Fréttablaðið - 09.06.2010, Blaðsíða 15

Fréttablaðið - 09.06.2010, Blaðsíða 15
MIÐVIKUDAGUR 9. júní 2010 Frumvarp um ein hjúskaparlög liggur fyrir Alþingi og hafa þing- inu borist ýmsar umsagnir sem lesa má á vef þingsins. Í umsögn sinni fyrir hönd þjóðkirkjunnar telur biskup Íslands frumvarpið ganga gegn ríkjandi hjúskaparskilningi. Þar segir: „Ríki og trúfélögin hafa álitið hjónabandið heilagt og ríki jafnt sem kirkja verið skuldbundin að virða það“ (bls. 2). Biskup heldur áfram: „Nú gengur ríkið fram með nýja skilgreiningu á hjúskapnum, sem byggir á hugmyndafræði sem runnin er af öðrum rótum en þeim sem trúarbrögð og siðmenning og flest ríki heims hafa hingað til við- urkennt sem viðmið“ (bls.3). Ályktanir biskups um altæk við- mið hjónabandsins kalla á ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi virðist gengið út frá því að hjónaband- ið á öllum tímum sé eitt og sama fyrirbrigðið. Athyglisvert er að heyra lútherskan biskup ræða um heilagleika hjónabandsins og sam- hengi í sögu og samtíð í ljósi þess að lútherska siðbótin hafnaði hinum rómversk-kaþólska sakramentis- skilningi á 16. öld og bylti þannig viðhorfum til hjónabandsins. Íslensk hjúskaparlöggjöf er ekki ein og óbreytanleg heldur í örri þróun. Þegar ég vígðist til prests árið 1990 stóð enn í hjúskaparlög- um að eigi mætti vígja „geðveikan mann eða hálfvita“ í hjónaband, sem lýsir allvel fordómum samfélagsins gagnvart þeim sem áttu við geðræn vandamál eða greindarskerðingu að etja. Fátækralöggjöf 19. aldar varn- aði fátæku fólki og jarðnæðislausu aðgang að hjónabandinu. Hjóna- bandslöggjöf á Íslandi í upphafi 21. aldar er ekki sama samfélagsstofn- un og sú sem var við lýði í Róma- veldi fornkirkjunnar eða íslenskri sveit á 19. öld. Hún stendur vörð um kærleikssamband og jafnræði tveggja manneskja sem bindast hvor annarri nánum kærleiks- og kynlífsböndum og ætti engu að gilda hvort hjónaefnin eru fátæk, fráskilin, með geðraskanir, af sama eða gagnstæðu kyni. Í öðru lagi fullyrðir biskup að frumvarpið gangi gegn sameigin- legri siðmenningu og trúarbrögð- um þjóða heims og sé runnin undan rótum annarlegrar hugmyndafræði. Skv. 1. Mósebók eru allar mannver- ur skapaðar í Guðs mynd og slík við- mið mynda ýmsa hornsteina mann- réttindahugsjóna Vesturlanda um frelsi, jafnrétti og samstöðu jarðar- barna. Ég tel ein hjúskaparlög vera í rökréttu samræmi við sköpunar- skilning sem gengur út frá jafnræði allra sem mannvera og kynvera. Ef hugmyndafræði einna hjúskapar- laga gengi þvert gegn viðmiðum trúarbragða og siðmenningar, eins og biskup vill vera láta, hvað segði það þá um viðmiðin? Ég er ein 90 presta og guðfræð- inga sem lögðu fram stuðningstil- lögu við frumvarpið á Prestastefnu. Dagskrártillaga studd af öllum þremur biskupunum um að vísa málinu til biskups var lögð fram og naumlega samþykkt. Ekki var tekin afstaða til stuðningstillögunnar, en flutningsmenn drógu hana heldur ekki til baka og er hugur fjölmargra presta og guðfræðinga til frum- varpsins því skýr. Biskup Íslands víkur lauslega að tillögu hinna níu- tíu í umsögn sinni, þar sem rætt er um „hóp presta og guðfræðinga.“ Fátt minnir á vilja þessa „hóps“ í umsögn biskups fyrir hönd þjóð- kirkjunnar. Umsögn biskups veldur mér vonbrigðum og hann talar þar ekki í mínu nafni. Ég þakka dóms- málaráðherra fyrir vandað frum- varp og vonast til að það verði að lögum 27. júní næstkomandi. Ekki í mínu nafni Hjúskaparlög Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Grafarholtsprestakalli og doktor í kristinni trúfræði Þegar ég vígðist til prests árið 1990 stóð enn í hjúskaparlögum að eigi mætti vígja „geðveikan mann eða hálfvita“ í hjónaband, sem lýsir all- vel fordómum samfélagsins gagnvart þeim sem áttu við geðræn vandamál eða greindarskerðingu að etja. Á dögunum voru samþykktar nýjar úthlutunarreglur LÍN, Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Breytingarnar miðuðu að því að ná fram sparnaði sem krafist var af menntamálaráðuneytinu. Lán til barnafólks voru skert þannig að upphæð með hverju barni lækk- ar eftir sem börnin verða fleiri á framfæri námsmanns. Þessi leið var valin m.a. með tilliti til þess að framfærsla Lánasjóðsins til barnafólks var ekki jafn slæm og til barnlausra. Er því niðurstað- an að allir námsmenn fá námslán sem ekki geta framfleytt þeim, líka barnafólk. Hin sparnaðarleiðin var að herða á námsframvindukröfum svo náms- maður eigi rétt á láni úr sjóðnum. Samkvæmt eldri reglum þurfti námsmaður að ná 20 einingum á ári til að eiga rétt til láns úr sjóðnum en heilt skólaár eru 60 einingar. Voru kröfurnar hertar með þeim hætti að nú verður krafist 18 eininga á önn og tilfærslur milli anna verða ekki mögulegar. Nái námsmaður ekki þessum 18 einingum fær hann ekki krónu til framfærslu á þeirri skólaönn. Sjónarmið meirihluta stjórnar LÍN eru á þá leið að ljúki námsmaður ekki að lágmarki 18 einingum á önn sé hann ekki reglu- legur námsmaður, líklega að vinna með skóla og þurfi því ekki á fram- færslu sjóðsins að halda. Þessi rök eru alger markleysa enda er tekju- skerðing námslána svo há að náms- maður í 50% starfi á lágmarkslaun- um með skóla fær vart greidd lán. Námsmannahreyfingarnar sem sæti eiga í stjórn LÍN hafa bent á að þetta snúist um námsmenn sem eru í fullu námi en af einhverj- um ástæðum náðu ekki tilsettum árangri eina önn. Allir geta fallið á prófi. Í sumum háskóladeildum eru námskeið allt að 15 einingar og falli námsmaður í slíku námskeiði eru framfærslumöguleikar hans hrund- ir. Á þetta sérstaklega við í Háskóla Íslands þar sem með nýjum reglum eru upptökupróf ekki haldin nema í undantekningartilfellum. Þá verð- ur að benda á að fall er ekki áfell- isdómur um leti, í mörgum nám- skeiðum er fall vel yfir 50% og því meirihlutinn sem nær ekki í fyrstu tilraun. Lánasjóður íslenskra náms- manna er jafnréttistæki sem á að veita öllum tækifæri til náms, óháð efnahag. Aukin niðurskurðarkrafa á LÍN mun á endanum eyðileggja þetta tæki og jafnframt verður æðri menntun ekki lengur réttur allra. Námslán takmörkuð Námslán Sigurður Kári Árnason fulltrúi Stúdentaráðs Hí í stjórn LÍN

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.