Alþýðumaðurinn


Alþýðumaðurinn - 02.04.1987, Blaðsíða 2

Alþýðumaðurinn - 02.04.1987, Blaðsíða 2
2 - ALÞÝÐUMAÐURINN Osammála þessari teg- und „jafnaðarmennsku“ Jón Haukur Brynjólfsson: Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni að kosningar eru í nánd. Þeim fylgir að sjálfsögðu kosningabarátta og er hún yfir- leitt á einn veg, þ.e. hinir ýmsu flokkar reyna að ná til kjósenda með boðskap sinn og reyna þá auðvitað að gera hann sem áheyrilegastan. Almenningur getur vart þverfótað fyrir alls kyns slagorðum og loforðum, all- ir eru óskaplega bjartsýnir og fara síður en svo í grafgötur með það. Að sama skapi forðast flokkarnir yfirleitt eins og heitan eldinn að fjalla um viðkvæm og umdeild vandamál og virðist manni stundum sem þegjandi samkomulag sé um að „salta“ mál af því tagi þar til kosningar eru afstaðnar og lífið fer aftur að ganga sinn vanagang. I stuttu máli: Stjórnmálamenn reyna yfir- leitt að forðast erfið mál til að styggja ekki kjósendur á þessum viðkvæma tíma. Þetta kannast allir við og eru orðnir því vanir. Skringileg byrj- un á kosningabaráttu Alþýðu- flokksins kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti. Jón Sigurðs- son, efsti maður á lista flokksins í Reykjavík, sté í pontu á fundi með námsmönnum í Háskólabíói og lýsti því yfir að það væri stefna sín og Alþýðuflokksins að setja vexti á námslán. Námsmenn voru nú ekki alveg vissir um hvernig þeir ættu að taka þessu en þegar Jón fór að reyta af sér fleiri „brandara" sáu þeir að maðurinn hlyti að vera að grínast enda fór svo að Jóni tókst oftar en einu sinni að vekja upp almennan hlátur í salnum. Síðar, sama kvöld, sá svo formaður Stúdenta- ráðs ástæðu til að taka það fram í sjónvarpi að hann væri ekki viss hvort manninum hefði verið al- vara. Jón tók hins vegar af öll tvímæli um það skömmu seinna þegar heilsíðugrein eftir hann birtist í Morgunblaðinu þar sem hann ítrekaði þessa skoðun sína, skoðun sem nú hefur verið kynnt almenningi sem stefna Alþýðu- flokksins í lánamálum. Áður en lengra er haldið er rétt að stikla örlítið á þessum hugmyndum. Jón byrjar á að upplýsa að lögin um LÍN hafi þrjú meginmarkmið sem nokkuð almenn samstaða virðist vera um: 1. Að tryggja jafnrétti til náms án tillits til efnahags eða félagslegra aðstæðna. 2. Að hvetja fólk til að leita sér menntunar. 3. Að tryggja fjárhag lánasjóðs- ins til lengri tíma litið. Og gamli hagfræðingurinn finn- ur út að núgildandi lána- og endurgreiðslukerfi uppfylli fyrstu tvö skilyrðin allvel og í því kerfi felist umtalsverð hvatning til náms. Þriðja markiðið sé hins vegar ekki uppfyllt. Næst talar hann því um endurgreiðsluhlut- fallið, sem mun vera 80-90%, en bendir á að af almannafé renni mun meira til sjóðsins en í fyrstu virðist sökum þess að ekki sé tek- ið tillit til skatta. Og eftir að hafa sýnt fram á hvernig þjóðin myndi tapa á námslánum sem alfarið væru fjármögnuð með lánsfé (?) kemur þessi makalausa buna: „Svipaða sögu er að segja væru námslánin algerlega fjármögnuð af skattfé. Væri það fé ekki notað í vaxtalaus námslán hefði mátt setja það í fyrirtæki, sem skilaði arði, lána það með vöxtum, t.d. í gegnum húsnæðiskerfið eða, sem ef til vill er nærtækast, draga úr lántökum ríkisins. Þannig kosta námslánin þjóðfélagið meira fé en beinlínis er lagt út til þeirra, hvað sem líður fjármögnunar- leiðinni og 100% endurgreiðslu- hlutfall hrekkur ekki til að greiða allan þann kostnað." Þetta finnst Jóni Sigurðssyni auðvitað alveg agalegt og telur að svo sé einnig um félaga hans í Alþýðuflokknum. Eða sjá menn ekki