Heima er bezt - 01.02.1957, Page 27

Heima er bezt - 01.02.1957, Page 27
Möðrudalur. — Vil ég í þætti þessum rifja upp söguna um upphaf byggðar á Hólsfjöllum. Endursegi ég hana og stytti nokkuð, en að mestu leyti birtist hún hér orðrétt. Fossvellir heitir bær neðst í Jökuldal, en eftir að Jök- uldaishreppur hinn forni skiptist í tvö sveitarfélög, eru Fossvellir í Jökulsárhlíð en ekki Jökuldalshreppi. Á Fossvöllum áttu heima systkini mannvænleg, er hétu Jón og Guðrún. Henti Guðrúnu það slys, að eiga barn í meinum, og var það kennt Jóni bróður hennar. Jón flýði úr byggðarlaginu, en eftir landslögum þeirra tíma var Guðrún dauðasek, og beið hún dóms heima á Fossvöllum. Á meðan hún beið dóms, skeði það einn dag, að allt heimilisfólk á Fossvöllum fór til kirkju, en stúlkan sakfellda var skilin eftir ein heima, en harð- lyndur og hrottafenginn vinnumaður af næsta bæ feng- inn til að gæta hennar, svo að hún. stryki ekki. — Var vinnumanni þessum treyst til að vera nógu harðbrjósta til að láta hana ekki sleppa. Þegar fólkið var farið, settist vinnumaður í bæjar- dyrnar og ætlaði þannig að tryggja það, að hún gæti ekki sloppið út úr bænum. Virtist það því vonlaust fyrir Guðrúnu að sleppa. Guðrún var þó ekki aðgerðalaus. Hún vissi, að um lífið var að tefla, og ætlaði að forða sér á flótta, ef hún gæti á nokkurn hátt komið því við. Hún tók því poka, tíndi í hann nokkuð af matvælum og auk þess ýmisleg áhöld, sem að gagni máttu verða, t. d. tinnu og önnur eldfæri, hnífa, spunasnældu sína, pottgrýtu, rekublað o. fl. Hafði hún gát á verðinum í bæjardyrunum og tók bráðlega eftir því, að hann fór að draga ýsur í sæti sínu og svo fór hann að hrjóta. Sætti Guðrún þá lagi og læddist fram hjá honum með pokann sinn, án þess hann yrði var við. Hún hljóp nú sem fljótast frá bænum upp í Laxárgil, sem er þar skammt frá, og var fljótlega kom- in í hvarf. Herti hún göngu sína sem mest hún mátti, þar til er hún var komin vestur á heiði þá, er Smjör- vatnsheiði nefnist. Sá hún þá, hvar fénaður föður henn- ar breiddi sig um hagana. En þegar hún kom nærri fénu, tók sig út úr ær ein mókollótt með tveimur lömbum, mórauðum að lit. Guðrún átti sjálf ána með lömbin, og var Mókolla svo elsk að henni, að hún elti hana, hvar sem hún sá hana og kom, ef Guðrún kallaði á hana. — Guðrún talaði nú til hennar og brellaði hana, enda slóst Mókolla í för með henni, ásamt lömbunum sínum. Þannig hélt Guðrún áfram, eins hart og hún gat þann dag allan og nóttina eftir, en þá voru lömbin orðin svo lúin, að hún varð að hvíla þau við og við. Loksins kom hún að afarháu fjalli, og lágu niður úr því giljadrög mikil og jarðföll, en snjóbrýr voru á lækj- um, því að þá voru liðnar aðeins fimm vikur af sumri. Ekki þorði hún að vera á ferð á daginn, ef leitarmenn kynni að bera þar að. Réð hún það af, að láta þarna fyrirberast þann dag allan og næstu nótt og fór að skyggnast um eftir góðu skýli. Fann hún djúpt og rúm- gott jarðfall, lét Mókollu og lömbin þar inn undir og þar næst poka sinn, en sjálf lagðist hún fremst. Nú víkur sögunni heim í dalinn. Þegar messufólkið kom frá kirkjunni, var Guðrún horfin. Var nú mönn- um safnað af næstu bæjum og hafin leit. En það er af Guðrúnu að segja, að hún heldur kyrru fyrir í fylgsni sínu, en er kvölda tekur hyggur hún til ferðar. Rétt þegar hún er að leggja upp, heyrir hún mannamál, og í því jarmar MókoIIa hátt. Guðrún greip fyrir snoppuna á henni, svo að ekki heyrðist í henni, en í því heyrir hún, að einhver kemur ofan í jarðfallið, og bregður henni þá svo við, að hún fellur í öngvit. Þegar hún raknar við aftur, er bezti æskuvinur hennar úr dalnum að hagræða henni blíðlega og segir: „Vertu ekki hrædd, Guðrún mín, því að fyrr skal ég láta lífið, en vera sá níðingur að segja til þín. Skal ég nú sjá svo um, að leitarmenn fari í öfuga átt við þig. Til vesturs héðan liggur Tunguheiði, sem er óbyggð, og væri þér bezt að leita þangað.“ Síðan kvaddi hann Guðrúnu og gaf henni að skilnaði vandaðan tygilkníf. Guðrún þakkaði veglyndi hans og gjöf, og skildu þau síðan. Leitarmenn ganga nú öræfi og óbyggðir, þar til þeir voru orðnir úrkula vonar um að Guðrún fyndist lifandi. Grímsstaðir á Fjöllum. Heima er bezt 71

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.