Æskan

Árgangur

Æskan - 15.12.1933, Síða 12

Æskan - 15.12.1933, Síða 12
2 JÓLABLAÐ ÆSKUNNAR 1933 JÓLAKVEÐJA EFTIR SÍRA FRIÐRIK A. FRIÐRIKSSON Elskulegu börn! Nú er orðið örstutt til jólanna í þetta sinn. Á hverju ári kemur hin mikla og heilaga hátíð til mannanna, til að gleðja þá og göfga. Eg veit, að þið hlakkið öll undur mikið til. Það er svo margt, sem gerir jólin yndisleg. Þá gera allir heimili sín svo vistleg sem þeim er unnt, fara í beztu fötin sín, borða bezta matinn sinn, kveikja á fall- egum kertum og syngja sálmana, sem allir kunna og öll- um þykir vænt um. Allt þetta þekkið þið vel, og það er ekki lítið tilhlökkunarefni. Svo eru nú jólagjafirnar. Ekki má gleyma þeim. Það er gaman að fá jólagjafir, og þá ekki síður að gleðja aðra. Við skulum vona, að ekki séu til svo fátæk og umkomulaus börn á íslandi, að þau geti ekkijvænzt ein- hverrar svolítillar jólagjafar. Það er líka sagt, að jóla- gleði fátæku barnanna sé oft engu síður innileg og hug- ljúf en hinna, er ávallt búa við allsnægtir. Þetta er nú undarlegt, en mun þó vera satt. Hitt er líka satt, að aldrei finnum við betur til þess en einmitt á jólunum, hve sorglegt það er, að til skuli vera mesti fjöldi barna um allan heim, sem lítið er hirt um og lítið eða ekkert gert fyrir. Út í þetta hugsa öll góð og skynsöm börn, og einsetja sér að hjálpa til þess, þegar þau verði stór, að ranglætið, fátæktin og sorgin hverfi úr heiminum, svo að allir fái notið þeirra miklu gjafa, sem Guð hefir gefið öllum mönnum. Þetta minnir okkur á nokkuð, sem þið sjálfsagt hafið líka tekið eftir. Enda er það þess vert, að um það sé hugsað. Það, sem gerir jólin allra-bezt og skemmtilegust er það, að þá eru mennirnir yfirleitt góðgjarnari og betri hver við annan en oft endrarnær. Þið munuð öll geta ímyndað ykkur það, hversvegna mennirnir eru svona glaðir og góðir á jólunum. Þið hafið svo oft verið frædd um það, að jólin eru heilög haldin til minningar um fæðingu ]esú Krists, er kom í heim- inn til þess að vera vinur, vegarljós og frelsari mann- anna. Frásagan um það er yndislegasta sagan í heimi, og þið kunnið hana og skiljið hana vel. En þá er ann- að, sem ekki er víst að þið skiljið eins vel. Hafið þið ekki oft heyrt talað um það, að Kristur sé ennþá að fæðast, og að Jesúbarnið komi ennþá til mannanna á hverri jólahátíð, engu síður en endur fyrir löngu í Betle- hem? Hafið þið nú veitt þessu eftirtekt og reynt að skilja það? Jesús Kristur er ímynd alls hins bezta og helgasta, er mennirnir þekkja. Hann var, svo að segja, sannleikurinn og kærleikurinn sjálfur. Þess vegna getum við sagt, þegar mennirnir forðast það vonda og ástunda það góða, að Kristur sé að fæðast í sálum þeirra. Því Kristur kærleikans fæðist og kemur til okkar, fyrr og nú, í hvert sinn, er vér hyllum hugsjón og von og trú. Um þetta er til fallegur sálmur, sem öll íslenzk börn munu fús til að læra og syngja: „Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt, og nálægð þína eg í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undrahljótt; í kotin jafnt og hallir fer þú inn. Þú kemur enn til þjáðra’ í heimi hér, með huggun kærleiks þíns og æðsta von. I gluggaleysið geisla inn þú ber, því guðdómsljóminn skín um mannsins son. Sem ljós og hlýja’ í hreysi dimmt og kalt, þitt himneskt orð burt máir skugga’ og synd. Þín heilög návist helgar mannlegt allt. — í hverju barni sé eg þína mynd". Þegar eg óska þér, kæri, litli lesari, gleðilegra jóla, þá hugsa eg einkum um það, að Jesúbarnið megi nú koma til þín, fæðast í hugskoti þínu og hjarta, svo að þú verðir glatt, gott og þakklátt barn, hugsir og talir satt og látir þér þykja vænt um mennina. Því að þeir eru allir bræður þínir, svo sannarlega sem Guð er faðir þinn og þeirra. Að endingu vil eg flytja lesendum Æskunnar innilega jólakveðju frá fjölda mörgum börnum, sem eru íslenzk og tala íslenzku, en eiga þó ekki heima á íslandi, held- ur alla leið fyrir vestan Atlantshaf. Á hverjum jólum syngja þau »Heims um bóU og »0, hve dýrðlegt er að sjá«, eða aðra jólasálma, alveg eins og þið. Sum þeirra hugsa oft til íslands og íslenzkra barna — líklega oftar en þið hugsið til þeirra. Guð gefi þeim og ykkur, í Jesú nafni, gleðileg jól!

x

Æskan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Æskan
https://timarit.is/publication/383

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.