Fréttablaðið - 19.10.2010, Blaðsíða 29

Fréttablaðið - 19.10.2010, Blaðsíða 29
17 Leikhús ★★ Finnski hesturinn Þjóðleikhúsið Höfundur: Sirkku Peltola Leikstjóri: María Reyndal Helstu hlutverk: Harpa Arnardóttir, Kjartan Guðjónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þórunn Arna Kristjáns- dóttir, Lára Sveinsdóttir Það er oft verið að mala um það að Íslending- ar og Finnar séu svo líkir, þeir drekki eins, og tali eins og lemji hver annan eins og gráti alveg eins. Líklega eru nokkur orð þar sönn, en hinn undirliggjandi tregi, tangó og tíma- leysi skilur þjóðirnar svo sannarlega að. Þessi tregi sem getur verið ytra borð óttalegrar ólgu var því miður hvergi nálægur í uppsetn- ingu Þjóðleikhússins á Finnska hestinum eftir Sirkku Pentola sem frumsýnd var á föstudags- kvöldið. Leikritið hefur víðast hlotið frábæra dóma, enda hugljúfur texti um lífsbaráttu við aðstæð- ur sem stjórnað er af óskiljanlegum fjarlæg- um skriffinnum. Átökin við Evrópusambandið og allar þess reglur eru megininntak verks- ins. Fjölskylda sem lifir og húkir og hangir og þvælir saman undir einu þaki þó svo að hjónin séu skilin og ný kærasta komin í ból mannsins. Amman vomir yfir öllu og ungmennin, gelgju- legur ungur maður og táningsstelpukrakki, búa þar einnig. Hér eru upp taldar persón- ur verksins, að undanskilinni einni vinkonu stelpunnar sem kemur í heimsókn tvisvar sinnum. Þegar komið var inn í Ríkisleikhús Íslend- inga sat hljóðfæraleikari og lék á gítar molltóna sem leiddu mannskapinn inn í stemninguna sem aldrei varð. Mikið er sorglegt þegar gott leikrit er sett í bullustrokkameðferð. Þegar góður texti lendir í fásinnu, þegar vel unnin þýðing hverfur bak- við innihaldsleysi orðagjálfurs sem því miður heyrist ekki nema upp þrjá til fjóra bekki. Sirkku Petula skrifar gott leikrit og Sigurður Karlsson þýðir það vel. Innihaldið á svo sannar- lega erindi við okkur Íslendinga. Finnski hesturinn varð að kjötbollu í meðför- um Þjóðleikhússins, því miður. Einhvers staðar hefur leikstjórinn misskilið þá dauðans alvöru sem í verkinu fólst. En það er einmitt kjarninn í finnskum húmor, dauðans alvara í sprenghlægi- legri tilverunni. Auðvitað var margt fyndið og oft spaugilegir sprettir. Persónurnar óborganlegar og tilsvörin hlægileg en heildin náði aldrei saman og þrátt fyrir að hver leikari reyndi eins og hann gat að móta sinn eigin karakter varð heildaryfirbragðið aulafyndni með tilheyrandi klisjum í persónu- sköpuninni. Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer með hlutverk ömmunnar. Hún leikur hér nokkra áratugi upp fyrir sig í aldri og það er í stakasta lagi en stíllinn hefði mátt vera miklu hreinni, það var alveg óþarfi að vera að leika Gísla Hall- dórsson eða einhvern annan af þeirri leikara- kynslóð. Með því að skrumskæla röddina verð- ur hún dempuð og þar með nær hún ekki út í sal og brandararnir lenda bara á hausum fremstu bekkjanna. Þetta var því miður gegnumgang- andi í sýningunni, að orðin náðu ekki eyrum áhorfenda, og það var nú ekki nógu gott þar sem textinn skiptir miklu máli. Kjartan Guðjónsson, sem á ekki í nokkrum einustu vandræðum með að rúlla upp hvers kyns kynjakvistum, virtist hér ekki alveg vera búinn að átta sig á því hvers konar persóna þessi Lassi væri eiginlega. Harpa Arnardóttir, í hlutverki eiginkonunnar fráskildu sem angaði af svita- fýlu með brjóstin hangandi