Samvinnan - 01.08.1981, Blaðsíða 15

Samvinnan - 01.08.1981, Blaðsíða 15
Hrossin voru skammt undan, og eft- ir svolitla stund kom ég aftur með tvo til reiðar. Folinn húsbóndans var sjö vetra gæðingur, fleygivakur og lús- þýður. Hann átti sveitarmet á 250 metra skeiðspretti. Grána gamla var hins vegar hvorki vökur né þýð, hún var klárgeng og níðhöst og latari en nokkur belja. Þau áttu ekkert sam- eiginlegt nema litinn. Ég batt hrossin við snúrustaurinn, svo að þau rásuðu ekki út á túnið, og gekk í bæinn. Sigríður húsfreyja tók á móti mér í dyrunum. „Komdu inn, Siggi minn og hafðu fataskipti og fáðu þér bita. Þú átt að fylgja manninum í veg fyrir rútuna," sagði hún. Ég sagði ekkert, en fór á eftir henni inn i eldhús. Þar hámaði ég í mig skyrhræruna og hraðaði mér síðan að íklæðast ferðafötunum, gráum poka- buxum og rennilásblússu. Ég þvoði mér svolítið til málamynda og renndi greiðu gegn um hárlubbann, og var ferðbúinn. Frambjóðandinn var að kveðja heimilisfólkið úti á hlaðinu. Hann kvaddi með handabandi, þakkaði hús- bændunum innilega fyrir móttökurn- ar, og fór nokkrum vel völdum orðum um það, hve gott hefði verið að gista hér; það væri ekki ofsögum sagt af íslenzku gestrisninni. Svo riðum við úr hlaði. Frambjóðandinn lék við hvern sinn fingur og söng við raust. Ég skildi ekki upp eða niður í söngnum, nema hvað ég heyrði, að hann kom aðallega út um nefið. Fínir menn að sunnan syngja ekki eins og aðrir menn, söng- ur þeirra er þeim mun óskiljanlegri sem þeir eru fínni. „Hvaða kvæði var þetta?,“ spurði ég hikandi, þegar frambjóðandinn gerði hlé á söngnum. ,,Ha, kvæði? O, þetta var bara smá- aría úr Töfraflautunni eftir Mosart, lasm,“ sagði frambjóðandinn og drap tittlinga framan í mig, eins og hann hefði verið að trúa mér fyrir leyndar- máii. Ég var jafnnær, utan hvað ég ályktaði, að aría væri söngur, sem kæmi út um nefið. „Kanntu ekki einhver kvæði, sem við getum sungið báðir?,“ spurði fram- bjóðandinn alúðlega, þegar hann sá, að ariur úr Töfraflautunni voru of- viða skilningi mínum. „Ég kann sama sem ekkert, og svo get ég heldur ekkert sungið“, sagði ég. Reyndar kunni ég bæði Eldgamla ísa- fold og Heilræðavísur Hallgríms Pét- urssonar, en mig grunaði sterklega, að þessi fíni maður kynni ekki að meta það. Sennilega var hann löngu búinn að gleyma Eldgamla ísafold, sennilega var hann löngu vaxinn upp úr Heil- ræðavisunum. Nei, ég kunni ekkert, ekki nokkurn skapaðan hlut. „Jæja, lasm, þú lærir það seinna, heldurðu það ekki?,“ sagði frambjóð- andinn, og ég heyrði ekki betur en honum þætti vankunnátta mín meiri en góðu hófi gegndi. Jú, ég hélt það, og í huganum bætti ég þvi við, að ég ætlaði að læra aríur, þegar ég væri orðinn stór. Frambjóð- andinn hagræddi sér í hnakknum, og nú riðum við þegjandi um stund. Reið- skjótar okkar þræddu götuslóðana af stakri nákvæmni, hnussuöu öðru hvoru að girnilegri þúfu og dæstu leti- lega. Sá grái lagði meira að segja kollhúfur og virtist ekki kunna sem bezt við hinn virðulega knapa. Vesl- ings Gráni! Hann hafði sýnilega ekki hugmynd um, að maðurinn sem sat klofvega á baki hans og var svo fá- 15

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.