Heilbrigðismál - 01.12.1998, Blaðsíða 11

Heilbrigðismál - 01.12.1998, Blaðsíða 11
„Heilnæmt loft og hreinir lækir// Gætum við nógu vel að lífsskilyrðimum? „Þar eru sumur sótlaus, hrein og tær," segir Hailberg Hallmundsson skáld um Reykjavík í ljóði þar sem hann ber borgina við Sundin saman við New York. Við höfum verið stolt af óspilltri náttúru íslands og ómeng- uðu andrúmslofti, samanborið við það sem þekkist í öðrum löndum. Mannkyninu hefur iegið svo mikið á að nýta sér gæði heimsins að gleymst hefur að horfa á afleiðingarnar. Gengið hefur verið á auðlindir sem end- urnýjast ekki og sóuninni hefur fylgt mengun lofts, láðs og lagar. „Ég skipti mér ekki af því sem gerist í útlöndum," sagði Þórður gamli halti í sögu Nóbelsskáldsins. Þann- ig höfum við löngum hugsað, verið stolt af hreinleik- anum heimafyrir og ekki litið á það sem hlutverk okk- ar að leggja neitt á okkur til að bæta ástandið á heims- vísu, nema það henti okkur. A alþjóðlegum umhverfis- ráðstefnum höfum við barist fyrir því að fá að auka mengunina meira en aðrar þjóðir, á sama tíma og við reynum að laða til okkar erlenda ferðamenn sem boðið er að anda að sér hreinasta lofti í heimi og bergja ómælt af hreinustu vatnslindum veraldar. Slíkur tví- skinnungur hlýtur að koma okkur í koll, fyrr eða síðar. Stefna stjórnvalda hefur verið að bjóða útlendingum aðstöðu fyrir orkufrekan iðnað, virkja það sem til þarf, jafnvel á kostnað náttúrunnar ef á annað verður ekki kosið, allt í nafni atvinnusköpunar. „Það er til lítils að bæta lífskjörin ef ekki verður líft í landinu," sagði bóndi í Kjós í umræðum um álver á Grundartanga. Þetta er mergur málsins. Hreint loft og hreint vatn geta verið meira virði fyrir heilsu og líðan heldur en aukinn hagvöxtur. Við hljótum að þurfa að leita leiða til að laga lífshætti og atvinnuhætti að kröfum um um- hverfisvernd, draga úr mengun og endurnýta það sem hægt er. Öll mannvirkjagerð, hvort sem er í þéttbýli eða dreif- býli, veldur breytingum á umhverfinu. Oft verður að fórna minni hagsmunum fyrir meiri en sú kynslóð sem nú byggir landið hefur ekki leyfi til að fórna ómetan- legum náttúruverðmætum í þágu stundargróða. Sig- urður Þórarinsson jarðfræðingur orðaði þetta þannig í erindi fyrir nær hálfri öld: „Til eru þau verðmæti sem ekki verða metin til fjár og eru það þó þau sem gefa mannlegu lífi innihald og meiningu. Fordjarfanir á náttúrumenjum eru í flokki þeirra afglapa sem ekki verða bætt. Allt gull veraldar getur ekki gefið okkur aftur einn einasta geirfugl og engin nýsköpunartækni getur byggt Rauðhólana upp að nýju." Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og skilningur á náttúru- vernd aukist. Fyrir rúmum áratug náðist alþjóðlegt samkomulag um að stöðva notkun ósoneyðandi efna og fer árangur þess væntanlega að koma í ljós. Á alþjóðaráðstefnum í Rio de Janero, Kyoto og Buenos Aires hefur verið reynt að stemma stigu við loftmengun. Okkur finnast kröf- urnar ósanngjarnar vegna þess að við notum svo mikið af vistvænni orku til húshitunar. En við getum ekki skorast undan sameiginlegri ábyrgð á lífsskilyrðum jarðarbúa í nútíð og framtíð. Stjórnvöld sem átta sig ekki á því skynja ekki sinn vitjunartíma. Á það var bent í lok átjándu aldar að veðurfarið og hið tæra loft ættu mikinn þátt í að gera Islendinga hrausta. Guðmundur Friðjónsson skáld og bóndi á Sandi í Aðaldal komst að svipaðri niðurstöðu í byrjun þessarar aldar: „Heilnæmt loft og hreinir lækir / heilsu þinni munu gagna." Varla er hægt að orða gildi um- hverfisverndar betur. Jónas Ragnarsson ritstjóri. „Til eru þau verðmæti sem ekki verða metin til fjár og eru það þó þau sem gefa mannlegu lífi innihald og meiningu," sagði Sigurður Þórarinsson. Við hljótum að þurfa að leita leiða til að laga lífshætti og atvinnuhætti að kröfum um umhverfisvernd, draga úr mengun, og endurnýta það sem hægt er. HEILBRIGÐISMÁL 4/1998 11

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.