að það er miklu skynsam- legra að leggja almannafé í fyrir- tæki sem myndu ávaxta það held- ur en að vera að sóa því í þágu einhverra bókaorma sem þjóð- félagið stórtapar á? En við íslendingar erum heppnir að eiga góða að. Jón Sig- urðsson hefur auðvitað fundið lausnina á þessu vandamáli og hún felst í að setja vexti á náms- lánin þannig að þjóðfélagið hætti að tapa svona mikið á þessum sérvitringum. Síðan fær hann lán- aða hugmyndina um „þakið“ en snýr henni við þannig að nú eiga vextir að vera á öllum námslán- um upp að ákveðnu marki en þegar menn hafa farið yfir það þá skulu lánin verða vaxtalaus, ja gott ef þau verða ekki hreinir styrkir. Jón skreytir síðan þessa dæmafáu ritgerð sína með alls kyns slagorðum um að ekki megi leggja stein í götu námsmanna, miða ætti að sem mestu valfrelsi til náms og sem mestrar fjöl- breytni í menntun þjóðarinnar, góð menntun sé sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar o.s.frv. Eins og lesendur þessarar greinar hefur e.t.v. grunað er ég algerlega ósammála þessari teg- und „jafnaðarmennsku" og ég fullyrði að svo er einnig með þorra annarra íslenskra náms- manna, en þeir eru jú nokkrir. Einhverjir hefðu kannski haldið að tillöguflutningi um LÍN yrði hagað í einhverju samræmi við óskir námsmanna en því er greinilega ekki til að dreifa á þessum bænum. an ágreining á ýmsum sviðum hefur jafnan verið nokkur sam- staða um það meðal íslendinga að láta ekki markaðslögmálin ná yfir viss svið opinberrar þjón- ustu. Má þar nefna löggæslu, heilsugæslu og menntun. Menn hafa fram til þessa verið sammála um að góð menntun væri það dýrmætasta sem þjóðin gæti eign- ast og íslendingar hafa gjarnan sagt frá því með nokkru stolti að menntun hér sé bæði meiri og al- mennari en víða annars staðar gerist. Menntun er ekki unnt að meta til fjár en ef það væri hægt þá er ég hræddur um að „tapið“ sem þjóðfélagið verður fyrir vegna námslánanna yrði bætt og gott betur. Allir hljóta að sjá að menntun er veigamikill þáttur í öllum framförum, öllum tækni- nýjungum og allri velmegun. Til að sýna fram á gildi hennar má m.a. benda á að sérfræðingar eru almennt sammála um að megin- vandi vanþróaðra ríkja felist í vankunnáttu og menntunar- skorti. Þetta vita menn og um þetta hefur aldrei verið deilt. Af þessum sökum er nauðsyn- legt að leggjast gegn hugmyndum Jóns Sigurðssonar. Nái þær fram að ganga sér fjöldi námsmanna sæng sína útbreidda. Námsmenn hafa þurft að þola óréttláta skerðingu námslána þannig að í dag vantar milli 5000 og 6000 kr. á mánuði upp á að námslánin nái lágmarkslaunum (sem flestir eru þó sammála um að ekki sé unnt að lifa af), þökk sé Sverri Her- mannssyni. Og nú hafa náms- menn eignast annan óvin. Menn geta ímyndað sér aðstæður manns sem hefur lokið 5-6 ára háskólanámi, ef ekki meira, og stendur uppi með byrði verð- tryggðra námslána með vöxtum og lætur sig jafnframt dreyma um að kaupa sér íbúð. Menn geta líka reynt að sjá það fyrir sér hvernig slíkt kerfi myndi ýta und- ir jafnrétti til náms, hvað þá fjöl- breytni í menntun. Þeir efna- minni hefðu litla möguleika til framhaldsmenntunar og hætt er við að námsmenn myndu þá ein- blína á „peningafögin“ svoköll- uðu þar sem framtíðin yrði held- ur dökkleit í öðrum fögum. Ég efast ekki um að Jón Sig- urðsson sé betur að sér í hagfræði en margur maðurinn. En það er einfaldlega ekki mergurinn málsins. Aðalatriðið er að lána- mál og menntun má alls ekki meta út frá svona hugmynda- fræði. Kostnaður þjóðfélagsins vegna námslána er hlægilegur miðað við ágóðann sem af þeim hlýst. Og