Vesturland

Árgangur

Vesturland - 24.12.1981, Blaðsíða 3

Vesturland - 24.12.1981, Blaðsíða 3
3 „Yður er í dag frelsari fæddur“ Lúkas 2.11 Stundum hef ég reynt að setja mig í spor hirðanna sem fengu fyrstir að heyra þessar fréttir. Út úr náttmyrkrinu barst þeim rödd engilsins og hún hlýtur að hafa lýst upp huga þeirra og hlýjað þeim um hjartarætur. Og svo glaðir urðu þeir að þeir skunduðu þegar til þess að sjá sjálfan frelsara heimsins. Hverju byggist ég við ef ég ætti í vændum að hitta hann? Kannski ætlaðist ég til að þar væri skartbúinn höfðingi umkringdur hirð sinni. Mikið yrði ég undrandi ef mín biði lítið barn, í gripahúsi. Skyldi hirðana ekki hafa furðað á því að frelsarinn þeirra var ekki annað en nýfætt barn? Þeir höfðu komið með eftirvæntingu í huga en var þetta þá allt og sumt? Þannig hefðum við ef til vill hugsað en það gerðu hirðarnir ekki. Þeir trúðu því að þetta væri í raun og veru frelsarinn. Lítið barn getur haft stórkostleg áhrif á fólk. Mér er það minnisstætt að ég sat eitt sinn við hliðina á afar lífsþreyttum og döprum manni, sem virtist enga gleði hafa af tónleikunum sem við hlýddum á. Á bekknum fyrir framan okkur sátu foreldrar með lítið barn sitt. Þegar líða tók á, stóð barnið upp, lagði höfuðið á öxl móður sinni og starði á okkur stórum augum. Og mikið varð ég hissa þegar sessunautur minn hállaði sér að barninu og bros hafði breiðst yfir andlitið, en þreytusvipurinn orðið að víkja. Svo miklu getur barn komið til leiðar. Það er einmitt svona sem Guð vinnur, oft á tíðum. Það sem okkur virðist smátt og veikburða, hefur í sér fólginn styrk. Litla barnið sem átti ekki rúm í mannabústöðum varð frelsari okkar allra. Hvað þýðir það annars? Við erum sí og æ að ræða um frelsara. En hvernig skiljum við það? Þurfum við yfirleitt nokkurn frelsara? Ef til vill þykir okkur boðskapur jólanna ekki höfða til okkar og við getum ekki tekið fagnaðarsöng englanna af hjarta. Ef svo er, sem ég hygg að geti verið skulum við minnast þess að við eigum að biðja Guð um hjálp svo við skiljum hvað það er að eiga frelsara. Hann getur byrjað smátt, en síðan eykst okkur skilningur og gleði. Ég held að við þurfum á frelsara að halda. Við þurfum að eiga hann að á hverjum degi. Sennilega finnum við mest til þess í sorg og erfiðleikum. Oft sjáum við alls ekki fram úr verkefnum, eða sorgin ætlar að yfirbuga okkur svo að lífið er einskis virði, eða þá að okkur skortir takmark. Þá, þegar fokið virðist í flest skjól, er Jesús frelsarinn. Allt þetta skilur hann;- hann sem fólk hæddist að þegar hann hélt á krossinum einn og yfirgefinn. Eftir allt það sem hann hafði gert, var honum launað með svikum og vanþakklæti. En síðan vann hann sigur á þessari illsku, þegar Guð lífgaði hann. Hann frelsar okkur og bjargar úr vonleysinu og sýnir okkur að lífið á sér tilgang. Þótt allt ætli að bregðast er hann viðlátinn, reiðubúinn að hlusta á okkur og hugga okkur. Jesús kunni einnig að gleðjast og á bestu stundum okkar er hann hjá okkur. Jólin eru gleðihátíð. Við fögnum því að guð gaf okkur þetta litla barn, sem óx og styrktist og sýndi að lífið hefur dauðann, sorgina og illskuna að engu. Hjá okkur eiga orð spámannanna svo vel við: „Sú þjóð sem að í myrkri gengur, sér mikið ljós“. Senn förum við að líta bjartari daga, sólargangur lengist og við sjáum náttúruna endurlífgast. Um leið hressumst við sjálf á sál og líkama. Við göngum út úr myrkrinu, og tökum til hendi, uppörvuð af ljósinu á nýbyrjuðu ári. Aðventan er upphaf kirkjuársins. Alla sunnudaga hennar, já, hvern dag hennar, fáum við að hlakka til jólanna og búa okkur undir gleðitíðindi: Okkur, þér og mér, er frelsari fæddur. Hann gengur með okkur inn til nýs ás. Ef til vill erum við veikburða og hrædd, en hann styrkir okkur. Gleðileg jól Dalla Þórðardóttir: Yður er ídag frelsari fæddur

x

Vesturland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturland
https://timarit.is/publication/633

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.