niður á maga, snar- aði fram persónu sem líkist um margt þeim sem við höfum séð hjá henni áður en var líka leitandi í sínum leikstíl. Þórunn Lárusdóttir leikur ástkonuna. Kemur eins og norskur skíðakennari úr kennslumynd- bandi frá sjöunda áratugnum. Passar hvergi inn, átti nú reyndar ekki að passa neitt sérlega inn. Leikmyndin er hrá og brothætt og þar með fynd- in. Að vísu svolítið barnatímaleg en það gerir ekkert til. Húsið brotnaði smám saman niður eins og sá lífsstíll sem þeim var boðaður frá Brussel. Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahönnuður málar hér ekki aðeins upp umgjörð heldur heila sögu. Unga fólkið á bænum er alger andstaða fullorðna fólksins. Kai, sem stelur jarðarfararpeningum ömmunnar til þess að borga mafíósum (sem hefðu átt að fá finnska hesta en hestarnir lentu í bílslysi og varð að skjóta þá og éta heima), er leikinn af Jóhannesi Hauki Jóhannessyni, sem fyllti mjög vel út í þetta lata ungmenni. Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikur ungu stelpuna sem gerir lítið annað en að segja fucking fuck, og er leikstíllinn uppskrúfaður, sama má segja um vinkonuna sem Lára Sveinsdóttir leikur. Búningar og lýsing þjónuðu verkinu vel. Öll ytri umgjörð var skemmtileg, það var bara leik- stjórnin sem klikkaði. Leikritið hefur líklega byrjað bakdyramegin í Þjóðleikhúsinu því að sýningu lokinni rann þar þjóðkunnur maður í hrossaskít. Elísabet Brekkan Niðurstaða: Gott leikrit í uppfærslu sem missir marks. Tregann vantaði ÞRIÐJUDAGUR 19. október 2010 Gospelgleði, styrktartónleikar fyrir handverkstæðið Ásgarð, verða haldnir í Lágafellsskóla á miðvikudag. Fram koma Anna Sigga, kirkjukór Lágafellssóknar, kirkjukór Fríkirkjunnar í Hafnar- firði og kirkjukór Fríkirkjunnar í Reykjavík. Anna Sigga og félag- ar úr kórunum syngja einsöng og hljómsveit leikur með. Ásgarður er verndaður vinnu- staður þar sem framleiðslan er löguð að getu hvers og eins sem þar vinnur og honum hjálpað við að ná valdi á hugmyndum og verkfærum. Haraldur Sverris- son, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, mætir á tónleikana og afhendir fulltrúa Ásgarðs peningana sem safnast. Tónleikarnir hefjast klukkan 20. Aðgangseyrir er 1.500 krónur og er aðeins tekið við reiðufé. Gospelgleði fyrir Ásgarð Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari leikur verk eftir Beth Anderson- Harold, J.S. Bach, Merrill Clark og Eugène Ysaÿe í Norræna hús- inu á miðvikudagskvöld. Tónleik- arnir eru liður í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni. Hlíf hefur haldið fjölda ein- leikstónleika og leikið með sin- fóníuhljómsveitum og kammer- sveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada. Í ágúst 2008 kom út tvöfaldur geisladiskur með öllum partítum og sónötum fyrir einleiksfiðlu eftir J.S. Bach í flutningi hennar. Tónleikarnir hefjast klukkan 20. Hlíf í Nor- ræna húsinu FRÁ HUGMYND TIL VERULEIKA SCOTT BELSKY HUGMYNDIR ERU EINSKIS NÝTAR EF ÞÚ GETUR EKKI FRAMKVÆMT ÞÆR Morgunverðarfundur í Salnum Kópavogi á föstudag kl. 8:30-10:00 MIÐASALA: Sögur útgáfa · www.sogurutgafa.is pöntun@sogurutgafa.is · Sími 557-3100 Aðgangseyrir kr. 15.000. Innifalið: Bókin Frá hugmynd til veruleika og morgunverður (kl. 8:00-8:30). Belsky gaf út metsölubókina MAKING IDEAS HAPPEN í vor og kemur hún nú út í íslenskri þýðingu.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.