Vikan


Vikan - 29.07.1943, Blaðsíða 12

Vikan - 29.07.1943, Blaðsíða 12
12 VIKAN, nr. 30,1943 Við höfðum gengið hægt krákustiginn upp klettinn. Nú fórum við gegnum hliðið, sem var á leiðinni að Byggðarenda. „Púff!“ dæsti Poirot. „Þetta er meira erfiðið. Mér er heitt. Það er ósköp að finna, hvernig skeggið er. Já, ég var að tala um það áðan, að ég væri með hinum saklausu. Ég, er með ungfrú Nick, af því að hún er ofsótt. Ég er með ungfrú Maggie, af því að hún var myrt.“ „Og þú ert á móti Fredericu Rice og Charles Vyse,“ sagði ég. „Nei, nei, Hastings. Ég er aðeins vel vakandi. Ég segi einungis á þessari stundu, að annað þeirra tveggja muni vera við málið riðið. Þögn!“ Við vorum komnir að grasflöt, þar sem mað- ur var að slá með sláttuvél. Hann hafði langt, ógreindarlegt andlit og dauf augu. Hjá honum var lítill drengur, um tíu ára gamall, ófríður og heimskulegur útlits. Mér flaug í hug, að við höfðum ekkert heyrt í sláttuvéiinni, en ég ályktaði sem svo, að garð- yrkjumaðurinn tæki ekki nærri sér við vinnuna. Hann hafði eflaust verið að hvíla sig og rokið til að byrja aftur, þegar hann heyrði í okkur. „Góðan daginn, herra.“ „Ég býst við, að þér séuð garðyrkjumaðurinn. Eiginmaður frúarinnar, sem vinnur hér á heim- ilinu?“ „Hann er pabbi minn,“ sagði litli drengurinn. „Það er rétt, herra,“ sagði garðyrkjumaðurinn. „Þér munuð vera ókunni herrann, býst ég við, senj er í raun og veru leynilögreglumaður. Er nokkuð að frétta af ungfrúnni, herra?“ „Ég er einmitt að koma beint frá henni núna,“ sagði Poirot. „Henni leið vel í nótt.“ „Það komu lögregluþjónar hingað,“ sagði litli drengurinn. „Það var hérna, sem konan var drep- in. Hér hjá okkur. Ég hefi einu sinni séð svín drepið. Er það ekki satt, pabbi?“ Faðir hans umlaði eitthvað. „Pabbi var vanur að drepa svín, þegar hann var í sveit. Er það ekki, pabbi? Ég hefi séð svín drepið. Það var gaman.“ „Krökkum þykir gaman að sjá, þegar svín er drepið," sagði maðurinn, eins og hann væri að staðfesta óumbreytilegt náttúrulögmál. „Konan var skotin með byssu,“ hélt drengurinn áfram. „Það var ekki skorinn á henni hálsinn, nei.“ Við héldum áfram að húsinu. Mér var léttir að því, að komast frá þessu leiðinlega bami, sem valdi sér þetta ógeðslega umræðuefni. Poirot gekk inn í gestastofuna — gluggar hennar voru opnir — og hringdi bjöllu. Ellen kom að vörmu spori. Hún var dökkklædd og þokka- leg. Hún lét ekki í ljós neina undrun, þegar hún sá okkur. Poirot sagði frá því, að við værum þangað komnir samkvæmt leyfi ungfrú Buckley, og hún hefði leyft okkur að rannsaka húsið. „Gjörið þér svo vel, herra,“ sagði Ellen. „Lögreglan hefir lokið sínu starfi hér?“ sagði Poirot. „Þeir sögðust vera búnir að sjá allt, sem þeir þyrftu að athuga. Þeir hafa verið hér úti í garð- inum frá þvi snemma í morgun. Ég veit ekki, hvort þeir hafa orðið nokkurs vísari." Hún var á leið út úr stofunni, þegar Poirot stanzaði hana með spurningu: „Voruð þér mjög undrandi í gærkvöldi, þegar þér heyrðuð, að ungfrúin hafði verið skotinn?" „Já, herra, mjög undrandi. Ungfrú Maggie var yndisleg stúlka. Mér er það alveg óskiljanlegt, að nokkrum manni skyldi geta dottið í hug, að geri henni hið minnsta mein.“ „Hefðuð þér ekki orðið eins undrandi, ef það hefði verið einhver annar — ha?“ „Ég skil yrður ekki, herra.“ „Þegar ég kom inn í gærkvöldi," sagði ég, „þá spurðuð þér mig undir eins, hvort nokkur hefði meiðst. Bjuggust þér við nokkru þvílíku?" Hún þagði. Hún fiktaði við svuntuna sína. Hún hristi höfuðið og muldraði: „Þið herrarnir munduð ekki skilja mig." „Jú, jú,“ sagði Poirot. „Ég mundi skilja yður. Hve fráleitt, sem það væri, sem þér segðuð okk- ur, þá mundi ég skilja yður.“ Hún horfði á hann efablandin. Svo virtist hún herða upp hugann og treysta honum. „Sjáið þér til, herra," sagði hún. „Þetta er ekki gott hús.“ Ég varð hissa og horfði háðulega á hana. En Poirot virtist ekki þykja þetta neitt undarlegt. „Þér eigið við það, að þetta sé gamalt hús." „Já, herra, ekki gott hús.