Valsblaðið - 24.12.1960, Blaðsíða 13

Valsblaðið - 24.12.1960, Blaðsíða 13
VALSBLAÐIÐ 9 förunautur. Unni hún honum mjög og stóð við hlið hans í blíðu og stríðu og reyndist honum traustust og bezt þegar mest á reyndi. Árið 1957 varð hún bráðkvödd að heimili þeirra hjóna. Varð dauðsfall hinnar ungu, hug- ljúfu og elskulegu eiginkonu Ólafs honum vissulega þungt áfall og lítt bærilegt, en þá dáðist ég mest að hugarró og karlmennsku hans, svo vel bar hann sitt barr. Ungur að árum heillaðist Ólafur af knattspyrnuíþrótt- inni. Fylgdi bræðrum sínum fast eftir og hóf æfingar hjá Val. Mjög fljótlega var hann látinn keppa fyrir félagið og það samtímis í fleiri aldursflokkum. Þótti hann í bezta lagi liðgengur, hafði næmt auga fyrir uppbygg- ingu leiksins og var fylginn sér. Lék Ólafur með Val í yfir tuttugu ár og var einn af þeim kappliðsmönnum Vals, er fræði félagi sínu íslandsbikarinn í fyrsta sinn, ár- ið 1930 og sæmdarheitið Bezta knattspyrnufélag íslands. Ólafur tók þátt í fjölda ferðalaga með félagi sínu á þessum árum bæði innanlands og utan, m. a. var hann þátttakandi í fyrstu för íslenzkra knattspyrnumanna til meginlandsins, en sú ferð var farin af Val árið 1931. Þá var Ólafur fararstjóri í knattspyrnuferð Vals og Vík- ings til Þýzkalands árið 1939. Var Ólafur sérstaklega þægilegur ferðafélagi og vel til forystu fallinn. Ólafur vann sér fljótt traust og vináttu félaga sinna í Val. Var hann snemma kosinn í stjórn félagsins eða árið 1929 og sat í stjórninni til 1934, síðasta árið sem formaður. Hann var aftur kosinn formaður 1938 og end- urkosinn 1939. Þá átti hann sæti í stjórninni árið 1943. Ólafur átti sæti í Fulltrúaráði Vals frá stofnun þess 1945 til dánardags, þar af var hann formaður þess síðustu þrjú árin. Ólafur var fulltrúi Vals í K.R.R. í fjögur ár. Þar af tvö ár formaður þess. Fulltrúi Vals í Í.B.R. var hann um tíma og kosinn formaður bandalagsins árið 1947 og aftur árið 1948. Óhætt er að fullyrða að Ólafur lagði öðrum fremur grundvöllinn að veldi íþróttabandalags Reykjavíkur á formannsárum sínum. Á þeim árum var skrifstofa bandalagsins opnuð og framkvæmdarstjóri ráð- inn. Þá lagði hann mikla vinnu í að skipuleggja styrk- veitingar bæjarins til íþróttafélaganna og kom því m. a. til leiðar að allar styrkveitingar bæjarins færu fram gegnum Í.B.R. Ólafur var aðalhvatamaður þess, að Valsblaðið hóf göngu sína árið 1939 og varð ritstjóri þess í byrjun og oftast síðan. Sá hann fljótt að félagsblað gat haft ótrú- lega góð áhrif til hagsbóta fyrir félagið. Slík útgáfa er æði kostnaðarsöm og útheimtir mjög mikla vinnu, en með forystu Ólafs hefur þetta tekizt með afbrigðum vel. Þá hefur Ólafur setið í ýmsum nefndum fyrir félagið, sem óþarfi er hér upp að telja, nema Hlíðarendanefnd sem komið verður að síðar. Rækti hann störf sín öll af stakri samvizkusemi og al- úð og var sæti hans ávallt mjög vel skipað, enda var Ólafur sérstaklega hugkvæmur og útsjónarsamur og yfirvegaði hvern hlut af skarpri athyglisgáfu. Ólafur var aðalhvatamaður að kaupunum á Hlíðar- endaeigninni