Samvinnan - 01.08.1981, Blaðsíða 14

Samvinnan - 01.08.1981, Blaðsíða 14
,Gott að teygja úr sér,“ sagði hann og lagfærði hattinn, þannig að hann skýldi andlitinu fyrir sólinni. Hrekkjabragðið Bernskumynd eftir Böðvar Guðlaugsson Frambjóðandinn lék við hvern sinn fingur og söng við raust. Ég skildi ekki upp eða niður í söngnum, nema hvað ég heyrði, að hann kom aðallega út um nefið . . . FRAMBJÓÐANDINN var fínn mað- ur að sunnan. Hann hafði komið hingað að afloknum framboðs- fundi í gærkveldi, og nú sat hann inni í betri stofunni og ræddi við húsbónd- ann um velferðarmál sveitarinnar. Ég gaf honum mjög nánar gætur utan úr horninu hjá ofninum, og hlustaði á tal hans með athygli. Hann var ólíkur öll- um öðrum mönnum, sem ég hafði séð. Hann var fínni en aðrir menn og meiri yfrum sig, og allt látæði hans var í senn sérkennilegt og framandi. Þegar hann talaði, og hann var næst- um því alltaf að tala, þá gerði hann alls konar sveiflur með handleggjun- um, kreppti jafnvel hnefa og sló i boröiö einstaka sinnum, strauk svo hendinni yfir skallann og keyrði höf- uðið niður á milli herðanna, svo að fellingin í undirhökunni varð helm- ingi stærri. Nei, hann var ekki líkur neinum manni öðrum. Meira að segja var tal hans frábrugðið tali annarra manna. Ekki einasta, að hann talaði hærra en aðrir menn, heldur voru umræðuefni hans harla ólík hinum hversdagslegu umræðuefnum karlanna hérna í sveit- inni. Þeirra umræður náðu sjaldan langt út fyrir tíðarfarið og skepnu- höldin. Frambjóðandinn minntist hins vegar ekki á tíðarfar og virtist hafa takmarkaðan áhuga á skepnunum. Hann ræddi um samgöngubætur, raf- magn og síma og ympraði jafnvel á útgerð. Hann hélt langar og sannfær- andi ræður um framtíðarmöguleika sveitarinnar, dró upp skýrar og lifandi myndir af öllum þeim stórvirkjum, sem hér mundu verða unnin á næst- unni. Þetta voru mjög skemmtilegar ræður og harla ólíkar ræðum séra Guðmundar á Stað. Þessar ræður snerust um bílavegi, rafmagn og síma, útgerð og vélamenningu. Ræður séra Guðmundar fjölluðu aftur á móti að- allega um guð og himininn, og voru svo leiðinlegar, að mann syfjaði undir þeim, — enda voru þær ekki fluttar af neinum sannfæringarkrafti. Eigi að síður hafði ég fram að þessu dáð séra Guðmund og litið á hann sem allt að því heilagan mann, enda þótt Runki vinnumaður segði, að hann væri heiðnari en nokkur Tyrki. Svo rölti ég fram í eldhúsið. Þar var heimilisfólkið saman komið, nema húsbóndinn, auðvitað, og lét í ljós álit sitt á frambjóðandanum. „Hann er bara fjarska myndarlegur maður og ósköp alminlegur,“ sagði Sigríður húsfreyja. Hún hafði þvegið sér og greitt og farið í hreinan kjól. „Hann ætlar að leggja bílveg suður yfir heiði,“ sagði ég. „Sá held ég leggi veg. Hann skyldi þá geta hreyft sig fyrir spiki,“ sagði Runki vinnumaður. „Hann ætlar líka að koma af stað útgerð,“ sagði ég. „Sko til, ætlar hann nú líka að fara að gera út hérna frammi á dalnum,“ sagði Runki vinnumaður og blim- skakkaði mógrænum vinnumanns- augum á kaupakonuna. „Þetta er sko maður, sem blaktir. Munur eða þið, sem hugsið ekki um annað en súrhey og beljur,“ sagði kaupakonan. „Þetta kvað vera mesti dugnaðar- og framkvæmdamaður,“ sagði Sigríður húsfreyja. Gudda vinnukona lagði ekki til mál- anna; hún var hlutlaus. „Eins og þeir þykist ekki allir geta allt, þessir labbakútar, þegar þeir eru að sníkja atkvæði,“ sagði Runki. „Ætlar þú ekki að kjósa hann, Runki?,“ spurði ég. Runki greip andann á lofti. „Ég, nei, drengur minn, ég ætla ekki að kjósa hann, það veit guð. Þó allir aðrir hér í sveitinni kjósi hann, þá geri ég það ekki, ekki ég, ekki hann Runólfur Jónsson,“ sagði hann ákveðinn. Ég ef- aðist ekki um að hann meinti þetta, menn skírskota ekki til guðs nema þeir meini það. Nú kom húsbóndinn fram í eldhúsið. „Þú ættir að skreppa eftir hrossun- um snöggvast, Siggi minn,“ sagði hann og talaði til mín. „Komdu með folann minn og hana Gránu,“ bætti hann við um leið og ég hvarf út úr eldhúsinu. 14

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.