Morgunn - 01.12.1967, Síða 37
MORGUNN 115
við, vegna þess að hann tilheyrir þeim tíma og þeim hugs-
unarhætti, sem er liðinn og aldrei kemur aftur.
Við megum ekki gleyma því, að það er ekki aðeins bágt
að standa í stað. Það er hættulegt. Og sennilega hættulegra
nú en nokkru sinni fyrr. Lífið er ekki stöðnun, heldur eilíf
sköpun, framvinda og framsókn. Nátttröllin dagaði uppi og
urðu að steini vegna þess, að þau skildu ekki þessa fram-
vindu. Þau þoldu ekki ljóma nýs morguns, en stöðnuðu í
þeim tíma, sem var liðinn. Og þó var það hin sama, eilífa
sól, sem boðaði komu hins nýja dags, en hún klæddi hann
nýjum búningi og nýjum blóma, sem tröllin hræddust.
Trúarhvötin, máttug og sterk, varir og er samgróin eðli
mannsins. Og þeirri hvöt er ætlað að benda honum fram til
háleitra hugsjóna og markmiða, leiða hann lengra og hærra
til hamingju og þroska. Hún á að vera honum hin leiðandi
hönd, sem bendir honum jafnframt á, hvað sjálfur Guð
kærleikans, vizkunnar og máttarins, ætlar honum að verða.
Sú æðsta, heillandi hugsjón og sú hvetjandi fyrirmynd, er
raunverulega til og gefin okkur í Jesú Kristi. Áhrifamáttur
liennar á mannlega hugi og hjörtu býr ekki í stöðnuðum og
steinrunnum formum horfins tíma, heldur í ljóma þeirrar
eilifu sólar, sem nýjum degi gefur nýja dýrð, nýja, heillandi
fegurð, nýjan vöxt og gróanda.