Heima er bezt - 01.03.1982, Blaðsíða 21

Heima er bezt - 01.03.1982, Blaðsíða 21
Rétt fyrir síðari heimsstyrjöldina voru hér í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu nokkrir þýskir jarðfræðingar og land- mælingamenn sumarlangt. Aðstoðar- maður þeirra og túlkur var Tómas Tryggvason í Engidal sem þá stundaði jarðfræðinám í Svíþjóð á vetrum. Þessir Þjóðverjar höfðu bækistöðv- ar í Vogum hjá Sigfúsi Hallgrímssyni bónda, geymdu þar matvæli og margvíslegan útbúnað. Þeir gerðu miklar rannsóknir í Námafjalli og þar í grennd. Ég réðist til þeirra sem hjálpar- maður við mælingar í Gjástykki að ósk Tómasar en okkar á milli var ná- inn vinskapur og frændsemi. Sigfús safnaði saman tíu hestum á bæjunum í kring til flutnings á okkur norður og fór sjálfur sem fylgdar- og leiðsögumaður. Farangurinn var á marga hesta, matur, tjöld og margvís- leg mælingatæki. Ég tók eftir því að 90 kartöflur voru nefndar til, en ég taldi vel fyrir næringarþörf séð með dósa- mat í klyfjatali. Var mér þá ekki ljóst að, að mestum hluta var þetta gras- mauk, soðið og hrært suður i Þýska- landi. Ekki var jafnt í klyfjum eins og æskilegt hefði verið og hestarnir margir óvanir burði. Ferðalagið gekk því skrykkjótt til að byrja með. Þjóð- verjarnir voru nokkurn veginn sjálf- bjarga þegar þeir voru komnir á bak. Sigfús reið á undan en við Tómas á eftir lestinni og gættum klyfja hest- anna sem oft þurfti að laga reiðverin á. í Hvannstóði norðan við Jörund skriplaði mjög á grjóti og lá þar eftir í slóðinni spegilfögur skeifa. Er við tókum hana upp, brá okkur heldur því kragi af hestshóf fylgdi með. Rannsókn var snarlega gerð á því hver hestanna hafði misst undan sér skeifuna, sá væri óhæfur til ferðar lengur. Það glaðnaði þó til er við komust að því að allur hófurinn hafði ekki brotnað af heldur bara nagl- haldið og lítið eitt meira. Jarðfræðingarnir lánuðu hamra sína og með nokkurri nákvæmni gát- um við tyllt skeifunni undir með sömu nöglunum í það sem eftir var af hófnum og gekk skepnan óhölt á leiðarenda án frekari lagfæringar. Áð var á Hlíðarhaga, tekið ofan af hestunum og skriðið inn í gömlu bað- stofuna er þá stóð uppi, frá því að búið var þar. Einn þjóðverjanna sem var hátt settur maður í þýska hernum og barðist í heimsstyrjöldinni fyrri sagði að gamla baðstofan hefði þótt góð vistarvera í stríðinu og hæft hers- höfðingjum. Það mun hafa verið komið fram yfir miðjan ágúst og farið að bregða birtu um nætur. Þegar lagt var á stað af Hlíðarhaga var farið að skyggja og uppi á Réttargrund skall á svarta þoka. Það átti að fara stystu leið í Áfanga en Sigfúsi skeikaði eitthvað með stefnuna. Lentum við með hestalestina í mestu ógöngum, djúp- um giljum og bratta. Lá við að taka þyrfti ofan af hestunum og bíða birt- unnar. En með því að snúa við, fara slóðina til baka og leita betur fyrir okkur tókst að sleppa við gilin og seinnipart nætur komum við niður í Áfanga. Við austasta lækinn var tekið ofan af hestunum og snarlega komið upp tjöldum. Ég fylgdi Sigfúsi á leið til baka. Hestarnir voru viljugir enda fundum við betri leið en um nóttina. Ég kvaddi Sigfús við Vatnahnjúk og hljóp skemmstu leið í tjaldstað og skreið í svefnpoka minn eftir nær sól- arhrings vinnudag. Eitt hrossanna höfðum við eftir hjá okkur. Var það grá meri sem Þorsteinn í Reykjahlíð átti og hét Teista. Var hún tjóðruð um nætur á völdu haglendi en á daginn fylgdi hún okkur eftir þar sem fært var klyfjuðu hrossi. Á henni fluttum við mælingatæki, sleggjur, sement og ýmisskonar þungavörur. Margvísleg störf varð að inna af höndum og vinnutími því langur einkum fyrstu dagana. Uppi á Eilíf og Hrútafjöllum voru hlaðnar stórar grjótvörður og festir staurar í topp þeirra. Við boruðum holur í jarðfastar hellubungur á nær 30 stöðum í Gjá- stykki á beinni línu frá Hrútafjöllum á Þeistareykjabungu. Á öllum þessum stöðum var steyptur niður jámbolti með kúptum haus og holu í miðju. Var svo vörðutyppi hlaðið við hvert þeirra og því gefið númer. Heima er bezt 93

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.