Morgunn - 01.12.1967, Page 36
114
MORGUNN
alls sem er, og sem við megum treysta skilyrðislaust, sem er
sá leiðtogi og sú fyrirmynd, sem trúarhvöt heilbrigðs manns
þráir. Hinn deyjandi Kristur miðaldaguðfræðinnar, kross-
festur og píndur að vilja Guðs til þess að líða saklaus fyrir
seka, til þess að fullnægja réttlæti endurgjaldsins og frið-
þægja fyrir syndir og á þann veg sætta mennina við Guð og
forða þeim frá eilífri glötun — mynd hans getur að vísu
orkað sterkt á vissa þætti tilfinningalífsins, og gerir það
vafalaust. En það er hinn lifandi, starfandi Kristur, ímynd
hins algóða Guðs og fullkomna manns í senn, sem orðið get-
ur mönnunum hin eilífa fyrirmynd, sem trúarhvötinni hæfir
og verður sá aflvaki í sálinni, sem knýr manninn áfram á
hinni réttu braut þroska og göfgunar.
Þetta verður kirkjan að skilja og starfa í þeim anda. Ann-
ars missir hún áhrifavald sitt yfir hjörtum manna, og fleiri
og fleiri snúa við henni bakinu og leita trúarhvöt sinni full-
nægingar annars staðar.
Trúarhvötin er mönnunum gefin til þess að laða þá og
lýsa þeim fram til fyllri þroska og varanlegri hamingju.
Hana má aldrei hneppa í fjötra þröngsýninnar, né leiða
hana afvega til hagsmuna og aukinna valda hinna fáu. Hún
á enn sem fyrr að knýja menn fram í leitinni að ljósi og
sannleika. Og til þess að svo megi verða, þarf að beita þeim
aðferðum, sem áhrifamestar reynast, og þeim tækjum og
þeirri tækni, sem nútíminn hefur yfir að ráða til þess að
beina trúarhvötinni í þá átt, sem einstaklingum megi verða
til mestra heilla og hamingju.
Hin æðsta lífshugsjón, sem við þekkjum, er hinn lifandi,
starfandi Kristur, hann, sem enn sýnir okkur föðurinn him-
neska, hann, sem enn leiðir í ljós lífið og ódauðleikann. Fagn-
aðarerindi hans, einfalt og auðskilið, bjart eins og heiðríkjan,
hlýtt eins og sólskinið, það er enn kraftur Guðs til hjálpræðis
hverjum þeim, sem trúir. Á þetta mega úreltar erfikenning-
ar aldrei skyggja, né heldur má draga úr áhrifum þess með
því að boða það í þvi formi og klæða það þeim búningi, sem
löngu er orðinn máður og slitinn, og menn fella sig ekki