Gripla - 01.01.1990, Page 50
46
GRIPLA
V, bls. 280, máldagi Ólafs Rögnvaldssonar 1461 eða síðar (frumrit á
skinni í AM 274, 4l°, nú í Þjóðskjalasafni), IX, bls. 323, Sigurðarreg-
istur 1525 (frumrit á skinni í Þjóðskjalasafni).
Hólmi þessi er ekki lengur eign Grenjaðarstaðarkirkju, en þó enn
vel kunnur. Séra Sigurður Guðmundsson vígslubiskup á Grenjaðar-
stað hefur tjáð höfundi þessarar ritgerðar, að hólminn heiti nú Ódeilu-
hólmi. Það fer ekki milli mála, að nafnið hefur haldist öldum saman
lítt breytt. Rithátturinn Ódæluhólmur getur hæglega verið afbökun,
þó að svo vilji til, að orðmyndin kemur fyrir í því skjalinu, sem elst er
að stofni, en varðveitt í ungum handritum.
Helst er hallast að því hér, að nöfnin á Ódeilu milli Flateyjardals og
Fnjóskadals og svo aftur á fjallinu við Náttfaravíkur séu bæði upp-
runaleg, þó að ekki finnist forn heimild nema fyrir öðru þeirra. Aldur
nafnsins Ódeiluhólmur er einnig ótvíræður. Merkilegt má það teljast,
að eftir rækilega leit í margs konar prentuðum heimildum, seðlasafni
Orðabókar Háskólans og eftirgrennslan í örnefnaskrám Örnefnastofn-
unar hefur fernt komið fram um notkun orðsins ódeila, bæði sem
samnafns og sérnafns: 1) ódeila, í merkingunni óskipt land, í skýrslu,
sem Jón Jakobsson sýslumaður sendi rentukammerinu 6. september
1779. Sennilegast er, að orðið sé þar haft eftir gömlum Fnjóskdælingi
þó að ekki sé hægt að fortaka, að orðið sé frá skrásetjanda runnið. Jón
Espólín notar sama orð í sama samhengi og hefur þá að dómi höf-
undar þessarar ritgerðar haft skýrsluna fyrir sér, líklega skrifaða og
e.t.v. einnig í kolli sínum. 2) sérnafn í Landnámu og hefur líklega ver-
ið skráð þar snemma á 12. öld. 3) nafn á fjalli við Náttfaravíkur. Nafn-
ið kann að vera fornt, þó að ekki sé unnt að segja neitt um aldur þess.
4) Ódeiluhólmur í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, öldum saman eign
Grenj aðarstaðarkirkj u.
Merkilegt er það, að öll þessi dæmi eru úr Suður-Þingeyjarsýslu, en
þess ber þó að gæta, að ókannaðar eru margvíslegar örnefnaskrár,
landamerkjabréf og ógrynni óprentaðra rita, þar sem staðfræðilegar
heimildir kunna að leynast. Þar eð þessari ritgerð var aldrei ætlað að
fjalla um staðfræði eða málfræði, hefur ekki verið lagt út í víðtæka
könnun í þessum efnum. Ritgerðin á að vera heimildarýni á mjög
þröngu og afmörkuðu sviði.