Vikan

Tölublað

Vikan - 28.10.1965, Blaðsíða 17

Vikan - 28.10.1965, Blaðsíða 17
þykir of vœnt um Þig til þess, og sama er að segja um hundruð ann- arra og meira að segja ekki alla karlkyns. Því þokki yðar og hrein- skilni hafa aflað yður vinsælda, jafnvel hjá þeim konum, sem sjá keppinaut i yður. Við söknum yðar. Enginn veit, hvernig hann á að hnýta hálsbindið sitt, án þess að þér leggið á ráðin, og tízkan er að veslast upp eða taka stefnu til hins verra, vegna þess að þér eruð ekki til að leiðbeina. Svo allir hafa snúið sér til Madame de Montespan, sem hefur eins góðan smekk og þér og saknar yðar ekki. Það verður ekki annað sagt, en að hún riki með dýrð. Þar að auki hefur eiginmaður hennar orðið að gjalda fyrir heimskupör sín. Konungurinn rétti honum fimm þúsund livres og skipaði honum að fara til Roussillon og vera þar. Enginn veit, hvort hann gegnir þvi, en sem stendur er hann þar. Meðan ég er að tala um tízku, verð ég að segja yður, að Madame de Montespan hefur sagt fyrir um allt það, sem nýtt er á því sviði. Það kemur yður varla á óvart, að ég segi yður, að allar þessar breyt- ingar hafa verið gerðar í hennar þágu. Hún hefur gert pils, sem strengt er yfir gjörð að framan, ekki síður en að aftan, en það kemur sér mjög vel til að hylja vissar línur á vissum tímum og veitir þannig töluvert leyndaröryggi. Ég þori að veðja, að það verða þó nokkur brögð að fólksfjölgun nú meðan þetta er I tízku. Madame de Monte- span er sú fyrsta, sem nýtur góðs af því. Hún kann alls ekki að skamm- ast sín; hún er fegurri en nokkru sinni fyrr og konungurinn sér ekkert nema hana. Vesalings la Valliére er aðeins draugur, sem dæmdur hefur verið til að flækjast meðal hinna lifandi. Konungurinn hefur snúið baki við tilfinningunum og tekið sér ástmær, sem, hvort sem það er nú betra eða verra, er kröfuharðari, en fer honum betur. Og hversu harðbrjósta hún er! Það segja allir. Efi meðal hirðkvennanna nú, er enginn, sem getur staðið henni jafnfætis, hvað þá farið fram úr henni. Ég segi „nú“ vegna þess, að þér eruð ekki hér. Og það veit hún líka. 1 hvert skipti sem hún nefnir yður segir hún: „Sú pjása....!“ Angelique varð svo reið, að hún varð að hætta að lesa, en þar sem hún hafði engan til að hella úr skálum reiði sinnar yfir, sneri hún sér aftur að bréfinu. „Undir hennar áhrifum hafa Versalir orðið að allsnægtalandi. Ég var þar á mánudaginn og ég hefi aldrei séð annað eins. Klukkan þrjú söfnuðust konungurinn .drottningin, Monsieur, Mademoiselle, allir prinsarnir og prinsessurnar, Madame de Montespan ■—• í stuttu máli sagt, öll hin svokallaða hirð Frakklands — saman í hinum glæsilegu salarkynnum konungsins. Skreytingin var stórkostleg. Madame de Montespan skyggði á alla með fegurð sinni og ambassadorarnir sáu enga nema hana. Já, hún naut alls heiðursins — gimsteinar hennar voru eins og fegurð hennar og hún var jafn skemmtileg og gimsteinar hennar voru fagrir. Hún er mjög fljót að hugsa, innskot hennar koma á hárréttum tíma, hún notar aldrei skrýtin orðatiltæki og allt, sem hún gerir, er svo nákvæmlega hnitmiðað, að það er likast því að hún tali tungumál, sem hún á ein, og er þó öllum auðskilið. Allir reyna að stæla hana, bæði leynt og ljóst. Hún lætur aldrei sjá sig utan dyra án lífvarðar. Þegar ég var í Ver- sölum, bar kona de Noailles marskálks slóðann hennar, en drottningin hafði aðeins venjulegan hirðsvein til að halda uppi sinum slóða. Ibúð hennar á annarri hæð telur tuttugu herbergi, meðan drottningin hefur aðeins tólf á þriðju hæð.... “ Angelique lagði bréfið frá sér. Lá eitthvert ákveðið markmið bak við nákvæma lýsingu de Sevigné markgreifafrúar á Madame de Monte- span í allri sinni dýrð? Þótt Madame de Sevigné væri svo góðgjörn að það stappaði nærri að vera ágalli, hafði hún alltaf haft horn i síðu Athénais. Hún dáðist að henni, enn henni gazt ekki að henni. — Gætið yðar, hafði hún oft sagt við Angelique. — Athénais er Mortemart, fögur eins og sjórinn og jafn skeytingarlaus. Hún mun gleypa yður með húð og hári, ef þér hafið ekki fulla gát á.