Fréttablaðið - 17.06.2010, Síða 21

Fréttablaðið - 17.06.2010, Síða 21
FIMMTUDAGUR 17. júní 2010 21 Á þessum degi var fæðingar Jóns Sigurðssonar forseta fyrst minnzt opinberlega 1907. Það ár kom til landsins Jón forseti, fegursta og stærsta fiskiskip, sem Íslendingar höfðu þá eignazt, en Thor Jensen og félagar hans í Alli- ance létu smíða skipið á Englandi og héldu því úti til þorskveiða og létu salta fiskinn um borð. Eftir það héldu íþróttasamtök upp á afmælisdag Jóns. Fyrsti þjóðhátíðardagurinn Fyrst var haldinn almennur þjóð- minningardagur á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 1911, og var Háskóli Íslands þá settur í fyrsta sinn. Veðrið var gott þennan dag, glatt sólskin og hægur blær af hafi. Hátíðin hófst að morgni á Sal Menntaskólans í Reykjavík. Rekt- or Menntaskólans, Steingrímur Thorsteinsson, skáldið, minntist þess, að Salur skólans var þing sal- ur alla alþingistíð Jóns Sigurðs- sonar, og var sungið kvæði eftir Steingrím. Kennarar og lærisvein- ar Menntaskólans færðu skólanum að gjöf málverk Þórarins B. Þor- lákssonar af Jóni, og hangir það enn á sínum stað á Sal. Iðnsýn- ing var opnuð í tilefni dagsins, og var þar sýndur heimilisiðnaður, smíðagripir og fleira. Setning Háskólans hófst á hádegi í Alþingishúsinu. Klem- ens Jónsson landritari og Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskól- ans, fluttu ræður, og var sungið Háskólaljóð Þorsteins Gíslasonar ritstjóra við lag Björns Kristjáns- sonar skósmiðs, alþingismanns, bankastjóra Landsbankans, söng- fræðings og síðar ráðherra; um hann segir í Alþingismannatali: „Hafði síðan sérstök eftirlaun ævilangt.“ Síðan fór fjölmenn skrúðganga frá þinghúsinu að leiði Jóns í Hólavallakirkjugarðinum við Suðurgötu, og var þar leikið lag Sveinbjörns Sveinbjörnsson- ar við lofsöng séra Matthíasar frá 1874, Ó guð vors lands. (Við full- veldistökuna 1918 var lagið leik- ið sem þjóðsöngur Íslendinga og æ síðan.) Skírnir, tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags, kom út tvíefldur á afmælisdaginn, helgaður ævi og starfi Jóns. Á fæðingarstað Jóns á Hrafnseyri við Arnarfjörð var sungið Minn- ingarljóð Hannesar Hafstein við lag Sigfúsar Einarssonar. Í sept- ember 1911 var afhjúpaður minn- isvarði Jóns forseta fyrir framan stjórnarráðið eftir Einar Jóns- son, og var varðinn síðan fluttur á Austurvöll 1931 og hefur staðið þar síðan. Frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944 hefur þessi dagur verið þjóðhátíðardag- ur Íslendinga. Kröfuharður andófsmaður Í formála að úrvali úr ræðum og ritgerðum Jóns forseta 1944 segir Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri: „Jón Sigurðsson var mestan hluta ævi sinnar kröfu- harður andófsmaður. Hann sagði eitt sinn sjálfur, að hann ætti bezt heima „á oppositionsbekknum“ … Hann var óbilandi „agitator“. Um það eru bréf hans bezt vitni. Og merkasta einkenni bréfa hans er einmitt áróðurinn og fortölurnar, hinar látlausu brýningar og nudd. Bréf hans virðast flest vera hrip- uð í flýti. Þau eru oftast nær form- laus, að jafnaði ekki skemmtileg út af fyrir sig. … Ritgerðir hans eru mjög merkilegar. Þær eru vandað- ar og fullar af fróðleik og af skar- pri skynsemi, skrifaðar af skyn- semi og fyrir skynsemi, en mjög sjaldan fyrir tilfinningarnar, og var það að vísu alveg í samræmi við alla stjórnmála- og lífsskoðun Jóns Sigurðssonar.