Vikan

Tölublað

Vikan - 07.01.1965, Blaðsíða 25

Vikan - 07.01.1965, Blaðsíða 25
Ekki fer hjá því, að tólf vetra dvöl á einum og sama stað marki spor í huga manns. Spor, sem hann kemst ekki hjá að rekja í huganum, þegar frá líður, hvort sem honum er ljúft eða leitt •— hvort heldur grund eða grjót var undir fæti. Ég dvaldizt tólf vetur í Vestmannaeyjum og var svo heppinn að halda þaðan ósár á il og hæl, og eiga þar einungis góðs að minnast. Mér verður því oft, og alltaf Ijúft að líta um öxl þangað, og eins er það ósjaldan, að ég bregð mér þangað í huganum og heimsæki kunningjana. Gerir engan mun þó að sumir séu horfnir yfir í eilífðina eða hingað í höfuðborgina; þeir eru jafn góðir heim að sækja í Eyjum fyrir það. Það er þó ekki ætlunin, að ég fari að rifja hér upp endurminningar mínar úr Eyjum. Ég þykist ekki enn kominn á ævisögualdurinn. Eða, eins og maður nokkur, sem ég vissi að hafði frá mörgu merkilegu að segja, komst að orði við mig, þegar ég spurði hvort hann væri ekkert farinn að hugsa fyrir ævisögunni — þeir eru nefnilega ekki nærri allir dauðir, sem voru mér samtíða, þegar ég vann helztu af- rekin. Það sjónarmið er hollt að virða, að minnsta kosti þangað til maður hefur kalkið sér til afsökunar. Með það sjónarmið í huga ■— og líka það, að óvíst er að útgefandinn kæri sig um endur- sagnir í þriðja og fjórða bindinu, þegar þar að kemur — hef ég tekið það ráð að rifja þess í stað upp ýmislegt, sem var eða gerðist í Vestmannaeyjum, áður en við Surtur komum þar við sögu. Mér verður það oft fyrir, þeg- ar tóm vinnst til, að seilast inn í skápinn eftir bók, þar sem segir frá Eyjunum og fólki þar, og grípa niður í kafla, oftastnær af handahófi. Þetta er líkt og að skreppa þangað snögga ferð án sérstakra erinda, knýja hurðar, þar sem kemur að dyrum og láta hendingu ráða hvern maður hittir þar heima. Og þar sem slíkar skyndiheimsóknir hafa alltaf veitt mér nokkra ánægju, ætla ég að bjóða lesandanum að slást í för með mér í þetta skiptið. Óvíða eða hvergi hér á landi eru staðhættir eins sérkennilegir og í Vestmannaeyjum. Óvíða eða hvergi var lífsbaráttan erfiðari og hættu- legri, eða háð af viðlíka harðfylgi og dirfsku, og óvíða eða hvergi stóðu menn því í nánari tengslum við náttúruöflin og einangrað um- hverfi. Leiddi því af sjálfu sér, að margt væri þar með öðrum svip og siðvenjur aðrar en þar, sem allt var auðveldara og lá opnara fyrir áhrifastraumum víða að, og að þar gerðust hlutir sem þættu jafnvel hversdagslegir, sem annarstaðar hefðu komið undarlega fyrir sjónir. Þannig var það — en þannig er það ekki lengur í Eyjum. Lífsbaráttan er að vísu enn hörð og hættuleg, og háð af dugnaði og dirfsku. En eyjaskeggjar standa ekki eins varnarlausir gagnvart hamsleysi náttúruaflanna og áður; nú sækja þeri sjóinn á traustum og stórum fiski- bátum, knúnum aflmiklum vélum og búnum fullkomnustu siglingartækjum. Kannski eru tengsl þeirra við náttúruöflin þar fyrir ekki eins náin nú og þegar formaðurinn fór niður og lagði sig andartak, skipaði að hætt skyldi að draga og haldið tafarlaust í land, þegar hann kom upp aftur og sá þó engin veðra- brigði... en þó varð það með naumindum að báturinn kæmist í höfn og var þá skollið á fárviðri. Og einangrunin er rofin. Hraðskreið og þægi- leg skip og flugvélar annast samgöngurnar við „meginlandið"; og í nýtízku fiskiðjuverum, sem risið hafa á grunni gömlu aðgerðarskúranna, þar sem Skagfirðingar og Þingeyingar flöttu áður við sama borð en Húnvetningar hausuðu, er talað yfir fiskinum á fjórum—fimm tungu- málum, á meðan