sá ágóði kemur til með að minnka til muna ef hugmyndir af þessu taginu ráða ferðinni. Það skýtur skökku við að slík- ar tillögur skuli koma frá flokki sem kennir sig við jöfnuð. Reyndar hef ég rökstuddan grun um að Jón Sigurðsson hafi alls ekki talað fyrir munn félaga sinna í Alþýðuflokknum á fundinum með námsmönnum. Ég trúi því heldur ekki fyrr en ég tek á því að það sé stefna Alþýðuflokksins að skerða á þennan hátt jafnrétti til náms. Og ég trúi því heldur ekki að Alþýðuflokkurinn ætli á þennan hátt að hunsa álit þús- unda íslenskra námsmanna. Ef svo reynist hins vegar vera þá verður Alþýðuflokkurinn ekki raunverulegur valkostur fyrir íslenska námsmenn í kosningun- um 25. apríl nk. Jón Haukur Brynjólfsson. Nokkur viðbót við grein Jóns Hauks Brynjólfssonar um námslánin frá Árna Gunnars- syni: Alþýðuflokkurinn hefur ávallt litið á það, sem eitt af grundvall- aratriðum íslenskrar mennta- stefnu, að allir eigi jafnan rétt til náms, án tillits til fjárhags eða búsetu. Þetta hefur verið stefna Alþýðuflokksins í marga áratugi, enda menntun ein arðbærasta fjárfesting hvers samfélags. Það er ljóst, að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur átt við verulega fjárhagsörðugleika að stríða, og á þessari stundu verður ekki séð hvernig fjárþörf hans verður mætt í náinni framtíð. Falleg orð í kosninga- baráttu leysa ekki vandann. Ég lít svo á, að stefna Alþýðu- flokksins í lánasjóðsmálinu sé þessi: 1. Fylgt verði þeirri grundvallar- stefnu, að allir eigi jafnan rétt til náms í raun. 2. Tekið verði tillit til fjölskyldu- stærðar, og að námslán verði framfærslulán. Þau tryggi, að námsmenn þurfi ekki að taka dýr bankalán til að ná endum saman. 3. Nú er endurgreiðsluhlutfall lána 3,75% af útsvarsstofni, sem jafngildir því, að námsmenn, sem ekki lenda í hátekjuhópum að námi loknu, endurgreiða á endurgreiðslu- tíma um það bil 40% af heild- arláni. í þessum tilvikum má því segja, að lánin séu ekki „verðtryggð“. 4. Alþýðuflokkurinn vill kanna þann möguleika, að lækka endurgreiðsluhlutfallið í 3% af útsvarsstofni, sem léttir greiðslur verulega hjá náms- mönnum, sem fara út á almennan launamarkað að námi loknu. 5. Alþýðuflokksmenn hafa rætt um það, að námslán skuli bera lægstu vexti, eða 1%, sem eru almennir vextir á félagslega sviðinu. Þessi tillaga er borin fram til að reyna að tryggja það, að Lánasjóðurinn rýrni ekki svo, að hann verði gjald- þrota og engum til gagns í nánustu framtíð. - Ef aðrar tillögur Alþýðuflokksins í lánasjóðsmálum næðu fram að ganga, myndu þessir vextir ekki þyngja greiðslubyrði námsmanna. 6. Alþýðuflokkurinn hefur lagt til, að námsmenn fái tvöfaldan persónuafslátt á fyrsta ári að námi loknu, svo staðgreið- slukerfi skatta lendi ekki á þeim af fullum þunga þegar á fyrstu mánuðum í starfi að námi loknu. Við Jón Hauk og aðra náms- menn vil ég segja þetta: Alþýð- uflokkurinn mun aldrei eiga aðild að því að íþyngja námsmönnum með breytingum á lánareglum Lánasjóðs. Slíkt brýtur í bága við grundvallarhugsjónir jafnaðar- stefnunnar og þá meginstefnu í lánamálum, sem flokkurinn hef- ur fylgt á undanförnum árum. Árni Gunnarsson. „Stjórnmálamenn reyna yfirleitt að forðast erfið mál til að styggja ekki kjósendur á þessum viðkvæma tíma“ Þrátt fyrir hugmyndafræðileg- ,Kostnaður þjóðfélagsins vegna námslána er hlægilegur miðað við ágóðann sem af þeim hlýst“ Jafn réttur til náms í RAUN!

x

Alþýðumaðurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðumaðurinn
https://timarit.is/publication/597

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.