, sem raunverulega kunna til verka og hafa haft aðstöðu til að sinna list sinni ótruflaðir. Þegar ungir og lifandi menn með hæfileika koma fram, þá er það skylda þjóðfélagsins að styðja við þá á meðan þeir eru að skapa sér slíka aðstöðu og verða sér úti um nauðsynlegan þroska, og sé slíkur stuðningur veittur í tæka tíð, þá hlýtur að koma að því fyrr en síðar, að afraksturinn skili sér í því, að skrifaðar verði betri bækur. 4 19

x

Samvinnan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.