Vikan


Vikan - 10.01.1952, Page 3

Vikan - 10.01.1952, Page 3
VIKAN, nr. 2, 1952 3 A Vatnajökli um vetur Framhald af forsíðu. Að loknum mælingum á Brúarjökli var haldið beint vestur að Grímsvötnum. Þann dag var stillt veður og heiðríkja yfir, en þokumóða byrgði útsýn í allar áttir. Slíkt ferðalag minnir á siglingu á opnu hafi. Fannbreiðan er slétt og tilbreytingalaus. Ekkert sést nema snjór og himinn. Engin kennileiti vísa leið. Allt verður að fara eftir áttavita og vegmæli. Um kvöldið birti, og Svíahnúkar blöstu allt í einu við, svartur klettaröðull upp úr hvítunni. Norð- an undir Svíahnúkum eru Grímsvötn, hringmynduð kvos, 200—300 m. lægri en jökullinn í kring. En eldur býr í ógnardjúpi undir köldum jökulhjúpi. Jafnvel í vetur, í 25 stiga frosti, var rjúk- andi vatnssytra við suðurbarm dalsins. Þegar jarðhitinn leysist þarna úr læðingi, og það verður að jafnaði tíunda hvert ár, þeytist glóandi vikur upp úr gígnum, jök- ullinn umturnast á stóru svæði og stórkost- leg vatnsflóð belja fram um Skeiðarár- sand, undan jöklinum. Vatnajökull sést að vísu ekki úr Reykja- vík, en farið upp á Esju, og það vona ég, að lesendur Vikunnar geri á hverju sumri. — Þaðan blasir við vesturbrún Vatnajök- uls, þegar skyggni er gott. Þá er gos verða í Grímsvötnum, sjást eldglæring- arnar frá Reykjavík, þegar rökkva tekur. Þær ber norðanhallt við Lágafell, eða svo var þetta 1934, í síðasta stórgosi úr Grímsvötnum, þá var tilkomumikið að sjá ofan af Esju biksvartan gosmökkinn standa beint upp úr jöklinum. I sólar- upprás urðu jaðrar hans sem glóandi gull. Við vorum heila viku í Grímsvötnum, en í fjóra sólarhringa samfleytt var belj- andi norðanbylur með 20—25 stiga frosti. Ejallstindurinn var í 1600 m. hæð yfir sjáv- armáli. Snjórinn er eins og sárkaldur hveitisalli, sem fyllir augu og nasir, svo að „ekki sér út úr augunum" í bókstaf- legum skilningi, og klakabrynja sezt fyrir andlitið. Tjalddúkurinn sviptist til með skellum og smellum, og snjóskaflar leggj- ast upp með tjaldhliðunum. En tjöldin okkar stóðust öll stórviðri. Þau voru pýra- mítalöguð með f jórum súlum úr dúralmíni, tvöföldum botni og tvöfaldri súð, skjól- góð, en nokkuð þung í vöfunum. Frá Grímsvötnum var haldið norður á Dyngjujökul til mælinga í þokumóðu og Dýnamítsprenging á Gi'ímsvötnum. Til þess aö mæla þykkt jökulsins var dýnamít, oftast 0,5—1 kg., grafið niður í jökulinn. Við sprenginguna myndast reglubundin bylgjutitringur í ísnum. Af bylgjum, sem endurkastast frá berginu undii' jöklinum má reikna þykkt hans. Myndin er tekin í mugguveðri. Ljósm.: Árni Stefánsson. hægviðri, en þaðan var ekið suðvestur á Köldukvíslarjökul daginn eftir. Leið okkar lá yfir austanverða Bárðartungu, skammt frá flakinu af Geysi. Ekki gáfum við okk- ur tíma til að svipast eftir því. Degi var tekið að halla og vindur vaxandi af norð- austri, en við áttum eftir að gera mæl- ingar á fjórum stöðum, áður en við sett- umst að. Ef veðurhæð var yfir 4 vindstig, varð svo mikill titringur á yfirborði jök- ulsins, að mælingar urðu ekki gerðar með góðum árangri. Svo reyndist einnig að þessu sinni. Ókum við þá vestur á Köldu- kvíslarjökul og fundum þar tjaldstað frá haustinu áður. Þar hafði Árni Stefánsson og fleiri legið í 17 daga veðurtepptir, er þeir skyldu gera tilraun til að ná amerísku björgunarflugvélinni, sem átti að sækja áhöfn Geysis, svo sem frægt er orðið. Þetta kvöld var eitthvert hið fegursta í allri ferðinni. Útsýni var ágætt yfir Vonarskarð og til Tungnafellsjökuls. Yfir skarðið rís vesturhlið Bárðarbungu, brött og úfin jökulhengja. í suðvestri blasti við Mýrdalsjökull, en Kerlingarfjöll í vestri. Mjótt þokubelti lá í miðjum hlíðum þeirra, en upp úr því gnæfðu tindarnir og sýnd- ust himinháir í bókstaflegum skilningi. En veðráttan í Vonarskarði var svipul. Daginn eftir gekk í stórhríð af norðaustri, og lágum við fulla viku veðurtepptir á þessum slóðum. Þegar loks stillti veðrið, var mjög tekið að líða á dvalartíma okk- ar, því að bílarnir þurftu að vera komnir fyrir ákveðinn dag til Reykjavíkur og * Leiðangursmenn við heimkomu á flugvellin- um í Reykjavík. Frá vinstri: Stephan Sanve!