Muninn

Árgangur

Muninn - 01.03.1950, Blaðsíða 6

Muninn - 01.03.1950, Blaðsíða 6
46 MUNINN Þessu tímabili lauk með tvöföldum ósigri höfðingja. Þeir sóru Hákoni land og eiða, og kirkjan festist í sessi, og varð voldugri og voldugri, breiddi náðarvængi sína yfir rústir hins forna þjóðveldis. Áhrif aldarháttar þessa tímabils á sögu þjóðarinnar verða aldrei rann- sökuð til hlítar, en þeirra mun gæta í sögu vorri, meðan við eigum nokkra sögu sem þjóð. Það verður aldrei afmáð, hvernig refhvörf Sturlungatímabilsins orka á gang þjóðmálanna. Við værum ekki eins og við erum, ef hér hefðu aldrei ríkt Hákon gamli eða Kristján tíundi. Og það er óvíst, að við værum nokkru fremri. Ef höfðingjavaldið íslenzka hefði engan hnekki beðið, myndi kirkjan aldrei hafa orðið jafnvoldug og hún varð. En kirkjan hrósaði sigri, og hún jók hlut sinn, er árin liðu, hún varð það vald, sem mest hamlaði gegn kon- ungdóminum. Formælendur leik- manna þoldu kirkjuna, meðan þeir höfðu sjálfir hag af henni, en þegar þeir rönkuðu við sér eftir Sturlunga- öldina, var það of seint. Vopnabrak Sturlungaaldarinnar hafði sungið veldi þeirra greftrunarsöng. Áhrifa aldarfars hvers tíma gætir, ef til viil, hvergi, svo sem í bókmenntum þeim, sem skapast við þau skilyrði, sem það býður hverju sinni. Höfundar bókmennta vorra frá þess- um tíma munu flestir vera ókunnir. En þeir, sem við þekkjum, eru jafn- framt þeir, sem dýpst spor mafka í forníslenzkri bókmenntasögu. Það eru þeir Ari fróði Þorgilsson, Sturla Þórð- arson og Snorri Sturluson. Þeir Ari og Sturla voru vísinda- menn. Það var Snorri líka, en hann var meira, hann var skáld, og ég hygg áhrif hans meiri á íslenzkar bókmennt- ir sem skálds en vísindamanns. Það má reyndar segja, að Ari sé ekki Sturlungaaldarrithöfundur, en vart verður svo getið íslenzkra bókmennta, að hans sé ekki minnzt. Einkenni Ara er glöggskyggni hans á aðalatriði, hann drepur á það helzta og merkasta í sögunni. Hann sýnir okkur jafnan aðalatriði, en það er fjarri honum að eltast við hvert smáat- vik, enda ógerlegt af þeirri vísinda- Iegu nákvæmni, sem einkennir hann. Það var gæfa íslenzkrar sagnaritun- ar, að Ari skyldi hefja merkið fyrstur með þessum orðum: „En hvatki es missagt es í fræðum þessum, þá es skylt at hafa þat heldr, es sannara reynisk." Þeir Ari og Sturla eru mjög ólíkir rithöfundar. Sturla skrifar af sömu vísindalegu nákvæmninni, en hann dregur fram í dagsljósið hvert smáatriði. Þó að þeir séu ólíkir, Ari og Sturla, svífur sami andinn yfir vötnunum, sannleiksástin og hin vísindalega leit. Sturla er jafnhispurslaus, hvort sem hann ræðir um níðingsverk frænda sinna eða annarra. Þrátt fyrir öll smáatriði minnir ís- lendingasaga hans engan veginn á sviplausan móann, öllu frekar á hafið, eilíf litbrigði og tign. Sá maður, er hiklaust má telja fremstan allra íslenzkra rithöfunda, er Snorri Sturluson. Hann fæddist 1178, menntun sína og þroska hlaut hann í Odda, hinu forna fræðasetri. Hann lifði mitt í eldi og ólgu Sturlungaaldarinnar, sjálfur tók hann