Heima er bezt - 01.03.1982, Side 23

Heima er bezt - 01.03.1982, Side 23
Laugardaginn 27. júní fór ég á jeppa mínum austur í Mývatnssveit til móts við Tómas sem þá var búinn að fara um Austurfjöll og upp á Haugs- nibbu sem mikið kom við sögu þess- ara mælinga. Áður en ég lagði af stað kaus ég til Alþingis á skrifstofu bæj- arfógeta, fór ég svo í Gautlönd að hitta konu mína og son sem dvalið höfðu þar nokkra daga á ættleifð sinni. Á Gautlöndum fékk ég nesti til eins eða tveggja daga, ók svo upp í Reykjahlíð. Þá var komin nótt og allir sestir að. Ég valdi mér næturstað sunnan við tún, losaði sætin og kast- aði þeim út úr bílnum, lá svo á gúmmídýnum á bílgólfinu breiddi yfir mig föt og teppi og svaf til morguns. Tómas hafði herbergi á Hótel Reykjahlíð. Hittumst við þar og drukkum morgunkaffi. Klukkan tíu fyrir hádegið ókum við af stað á Norðurfjöll í heiðskíru veðri og kyrru. Eftir tveggja tíma akstur vorum við á Grjóthálsi og stefndum vestur norðan við Eilíf. Þar hittum við Pál bónda í Engidal, mág Tómasar. Hann var þar á dráttarvél með tvo syni sína kornunga. Voru þeir að taka upp girðingu er Páll hafði keypt af mæðiveikivörnum. Það var skemmti- leg tilviljun að við skyldum hittast þarna. Snæddum við saman hádegis- verð og jafnframt uppfræddum við Tómas þá um örnefni því þeir voru fáfróðir um þau á þessum slóðum. Útsýni var vítt og fagurt. Það sá til allra miðlandsjökla, Snæfell blasti við og Herðubreið svo eitthvað sé nefnt. Um klukkan tvö kvöddum við þá feðga og héldum leið okkar að Hrútafjöllum. Urðum við að yfirgefa jeppann spölkorn frá þeim og setja upp gönguskóna. Við tókum með okkur þrjá lítra af drykkjarföngum og matarbita. í miðri fjallshlíð flaug lóa af fjórum eggjum. Undarlegt þótti okkur að lóan skyldi velja sér þennan hreiðurstað á smá mosastalli í miðri fjallshlíð á móti norðaustri. Gangan þótti okkur erfið upp á fjöllin enda var hiti, sólskin og blæja- logn. Varðan á toppi Hrútafjalla var lítið hrunin en spíran var brotin, steypta merkið var á sínum stað. Við sátum á hæsta tindi Hrútafjalla, snæddum nesti og drukkum meðan við rifjuðum upp 15 ára minningar, þá er við hlóðum þessa vörðu, löbb- uðum þreyttir og svangir yfir þessi fjöll. Það kom upp að við vorum báðir á sömu járnuðu fjallgönguskónum og við þrömmuðum á þá. Margt hafði breytst um hagi okkar á þessum árum og heimsstyrjöldin mörgu raskað í veröldinni en sömu voru þó fjöllin í hvaða átt sem litið var og töfrar öræfanna töluðu til okkar á sama máli og áður. Við horfðum í sjónauka á vörðu- línuna þvert yfir Gjástykki og tókum á rás niður fjallshlíðina og fylgdum henni og gáðum að steypumerkjum, þau voru víða falin af skófum og mosa. Báðum fannst okkur Gjástykki hafa versnað yfirferðar á þessum fimmtán árum en skynsamlegt hefði verið að viðurkenna að fimi okkar og áræði hafði lakast. í hverri laut voru fjallagrös og langaði Tómas til að færa þau konu sinni. Er við höfðum fundið allar vörðurnar og flest merkin fórum við að tína grös. „Anoraka“ okkar gerð- um við að grasapokum með því að hnýta fyrir ermar og hálsmál. Tók það ekki langan tíma að troðfylla þá, klukkan var þá orðin sjö og farið að rigna. Hröðuðum við för okkar gegn- um Gangnamannaskarð syðst í Hrútafjöllum og norður austan við þau og vorum nær holdvotir er við komum að bílnum, hafði ferðin tekið sex klukkutíma. Hituðum við okkur kaffi og fórum í þurr föt enda hætti að rigna þegar leið á kvöldið og gerði blíðasta veður. Um tíu leytið var ekið af stað heim- leiðis. Fórum við að rótum Eilífs að norðan stigum úr bílnum og klifum upp á fjallstopp. Þar höfðum við Tómas hlaðið stóra og myndarlega vörðu fyrir fimmtán árum og sett heila ár frá Sigfúsi í Vogum í toppinn. Nú var varðan gjörfallin og árin brot- in. Flötur á toppi Eilífs er svo lítill að varðan hafði bókstaflega hrunið út af fjallinu. Við urðum að gæta okkar að hrapa ekki er við vorum að tína sam- an efni í nýja vörðu. Að þessu vorum við um lágnættið og útsýnið var ógleymanlegt, kvöld- roði yfir Öxarfirði en húmdökkur blámi yfir suðurfjöllum. Eilífsvötnin spegilslétt og myrk við rætur fjallsins. Við gengum niður fjallið að austan og rákumst þar á margar skrítnar móbergsmyndir, súlur og bogagöng. Þar eru líka stuðlabergskastalar sem virtust mundu hrynja ef maður hall- aði sér upp að þeim. Með mikilli fyr- irhöfn tókst okkur að losa um tvo stuðlabergsdröngla tveggja feta langa og koma þeim í bílinn. Sólin var komin á loft er við ókum gegnum Námaskarð. Tókum við þá lykkju á leið okkar og ókum að Grjótagjá þar sem móðir náttúra hef- ur ætið til reiðu heitt bað, það besta í öllum heiminum, öllum að kostnað- arlausu. Klukkan var að ganga fimm að morgni er ég lagðist til svefns í jepp- anum á sama stað með sömu tilfær- ingum og nóttina áður. Tómas komst inn bakdyrameginn í Hótel Reykja- hlíð. Þess má geta að ekki hlutum við Tómas loflegan vitnisburð hjá sumum fyrir þessa aðstoð við Þjóðverjana og áhuga okkar á landafærslumælingum þeirra. Náttúrufræðingurinn Steindór Steindórsson sagði að okkur Tómasi væri ekki sómi að því að hafa unnið fyrir nasista. Hvað sem segja má um þessar mælingar i Gjástykki viðurkenni ég ekki að þær hafi haft annan tilgang en þann að sjá hvort land væri á hreyf- ingu og því algerlega vísindalegar. Mikinn vísdóm hefði það fært jarðfræðingum ef hægt hefði verið að halda við reglubundnum uppmæl- ingum á þessu margsprungna jarð- svæði, Gjástykki eins og meining þessarar áhugamanna var. Steyptu merkin og vörðutyppin geyma minningu Tómasar og hinna þýsku vísindamanna. Heimaerbezt 95

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.