Morgunn - 01.12.1967, Síða 10
88
MORGUNN
tilveru okkar og lífs. Og alltaf getur sú stund komið, og
hlýtur að koma, ef til vill fyrr en okkur varir, að allt þetta,
sem við höfum verið að stritast við að afla og meta til pen-
inga, verður af okkur tekið. Við neyðumst til að skilja það,
eftir, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það var nú ekki
varanlegri eign en það, eftir allt saman. Hins vegar hef ég
óbilandi trú á því, að það sé klaufaskap okkar sjálfra að
kenna, ef við þurfum að fara að öllu leyti slypp og snauð í
hina hinztu ferð. En það, sem við þá höfum meðferðis, er
ekki það, sem við höfum keypt á sölutorginu eða grætt í
kauphöllinni, heldur það eitt, sem ekki gengur kaupum og
sölum, aldrei hefur verið metið í krónum og aurum, heldur
eru gjafir, sem við höfum þegið eða gefið, og reynsla og
þroski okkar sjálfra.
Ég held, að okkur sé öllum hollt og nauðsynlegt að gera
okkur þetta alveg ljóst, og því fyrr, því betra. Ég er alveg
sannfærður um, að samlíf okkar og samskipti mundu taka
töluverðum stakkaskiptum til þess betra og fá á sig fegurri
og hlýrri blæ, ef við gerðum okkur fyllri grein fyrir því, hvað
gæfan er að litlu leyti kaup og sala, en að miklu leyti gjöf
og gleði þess að þiggja og þakka. Við þurfum að skynja bet-
ur og skilja mikilvægi þeirrar skyldu, að reyna jafnan að
gefa hvert öðru góðar gjafir úr góðum sjóði hjartans. Og
við þurfum einnig að hafa það jafnan i huga, að við erum
þiggjendur, og þurfum að hafa hina réttu afstöðu þiggjand-
ans til hverrar gjafar. Þetta tvennt er ófrávíkjanlegt skil-
yrði þroska og göfgunar, vaxtar og hamingju.
Símastaurar verða ekki grænir í sólskini. En hið lifandi
tré ber þá blöð og blóm vegna þess, að það lætur sér ekki
nægja það eitt að taka á móti hinni miklu gjöf ljóssins. Það
finnur einhvern veginn í sjálfu sér, að því aðeins getur sú
gjöf orðið fullkomin, að það svari henni sjálft með því að
vaxa og gróa.