Heilbrigðismál - 01.12.1984, Blaðsíða 17

Heilbrigðismál - 01.12.1984, Blaðsíða 17
Rakagjafar geta valdiö sjúkdómum Grein eftir Davíð Gíslason Með tæknibyltingu tuttugustu aldarinnar komu ýmis tæki og útbún- aður til að auka vellíðan og heil- brigði manna. Meðal slíkra tækja eru rakatækin og sjálfvirkur búnað- ur fyrir raka- og hitastillingu í hús- um. Rakatækin eru vinsæl í heima- húsum og á minni skrifstofum, en í stærri byggingum verður æ algeng- ara að nota sjálfvirk loftræstikerfi nteð raka- og hitastillingu. Með þessu er tryggt hæfilegt hitastig, rakastig og nauðsynleg endurnýjun á fersku lofti með lægri hitunarkostn- aði en ef loftræstingin fer öll fram gegnum opna glugga. En rakatækj- unum og rakagjöfunum í sjálfvirku loftræstikerfunum fylgir hætta á sjúkdómi, sem kallaður er raka- gjafasótt (humidifier fever). Þessum sjúkdómi var fyrst lýst í Englandi árið 1969 hjá prenturum, sem önduðu að sér eimi frá raka- tækjum menguðum af þörungum og sýklum. Rakagjafasóttin getur átt upptök sín í stórum og smáum raka- gjöfum og jafnvel geta hliðstæð ein- kenni komið fram vegna lífrænnar mengunar í vatnsbólum. Fyrsta tilfellið af rakagjafasótt, sem vitað er um hér á landi, fannst árið 1980. Um var að ræða prentara, sem vann við prentvél sem prentar litmyndir. Við prentunina er nauð- synlegt að hafa stöðugt rakastig, og rakatæki var fest á vegg prentsalar- ins um þrjá til fjóra metra frá prent- vélinni. Tækið var hreinsað á tveggja mánaða fresti og hafði þá myndast grænt slím í vatninu. Nokk- ur tilfelli af rakagjafasótt hafa síðan verið greind hér á landi, og hafa þau öll verið rakin til lítilla rakatækja á vinnustöðum sjúklinganna. Einkenni rakagjafasóttar geta ver- ið á mjög mismunandi háu stigi. Svæsin einkenni lýsa sér með háum hita, hrolli, þyngslum fyrir brjósti og mæði. Við vægari einkenni er kvart- að um hitavellu, hroll, beinverki, þreytu, höfuðverk og mæði. Ein- kennin koma nokkrum klukkutím- um eftir að dvalið er í návist raka- gjafans. Þegar rakagjafinn er á vinnustað koma einkennin vanalega á kvöldin eða nóttunni. Einkennin geta verið mest áberandi á mánu- dagskvöldum og farið síðan minnk- andi eftir því sem líður á vikuna. Ef sjúklingurinn hefur verið fjarvistum frá rakagjafanum í tvær til þrjár vik- ur má búast við miklum einkennum fyrsta kvöldið eftir að hann kemur í návist við rakagjafann aftur. Rakagjafasóttin er sett í samband við örverur í vatni rakagjafans. Við rannsóknir hafa fundist ýmsar teg- undir sýkla, sveppa og þörunga, sem líklegt er að valdi sjúkdómnum. Má þar nefna hitaelska geislasýkla, af svipaðri gerð og valda heysótt hjá bændum, „pullularia" myglu, sem veldur bráðaofnæmi og sýkil að nafni „bacillus subtilis", sem um skeið var notaður í þvottaefni og olli þá oft bráðaofnæmi. Sjúkdóms- myndin líkist þó að mörgu leyti lungnasótt, sem telst til þriðja flokks ofnæmisviðbragða eins og heysóttin, sem algeng er hér á landi. Rann- sóknir á mótefnamyndun sjúkling- anna sýna að þeir mynda mótefni gegn þeim örverum sem finnast í rakatækjunum. Hins vegar hefur komið í ljós að miklu fleiri mynda mótefni gegn þessum mótefnavök- um en veikjast af þeim. Orsakir rakagjafasóttarinnar virðast því margbrotnari en svo að hægt sé að útskýra sjúkdóminn eingöngu út frá ofnæmi. Hafa þarf rakagjafasótt í huga hjá þeim sem eru að fá endurtekin hita- köst á kvöldin og nóttunni, ef þeir vinna þar sem rakatæki eru eða sjálf- virk rakastilling á loftræstikerfi. Ef einkenni eru á háu stigi er auðvelt að láta sér detta sjúkdóminn í hug. Greining hans er að sálfsögðu miklu erfiðari þegar einkennin eru væg. Má gera ráð fyrir því að miklu fleiri hafi fengið þennan sjúkdóm heldur en hingað til hafa verið greindir með hann. Sjúkdómurinn er alltaf tengdur örverugróðri í rakatækjunum og því er mjög mikilvægt, að rakatækin séu hreinsuð reglulega og skipt um vatn í þeim. A santa hátt þarf að fylgjast náið með rakagjöfum þegar um sjálfvirka hita- og rakastillingu er að ræða. Sumir innflytjendur ráðleggja fólki að hreinsa tæki sín vikulega og aðrir á tveggja til fjögurra vikna fresti. Mest hætta er á örverugróðri í tækjum þegar þau eru látin standa ónotuð með vatni langtímum saman en síðan sett í gang aftur án þess að skipt sé um vatn eða þau hreinsuð. Slíkt ætti ekki að koma fyrir. í stærri byggingum þurfa eigendur þeirra eða húsverðir að vita um hættuna á rakagjafasótt og fylgjast með því að viðhald og endurnýjun á rakagjöfum sé í lagi. Heimildir: Davíð Gíslason og Vilhjálmur Rafnsson: Rakatækjasótt á íslenskum vinnustað. Læknablaðið, 1984, 70, 76-78. Davíð Gíslason: Atvinnusjúkdómar vcgna ofnæmis og ertings í öndunarfærum. Læknablaðið, 1981, 67, 77-89. C. A. C. Pickcring: Humidifier fcvcr. Eur. J. Rcspir. Dis., suppl. 123, 1982, 63, 104-7. Davíð Gíslason læknir er sérfræð- ingur í lyflækningum og ofnæmis- lækningum og starfar á Vífilsstaða- spítala. HEILBRIGÐISMÁL 4/1984 17

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.