Andvari - 01.01.1996, Side 123
ANDVARI
HALLDÓR LAXNESS OG ÍSLENSKI SKÓLINN
121
stuðst var við í flestum öðrum útgáfum.35 Við sama tækifæri gaf Halldór þó
einnig í skyn að Sigurður væri „fyrir hagkvæmnisakir sjálfur horfinn frá
þessu kerfi sínu“ (s. 243)!
Að auki mætti ræða ítarlega hvernig þau hörðu viðbrögð sem útgáfu-
áform Halldórs vöktu á Alþingi voru nátengd viðamiklum deilum Jónasar
Jónssonar frá Hriflu við kommúnista og listamenn á þessum tíma, og
snertu meðal annars úthlutun listamannalauna.36 Þær deilur höfðu örugg-
lega áhrif á að Halldór bað listmálarana Gunnlaug Ó. Scheving og Þorvald
Skúlason, ásamt Snorra Arinbjarnar, um að myndskreyta Brennunjálssögu.
Verk eftir Gunnlaug og Þorvald voru meðal þeirra sem Jónas sýndi á frægri
myndlistarsýningu í Alþingishúsinu árið 1942 og kallaði úrkynjaða list.37
Ekki var nóg með að Halldór kæmi á stefnumóti milli þessara „úrkynjuðu“
listamanna og höfundar Njálu í útgáfu sinni, heldur staðhæfði hann í eftir-
mála sínum að sumar myndanna í útgáfunni ættu eftir að
standa um aldur listræn afrek, jafnvirð hinum ódauðlega texta sem þau voru sköpuð
til að þjóna. Myndum þessum [. . .] munu íslenzkir æskumenn venjast, og læra að
unna þeim um leið og hin gamla bók, nýjust allra bóka, er lesin, og þær munu geym-
ast til efri ára í hugum þeirra kærar minningar, óaðskiljanlegar minningu sögunnar
sjálfrar.38
Málsgreinar á borð við þessa leiða hugann að nýju að umræðu þeirra
Ástráðs Eysteinssonar og Harolds Bloom, sem ég vitnaði til í upphafi,
um „óttann við áhrif“, samband rithöfunda við andlega fyrirrennara
sína. Sjálfstæðisbarátta margra framsækinna íslenskra listamanna um mið-
bik aldarinnar birtist einmitt í skapandi átökum við ægivald fornsagn-
anna.39
Ástráður lítur svo á að í Gerplu hafi „Halldór Laxness þýtt frjálslega,
þ.e.a.s. endursamið, ’leiðrétt’ og ’feðrað’ ekki bara Fóstbræðrasögu heldur
einnig verk eftir hinn stóra höfundinn í bókmenntasögu okkar, Olafs sögu
helga eftir Snorra Sturluson“.40 Sú glíma samræmist helst því stigi óttans
við áhrif „þar sem stefnt er að persónulegum and-mikilleika, sem svari við
mikilfengleik fyrirrennarans“, svo vitnað sé til lýsingar Blooms.41 Útgáfu-
starf Halldórs á fimmta áratugnum fellur hins vegar betur að vægara stigi
óttans við áhrif þar sem skáldið „fullkomnar“ verk fyrirrennara síns; „varð-
veitir inntak þess en gefur því aðra merkingu, líkt og fyrirrennarinn hafi
ekki gengið nógu langt“ (s. 14). Samkvæmt þeirri hugmynd er fyrirrenn-
arinn sem Halldór glímdi við á þessu tímabili höfundarferils síns sá langi
ættleggur lærðra og leikra sem haldinn var þeim „misskilningi“, svo vitnað
sé í Halldór, „að Brennunjálssaga væri sagnfræðirit“. Það mætti þó allt eins
velta vöngum yfir því hvort fyrirrennararnir á þessu sviði hafi í raun verið
hinir svonefndu meðlimir íslenska skólans sem höfðu fram að 1940 verið of