árið 1939. Stóð hann þar sem klettur úr hafinu gegn ýmsum, að öðru leyti mætum Valsmönnum, sem börðust með hnúum og hnefum gegn slíku flani og vitleysu. Urðu hörð átök um mál þetta, en sem betur fór sigraði bjartsýni og víðsýni Ólafs. Kaupin voru gerð og okkar kæra félag eignaðist varanlegan samastað fyr- ir væntanlega íþróttastarfsemi sína. Það ár sáu margir hylla undir glæstan íþróttasal, búningsherbergi, félags- heimili, grasvelli og malarvelli í framtíðinni, öðrum fannst þetta heimskulegir loftkastalar. í dag blasa þessir „loftkastalar“ við okkur sem blákaldar staðreyndir og við þökkum af heilum huga þann grundvöll, er Ólafur lagði að framtíð Vals með kaupunum á Hlíðarenda, þrátt fyrir snarpa andstöðu og í dag vildu allir „Lilju kveðið hafa“. í dag man enginn eftir þeirri baráttu, er stjórn Vals með Ólaf í formennsku, háði árið 1939 fyrir Hlíðar- endakaupunum. En Ólafur gerði meir, hann fylgdi þessu óskabarni Vals á veg, hann skóp því vaxtarskilyrði með velheppnuðu happdrætti um bifreið árið 1943, sem gaf þann hagnað, er dugði til byrjunar á þeim mannvirkj- um er á eigninni hafa risið síðan undir traustri stjórn nokkurra dugandi Valsmanna, þar á meðal Ólafs. Tel ég að afskipti Ólafs af Hlíðarenda Vals, einsömul skipi hon- um á bekk með mætustu sonum Vals allra tíma, og skrái nafn hans gullnu letri í sögu félagsins. Ólafur var sæmdur mörgum af æðstu viðurkenningar- merkjum íþróttahreyfingarinnar. Árið 1951 á 40 ára af- mæli Vals var hann sæmdur gullmerki Í.S.Í. Gullstjörnu Iþróttabandalags Reykjavíkur á 10 ára afmæli banda- lagsins árið 1954 og gullmerki K.R.R. hlaut Ólafur árið 1954 á 35 ára afmæli ráðsins. Allar voru viðurkenningar þessar verðskuldaðar í fyllsta máta. Ólafur tók virkan þátt í öllu starfi Vals, bæði sem leikmaður á velli og sem þátttakandi í félagsstarfinu sjálfu. Hann vissi manna bezt að störf íþróttafélags eru ekki öll unnin við æfingu og keppni, heldur engu síður eða jafnvel frekar á félagslegri uppbyggingu inn á við og út á við í nefndum og stjórn. Hann var um tugi ára hinn trausti leikmaður og vinsæli stjórnandi Vals. Hann var virðulegur fulltrúi Vals út á við um langan tíma, því skoðanir hans voru grundaðar af íhygli og góðri greind. Ólafur flanaði ekki í félagsmálum, en hugsaði ráð sitt vel og kynnti sér ítarlega alla málavexti áður en hann myndaði sér skoðun, á eftir þurfti enginn að ef- ast um að hann fylgdi fast og drengilega því sem hann taldi sannast og bezt. Mál sitt sótti hann og varði með festu en ró hverju sinni og lét ógjarnan undan síga. Ólafur var góður samherji og sanngjarn andstæðingur, eru það góðir eiginleikar hverjum þeim er að félags- málum standa. Ólafur verður öllum er hann þekktu minnisstæður. Hann var hvers manns hugljúfi fyrir prúða og fágaða framkomu, snyrtimenni mikið og háttvís. Minningin um góðan dreng mun seint gleymast. Sveinn Zoéga

x

Valsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Valsblaðið
https://timarit.is/publication/399

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.