Vikan


Vikan - 07.11.1963, Blaðsíða 12

Vikan - 07.11.1963, Blaðsíða 12
máttlitlar bárurnar höfðu sleikt strÖndina og skilið þangið eftir bert og úfið, þutu sjófuglarnir upp og æddu um strönd- ina. En svo greip þá sama ómótstæðilega ferðaþráin. Garg- andi og veinandi fleyttu þeir sér á lygnum sjónum burt frá ströndinni. Hröðum okkur, flýtum okkur og hverfum; en hvert, og hver er tilgangurinn? Eirðarlaus ástríða haustsins, ófull- nægjandi og dapurleg, hafði náð tökum á þeim og knúði þá til að hópa sig, flögra og garga; þeir urðu að tæma sig af afli og orku áður en veturinn kæmi. ,_Ef til vill, “ hugsaði Nat, meðan hann tuggði brauðið sitt úti við klettabrúnina, „fá fuglarnir einhver boð á haustin, ein- hverja viðvörun. Veturinn er að koma. Margir þeirra farast, og eins og fólk, sem fær hugboð um dauða sinn, sekkur sér niður í vinnu eða óhóflegar skemmtanir, verða fuglarnir al- teknir svipaðri athafnaþrá." Þetta haust voru fugiarnir eirðarlausari en nokkru sinni fyrr, og það bar meira á því vegna þess hve dagamir voru lygnir og loftið kyrrt. Á hæðunum í vestri ók traktorinn upp og niður og bóndinn í ökusætinu bar við himin, en öðru hverju hurfu bæði maður og vél bak við stóran hóp af flögr- andi og gargandi fuglum. Það var miklu meira af þeim en venjulega, það var Nat viss um. Þeir eltu alltaf plóginn á haustin, en ekki í svona stórum hópum og ekki með slík- um látum. Nat hafði orð á þessu þegar hann hafði lokið dagsverkinu. „Já,“ sagði bóndinn, „það er miklu meira af fuglum en vant er, ég hef líka tekið eftir því. Þeir eru iíka miklu ágengari og fælast ekkert traktorinn. Einn eða tveir máfar flugu svo nærri höfðinu á mér í dag, að það munaði minnstu að þeir ýttu af mér húfunni. Ég gat satt að segja varla séð til að vinna með þá svona allt í kringum mig, sérstaklega; þegar ég ók á móti sól. Mig grunar að veðrið sé að breytast. Það verð- ur harður vetur. Það er þess vegna, sem fuglarnir eru svona órólegir.“ Þegar Nat gekk heim á leið yfir akrana og niður stíginn að húsinu sínu, sá hann fuglana í stórum hópum í gullnu kvöldskininu á hæðunum í vestri. Það var blæjalogn, grár sjórinn var kyrr og sléttur, munkahettan blómstraði enn í limgirðingunni og ylur var í lofti. En bóndinn hafði haft á réttu að standa, því að á þessari nóttu breyttist veðrið. Svefn- herbergi Nats sneri í austur, og skömmu eftir klukkan tvö vaknaði hann við rokið, sem gnauðaði í reykháfnum og á þakinu skall laus hella. Þegar Nat lagði við hlustir, gat hann heyrt drunurnar í sjónum niðri í víkinni. Meira að segja loftið í litla svefnherberginu var strax orðið svalt og súgurinn undan hurðinni stefndi beint á rúmið. Nat vafði teppinu fastar að sér og færði sig nær sofandi konu sinni, en gat ekki sofnað. Hann var á verði, hafði eitthvert hugboð um ógæfu_ þótt eng- in ástæða virtist til þess. Þá heyrði hann höggin á glugganum. Á veggjunum var eng- inn vafningsviður, sem gæti hafa losnað og væri að slást í rúðuna. Hann hlustaði og höggin héldu áfram, og loks varð hann þreyttur á hávaðanum og fór fram úr rúminu. Hann gekk að glugganum og opnaði hann, og um leið straukst eitthvað við hendi hans, hjó eða sló á hnúana og rispaði húðina. Svo sá hann blaktandi vængi, sem hurfu um leið upp yfir þakið og bak við húsið. Þetta var fugl; hvaða fugl gat hann ekki sagt ákveðið. Rokið hlaut að hafa hrakið hann í skjól við gluggann. Hann lokaði glugganum og fór aftur í rúmið, en þegar hann fann einhverja vætu á hnúunum, bar hann þá upp að vörun- um. Fuglinn hafði sært hann til blóðs. Hann hefur verið hræddur, hugsaði hann með sér, óttasleginn og ráðvilltur fugl, sem leitað hafði skjóls á gluggasyllunni og ráðist að honum í myrkrinu. Hann bjó sig aftur undir svefninn. Þá hófust höggin aftur, og nú voru þau miklu harkalegri og ákafari. Konan hans vaknaði við hávaðann og sagði, um leið og hún sneri sér við í rúminu: „Athugaðu gluggann, Nat_ hann er að skellast." „Ég er búinn að því,“ sagði hann, „það er einhver fugl að reyna að komast inn. Heyrirðu ekki í vindinum? Það er aust- anrok, og það hefur rekið fuglana í skjól.