“ Merkustu ritgerðir Jóns fjölluðu um verzlunarfrelsi og framfarir í menntamálum. Þær höfðu örvandi áhrif í dreifðu fásinni sveitanna. Upplag Nýrra félagsrita, sem Jón hélt úti 1841-73 og birti þar rit- gerðir sínar, var um 400 seld ein- tök. Félagsmönnum Bókmennta- félagsins, þar sem Jón var forseti Hafnardeildarinnar frá 1851 til dauðadags, fjölgaði úr tæpum 200 í tæp 800 í forsetatíð hans. Ritsmíðar Jóns voru einn lyk- illinn að lýðhylli hans. Rómaðir mannkostir hans lögðust auk ann- ars á sömu sveif. Lúðvík Kristjáns- son rithöfundur hefur kortlagt fyr- irgreiðslu Jóns í Kaupmannahöfn við mikinn fjölda fólks úr öllum sveitum landsins. Til eru sex þús- und sendibréf til Jóns frá 870 bréf- riturum. Mörg bréfanna eru frá bláókunnugu fólki, sem biður Jón að hjálpa sér við að kaupa plóg eða sjal eða brjóstnál eða eyrnalokka eða öngla eða koma úri í viðgerð eða ættingja á spítala og þannig áfram þindarlaust eins og Lúðvík Kristjánsson rekur í bók sinni Á slóðum Jóns Sigurðssonar (1961). Til þessara snúninga virðist Jón hafa varið ómældum tíma án þess að telja það eftir sér. Vilhjálmur Þ. Gíslason segir: „Hann var safnari og grúskari á þjóðlegan fróðleik. … Hefur það sennilega einmitt átt mikinn þátt í því, hversu vel hann var við alþýðuskap á ýmsa lund og átti ítök út um allar sveitir, þó að annars væri hann greinilegur fyr- irmaður.“ Jón og Ingibjörg kona hans bjuggu alla tíð við óviss kjör. „Ég er vanur fátækt,“ skrifar hann 1874. Séra Matthías Jochumsson, ritstjóri Þjóðólfs, lýkur frásögn sinni um andlát Jóns Sigurðssonar 1879 og útför hans og Ingibjarg- ar 1880 með þessum orðum: „Grát þú, fósturjörð, þinn mikla son, en vert þú vonglöð, þú ólst hann sjálf og áttir!“ Við útförina var sungin sorgarkantata eftir Ólöfu Finsen landshöfðingjafrú við texta séra Matthíasar. Þorvaldur Gylfason prófessor Í DAG Hann sagði eitt sinn sjálfur, að hann ætti bezt heima „á oppositionsbekkn- um“ … Hann var óbilandi „agitator“. Um það eru bréf hans bezt vitni. Og merkasta einkenni bréfa hans er einmitt áróðurinn og fortölurnar, hinar látlausu brýningar og nudd. Minning Jóns forseta AF NETINU Virðing þingsins Það er átakanlegt að heyra þingmenn spyrja sig aftur og aftur, afhverju fólk sé hætt að bera virðingu fyrir Alþingi og fjölmiðlamenn ræða við þingmenn um svörin og aftur og aftur er sama platan leikin og sama kunn- uglega stefið hljómar. Og virðingin þverr. Einhvernveginn finnst mér eins og stjórnmálamennirnir séu ekki rétta fólkið til að ræða við um hvernig megi endurreisa virðingu Alþingis. Með fullri virðingu þá bendir það bara hvert á annað og skammar ríkis- stjórnina eða stjórnarandstöðuna. Það er fátt nýtt í því. Það er líka klisja að tala um gjá milli þings og þjóðar, samt er það staðreynd. Fulltrúar okkar inni á þingi eru ekki að tala sig inn í hjarta þjóð- arinnar þessa dagana. Og sjaldnast. Náðst hefur samkomulag um þing- lok, þingmenn hlaupa út í sumarið, fram undan er lengra frí en aðrir eiga kost á, sem á annað borð hafa vinnu. http://www.smugan.is/fra-rit- stjorn/nr/3561 Þóra Kristín Ásgeirsdóttir Sérsaumað Ég ók í leigubíl framhjá bar djúpt inni í gömlu Austur-Berlín í gær og heyrði gríðarleg fagnaðarlæti. Þetta var um það leyti að Norður-Kóreumenn skor- uðu mark sitt gegn Brasilíu. Voru þetta Norður-Kóreumenn í Berlín að fagna? Einhverjir sem hafa gleymst, orðið eftir síðan áður en Múrinn féll? Annars er það leið til að vera frum- legur í alvörunni í þessari heimsmeist- arakeppni að halda með Norður- Kóreu. Vandinn er kannski sá helstur að ná sér í búning þeirra. Máski þyrfti maður að láta sérsauma hann? http://silfuregils.eyjan.is/ Egill Helgason Opið í dag 17. júní, á morgun föstudag og laugardag frá kl. 12:00 Geisladiskamarkaðurinn Hljómalindin býður upp á úrval nýrra og eldri titla á frábæru verði! Lifandi tónlist: Kl. 14:00 Snorri Helgason • Kl. 15:00 Moses Hightower Kl. 16:00 Kemur á óvart • Kl. 17:00 Pollapönk • Kl. 17:30 Lára Útimarkaður á Hljómalindarreit Í sumar verður útimarkaður með fjölbreyttu sniði í hjarta miðborgarinnar. Sölubásar og aðstaða stendur til boða í tjöldum og bjálkahúsum gegn vægu gjaldi á eina svæðinu í höfuðborginni með slíka aðstöðu. Áhugasamir sendi póst á jfm@midborgin.is eða sms í síma: 7 700 700. K R A F T A V E R K

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.