honum er veittur hinsti um- búnaður. Og svo hafa eyjaskeggjar fengið Surt í hlaðvarpann, sem tryggt hefur Eyjunum sess í alþjóðameðvitund, ef svo mætti segja ... ÞEGAR HJALTI SENDI UNNUSTUNNI BRÉFIÐ 1 KAMPAVINSFLÖSKU ... Ég seilist inn í bókaskápinn; fyrir mér verð- ur fyrra bindið af sögu Eldeyjar-Hjalta, sem Guðmundur Hagalín skráði. Eldeyjar-Hjalti var þjóðkunnur maður á sinni tíð. Hörku togara- skipstjóri, útgerðarmaður og að meiru eða minna leyti orðaður við flestar meiriháttar framkvæmdir á manndómsárum sínum. Hann átti mestan þátt í því að kolakraninn var reist- ur á hafnarbakkanum — og var kallaður af sumum verkalýðsböðull fyrir vikið, en það er önnur saga. Hjalti var fæddur og uppalinn í Mýrdalnum, og þar fór hann snemma torkleif björg eins og aðrir gengu breklcur. Hann fór ungur til Eyja, eins og margir Skaftfellingar, og lék brátt alla hluti eftir eyjaskeggjum, bæði á sjó og í björgum, svo að þeim fannst mörgum nóg um atgervi hans og áræði. Átti ég tal um sögu þeirra tvímenninganna við gamla félaga Hjalta í Eyjum, kváðu þeir allt satt um afrek Hjalta þar — en mikil væri frásagnargáfa Hagalíns. Eitt haustið, sem Hjalti var í Eyjum, brá hann sér upp í Landeyjar og keypti þar áttæring. f ferð þeirri kynntist hann stúlku, sem hon- um leizt góður kvenkostur, og þar sem Hjalti var yfirleitt ekki að tvínóna við hlutina, hafði hann beðið hennar og fengið jáyrði, er hann og félagar hans ýttu á flot áttæringnum og héldu út í Eyjar aftur. Sat stúlkan svo um vetur- inn í festum uppi í Landeyjum, en Hjalti rót- fiskaði úti í Vestmannaeyjum. Oft þráði hann að sjálfsögðu að mega hafa eitthvert samband við unnustu sína, en það var hægara ort en gjört — enginn var síminn og póstsamgöngur við Reykjavík sama og engar þó okkur þyki það ótrúlegt nú. En það vildi svo vel til, að eyjaskeggjar, sem lífsbaráttan hafði kennt ýmiss úrræði umfram þau, sem allir kunnu, höfðu komið á einskon- ar einkapóstsambandi við Landeyjarnar, og var Þorsteinn Jónsson, sem gerðist læknir í Eyjum 1865, talinn upphafsmaður þess. Póst- samband þetta var sniðið eftir venjulegri fyrir- mynd, þó að óvenjulegt væri — t.d. notuð frí- merki, en að öllum líkindum þau sérkennileg- ustu, sem sögur fara af. Og þetta póstsamband notfærði Hjalti sér svo, þegar hann vildi tjá unnustu sinni uppi í Landeyjum ást sína og tryggð. Hann settist niður og skrifaði bréfið, og hef- ur sennilega ekki verið lengi að því, frekar en öðru, setti það í umslag, utanáskrifað nafni hennar og heimilisfangi, og límdi það aftur, eins og lög gera ráð fyrir. Þvínæst tók hann kampavínsflösku, tóma, og hálfa alin af rjól- tóbaki, tróð rjólinu ofan í flöskuna, smeygði síðan bréfinu sömu leið, rak tappa í stútinn og gekk sem vendilegast frá honum. Og þegar vindáttin stóð af Eyjunum upp í Landeyja- sand, skálmaði hann með kampavínsflöskuna undir hendinni út á Eiðið og varpaði henni í sjóinn, en vindur og alda báru hana upp í sandinn á skömmum tíma. Þóttu kampavíns- flöskurnar fljótastar í förum á milli, vegna þess að þær voru með miklu botnholi, sem vindurinn stóð í eins og hvelft segl. Þegar vindáttin var slík, gengu Landeyingar á sandinn. Þá var alltaf von í rjóltóbaki frá Eyjum, sem oft kom sér vel. Hirtu þeir flösk- urnar, drógu úr þeim tappann, tóku úr þeim rjólið og bréfið, stungu á sig rjólinu en komu bréfinu til viðtakanda, fljótt og skilvíslega og munu þess hafa verið fá dæmi, að ekki kæm- ust bréf til skila á þennan hátt. Þannig kom WmÉS0Í L§fjtihií^UvMnpi • :.V

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.