þátt í mörgum deilumálum þeirra tíma og þekkti aðilja ágrein- ingsatriða, sem margir voru frændur hans og venzlamenn. Óefað hafa margar sömu hvatir búið í brjósti hans og hrundu frændum hans út í hringiðu deilnanna. Þess vegna gat hann flestum betur skilið anda þessa tímabils. Sjálfur var hann mikil- látur höfðingi, stórauðugur og ágjarn, og engan veginn laus við lesti þessa tímabils. Langstærsta rit hans er Heims- kringla, saga konungsættarinnar norsku aftan úr grárri forneskju. Þetta er rit vísindalegs eðlis, þar sem hann vill tengja saman sögur um hina fornu þjóðhöfðingja. Við hljótum að dást að skarpskyggni hans og vísindalegri starfsaðferð, sem hann lýsir í formála bókarinnar. Hann byggir mest á kvæðum samtíðarskálda söguhetjanna, en ekki á sögum. Ekkert sannar betur vísindalega viðleitni hans og sagnfræðilegan heið- arleika. Annað helzta rit hans er Edda, sem mér finnst gefa miklu gleggri mynd af vísindamanninum, skáldinu og mann- inum. Edda hefst á Gylfaginningu, goðafræði fornmanna. Snorri skrifar hana, til þess að við getum skilið þær kenningar, sem hann síðar í ritinu skrifar um. Hann skapar okkur glögga mynd af heiðinni trú, heimsmynd fornmanna, guðunum og lífi þeirra og hvötum, gleði og sorgum, kostum og göllum, tortímingu og dauða. Hver gat og skilið atburðarás hinna fornu goðsagna betur en skáldið og stílsnillingurinn, sem horfði á frændur sína og vini berast á banaspjót? Hlaut ekki maðurinn, sem þekkti vilja Hákonar gamla að vona með hin- um heiðnu trúmönnum, að jörðin rísi algræn úr sævi? Annar kafli bókarinnar eru Skáld- skaparmál, sem fjalla um hinar slungnu kenningar skáldamálsins, og síðast Háttatal, ort sem lofkvæði um Hákon konung og Skúla hertoga, en er merkilegast sem minnisvarði hins dróttkvæða kveðskapar og ort til dýrð- ar þeim skáldskap meira en höfðingj- unum. Tilgangur Snorra með bók þessari var að verja menningu þjóðarinnar gegn þeirri flóðöldu erlendra áhrifa, sem þá streyma inn í landið, og jarð- vegur skapast fyrir við hrunadans höfðingjanna í deilum aldarinnar. Snorri vildi spyrna við broddunum, hann var fastheldinn, hann var íhalds- maður í þess orðs beztu merkingu. Snorra tókst þetta. Honum tókst að vísu ekki að blása nýjum lífsanda í hinn dróttkvæða skáldskap, en öldum saman skipuðu kenningar æðsta sess í kveðskap þjóðarinnar. Það var fyrst, þegar rómantíska stefnan, með Jónas Hallgrímsson í fylkingarbrjósti, gerist ráðandi í bókmenntum þjóðarinnar, að kenningar í íslenzkri ljóðagerð gjalda verulegt afhroð. Og enn í dag yrkja menn í kenning- um, enn í dag er Mímisbrunnur Snorra-Eddu óausinn, enn sækja menn kenningar í fræði þau, sem Snorri lét setja á bækur til að firra skáldskap þjóðarinnar vágesti hinna erlendu áhrifa. Athugum nú heildarsvip þeirra bókmennta, sem fram koma á þessu tímabili. Á róstutímum eins og Sturlungaöld stendur manneðlið berskjaldaðra fyrir skarpskyggni rithöfundarins en í logn- værð og kyrrð. Frumhvatir mannsins

x

Muninn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.