Andvari - 01.01.1986, Page 65
HJÁLMAR SVEINSSON:
Viðhorf Sigurðar Nordals
til menningar og sögu
Eitt þeirra hugtaka sem fólk notar í tíma og ótíma, án þess að huga nokkuð
að merkingu þeirra, er hugtakið „menning“. Reyndar heyrist nógu oft
spurt: hvað er menning? En það vill brenna við að látið sé nægja að nefna
einstök dæmi og alhæfa út frá þeim. „Sinfóníur eru menning," segja sumir,
„og rokkið ekki síður,“ bæta aðrir við. Fullyrðing stendur gegn fullyrðingu
og enginn man lengur ástœðuna fyrir upphaflegu spurningunni.
Bókstaflega táknar orðið „menning“ það sem gerir manninn að manni.
Menning er því mannlífið í heild sinni. Til að losna við allt innantómt karp
þyrfti maður helst að spyrja eins og barn: Hvað er það eiginlega sem gerir
manninn að manni? Aðall fræðimannsins Sigurðar Nordals er einmitt sú
gáfa að geta varðveitt barnslega undrun. Hann smíðar ekki stóra og glæsi-
lega kenningu um menninguna. Honum er mest í mun að gera lesanda
sinn forvitinn og spurulan um þetta fyrirbæri.
Þegar hann fjallar um menningu skiptir hann mannlífinu gjarnan í
þrennt, að klassískri fyrirmynd: Maðurinn er dýr en það sem skilur mann-
inn frá dýrinu er að hann er borgari í samfélagi og að hann er andleg
vera.Þ Þessi skilgreining ber með sér að menningin er fléttuð úr tveimur
þáttum sem eru borgaraleg siðmenning og andlegur þroski einstaklingsins. Það
vantar sem sé þriðja þáttinn, þjóðmenninguna. En það var fyrst með róm-
antísku stefnunni við upphaf 19. aldar að henni var veitt sérstök athygli.
í erindum sínum Líf og dauði og þeirri ritdeilu sem hann háði við Einar
H. Kvaran (síðar prentuð í bókinni Skiptar skoðanir) gerir Nordal grein fyrir
því hvernig tveir fyrrnefndu þættirnir, einstaklingsþroskinn og sið-
menningin, fléttast saman. Þegar hann ræðir um hið síðarnefnda á hann
jafnan við þá þróun siða og samfélags sem orðið hefur á Vesturlöndum. En
viðhorf hans til þjóðmenningar, sem eru samofin túlkun hans á íslenskri
sögu, koma best fram í íslenzkri menningu.