“ „Hafið þér verið hér lengi?" „Sex ár, herra. En ég var hér, þegar ég var ung stúlka. 1 eldhúsinu, eldhússtúlka. Það var á tímum gamla Sir Nicholas. Það var eins þá.“ Poirot horfði með athygli á hana. „1 gömlu húsi,“ sagði hann, „er loftið stundum lævi blandið." „Það er það, herra," sagði Ellen áfjáð. „Já, þér komizt alveg rétt að orði. Það er ógæfa. 111- ar hugsanir og ill verk líka. Það er eins og ræt- ur hússins séu skemmdar, það er ekki hægt að losna við þetta. Það liggur í loftinu. Ég hefi allt- af vitað, að eitthvað illt ætti eftir að koma fyrir í þessu húsi, einhvemtíma." „Já, og nú er það komið á daginn. „Já, herra." Það var einhver veik undiralda af ánægju í rödd hennar, fullnæging þeirrar manneskju, sem hefir sannað það, að óljóst hugboð hennar hafi verið rétt. „En þér bjuggust ekki við því, að það mundi henda ungfrú, Maggie?" „Nei, alls ekki, það gerði ég ekki. Engum var illa við hana — það er ég viss um.“ Mér fannst liggja leiðarvísir í þessum orðum hennar. Ég bjóst við, að Poirot mundi notfæra sér hann. En mér til mikillar undrunar fór hann að tala' um allt annað. „Þér heyrðuð ekki skotið?" „Það hefði ekki verið hægt vegna flugeldanna. Oti var svo mikill hávaði, að ég hefði ekki getað greint það.“ „Þér voruð ekki úti til að horfa á flugeldana?" „Nei, ég var ekki búin að þvo upp.“ „Var þjónninn að hjálpa yður?“ „Nei, herra. Hann hafði farið út í garðinn til þess að horfa á flugeldana." „En þér fóruð ekki.“ „Nei, herra." „Hvernig stóð á þvi?“ „Ég þurfti að ljúka verkinu." „Þykir yður ekki gaman að flugeldum?" „Ó, jú — það var ekki það. En sjáið þér til, þeir verða í tvö kvöld, og við William ætlum í bæinn annað kvöld og sjá þá þaðan." „Ég skil þetta. Og þér heyrðuð, þegar ungfrú Maggie var að leita að kápunni sinni og gat ekki fundið hana?“ „Ég heyrði, að ungfrú Nick hljóp upp og ung- frú Maggie kallaði til hennar og sagðist ekki geta fundið eitthvað og svo var sagt: „Ágætt — hún hefir tekið sjalið —“. „Afsakið —Poirot greip fram I fyrir henni. „Yður hefir ekki dottið í hug, að leita að káp- unni fyrir hana — eða sækja hana í bátinn, þar sem hún hafði verið skilin eftir?" „Ég hafði annað verk að vinna, herra." ■ „Alveg rétt — og ungfrúrnar hafa hvorug leit- að til yðar, af því að þær hafa búizt við, að þér væruð úti að horfa á flugeldana?" „Já, herra." „Hafið þér ekki verið undanfarin ár úti og horft á flugeldaná?" Skyndilegur roði hljóp í fölar kinnar hennar. „Ég veit ekki við hvað þér eigið, herra. Við megum alltaf fara út. Ef mig hefir ekki langað til þess í þetta skipti og heldur viljað halda áfram með verk mitt og fara síðan að hátta, þá kom mér það einni við, hvort ég gerði það ekki — býst ég við.“ „Afsakið! Afsakið! Ég ætlaði ekki að móðga yður. Hví skylduð þér ekki gera eins og yður þóknast. Það er ánægjulegt að breyta til, haga sér ekki alltaf eins.“ Hann þagði um stund, en hélt síðan áfram: „Svo er það enn dálítið, sem mig langar til að spyrja yður um, ef þér skylduð geta hjálpað mér. Þetta er gamalt hús. Er, svo að þér vitið, nokkuð leyniherbergi í því?“ „Ja -— það er nokkurskonar rennihurð — ein- mitt í þessu herbergi. Ég man, að mér var sýnt það, þegar ég var hér áður fyrr. Ég get bara ekki munað núna nákvæmlega, hvar það er. Eða var það í bókaherberginu ? Ég er ekki viss um þetta." „Var það svo stórt, að maður gæti falið sig þar?“ „Nei, nei, herra! Það var ekki stærra um sig en lítið borð -— nokkurskonar skot. Nokkur fót- mál, herra, alls ekki stærra." MAGGI og EAGGI. 1. Maggi hleypur á eftir hatti, sem fokið hefir úr bíl. 2. Maggi nær hattinum. _ 3. Bíllinn hefir numið staðar og Maggi hugsar sér gott til glóðarinn- ar; hann muni fá rífleg fundarlaun fyrir hattinn. 4. Maggi: Æ! Það er þá sorpvagn borgarinnar! — Þetta voru hlaup, en engin kaup.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.