“ Það var heilmikill sannleikur i þessum orðum hennar, eins og Ange- lique hafði þegar komizt að. Hversvegna var Madame de Sevigné svona áfram um, að hún vissi hvern sigur Madame de Montespan hafði hlotið? Vonaðist hún til, að Angelique sneri aftur til Versala til að berjast fyrir stöðu, sem hún hafði aldrei haft? Madame de Montes- pan var ástmærin, konungurinn sá enga nema hana, og þá virtist allt hafa farið á bezta veg.... Það var barið lauslega á dyrnar og Barbe kom inn með litla Charles- Henri við hönd sér. — Litla erkiengilinn langar að sjá mömmu. — Jæja, já, sagði Angelique annars hugar. Hún reis á fætur og leit út um gluggann. Ekkert hreyfðist i svörtu og hvitu, tilbreytingarlausu landslaginu. — Má hann vera hérna aðeins og leika sér? spurði Barbe. — Það myndi gera hann svo ánægðan. En biðum við, það er ekki nógu hlýtt hérna! Madame hefur látið eldinn deyja út. — Bættu þá eldivið á hann. Drengurinn var frammi við dyr og ríslaði sér við spunakonu. Hann var í síðum, bláum flauelskjól og hvítum fjöðrum hafði verið stungið í ljósa lokkana, sem héngu niður á axlirnar. Angelique brosti til hans. Henni fannst gaman að klæða hann rikmannlega, því hann var einstaklega fallegur. En hversvegna átti hún að eyða svona miklum peningum í föt handa honum, þegar enginn hér var til að sjá þau? Það var slæmt! — Má ég þá skilja hann eftir? spurði Barbe. — Nei, ég hef ekki tima til að sinna honum. Ég verð að skrifa Madame de Sevigné bréf, sem sendiboðinn á að taka með sér til baka á morgun. Barbe sá á framkomu Angelique, að hún var um annað að hugsa. Hún andvarpaði og tók i hönd drengsins, sem fylgdi henni hlýðinn. Þegar Angelique var orðin ein, yddaði hún penna, en hún gat ekki þegar í stað byrjað að skrifa. Hún þurfti að hugsa. Margt, sem hún óskaði ekki að hlusta á, bergmálaði hið innra með henni: — Versalir munu bíða yðar. Var það satt? Ef til vill höfðu Versalir gleymt henni, og þá var allt miklu auðveldara. Það var það, sem hún hafði óskað sér, en þó þótti henni það heldur verra núna. Hún hafði komið til Plessis til að forðast einhverja óljósa hættu, af því að henni fannst hún verða að gera yfirbót varðandi Philippe. Hún hafði ekki stanzað neitt í höll- inni, þar sem allt minnti á hann og dapra bernsku hans — þessa faZlegu höll, þessa ríkmannlegu höll. Þessa auðnulausu höll. 1 Plessis hafði hún notið hinna mildu haustlita og dregið úr einmanaleik sínum með löngum útreiðum yfir akrana, en nú var vetur, nýr vetur í nánd og vetrarkviðinn hafði setzt að í brjósti hennar. Þjónn kom inn til að spyrja, hvort hún óskaði að borða í sínu eigin herbergi eða borðsalnum. I hennar eigin herbergi, auðvitað. Það var ískuldi niðri og hún hafði satt að segja ekki kjark til að sitja alein við endann á löngu veizluborði, hlöðnu af silfri. Hún var tvöföld ekkja. Þegar hún hafði komið sér fyrir fyrir framan eldinn, við borð þakið með litlum, rauðum pottum, sem lystaukandi gufur stigu upp frá, varð henni allt í einu ljóst, að hún var orðin ekkjufrú. Hér var enginn karlmaður til að brosa að því, hvað hún hafði góða matarlyst.... til að dást að höndum hennar.... eða til að slá henni gullhamra fyrir hárgreiðsluna. Hún hljóp að glugganum og horfði lengi á andlit sitt. Hún var ennþá mjög fögur. Hún andvarpaði hvað eftir annað. Næsta dag komu Monsieur og Madame de Roquelaure á leið til bú- garðsins í Armagnac. Þau höfðu lagt lykkju á leið sína til að heim- sækja Angelique, og fluttu henni skilaboð frá Colbert. Hertogafrúin saug hvað eftir annað upp í nefið og sagði, að það stafaði af kvefi, sem hún hefði fengið á ferðinni, en það var aðeins afsökun til að hylja hin beisku tár, sem hún gat ekki haldið aftur af. Hún notaði þá andartaksstund, sem hún átti í einrúmi með Angelique, til að trúa henni fyrir því, að eiginmaður hennar hefði þreytzt á léttúð hennar; ákveðið að halda henni burt frá freistingum hirðarinnar og loka hana inni í kastalanum í Armagnac. —■ Ég skil ekkert í honum að fara að verða afbrýðisamur núna, stundi hún. — Núna, þegar ævintýri mitt með Lauzun er löngu liðin saga. Hann hefur ekki komið nærri mér mánuðum saman. Þetta hefur verið erfiður tími fyrir mig. Hvað finnst honum svona skemmtilegt við Mademoiselle de Montpensier? — Hún er barnabarn Hinriks IV, sagði Angelique. •—Og það er allnokkuð. En ég á erfitt með að trúa, að Lauzun vogi að leika sér með tilfinningar prinsessu af konunglegu blóði. Honum getur ekki verið alvara. Madame de Roquelaure hélt þvi hinsvegar fram, að honum væri fúlasta alvara. Grande Mademoiselle hafði beðið um leyfi konungs- ins til að giftast de Lauzun hertoga, sem hún elskaði mjög heitt. — Og hvað sagði hans hágöfgi? — Hann svaraði eins og hann svarar öllu. — „Við skulum sjá til .... “ Hann virðist eins og tvisaga milli ofurástar Mademoiselle á de Lauzun og væntumþykju hans sjálfs á honum. En drottningin og Monsieur og Madame voru stórhneyksluð á hugmyndinni um þetta hjónaband. Og sama var að segja um Madame de Montespan, og hún lét hneykslun sína mjög opinberlega í ljósi. — Hvað kemur henni þetta við? Hún er ekki af konunglegu blóði. — Hún er Mortemart. Hún veit hvað við á meðal hástéttanna. Lauzun er aðeins ómerkilegur Gaskoni. — Vesalings Péguilin! Ég býst varla við, að hann komi yður að miklu gagni nú. Framhald á bls. 34. VIKAN 43. tbl.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.