“ „Komdu þeim í burtu,“ sagði hún, „ég get ekki sofið fyrir þessum hávaða." Hann fór í annað sinn að glugganum_ en þegar hann opnaði hann núna, var ekki einn fugl á syllunni, heldur margir; þeir flugu beint framan í hann, réðust á hann. Hann hrópaði og sló frá sér með höndunum og hópurinn dreifðist; og eins og sá fyrsti flugu þeir upp yfir þakið og hurfu. Hann lokaði glugganum í skyndi og krækti honum vandlega. „Heyrðirðu þetta?“ sagði hann. „Þeir réðust á mig. Þeir reyndu að höggva í augun á mér.“ Hann stóð við gluggann og rýndi út í myrkrið, en gat ekkert séð. Hann heyrði konuna muldra í rúminu, þegar hún sneri sér við í svefnrofanum. „Ég er ekki að búa þetta til,“ sagði hann, reiður af ásökun hennar. „Ég segi þér satt, fuglarnir voru þarna á syllunni og reyndu að komast inn í herbergið." Þá heyrðu þau allt í einu angistaróp frá herberginu hinum megin við ganginn_ þar sem börnin sváfu. „Þetta er Jill,“ sagði konan hans og glaðvaknaði við hljóðið. „Farðu til hennar, gáðu hvað er að.“ Nat kveikti á kertinu, en þegar hann opnaði svefnherbergis- hurðina til að fara yfir ganginn, slokknaði á því af drag- súgnum. Þá heyrðist annað skelfingarópið, en nú kom það frá báðum börnunum, og þegar hann staulaðist inn í herbergið þeirra, fann hann vængjaslög allt í kringum sig í myrkrinu. Glugg- inn var galopinn. Inn um hann streymdu fuglarnir, slógust fyrst við loftið, síðan veggina, sveigðu svo skyndilega í lausu lofti og snerust að börnunum í rúmunum. „Það er öllu óhætt_ ég er hér,“ hrópaði Nat, og börnin fleygðu sér veinandi í fang hans, meðan fuglamir hækkuðu flugið og steyptu sér svo og réðust á hann. „Hvað er um að vera, Nat, hvað hefur komið fyrir?" kall- aði konan hans úr hinu herberginu, og þá ýtti hann börnun- um fljótt út um dyrnar að ganginum og lokaði á eftir þeim, svo að nú var hann einn í herberginu með fuglunum. Hann greip teppi af næsta rúmi og notaði það sem árásar- vopn á fuglana, sló því fram og til baka út í loftið. Hann heyrði þegar það slóst í skrokkana, heyrði vængjasúginn, en þeir voru ekki sigraðir, því að aftur og aftur réðust þeir til atlögu, slógu og hjuggu hendur hans og höfuð, litlu nefin beitt eins og gafflar. Teppið varð að vopni til varnar; hann vafði því um höfuð sér og úr niðamyrkrinu innan í teppinu barðist hann nú við fuglana með berum höndum. Hann þorði ekki að láta berast að dyrunum og opna þær_ ef þeir skyldu elta hann. Hve lengi hann barðist þarna við þá í myrkrinu gat hann ekki sagt um, en þegar síðustu vængjaslögin dofnuðu og hurfu að lokum, sá hann Ijósglætu í gegnum þykkt teppið. Hann beið og hlustaði; ekkert hljóð heyrðist nema grátkjökur ann- ars barnsins innan úr hinu herberginu. Blakt og þytur vængj- anna var ekki lengur í herberginu. Hann dró teppið af höfðinu og starði í kringum sig. Grá og kuldaleg morgunbirtan afhjúpaði herbergið. Dögunin hafði kallað lifandi fuglana út um opinn gluggann; þeir dauðu lágu á gólfinu. Nat horfði á þessi litlu lík með hryllingi og viðbjóði. Þetta voru allt litlir fuglar; þeir voru varla færri en fimmtíu þarna á gólfinu. Það voru glóbrystingar, finkur, spörvar, blá- meisur, lævirkjar og fjallafinkur, fuglar, sem samkvæmt lög- máli náttúrunnar héldu sig hver í sínum hópi, en höfðu sam- einazt i bardagahitanum, höfðu mætt örlögum sínum á her- bergisveggjunum, eða farizt af hans völdum í bardaganum. Sumir höfðu misst fjaðrir í átökunum; aðrir voru með blóð, hans blóð, á nefinu. Nat varð óglatt, og hann gekk út að glugganum; hann starði út á garðinn sinn, út á engin. Það var sárkalt_ og jörðin var hörð og dökk af frostinu. Þetta var ekki hvít ísing, sem glytti á í morgunsólinni, nei, þetta var dökkt frost austanvindsins. Með flóðinu hafði sjói'- inn orðið æðisgenginn, öldurnar hvítfysstar og brattar skullu — VXKAN 45. tbl.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.