Menntamál


Menntamál - 01.06.1971, Blaðsíða 4

Menntamál - 01.06.1971, Blaðsíða 4
♦-----------------------------------♦ Hausthljóð ♦-——-------------—t Það mun ekki óalgengt, að foreldrar hlakki til þess, að skólarnir taki til starfa á haustin. Skólagöngunni fylgir, ef vel lætur, röð og regla í daglegum háttum barnanna, sem oft er kærkomin heimilunum eftir fyrirhafnarsamt frjálsræði sumarsins. En svo getur borið við, að sú röð og regla, sem skólarnir — nauðugir eða viljugir — koma á daglega hætti barn- anna, stangist á við þá röð og reglu í dag- legum háttum, sem heimilin — nauðug eða viljug — búa við hvert um sig. Þegar um slíka árekstra milli skólahátta og heimilishátta er að ræða, er það ekki óeðlileg tilætlun af for- eldranna hálfu, að skólarnir annars vegar breyti til samræmis við óskir og þarfir heim- ilanna þeim starfsháttum sínum, sem þeir hafa kosið viljugir, og hins vegar geri skil- merkilega grein fyrir orsökunum til þeirra starfshátta, sem þeir hafa tekið upp nauðugir og geta ekki breytt. Erfitt er að segja, hvort slík tilætlun, þótt eðlileg sé, eralgeng meðal foreldra. Um þetta, eins og um ótal margt annað í íslenzku þjóð- félagi, virðist algengast, að menn læri smám saman að láta sér lynda fleira en gott þykir. MENNTAMÁL 66 Öllum, sem starfa við skólana, ríður því á að hlusta með sérstakri gaumgæfni eftir rödd- um foreldra fyrst á haustin, meðan þeir eru enn ekki farnir að sætta sig við vankantana, sem þeir þykjast sjá á skólastarfinu. Á þessu hausti hefir borið hæst kvartanir yfir sundurslitnum og óreglulegum stunda- töflum, þ.e.a.s. yfir skorti á röð og reglu í þeim daglegu háttum, sem skólarnir fyrirskipa nemendum. Þann Ijóð á ráði skólanna hafa foreldrar rætt sín á milli árum saman, og er það ekki vonum fyrr, að hann kemst í há- mæli. Að því hefir áður verið vikið á þessum vett- vangi, að almenning virðist skorta hefðir og venjur til að koma umkvörtunum sínum á framfæri við opinberar stofnanir svo gagn sé að. Jafnvel þar sem til eru greiðar boðieiðir, virðast menn hafa vantrú á þeim, oft að óreyndu. Dæmi þessa hefir mátt finna í um- ræðum haustsins um stundaskrár, og hefir t.d. ekki alltaf verið augljóst, hvort umkvart- endur voru heldur að leita að úrræðum og um- bótum eða sökudólgum. En hafi skort venjur og hefðir til að koma umkvörtunum á fram- færi, hefir ekki síður skort venjur og hefðir til að koma á framfæri þeim upplýsingum um skólana, sem nauðsynlegar eru til þess, að almenningur sé kunnugur starfsskilyrðum þeirra, skilji þann margvíslega vanda, sem þeir eiga jafnan við að etja, og leggi fús til lausnar vandanum sinn skerf af umhyggju og hugviti — ekki síður en fjármunum. í sam- skiptum skóla og almennings á sér stað gagn- kvæm vanræksla, sem ekki verður ráðin bót á með gagnkvæmum ásökunum og afsökun- um. Og skólarnir hafa hér enga sérstöðu meðal opinberra stofnana. Hvaða söguleg rök, sem til þess kunna nú að liggja, skortir mjög á það beina sambandi almennings við stofnanir sínar, sem lýðræðishugmyndir okk- ar gera ráð fyrir. Tækin til að bæta hér úr hafa aldrei verið fleiri og betri en nú. Og að því er skólana varðar mun tilefnin ekki skorta; þau munu halda áfram að gefast á hverju hausti, ef vel er hlustað.

x

Menntamál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Menntamál
https://timarit.is/publication/376

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.