- ien, Árni Stefánsson, Jón Eyþórsson, Sigurjón Rist, Alain Joset. Lj.: Árni Stefánsson. hinir frönsku félagar okkar áttu svo að halda tafarlaust til Grænlandsjökuls. Við ókum því sem hraðast við máttum suður á Síðujökul, þaðan austur hjá Pálsfjalli og niður undir Grænalón við Skeiðarár- jökul. Alls staðar voru, þó mælingar gerð- ar samkvæmt áætlun. Af Skeiðarárjökli ókum við aftur norðaustur fyrir Esjuf jöll og þaðan austur undir Norðlingalægð. Veður var fremur stillt þessa daga, en sjaldan sá út úr augunum fyrir þoku eða snjómuggu. Við þóttumst því góðir að stýra því nær beint á einu stöngina, sem við höfðum skilið eftir í norðurleiðinni. Þaðan var ekið sömu leið og áður niður Breiðamerkurjökul og tjaldað við jökul- jaðar hinn 23. apríl að áliðnum degi. Dag- inn eftir fluttum við skálaefni fyrir jökla- rannsóknarfélagið til Esjufjalla. Á tveim- ur klst. ókum við rúmlega fjórum smá- lestum á tveim sleðum upp að Esjufjöll- um. Um 40 centímetra lausamjöll var of- an á harðfenninu og efsti hluti leiðarinnar mjög brattur. Kom þá bezt í ljós, hversu skriðbílarnir eru ótrúlega sterk og hentug farartæki. — Eftir tvo daga vorum við komnir heilu og höldnu til Hornarfjarð- ar. Mælingar okkar leiddu í ljós, að hjarn- skjöldur Vatnajökuls er mun þykkri en nokkurn grunaði, víðast 600—800 m. Landið, sem jökullinn hvílir á er því á stórum svæðum aðeins um 800 m. Þetta er merkileg nýjung í landafræði og jarð- fræði íslands, og jafnframt opnar hún nýja innsýn í veðurfarssögu landsins, að ég hygg. Auk hins fræðilega árangurs álít ég, að leiðangurinn hafi safnað hagnýtri reynslu, sem geti að haldi komið. Við gátum þraut- reynt nýja tegund snjóbíla, sem aldrei hafði áður verið notuð hér á landi. Þeir vega um 2000 kg. og ganga á gúmmíbelt- um með járnvari. Þeir eru afarliðlegir í snúningum og geta þrautalaust dregið 2000 kg. á meðalfæri. Þeir geta farið snar- brattar brekkur, farið yfir mjaðmardjúp- ar ár milli skara, skriðið yfir metra breið- ar jökulsprungur og kóklast yfir vorís, sem ekki heldur gangandi manni. Ég er í engum vafa um, að farartæki af þessari gerð eiga mikla framtíð fyrir sér að vetrarlagi. Þeim má alveg eins aka á auðri jörð, ef ekki er stórgrýti fyrir, en beltin eru of dýr til þess að það sé hyggi- legt. Bílunum var ekið alla leið úr Reykja- vík austur í Öræfi í vondri færð og rysj- óttu veðri. Margar ár voru uppbólgnar eða milli skara, án þess að það tefði för- ina. Jöklarannsóknarfélagið hefur reist skála í Esjuf jöllum, þótt margt standi þar til bóta innan húss. En það er lakur skúti, sem ekki er betri en úti. Og Esjufjölí eru eins konar hlið að sjálfum Vatnajökli. Frá Esjufjöllum er ekki langur vegur upp á hájökul og greiðfarið til Grímsvatna, Kverkfjalla og norður á Möðrudalsöræfi. Breiðamerkurjökull er einna voldugastur allra skriðjökla hér á landi. Þar eru því rannsóknarefni mörg og mikil. Ef allt fer að óskum munu Esjufjöll verða miðstöð jöklarannsókna hér á landi í framtiðinni og sömuleiðis ferðalaga um Vatnajökul. Hér er margt ötulla, ungra ferðamanna. Þá skortir ekki viðfangsefni, þar sem þeir hafa Vatnajökul. Öræfin og sveitirnar sunnan Vatnajökuls eru líka fjölbreyttar og fagrar. Þar er ekki alls staðar hægt að ferðast í bíl, og það gerir ferðalög til- breytilegri og minnisstæðari.

x

Vikan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.