Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 151
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
Island og „Evrópusamruni“
miðalda
Sturlungaöldin og túlkun hennar í íslenskri sagnaritun
i
Sturlungaöld1 merkir, segir í orðabók Blöndals, borgarastyrjaldirnar á 13.
öld sem Ieiddu til endaloka hins íslenska þjóðveldis. Samkvæmt þessu er
„Sturlungaöld“ heiti á ákveðinni atburðarás frekar en afmörkuðu árabili,
og ég held það sé einmitt sú merking sem við leggjum að jafnaði í orðið.
Sturlungaöld táknar hnignun þjóðveldisins og sókn norska konungsvaldsins
á Islandi, felur í sér aðdragandann að gerð Gamla sáttmála 1262, þar sem
Islendingar gerðust skattskyldir þegnar Noregskonungs. Hvenær Sturl-
ungaöld hefst er túlkunaratriði, fer eftir því hvað við viljum rekja þennan
aðdraganda langt. Nú er algengast að láta hana spanna um 40 ár eða rúm-
lega það. Það eru u.þ.b. stjórnarár Hákonar gamla í Noregi, eða tíminn frá
því að Snorri Sturluson tók að sér fyrstur manna að leggja Island undir
Noreg - þó að hann sinnti því hlutverki raunar af hnitmiðuðum trassa-
skap.
En við getum líka rakið Sturlungaöldina lengra, látið hana t.d. byrja um
1200, þegar Sturlungarnir, Snorri og bræður hans, koma fram á sviðið sem
höfðingjar, Jón Loftsson í Odda er fallinn frá, og biskupsstjórn Guðmund-
ar góða á Hólum verður tilefni illvígra átaka. Annars er óþarfi að gera
mikið úr ártölum í þessu sambandi. Réttast er að fara að eins og Einar Ól.
Sveinsson, sem gaf út bók með heitinu „Sturlungaöld“ og undirtitli: „Drög
um íslenska menningu á þrettándu öld“, og lætur það ráðast af samhenginu
hvort hann hefur alla 13. öldina undir eða jafnvel seinni hluta hinnar 12.,
en miðar aðallega við „tvo síðustu mannsaldra“ þjóðveldisins, eins og hann
segir án þess að nefna ártöl.2