Heima er bezt - 01.02.1957, Page 15
Á REKI í 21
Eftir Björn Bl.
DÆGUR
Jónsson
T^ildrög til þess, að ég var með „Ingólfi“ á þess-
ari ferð voru þau, er nú skal greina: Ég átti
heima hjá foreldrum mínum í Skildinganesi, en
þar stóðu tveir bæir í röð. Þeir voru aðgreindir
á þann hátt, að annar var kallaður Austurbær en hinn
Vesturbær. Átti ég heima í þeim eystri, en suður á hlað-
inu beint á móti honum stóð steinhús mikið, er kallað
var Sigurðarhús, sennilega vegna þess, að sá hefur Sig-
urður heitið, er upphaflega lét byggja það, en meira veit
ég ekki um hann. Suðaustur af túnfætinum stóð lítill
bær, er Kot var kaUaður, en þar bjó Sigurður, bróðir
Erlendar Guðmundssonar, er bjó í Vesturbænum, sem
fyrr er nefndur. En í steinhúsinu bjó N. N., skipstjóri
og eigandi „Ingólfs“.
Ég ætla, að það væri á milli jóla og nýjárs, sem
N. N. kom að máli við mig og bað mig að sauma fyrir
sig nýtt stórsegl á „Ingólf“ og gera við önnur, er þess
þyrftu með, og játti ég því, þar sem ég hafði ekki
neitt að starfa þá í augnablikinu, en seglasaumi í Hrólf-
skála var lokið rétt fyrir jól, en við það hafði ég starfað
þar.
Að seglasauminu loknu, tjáði N. N. mér, að nú hefði
hann fengið tilboð í að flytja vörur fyrir Ólaf Árna-
son kaupmann á Stokkseyri, hvort ég vildi nú ekki
gera það fyrir sig að koma til sín sem stýrimaður
þennan túr, það tæki ekki langan tíma, viku, ef vel
gengi, en í mesta lagi hálfan mánuð. Ég var tregur til,
vegna þess að ég vissi, að skipið, reiði allur, ásamt hlaup-
andi tógverki og svo segl öll, að undanskildu hinu nýja
segli, var allt mjög lélegt og á engan hátt fært til slíkr-
ar ferðar um þetta leyti árs. En þar kom þó fyrir sár-
beiðni N. N., að ég lét til leiðast, með því skilyrði þó,
að skipstjóri sá, er ég var ráðinn Hjá, gæfi sitt sam-
þykki til. Gunnsteinn Einarsson átti þá líka heima í
Skildinganesi, en hjá honum var ég ráðinn. Varð hon-
um að orði: „Ekki lízt mér á þetta ferðalag, en par
sem Björn er ekki ráðinn hjá mér fyrr en 1. marz, þá
hef ég ekkert um þetta að segja, en til skips á hann
að vera kominn 1. marz, sem aðrir mínir menn.“
Niðurstaðan varð svo sú, sem sagan bendir til.
Tveir hásetar voru ráðnir í skyndi, þeir Björn Hann-
esson, sem oft áður hafði verið með N. N. á slílcum
ferðum, og Guðjón Guðmundsson, báðir giftir og
nokkuð við aldur, en dugnaðarmenn, vínhneigðir, þó
ekki væru þeir drykkjumenn.
„Ingólfur“ lá í vetrarlægi suður á Seilu í Skerja-
firði, um borð í hann var farið með segl, blokkir, tóg
og annað það, er með þurfti, síðan var hann rikk-
aður upp, sem kallað er, hengdar upp blokkir, hlaup-
andi tógverk og seglum slegið undir.
Að því loknu er akkerum létt og siglt til Hafnar-
fjarðar, því þar voru þær vörur, er flytja átti til Stokks-
eyrar og s. s. „Reykjavík“ hafði snúið aftur með
þrisvar sinnum um haustið, en nú í fjórða sinn skyldu
þær þó komast á ákvörðunarstað, sem þó að vísu aldrei
varð, svo sem nánar verður sagt frá síðar. í þennan
mund var ekki hafskipabryggja í Hafnarfirði, en út-
og uppskipun fór fram á svokölluðum uppskipunar-
bátum.
Laugardagskvöldið 3. febrúar var útskipun lokið á
þeim vörum, er flytja átti til Stokkseyrar, en það voru:
salt, hveiti, rúgmjöl, vatnsfötur, whisky o. fl. Sam-
tímis voru þær vörur komnar um borð, er ætlaðar
voru skipshöfninni til neyzlu í eina viku, svo sem mat-
vara, vatn og kol.
Skipið var þá tilbúið til að leggja upp í áðurnefnda
ferð.
Eins og áður er sagt var „Ingólfur“ lélegt skip,
stærð hans var 25 brúttó smálestir. Hann var ruttur,
en breiður, brjóstamikill, kolsvartur og illa hirtur, með
gafl í aftur-enda og hinn mesti sleði að sigla, svo að
ég hef ekki þekkt annan eins, en undan vindi þumlung-
aðist hann dálítið áfram. Þrjú forsegl hafði hann, klýfi,
stagsegl og stagfokku. Klýfirinn var fasta-klýfir og
gerður fastur á bugspjótið, sem venja er til, en stag-
seglið á svokölluðu „spruði“, þegar það var gert fast.
íbúð háseta var fram í lúkar. íbúð skipstjóra og
stýrimanns í káetu, en þar var sérherbergi fyrir skip-
stjóra, en á dekki var „ruff“, í því var eldavél, og þar
var matur eldaður, eða réttara sagt átti að eldast. Skips-
bátur var á hvolfi á „hekkinu“ og bundinn þar niður
með tógi.
Áður en lengra er farið, verð ég að segja frá draumi,
er mig dreymdi nóttina, sem lagt var á stað um morg-
uninn, en það var sunnudaginn 4. febrúar árið 1900.
Mig dreymdi eina af dætrum Sigurðar í Kotinu, sem
Dísa var kölluð. Kom hún til mín og óskaði eftir að
fá að vera með í þessari ferð, sagðist hún ætla að sofa í
minni koju, ég gæti svo lagzt fyrir framan sig, ef mér
sýndist svo, annars gæti ég legið á bekknum. Ég sagði
Heima er bezt 59